Mynd: Bára Huld Beck

Siðanefnd skoðar ekki ummæli Björns Levís um að Ásmundur hafi dregið að sér fé

Fyrir tveimur árum komst siðanefnd og forsætisnefnd Alþingis að þeirri niðurstöðu að þingmaður Pírata hefði brotið siðareglur fyrir að nota orðalagið „rökstuddur grunur“. Annar þingmaður flokksins tilkynnti sjálfan sig til forsætisnefndar fyrir sama orðalag um sama mál. Hún vill ekki taka það fyrir.

For­sætis­nefnd Alþingis hefur kom­ist að þeirri nið­ur­stöðu að ekki sé til­efni til þess að taka til umfjöll­unar innan hennar eða hjá ráð­gef­andi siða­nefnd Alþingis hvort að Björn Leví Gunn­ars­son, þing­maður Pírata, hafi gerst brot­legur við siða­reglur Alþing­is. Björn Leví hafði sjálfur sent erindi til nefnd­ar­innar og óskað eftir áliti hennar á ummælum sem hann lét falla í  pistli í Morg­un­blað­inu. Þar sagði hann að „rök­studdur grun­ur“ væri um að „Ás­mundur Frið­riks­son hafi dregið að sér fé, almannafé og við erum ekki að sjá við­brögð þess efnis að það sé verið að setja á fót rann­sókn í þeim efn­um.“ 

Þór­hildur Sunna Ævars­dótt­ir, þing­kona Pírata, var talin hafa brotið gegn siða­reglum þing­manna, að mati for­sætis­nefndar og ráð­gef­andi siða­nefnd­ar, þegar hún not­aði sama orða­lag, að „rök­studdur grun­ur“ væri uppi um að Ásmundur hefði dregið að sér fé með end­ur­greiðslum úr rík­is­sjóði vegna akst­urs síns, í nið­ur­stöðu sem var birt árið 2019. 

Auglýsing

Í nið­ur­stöðu for­sætis­nefndar nú segir að í erindi Björns Levís felist „beiðni um að fjallað verði um sama álita­efni öðru sinni. Fellur slíkt utan til­gangs siða­reglna fyrir alþing­is­menn. Það er því nið­ur­staða for­sætis­nefndar að erindi þitt gefi ekki nægi­legt til­efni til athug­un­ar.“

Þór­hildur Sunna fyrst til að brjóta siða­reglur

Fyrir rúmum tveimur árum síð­an, nánar til­tekið 10. jan­úar 2019, óskaði Ásmundur Frið­riks­son, þing­maður Sjálf­stæð­is­flokks eftir því að tekið yrði til skoð­unar hvort þing­­­menn Pírata, Björn Leví Gunn­­­ar­s­­­son og Þór­hildur Sunna Ævar­s­dótt­ir, hefðu með ummælum sínum á opin­berum vett­vangi um end­­­ur­greiðslur þings­ins á akst­­­ur­s­­­kostn­aði Ásmundar brotið í bága við siða­regl­­ur Alþing­is.

Siða­nefnd komst að þeirri nið­ur­stöðu, í maí sama ár, að ummæli þing­­flokks­­for­­manns Pírata, Þór­hildar Sunnu Ævar­s­dótt­­ur, sem hún lét falla þann 25. febr­­úar 2018 í Silfr­inu hafi ekki verið í sam­ræmi við siða­­reglur fyrir alþing­is­­menn. Sama gilti um ummæli sem hún lét falla á í stöðu­upp­færslu á Face­book í kjöl­far­ið. Siða­nefndin taldi aft­ur á móti að Björn Leví Gunn­­ar­s­­son hafi ekki gerst brot­­leg­ur við regl­­urn­­ar. 

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir varð fyrsti þingmaður Íslands sem talin er hafa brotið gegn siðareglum alþingismanna.
Mynd: Bára Huld Beck

Ummælin sem um ræðir lét Þór­hildur Sunna falla í Silfr­inu á RÚV þann 25. febr­úar 2018 og hljóða þau svo:

„Við sjáum það að ráð­herrar þjóð­ar­innar eru aldrei látnir sæta afleið­ing­um, þing­menn þjóð­ar­innar eru aldrei látnir sæta afleið­ing­um. Nú er uppi rök­studdur grunur um það að Ásmundur Frið­riks­son hafi dregið að sér fé, almanna­fé, og við erum ekki að sjá við­brögð þess efnis að það sé verið að segja á fót rann­sókn á þessum efn­um.“

Auglýsing

Eins sagði hún á Face­book-­síðu sinni:

„Al­menn hegn­ing­ar­lög inni­halda heilan kafla um brot opin­berra starfs­manna í starfi, þessi lög ná eftir atvikum líka yfir þing­menn og ráð­herra, að ógleymdum lögum um ráð­herra­á­byrgð. Almenn­ingur í land­inu á það skilið að rík­is­sak­sókn­ari taki það föstum tökum þegar uppi er grunur um brot æðstu ráða­manna í starfi.

Tökum nokkur dæmi. Í 248. gr. almennra hegn­ing­ar­laga er fjár­svip refsi­vert.

248. gr. Ef maður kemur öðrum manni til að haf­ast eitt­hvað að eða láta eitt­hvað ógert með því á ólög­mætan hátt að vekja, styrkja eða hag­nýta sér ranga eða óljósa hug­mynd hans um ein­hver atvik, og hefur þannig fé af honum eða öðrum, þá varðar það fang­elsi allt að 6 árum. Sé brotið framið af opin­berum starfs­manni kemur það til refsi­aukn­ingar sbr. 138. gr. sömu [sic] laga.

Það er því full­kom­lega eðli­legt að skoða grun­sam­legt akst­urs­bók­hald Ásmundar Frið­riks­sonar í þessu ljósi, það er full­kom­lega eðli­legt í rétt­ar­ríki að hann sæti rann­sókn vegna þessa, rétt eins og annar sem upp­vís verður að vafa­samri fjár­söfnun úr vösum skatt­greið­enda. Það er í verka­hring sak­sókn­ara að rann­saka það. Almenn­ingur ber ekki sönn­un­ar­byrð­ina hér.“

Þór­hildur Sunna varð með þessu fyrsti þing­maður þjóð­ar­innar sem talin hefur verið hafa brotið gegn siða­reglum Alþingis frá því að þær voru sett­ar. 

Ásmundur end­ur­greiddi ofteknar greiðslur

Mikið var fjallað um akstur Ásmundar í byrjun árs 2018 en þann 9. febr­­úar sama ár var upp­­lýst um að hann væri sá þing­­­maður sem fékk 4,6 millj­­­ónir króna end­­­ur­greiddar vegna akst­­­­ur­s­­­­kostn­aðar árið 2017. Það þýddi að hann fékk um 385 þús­und krónur á mán­uði í end­­­­ur­greiðslu úr rík­­­­is­­­­sjóði vegna keyrslu sinn­­­ar. Alls keyrði Ásmundur 47.644 kíló­­­metra árið 2017 og fékk end­­­ur­greitt frá rík­­­inu vegna kostn­aðar fyrir þann akst­­­ur. Frá því að Ásmundur sett­ist á þing árið 2013, og út síð­asta ár, hefur sam­an­lagður akst­urs­kostn­aður hans verið 31,4 millj­ónir króna. 

Í lok nóv­­em­ber 2018 end­­ur­greiddi Ásmundur skrif­­­stofu Alþingis 178 þús­und krónur vegna ferða sem honum hafði verið end­­­ur­greiddar á árinu 2017. Þetta gerði hann vegna þess að honum hafi orðið það ljóst „að það gæti orkað tví­­­­­mælis að blanda saman ferðum mínum um kjör­­­dæmið og ferðum á sama tíma með töku­­­fólki ÍNN.“

Þór­hildur Sunna sætti sig illa við nið­ur­stöð­una. Í stöðu­upp­færslu á Face­book síðu sinni í kjöl­far þess að nið­ur­staða siða­nefndar var birt sagði hún að fengi nið­ur­staðan að standa væri skila­boðin til okkar allra þau að það sé verra að benda á vanda­málin en að vera sá sem skapar þau. „Ég er alger­lega búin að fá nóg af slíkri með­virkn­i.“

For­sætis­nefnd Alþingis féllst á nið­ur­stöð­una rúmum mán­uði síð­ar.

Björn Leví gerir það sama og Þór­hildur Sunna

Þann 3. apríl skrif­aði Björn Leví pistil sem birt­ist í Morg­un­blað­inu. Í honum sagði hann meðal ann­ars að það væri „rök­studdur grunur um að Ásmundur Frið­riks­son hafi dregið að sér fé, almannafé og við erum ekki að sjá við­brögð þess efnis að það sé verið að setja á fót rann­sókn í þeim efn­um.“ 

Í pistl­inum setti Björn Leví því fram sömu ásak­anir og Þór­hildur Sunna gerði í við­tal­inu í Silfr­inu í febr­úar 2018 og not­aði sama hug­tak, að „rök­studdur grun­ur“ væri um að Ásmundur hefði dregið að sér fé. 

Björn Leví sendi sjálfur erindi til for­sætis­nefndar 18. apríl og bað um álit nefnd­ar­innar á því hvort að ummælin væru á skjön við siða­regl­ur. Þá óskaði hann eftir því að þeim yrði vísað til ráð­gef­andi siða­nefnd­ar, líkt og gert var þegar Ásmundur óskaði eftir áliti á ummælum Þór­hildar Sunnu.

Auglýsing

Í lið­inni viku komst for­sætis­nefnd að nið­ur­stöðu og hún var loks birt í gær, 12. maí. Undir nið­ur­stöð­una skrifar Stein­grímur J. Sig­fús­son, for­seti Alþing­is. Nið­ur­staðan varð sú að skil­yrði brysti til þess að nefndin tæki erindið til athug­unar á grund­velli siða­reglna fyrir alþing­is­menn.

Beiðni um end­ur­tekna umfjöllun

Í rök­stuðn­ingi for­sætis­nefndar segir að siða­reglur alþing­is­manna hafi meðal ann­ars þann til­ganf að efla ábyrgð­ar­skyldu þing­manna og traust og til­trú almenn­ings á Alþingi. Þeim sé ætla að „standa vörð um þessi sið­ferði­legu verð­mæti og hvetja þing­menn til góðra verka. Á þessum grund­velli er í siða­reglur settar fram meg­in­reglur um hátt­erni og hátt­ern­is­skyldu alþing­is­manna.“

Nefndin metur það svo að í erindi Björns Leví felist skírskotun og sam­an­burður við nið­ur­stöðu hennar í máli Þór­hildar Sunnu. „Þó svo að gerður sé sá grein­ar­munur að styðja ummælin við opin­ber gögn er í raun verið að óska eftir umfjöllun um sama álita­efni og var til umfjöll­unar í máli Þór­hildar Sunn­u[...]Í erindi þínu felst á hinn bóg­inn beiðni um að fjallað verði um sama álita­efni öðru sinni. Fellur slíkt utan til­gangs siða­reglna fyrir alþing­is­menn. Það er því nið­ur­staða for­sætis­nefndar að erindi þitt gefi ekki nægi­legt til­efni til athug­un­ar.“

Mið­flokks­menn líka brot­legir

Síðan að nið­ur­staða var birt í máli Þór­hildar Sunnu hefur ráð­gef­andi siða­nefnd Alþingis einu sinni til við­bótar kom­ist að þeirri nið­ur­stöðu að þing­menn hafi brotið siða­reglur þegar Berg­þór Óla­son og Gunnar Bragi Sveins­son, þing­menn Mið­flokks­ins, voru taldir hafa gert það. Í því til­felli voru til umfjöll­unar ummæli sem þeir létu falla á barnum Klaustri þann 20. nóv­em­ber 2018. 

Siðanefnd Alþingis tók ummæli fjögurra þingmanna Miðflokksins til athugunar og komst að því að tveir þeirra hefðu brotið gegn siðareglum.
Mynd: Samsett

Aðrir þing­­menn sem tóku þátt í sam­tal­inu, Sig­­mund­ur Davíð Gunn­laugs­­son og Anna Kol­brún Árna­dótt­ir, þing­menn Mið­flokks­ins, og Karl Gauti Hjalta­­son og Ólaf­ur Ísleifs­­son, sem voru í Flokki fólks­ins þegar sam­talið átti sér stað en gengu síðar til liðs við Mið­flokk­inn, brutu ekki gegn siða­regl­um að mati nefnd­ar­inn­ar.

Siða­nefndin fór yfir ummæli Berg­þórs um Ingu Sæland, for­mann Flokks fólks­ins, Írisi Róberts­dótt­ur, bæj­ar­stjóra í Vest­manna­eyj­um, Albertínu Frið­björgu Elí­as­dótt­ur, þing­mann Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, og Lilja Alfreðs­dótt­ur, mennta­mála­ráð­herra. 

Siða­nefnd komst að þeirri nið­ur­stöðu að ummæli Berg­þórs væru „öll af sömu rót­inni sprott­in“. Þau væru ósæmi­leg og í þeim fólst van­virð­ing er laut að kyn­ferði þeirra kvenna sem um var rætt. Einnig væru þau til þess fallin að kasta rýrð á Alþingi og skaða ímynd þess.

Nefndin fór einnig yfir ummæli Gunn­ars Braga um Albertínu og Lilju auk Ragn­heiðar Run­ólfs­dótt­ur, fyrr­ver­andi sund­kon­u. Kom­ist va að sömu nið­ur­stöðu og í máli Berg­þórs, að í ummæl­unum fælist van­virð­ing í garð umræddra kvenna og þau væru til þess fallin að skaða ímynd Alþing­is.

Hægt er að lesa ummælin hér.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar