Síðustu dagar heilsugæslustöðvarinnar í Jackson, Mississippi, sem veitt hefur þungunarrofsþjónustu, hafa verið tilfinningaþrungnir eftir að Hæstiréttur Bandaríkjanna felldi rétt til þungunarrofs úr gildi.
Síðastliðinn föstudag felldi Hæstiréttur Bandaríkjanna úr gildi niðurstöðu í dómsmáli frá 1973, Roe gegn Wade, sem tryggði rétt landsmanna til þungunarrofs. Við ógildinguna hófst samstundis innleiðing laga í þrettán ríkjum Bandaríkjanna sem banna þungunarrof. Mississippi er eitt þeirra.
Á laugardagsmorgun, innan við sólarhring eftir að stjórnarskrárvarinn réttur kvenna til þungunarrofs var felldur úr gildi, kom ung kona að Jackson-heilsugæslunni í Mississippi, einu heilsugæslunni í ríkinu sem veitir þungunarrofsþjónustu. Unga konan var álút og reyndi að láta lítið fyrir sér fara. Með henni í för var eldri kona og ungur maður, steinrunninn á svip, með byssu í slíðri á mjöðminni. Unga konan virtist skelfingu lostin.
Blaðamaður New York Times fylgdist með atburðarrásinni fyrir framan „bleika húsið“, eins og Jackson-heilsugæslan, sem þjónustar aðeins konur, er jafnan kölluð.
Á bílastæðinu fyrir utan heilsugæsluna mátti annars vegar finna andstæðinga þungunarrofs og hins vegar sjálfboðaliða sem höfðu það hlutverk að koma konum sem leituðu til heilsugæslunnar inn á heilu og höldnu og án afskipta. Hávær rokktónlist var til að mynda spiluð í þeirri von að hrekja burt mótmælendur.
Prestur, Doug Lane að nafni, nálgaðist eldri konuna og hvatti hana til að sannfæra ungu konuna að hætta við þungunarrofið. „Ég vildi að hún eignaðist barnið,“ sagði konan, skjálfandi röddu.
Ljóst er að allt þetta – prédikunin, óttaslegnir skjólstæðingar, rokktónlistin og blóðug mótmælaskilti – verða brátt á bak og burt. Bann við þungunarrofi mun taka gildi í ríkinu innan nokkurra daga. En þangað til mun heilsugæslan í bleika húsinu sinna eins mörgum konum og mögulegt er, þar til hún verður skylduð til að skella í lás.
Þungamiðjan í þungunarrofsumræðunni
Með meirihlutaáliti Hæstaréttar Bandaríkjanna sem samþykkt var fyrir helgi færðist réttur til þungunarrofs í hendur einstakra ríkja. Mississippi er eitt þrettán ríkja þar sem bannið tekur þegar gildi, með milligöngu ríkissaksóknara. Bannið hefur þegar tekið gildi í níu ríkjum.
Mississippi hefur verið áberandi í umræðunni um þungunarrof í Bandaríkjunum. Svokölluð Mississippi- löggjöf, sem bannar þungunarrof eftir fimmtán vikna meðgöngu nema að brýn læknisfræðileg þörf sé á, var í hugum andstæðinga þungunarrofs „stóra málið“ sem átti að draga tennurnar úr Roe gegn Wade.
Með úrskurði hæstaréttar fyrir helgi sem snýr að Mississippi-löggjöfinni, Dobbs gegn Jackson Women‘s Health Organization, var stjórnarskrárvarinn réttur kvenna til þungunarrofs afnuminn og dómi í máli Roe gegn Wade frá 1973 hnekkt.
Ríkissaksóknari í Mississippi hefur ekki enn staðfest úrskurð hæstaréttar
Í Mississippi er einnig í gildi sérstök löggjöf frá 2007 sem kveður á um bann við þungunarrofi um leið og Roe gegn Wade fellur úr gildi. Það hefur nú raungerst og kemur það í hlut Lynn Flitch ríkissaksóknara að staðfesta niðurstöðu hæstaréttar.
Hún hefur enn ekki gert svo en mun eflaust láta verða af því á næstu dögum. Bann við þungunarrofi mun taka gildi tíu dögum eftir undirritunina. Fitch er repúblikani og tók hún ákvörðun hæstaréttar á föstudag fagnandi og sagði hana „sigur, ekki einungis fyrir konur og börn heldur einnig dómstólinn sjálfan“.
Today marks a new era in American history. Roe v. Wade is finally behind us. This decision is a victory, not only for women and children, but for the Court itself. Now, our work to empower women truly begins. #empowerwomenpromotelife pic.twitter.com/3B3CiIMmTD
— Lynn Fitch (@LynnFitchAG) June 24, 2022
Jackson-heilsugæslan þjónustar aðeins konur og er eina heilbrigðisstofnunin í Mississippi sem býður upp á þungunarrofsþjónustu. „Þungunarrof er okkar fag og það er það sem við ætlum að gera, að tryggja konum aðgengi,“ segir Diane Derzis, eigandi heilsugæslustöðvarinnar. Sjálf gekkst Derzis undir þungunarrof árið 1973, sama ár og dómur féll í Roe gegn Wade. Ári seinna hóf hún störf á heilsugæslu fyrir konur. Í dag er hún 68 ár og hefur sinnt draumastarfinu í öll þessi ár, að eigin sögn, með því að reka stofnanir sem bjóða upp á þungurnarrof fyrir konur sem á því þurfa að halda.
„Við erum ekki að fara,“ segir Derzis.
Það reynist rétt. Að minnsta kosti þar til ríkissaksóknarinn skrifar undir. En Derzis hefur hugsað lengra og skipuleggur nú opnun heilsugæslustöðvarinnar í Nýju-Mexíkó, um 1.800 kílómetrum frá Jackson, þar sem löggjöfin er hliðholl þungunarrofi.
Mun halda áfram að sinna konum frá Mississippi
„Staðreyndin er kannski sú að við verðum ekki hér að eilífu en það þýðir ekki að við munum hætta að þjóna konum frá Mississippi, eða hverjum þeim sem þarfnast okkar,“ segir Derzis.
Mississippi er meðal fátækustu ríkja Bandaríkjanna þar sem 19,6 prósent íbúa lifa undir fátæktarmörkum. Vinna Derzis og sjálfboðaliða á hennar vegum snýr því einnig að tryggja aðgengi þessa hóps að þungunarrofsþjónustu.
Á meðan starfsemin heldur áfram á Jacksonöheilsugæslunni má gera ráð fyrir mótmælendum fyrir utan bleika húsið, sem séra Lane segir „særandi“. Það mun ekki stöðva Derzis og sjálfboðaliða á hennar vegum í að tryggja að konur sem óska eftir þungunarrofsþjónustu fái slíka, svo lengi sem lögin í Mississippi heimila það.