Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur að undanförnu sýnt mikla og eindregna samstöðu með kröfum verkalýðshreyfingarinnar um að hækka laun þeirra lægst launuðu umtalsvert. Kröfur hafa komið fram, meðal annars hjá Starfsgreinasambandinu, um að lægstu laun hækki úr 214 þúsund í 300 þúsund, og að hinir lægst launuðu fái „myndarlega“ krónutöluhækkun á launum. Eins og greint hefur verið frá í fréttaskýringum Kjarnans um þessi mál að undanförnu, þá horfir forysta verkalýðshreyfingarinnar til þess að laun verði hækkuð um 20 til 30 prósent, og eru samningar íslenska ríkisins við lækna, þar sem laun voru hækkuð um meira en 20 prósent, oft nefnd sem viðmiðun. Á föstudaginn verða 45 kjarasamningar launafólks lausir.
Sigmundur Davíð hefur opinberlega sagt að ekki eigi að horfi til samningsins við lækna, þegar komi að kjarasamningum almennt á vinnumarkaði. Þar þurfi að horfa meira á sértæk atriði, því samningurinn við lækna, og raunar kennarastéttir einnig, snúist ekki eingöngu um launin heldur líka vinnufyrirkomulag. En þrátt fyrir það þá sé vel hægt að hækka laun þeirra sem lægstu launin hafa myndarlega.
Lægstu laun hækki!
Í erindi sem hann hélt á fundi Félags Viðskipta- og hagfræðinga í gær, sagði hann benti á kaupmáttaraukningin síðastliðna tólf mánuði, upp á 5,5 prósent, ætti meðal annars rót í samningi sem aðilar vinnumarkaðarins hefðu gert á síðasta ári. „Þetta er gríðarlegur árangur. Launahækkun um 6,3% nýtist næstum að öllu leyti í kaupmátt þegar verðbólgan er undir einu prósenti. Stóran þátt í þessum árangri eiga stöðugleikasamningar sem aðilar vinnumarkaðarins gerðu á síðasta ári. Þetta hefur leitt til þess að kaupmáttur launa hefur aldrei verið hærri en nú,“ sagði Sigmundur Davíð. Hann nefndi einnig að dyr ríkisstjórnarinnar stæðu opnar til skrafs og ráðagerða fyrir aðila vinnumarkaðarins. „Ég vil því nota tækifærið og hvetja aðila vinnumarkaðarins til að taka þátt í virku samtali við ríkisstjórnina þar sem færi gefst til að skiptast á skoðunum, leggja línur og veita upplýsingar. Við þurfum sameiginlega að viðhalda stöðugleikanum því hann er vísasti vegurinn til að auka kaupmátt,“ sagði Sigmundur Davíð.
Áhyggjur af of miklum hækkunum
Óhætt er að segja að Samtök atvinnulífsins horfi ekki sömu augum á landslagið á vinnumarkaði og forysta verkalýðshreyfingarinnar, og hefur raunar sagt að lítið svigrúm sé til launahækkana. Að hámarki sé hægt að hækka laun um 3,5 til 5 prósent. Ef þetta gerist ekki þá muni óðaverðbólga leika vinnumarkaðinn grátt, bæði þá sem hafa lág laun og þá sem hafa há laun. Hafa Samtök atvinnulífsins meðal annars unnið sviðsmyndagreiningu sem sýnir hvað muni gerast ef samið verður um ákveðna launahækkun. Fari svo að laun verði hækkuð um meira en 20 prósent, telja samtökin að verðbólga muni aukast mikið
Verkalýðshreyfingin, sem að vissu leyti hefur nú fengið forsætisráðherrann í fylkingu sína, segir þessa sýn SA ekki ganga upp. Horfi þurfi á málið út frá öðrum forsendum. Í ákveðnum greinum sé svigrúm til hækkana fyrir hendi, meðal annars í gjaldeyrisskapandi greinu, eins og segir orðrétt í kröfugerð Starfsgreinasambandsins, sem hefur tólf þúsund félagsmenn innan sinna vébanda. Þess vegna þurfi að líta til þess að nýta svigrúmið, sem er fyrir hendi, á þeim stöðum þar sem það er sannarlega að finna.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, er í snúinni stöðu vegna þess hve erfið staða er nú á vinnumarkaði.
Hvar stendur Sjálfstæðisflokkurinn?
Kjarasamningar eru yfirleitt mikið sprengjusvæði, en aðstæðurnar nú eru óvenjulega eldfimar, ef marka má sýn viðmælenda Kjarnans í þessum efnum. Samtök atvinnulífsins telja sig vera að boða „hina ábyrgu afstöðu“, það er að leggja til lausnir sem miðast við það hverju efnahagsþróun hagkerfisins getur staðið undir til lengri tíma. Verkalýðshreyfingin telur sig einnig vera að gera þetta, en að horfa þurfi sértækar á stöðu mála. Hvernig kökunni er skipt, hvað fólkið í gólfinu er að fá af því sem til aflögu er.
Innan Sjálfstæðisflokksins eru skiptar skoðanir um þessi mál, samkvæmt heimildum Kjarnans, þó margir taki undir með Samtökum atvinnulífsins um nauðsyn þess að semja ekki um launhækkanir sem síðan reynist ekki innistæða fyrir. Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra og formaður flokksins, þarf því enn einu sinni að feta sig áfram eftir pólitískum stíg þar sem ólíkar raddir flokksmanna heyrast í kringum hann. Framsóknarflokkurinn er mun frekar samstilltur á bandi verkalýðshreyfingarinnar, og telur skynsamlegt að nýta þann árangur sem hefur náðst að undanförnu til þess að byggja undir hag hinn lægst launuðu. Þeirra tími sé kominn.
Þjóðarsátt - í hverju felst hún?
Margir ræða um nauðsyn þess að ná nýrri þjóðarsátt, þar sem hin pólitísku vopn eru lögð niður og lausn fundin á snúinni stöðu. Ef hún verður hinn gullni meðalvegur ólíkra sjónarmiða, sem uppi eru nú, þá gæti hún falist í því að laun hinna lægst launuðu verði hækkuðu mest, en að einhver sveigjanleiki verði í samningunum sem miði að því að bregðast við í tíma, ef það fara að sjást merki um að verðbólgudraugurinnn sé laus. Stjórnvöld þurfa vafalítið að eiga aðkomu að slíku, með bæði verkalýðshreyfingunni og atvinnurekendum. Allir þurfa væntanlega að gefa eitthvað eftir af sínum ítrustu kröfu, en þegar svo mikið ber í milli þá er erfitt að segja til um hvernig málunum verður að endingu lent.