Síldarvinnslan hf. hagnaðist um 5,3 milljarða króna á síðasta ári. Tekjur hennar 2020 voru 24,9 milljarðar króna og eigið fé samstæðunnar í árslok var 49,1 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall Síldarvinnslunnar, sem er á leið á markað, var 68 prósent um síðustu áramót.
Þetta kemur fram í upplýsingum úr ársreikningi Síldarvinnslunnar sem birtar voru fyrr í þessum mánuði. Ársreikningnum sjálfum hefur þó ekki verið skilað inn til ársreikningaskráar.
Verðmætasta bókfærða eign félagsins eru veiðiheimildir, aðallega í uppsjávartegundum, sem voru sagðar 228,3 milljónir dala í lok árs 2019. Á gengi dagsins í dag gera það um 30 milljarðar króna. Raunverulegt virði þeirra heimilda er mun meira, líklega nær 80 milljörðum króna. Sá loðnukvóti hefur var úthlutað í ár mun bæta afkomu Síldarvinnslunnar á yfirstandandi ári.
Samherji og Kjálkanes langstærstu eigendurnir
Stærsti einstaki eigandi samstæðunnar er Samherji með 44,64 prósent eignarhlut. Næst stærsti eigandinn er svo Kjálkanes með 34,23 prósent hlut, en á helstu eigendur þess félags eru Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Samherja, og fólk sem tengist honum fjölskylduböndum. Þá á eignarhaldsfélagið Snæfugl 5,3 prósent hlut, en Samherji á 15 prósent hlut í því og Björgólfur á fimm prósent. Þessi blokk á því samanlagt yfir 84 prósent hlut í Síldarvinnslunni.
Fyrir utan hana er stærsti eigandinn er Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað sem á tæplega ellefu prósent hlut. Það var stofnað árið 1932 og starfar sem eignarhaldsfélag auk þess sem það rekur verslanir og umboðsstarfsemi. Það hefur meðal annars nýtt arðinn af eign sinni í Síldarvinnslunni til þess að styrkja menningar- og félagsmál í heimabyggð.
Hluturinn í Sjóvá færður út
Síldarvinnslan hefur ekki einungis verið að veiða og vinna afla á undanförnum árum. Hún átti líka SVN eignafélag ehf., fjárfestingafélag sem á 14,55 prósent hlut í tryggingafélaginu Sjóvá. SVN er stærsti eigandi Sjóvár og Björgólfur Jóhannsson er stjórnarformaður félagsins í krati þess eignarhlutar.
Fyrir dyrum er skráning Síldarvinnslunnar á hlutabréfamarkað. Almennt hlutafjárútboð í félaginu mun fara fram daganna 10. til 12. maí næstkomandi og þar stendur til að selja 26 til 29 prósent hlut í félaginu, samkvæmt því sem fram kemur í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti, í dag.
Stjórn Síldarvinnslunnar, þar sem Þorsteinn Már Baldvinsson fer með formennsku, ákváðu að færa SVN eignafélag til hluthafa áður en af skráningu yrði. Sá tilflutningur hefur þegar farið fram. Virði eignarhlutarins í Sjóvá er, miðað við núverandi gengi félagsins, er um 6,4 milljarðar króna. SVN eignafélag er því sem næst skuldlaust miðað við síðasta birta ársreikning.
Þeir sem selja geta fengið nálægt 29 milljarða
Þrátt fyrir þessa útgreiðslu verður útboðsgengi Síldarvinnslunnar miðað við að heildarvirði Síldarvinnslunnar sé á bilinu 93,5 til 99 milljarðar króna, samkvæmt upplýsingum sem Kjarninn hefur fengið hjá aðilum sem hafa séð kynningar á útboðinu.
Kjarninn greindi frá því í fréttaskýringu í febrúar að búast mætti við því að markaðsvirði Síldarvinnslunnar yrði í kringum 100 milljarða króna.
Þetta verður ekki í fyrsta sinn sem Síldarvinnslan er skráð á markaði. Hún var skráð í Kauphöll um áratugaskeið frá 1994 til 2004. En félagið er töluvert öðruvísi, og mun stærra, nú en það var þá.
Ef útboðsgengið mun á endanum verða í efri mörkum, og miða við að heildarvirði Síldarvinnslunnar sé 99 milljarðar króna, eru þeir hluthafar sem selja hluti að fara að fá 28,7 milljarða króna í sinn hlut fyrir það hlutafé sem þeir selja.
Búist er við að Samherji og Kjálkanes muni selja mest af því sem selt verður, jafnvel allt. Lífeyrissjóðir eru taldir líklegastir til að kaupa stærstan hluta þess sem selt verður.
Félag Samherja selur vörur Síldarvinnslunnar
Kjarninn greindi frá því í fréttaskýringu í byrjun apríl að Samkeppniseftirlitið sé þeirrar skoðunar að veruleg tengsl séu milli stærstu hluthafa í Síldarvinnslunni, Samherja og Kjálkanes.
Þrír af fimm stjórnarmönnum samstæðunnar eru skipaðir af þessum tveimur félögum eða eru tengdir eigendum þeirra. Að mati Samkeppniseftirlitsins eru því vísbendingar um yfirráð Samherja yfir Síldarvinnslunni.
Verðmætasta bókfærða eign félagsins voru veiðiheimildir, aðallega í uppsjávartegundum, sem voru sagðar 228,3 milljónir dala í lok árs 2019. Á gengi dagsins í dag gera það um 30 milljarðar króna. Raunverulegt virði þeirra heimilda er mun meira, líklega nær 80 milljörðum króna. Sá loðnukvóti sem nú hefur verið úthlutað mun bæta afkomu Síldarvinnslunnar á yfirstandandi ári.
Auk framangreinds hafi umræddir aðilar, í sumum tilvikum ásamt öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum, átt með sér samstarf við nýsmíði skipa erlendis, frystingu sjávarafla og löndun makrílafla sem veiddur var utan fiskveiðilögsögu Íslands og Ice-Fresh Seafood ehf., dótturfélag Samherja, hefur haft milligöngu í sölumálum fyrir Síldarvinnsluna.