Á dögunum var tilkynnt um kaup Síldarvinnslunnar á útgerðarfyrirtækinu Gullbergi ehf. á Seyðisfirði. Jafnframt keypti Síldarvinnslan, sem er með höfuðstöðvar og rætur í Neskaupsstað, húsnæði og búnað fiskvinnslunnar Brimbergs sem var í eigu sömu aðila. Með þessum kaupum er Síldavinnslan búin að festa sig í sessi sem risi í íslenskum sjávarútvegi. Adolf Guðmundsson, formaður Landssambands íslenskra útgerðarmanna (LÍÚ) hefur verið framkvæmdastjóri Gullbergs árum saman og meðal eigenda fyrirtækisins.
Fram kemur í tilkynningu Síldarvinnslunnar að áfram verði gert út frá Seyðisfirði og lögð áhersla á að tryggja áframhaldandi framleiðslustörf tengd sjávarútvegi á Seyðisfirði. Fyrir rekur Síldarvinnslan fiskimjölsverksmiðju á staðnum.
Hinir stóru stækka
Með kaupunum heldur samþjöppunin áfram í íslenskum sjávarútvegi. Hinir stóru verða stærri og öflugri. Það eru ekki síst stóru samsettu sjávarútvegsfyrirtækin sem eiga kvóta í uppsjávar- og botnfisktegundum sem hafa stækkað á meðan litlum og meðalstórum útgerðum hefur fækkað.
Aflaheimildir hafa safnast saman á nokkrum stöðum þar sem öflugustu fyrirtækin eru (dæmi nefnd í svig). Nú eru stærstu útgerðarstaðirnar Vestmannaeyjar (Ísfélag Vestmannaeyja og Vinnslustöðin), Neskaupstaður (Síldarvinnslan) , Akureyri (Samherji), Sauðárkrókur (FISK Seafood), Hornafjörður (Skinney-Þinganes), Grindavík (Þorbjörn og Vísir) og Reykjavík (Brim og HB Grandi). Starfsemi fyrirtækja á þessum stöðum teygir sig hins vegar víða um landið.
Góð afkoma
Afkoma Síldarvinnslunnar hefur verið góð undanfarin ár, svo ekki sé meira sagt. Þar vega þungt hagstæðar aðstæður í uppsjávarveiðum og vinnslu. Það er ekki síst tilkoma makríls í lögsögunni sem hefur haft verulega jákvæð áhrif á afkomu fyrirtækisins. Hagnaður fyrirtækisins í fyrra nam 5,6 milljörðum króna og sjö milljörðum króna árið 2012. Heildarstarfsmannafjöldi fyrirtækisins var þá 230 manns en þeim hefur nú fjölgað með útvíkkun á starfseminni, meðal annars með kaupum á Gullbergi.
Síldarvinnslan hefur einnig styrkt sig í bolfiski með kaupum á kvóta á síðustu árum. Þar ber hæst kaup á Bergi-Huginn í Vestmannaeyjum, sem enn er reyndar deilt um fyrir dómstólum. Þá keypti Síldarvinnslan hluta af kvóta Stálskips í Hafnarfirði. Auk þess er félag í eigu Síldarvinnslunnar, SVN eignafélag ehf. stór hluthafi í tryggingarfélaginu Sjóvá og hefur sú fjárfesting skilað góðri ávöxtun nú þegar.
Með kaupunum á Gullbergi er Síldarvinnslan orðin risi í íslenskum sjávarútvegi með umtalsverðan kvóta í flestum helstu fiskitegundum við Ísland. Helstu eigendur Síldarvinnslunnar eru Samherji (45% hlutur), Gjögur (34%) og SÚN í Neskaupstað (11%). Þess má geta að stór hluthafi í Gjögur er Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group og formaður stjórnar Samtaka atvinnulífsins.
Stækkar stöðugt
Samherji og Gjögur hafa einnig bætt við sig aflaheimildum á síðustu árum, t.a.m. með kaupunum á Stálskip í upphafi ársins. Samanlögð kvótaeign þessara þriggja félaga sem tengjast Síldarvinnslunni, þ.e. Samherja, Síldarvinnslunnar og Gjögurs, er orðin meiri en kvótaeign stærsta útgerðarfyrirtækis landsins, HB Granda. Fiskistofa gerði samþjöppun aflaheimilda að umtalsefni nýlega í samantekt.
Í tilkynningu Síldarvinnslunnar kemur ekki fram hvert kaupverðið var á Gullbergi. Samkvæmt Fiskistofu átti Gullberg tæp 2.900 þorskígildi í upphafi fiskveiðiársins. Samkvæmt heimildum Kjarnans er algengt verð á þorskígildistonni í einstökum viðskiptum nú um 2.200-2.400 kr/kg. Virði kvótans gæti því hafa verið um 6,6 milljarðar. Það gefur vísbendingu um hversu umfangsmikil þessi viðskipti voru.