Það fór hreint ekki lítið fyrir framboðsmálum Sjálfstæðisflokksins á höfuðborgarsvæðinu um síðustu helgi. Þau tvö sem sækjast eftir efsta sæti í prófkjöri flokksins í Reykjavík birtust í burðarviðtölum helgarblaðanna tveggja, sem segja má að hafi markað upphaf prófkjörsbaráttunnar í borginni.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra var til viðtals í Fréttablaðinu og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í Morgunblaðinu. „Ég vil vinna,“ sagði Áslaug Arna Mogganum á meðan Guðlaugur Þór sagði Fréttablaðinu meðal annars hvernig það að vera ættleiddur í frumbernsku hefði mótað hann sem manneskju.
„Hef ekki áður fengið jafn jákvæð og hlý viðbrögð við viðtali sem ég hef farið í. Fyrstu skilaboðin komu rúmlega 6 í morgun,“ sagði utanríkisráðherrann í kostaðri færslu sem hann dreifði á Facebook.
Allir sitjandi þingmenn gefa kost á sér að nýju
Síðast þegar Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík hélt sameiginlegt prófkjör var árið 2016. Ólöf heitin Nordal var þá efst í vali flokksmanna, Guðlaugur Þór í öðru sæti og Áslaug Arna í því fjórða, í sínu fyrsta prófkjöri. Brynjar Níelsson var á milli þeirra í þriðja sætinu og Sigríður Á. Andersen í því fimmta. Þingflokksformaðurinn Birgir Ármannsson tók svo sjötta sætið.
Enginn tími gafst til að halda prófkjör að nýju fyrir kosningarnar 2017, sem báru brátt að eftir að ríkisstjórn flokksins með Viðreisn og Bjartri framtíð féll skyndilega. Þá var stillt upp á lista, Guðlaugur Þór og Áslaug Arna stóðu í stafni í Reykjavík norður og Sigríður og Brynjar í Reykjavík suður. Auk þessara fjögurra náði Birgir inn á þing fyrir flokkinn í Reykjavík norður.
Framboðsfrestur fyrir prófkjörið rennur út í dag og hafa allir þessir sitjandi þingmenn flokksins boðað að þeir gefi kost á sér að nýju. Sigríður og Brynjar sækjast eftir öðru sæti í prófkjörinu og Birgir gefur kost á sér í 2.-3. sæti.
Sigríður stærir sig af skipun Landsréttar
Sigríður fer yfir framlag sitt til stjórnmálanna í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Þar segist hún meðal annars hafa „haldið uppi málefnalegri gagnrýni frá hægri á ýmis mál ríkisstjórnarinnar“ og „liðkað fyrir samstarfi þeirra ólíku flokka sem ríkisstjórnina mynda.“
Einnig stærir hún sig af því að hafa skipað dómara við Landsrétt: „Ég skipaði 15 dómara við nýjan dómstól í ríkri samvinnu við Alþingi og að undangenginni staðfestingu Alþingis. Hvorki fyrr né síðar hefur jafnmikilvæg stofnun verið skipuð konum og körlum til jafns frá upphafi.“
Eins og Kjarninn sagði frá í febrúar er beinn kostnaður íslenska ríkisins vegna þess að Sigríður sinnti ekki rannsóknarreglu stjórnsýslulaga þegar hún lagði fyrir Alþingi lista yfir dómara sem ætti að skipa við Landsrétt orðinn að minnsta kosti tæp 141 milljón.
Af steintröllum
„Hugmyndir mínar og grundvallarafstaða til þess hvernig þjóðfélagið á að þróast fara mjög vel saman við stefnu Sjálfstæðisflokksins,“ sagði Brynjar í sinni framboðstilkynningu í síðustu viku.
Ekki er víst að allir meðframbjóðendur Brynjars séu á því að hugmyndir hans um þróun þjóðfélagsins séu þær sem eigi að marka leiðina fyrir Sjálfstæðisflokkinn til framtíðar, sér í lagi Friðjón Friðjónsson almannatengill, sem gefur kost á sér í fjórða sætið í prófkjörinu.
Hann ritaði grein í Morgunblaðið í upphafi árs þar sem hann sagði flokkinn hafa á sér yfirbragð þess sem vilji ekki að íslenskt samfélag breytist. Skipti flokkurinn ekki um kúrs myndi hann „daga uppi og verða að steini“. Þóttu greinaskrifin og svargrein Brynjars við þeim varpa skýru ljósi á djúpstæðan hugmyndafræðilegan mismunandi afla í flokknum, en Friðjón er náinn forystu flokksins, situr í miðstjórn og var m.a. pólitískur aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar.
„Hefði ekki komið mér á óvart að þessi grein hefði verið skrifuð í þingflokksherbergi Viðreisnar. Friðjón notar alla sömu frasana sem þaðan koma án þess að segja nokkuð um hverju eigi að breyta og hvernig eða af hverju. En eitt er víst, að skrif hans endurspegla djúpstæða óánægju með forystu Sjálfstæðisflokksins,“ sagði Brynjar í svargrein í Mogganum sem bar fyrirsögnina „Steintröllin“.
Fréttablaðið sagði frá framboði Friðjóns í morgun, en hann segist vera að bjóða sig fram ekki síst til þess að vinna að bættu rekstrarumhverfi lítilla fyrirtækja, en sjálfur rekur hann ráðgjafarfyrirtækið KOM.
Fleiri koma kölluð
Dilja Mist Einarsdóttir, lögmaður og aðstoðarmaður utanríkisráðherra, boðaði framboð sitt á fyrsta degi mánaðarins og sækist eftir þriðja sæti í prófkjörinu, sem myndi þýða 2. sætið í öðru hvoru kjördæmanna í Reykjavík, ef það félli í hennar skaut.
Nokkuð hefur borið á framboði hennar, en það var auglýst á heilli opnu í bæði Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. „Sjálfstæðisflokkurinn hefur látið hrekja sig í vörn í mörgum grundvallarmálum. Því þarf að linna og talsmenn flokksins þurfa að vera reiðubúnir að taka þennan slag,“ segir Diljá Mist meðal annars um erindi sitt á framboðsvef sínum.
Hildur Sverrisdóttir varaþingmaður og aðstoðarmaður Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur ráðherra býður sig einnig fram í 3.-4. sæti í prófkjörinu, rétt eins og Kjartan Magnússon fyrrverandi borgarfulltrúi flokksins til hartnær tveggja áratuga.
Kjartan sóttist eftir því að leiða lista flokksins í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2018 en laut í lægra haldi fyrir Eyþóri Arnalds, sem vann yfirburðasigur í því kjöri. Honum var síðan ekki boðið sæti á lista af uppstillingarnefnd flokksins í borginni.
Dómaraframboð í Kraganum
Sjálfstæðismenn í Suðvesturkjördæmi hafa einnig boðað að framboð verði haldið hjá þeim í júnímánuði og hafa nokkur þegar tilkynnt um framboð í þessu kjördæmi formannsins Bjarna Benediktssonar.
Framboð héraðsdómarans Arnars Þór Jónssonar hefur vakið athygli enda alls ekki á hverjum degi sem dómarar boða að þeir ætli að stökkva yfir í framboð fyrir stjórnmálaflokka. Sjálfur hefur Arnar Þór sagt við fjölmiðla á að hann sjái fyrir sér að fara einfaldlega í leyfi frá dómstörfum á meðan prófkjörsbaráttunni stendur og snúa aftur til dómstarfa ef niðurstaðan í Suðvesturkjördæmi, Kraganum, verður honum ekki í hag.
Arnar Þór sagði sig nýverið úr Dómarafélaginu vegna óánægju með siðareglur þess, þar sem meðal annars er mælt gegn þátttöku dómara í stjórnmálastarfi, en Arnar Þór hefur skrifað fjölda blaðagreina á undanförnum árum og m.a. gagnrýnt hvernig staðið er að hagsmunagæslu Íslands gagnvart Evrópusambandinu.
Sumir þóttust vissir um að dómarinn ætlaði sér í framboð þegar Arnar Þór var sem ákafastur í greinaskrifum um þriðja orkupakka Evrópusambandsins fyrr á kjörtímabilinu. „Orð hans um valdagíruga menn, jafnvel í teinóttum jakkafötum, alríki og einræðisríki fá mann til að gruna að þar fari maður á leið í beina stjórnmálaþátttöku en ekki maður sem vill, á grunni sérfræðiþekkingar sinnar og stöðu sem héraðsdómari, láta taka mark á sér,“ skrifaði Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingar um Arnar Þór sumarið 2019.
Í aðsendri grein á Vísi í gær sagði héraðsdómarinn að hann gefi kost á sér í þeim tilgangi að hjálpa til ef fólk óski þess að fá sjónarmið sín inn á Alþingi. „Þetta snýr ekki að öðru. Allir eiga að hafa slíkan rétt, hvort sem þeir eru dómarar, saksóknarar, smiðir, píparar eða verslunarmenn. Svo er bara kosið. Út á það gengur lýðræðið,“ segir Arnar Þór.
Áhugaverð barátta framundan
Síðast þegar Sjálfstæðisflokkurinn hélt prófkjör í Kraganum, árið 2016, röðuðust fjórir karlar í fjögur efstu sætin. Bryndís Haraldsdóttir, sem hafnaði í fimmta sæti í prófkjörinu var færð upp í annað sæti á listanum til þess að laga þessa kynjaskekkju.
Hún gefur aftur kost á sér í 2. sætið og það gera karlarnir sem voru færðir niður listann árið 2016 líka. Þingmennirnir Jón Gunnarsson og Óli Björn Kárason vilja annað sætið á listanum. Vilhjálmur Bjarnason, sem náði fjórða sæti í prófkjörinu 2016 en var færður niður í það fimmta, ætlar sér einnig að reyna við þingsæti að nýju.
Fleiri hafa boðað framboð. Kristín Thoroddsen bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og Karen Elísabet Halldórsdóttir bæjarfulltrúi í Kópavogi hafa gefa báðar kost á sér í þriðja sæti á lista flokksins og Bergur Þorri Benjamínsson formaður Sjálfsbjargar gefur kost á sér í fjórða sæti.
Stefnt er að því að prófkjörið í Suðvesturkjördæmi fari fram um miðjan júní, þegar flokksmenn í Reykjavík verða búnir að velja sér sína fulltrúa.