Sjávarútvegsfyrirtæki eru áberandi á meðal þeirra lögaðila sem styrktu stjórnarflokkanna, Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokk, með hámarksframlögum í fyrra. Alls styrktu ellefu sjávarútvegsfyrirtæki Framsóknarflokkinn með hámarksframlagi á árinu 2014 og átta Sjálfstæðisflokkinn. Tvö fyrirtæki úr þeim geira styrkja Samfylkinguna en ekkert hina flokkanna sem eiga fulltrúa á Alþingi.
Þetta er meðal þess sem lesa má úr útdráttum úr ársreikningum stjórnmálaflokka sem birtir voru á vef Ríkisendurskoðunar í dag.
Hagnaður hjá Framsókn
Framsóknarflokkurinn skilaði hagnaði upp á 7,3 milljónir króna í fyrra eftir að hafa tapað 19,1 milljón króna árið 2013. Á tekjuhliðinni munaði mestu um að flokkurinn fékk 81,3 milljón króna í ríkisframlög í fyrra en 55 milljónir króna. Ástæða þessa að svona mikil aukning varð á ríkisframlögum er sú að flokkurinn var með mun fleiri þingmenn eftir þingkosningarnar 2013 en fyrir þær. Í þeim vann Framsóknarflokkurinn stórsigur og fékk 24,4 prósent atkvæða.
Rekstrarkostnaður flokksins dróst einnig umtalsvert saman á milli ára og var 27 milljónum krónum lægri árið 2014 en 2013. Ástæður þessa er aukin rekstrarkostnaður sem fylgir kosningabaráttu á kosningaári. Alls voru rekstrargjöld í fyrra 108 milljónir króna. Framsóknarflokkurinn á eignir sem metnar eru á 198 milljónir króna en skuldar 257 milljónir króna.
Ríkisstjórnarflokkarnir fá langhæstu framlögin frá fyrirtækjum. Sjávarútvegsfyrirtæki eru áberandi á meðal styrktaraðila þeirra beggja.
Í útdrætti Rikisendurskoðunar má finna yfirlit yfir þá lögaðila sem lögðu Framsóknarflokknum til fé á árinu 2014. Slík framlög mega að hámarki vera 400 þúsund krónur. Sjávarútvegsfyrirtæki eru áberandi á listanum yfir þá lögaðila sem lögðu Framsókn til hámarksframlag. Þeir sem slíkt gerðu voru Brim, BÚR, Bláa Lónið, Gjögur hf., HB Grandi hf., Hraðfrystihúsið Gunnvör, Hvalur hf., Icelandic Water Holdings, Ísfélag Vestmannaeyja, Kaupfélag Skagfirðinga, Mannvit hf., N1, Samskip, Skinney- Þinganes hf., Skipti hf. (áður móðurfélag Símans), Sólstjarna ehf., Ursus ehf., Vinnslustöðin, Vísir og Þorbjörn.
Af 20 fyrirtækjum sem greiddu Framsóknarflokknum 400 þúsund krónur í fyrra voru því ellefu sjávarútvegsfyrirtæki. Alls fékk flokkurinn 18 milljónir króna frá lögaðilum á árinu 2014. Auk þess greiddu einstaklingar 10,5 milljónir króna í framlög og félagsgjöld og flokkurinn hafði 14,4 milljónir króna í aðrar rekstrartekjur.
Tap hjá Sjálfstæðisflokknum
Sjálfstæðisflokkurinn skilaði tapi upp á 36,7 milljónir króna í fyrra. Það er töluvert minna tap en var hjá flokknum kosningaárið 2013, þegar hann tapaði 127 milljónum króna. Tekjurnar voru tíu milljónum krónum hærri í fyrra en árið áður en mikill samdráttur var í rekstrarútgjöldum milli ára.
Sjálfstæðisflokkurinn á eignir sem metnar eru á 766,5 milljónir króna en skuldar um 409 milljónir króna.
Þeir sem greiddu 400 þúsund krónur til Sjálfstæðisflokksins í fyrra voru Brim, Byggingafélag Gylfa og Gunnars, Eykt ehf., GAM Management, Gjögur, HB Grandi, Hópbílaleigan ehf., Hraðfrystihúsið Gunnvör, Hvalur hf., Icelandair Group, Juris, Klapparás ehf., KPMG, Leigugarðar ehf., Lýsi hf., Mannvit, MP banki, N1, Reginn, Samherji, Síminn, Skeljungur, Straumur fjárfestingabanki, Tryggingamiðstöðin, Tæknivörur, Urriðaholt ehf., Vesturgarður ehf., Vísir og Þorbjörn.
Af 29 lögaðilum sem greiddu hámarksfjárhæð í framlag til Sjálfstæðisflokksins eru átta sjávarútvegsfyrirtæki. Auk þess greiddu fjölmörg sjávarútvegsfyrirtæki lægri upphæð til flokksins. Samtals fékk Sjálfstæðisflokkurinn 28,9 milljónir króna frá lögaðilum í fyrra. Hann hafði auk þess 78,8 milljónir króna í tekjur af öðrum toga (aðallega leigutekjur, auglýsingar og seld þjónusta) og fékk 39,3 milljónir króna í greidd félagsgjöld eða í formi framlaga undir 200 þúsund krónum frá einstaklingum.
Mikill samdráttur í ríkisframlögum til Samfylkingar
Samfylkingin skilaði hagnaði upp á 2,6 milljónir króna í fyrra eftir 55 milljón króna tap árið 2013. Þar skipti reyndar mestu máli að matsvirði fasteignar í eigu Samfylkingarinnar var hækkað um 10,2 milljónir króna. Ríkisframlög flokksins drógust saman um 53 milljónir króna eftir kosningarnar 2013, þar sem flokkurinn beið afhroð. Framlög einstaklinga jukust hins vegar umtalsvert í fyrra, úr 16,2 milljónum króna í 27,4 milljónir króna. Eignir Samfylkingarinnar voru metnar á 166 milljónir króna um síðustu áramót en skuldir hennar voru 121,4 milljónir króna.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Samtals fékk Samfylkingin 8,4 milljónir króna í framlög frá lögaðilum á árinu 2014. Þar af greiddu eftirfarandi fyrirtæki hámarksframlag upp á 400 þúsund krónur: Bergur Huginn, Bláa lónið, HB Grandi, Icelandair Group, Mannvit, Miðeind, N1, Skipti (fyrrum móðurfélag Símans), Straumur fjárfestingabanki, Reyktal þjónusta, GAM Management og Hofgarðar. Í hópnum eru tvö sjávarútvegsfyrirtæki. Engin önnur sjávarútvegsfyrirtæki lögðu fé til Samfylkingarinnar í fyrra.
Alls námu framlög einstaklinga og félagsgjöld 27,4 milljónum króna. Þær Björk Vilhelmsdóttir og Marta Sigurðardóttir gáfu mest, sitthvorar 400 þúsund krónurnar. Samfylkingin hafði auk þess 12,4 milljónir króna í aðrar tekjur. Um helmingur þeirra voru leigutekjur.
Eignarsala hjá Vinstri grænum
Rekstur Vinstri grænna var jákvæður um 18,4 milljónir króna í fyrra eftir 42,7 milljóna króna rekstrartap árið 2013. Tekjur flokksins drógust saman um 34 milljónir króna á síðasta ári í kjölfar þess að þingflokkur hans minnkaði eftir þingkosningar, en rekstrarkostnaður lækkaði um 75 milljónir króna. Sú lækkun skilaði jákvæðri rekstrarniðurstöðu. Vinstri grænum tókst einnig að vinna vel á skuldum sínum á síðasta ári. Þær lækkuðu úr 82 milljónum króna í 16,2 milljónir króna. Þetta var gert með því að losa um eignir. Nú á flokurinn 11,2 milljónir króna en átti eignir metnar á 53,2 milljónir króna í lok árs 2013.
Samtals námu framlög frá lögaðilum 1.335 þúsund krónum. Þrír aðilar, Icelandair, Mannvit og N1 gáfu hámarksfjárhæð, 400 þúsund krónur. Ekkert sjávarútvegsfyrirtæki styrkti flokkinn. Þá greiddu einstaklingar samtals 10,7 milljónir króna í framlög og félagsgjöld.
Björt Framtíð skilaði 10 milljóna króna rekstrarhagnaði eftir að hafa tapað 11 milljónum króna árið 2013. Tekjur flokksins jukust um 24 milljónir króna á milli ára, aðallega vegna aukins ríkisframlags í kjölfar síðustu kosninga, þegar flokkurinn fékk sex þingmenn kjörna. Alls námu framlög lögaðila til Bjartrar framtíðar 777.534 krónur í fyrra. Hæstu framlögin voru upp á 150 þúsund krónur. Flokkurinn fékk auk þess 1,9 milljónir króna í félagsgjöld. Ekkert sjávarútvegsfyrirtæki styrkti flokkinn.
Píratar fengu 300 þúsund krónur í styrk frá lögaðilum í fyrra.
Spútnikflokkur Pírata, sem nýtur langmest fylgis allra stjórnmálaflokka um þessar mundir samkvæmt skoðanakönnunum, hagnaðist um tíu milljónir króna í fyrra. Árið áður hafði hann hagnast um 3,9 milljónir króna. Flokkurinn fékk samtals 300 þúsund krónur í framlög frá lögaðilum. Þar af komu 200 þúsund krónur frá Forvörnum og eftirliti. Einstaklingar gáfu flokknum tæpa eina milljón króna.