Í september í fyrra kynnti danska ríkisstjórnin umfangsmikla áætlun um margháttaðar umbætur í mennta- og atvinnumálum. Áætlunin nefndist Danmark kan mere. Jafnframt var greint frá því að á þessu ári (2022) myndi stjórnin leggja fram áætlun um grundvallarbreytingar í orkumálum. Sú áætlun var kynnt um miðjan apríl á þessu ári undir heitinu Danmark kan mere II.
24. júní síðastliðinn sendi danski orkumálaráðherrann Dan Jørgensen frá sér fréttatilkynningu þar sem greint var frá því að meirihluti þingmanna hefði undirritað samkomulag um áðurnefnda áætlun.
Í tilkynningu ráðherrans segir að „með þessu samkomulagi verði til stórt umhverfisvænt (grønt) orkuver fyrir alla Evrópu þegar við sköpum möguleika á fimmföldun raforkuframleiðslu frá vindmyllum á sjó árið 2030 frá því sem nú er. Þetta skipti miklu fyrir andrúmsloftið og mun gera Danmörku óháða rússneskri orku og jafnframt mikilvægt að meirihluti þingmanna standi saman og sýni að Danmörk getur betur“.
Meiri vindur, meiri sól, minna gas
Með ofangreindum orðum lýstu þingmenn samkomulaginu sem undirritað var í júní. Samkvæmt því skal allt gas í dönskum gasleiðslum (eins og það er orðað) vera umhverfisvænt árið 2030 og árið 2035 skal ekkert íbúðarhúsnæði í Danmörku nota gas til upphitunar. Raforkuframleiðsla með vindmyllum á sjó (havmøller) á að geta séð 15 milljónum heimila fyrir umhverfisvænni raforku árið 2030.
Samkvæmt tölum dönsku hagstofunnar eru heimili í landinu um það bil 2.8 milljónir þannig að miðað við áætlanir gætu Danir selt umtalsvert magn raforku úr landi. Mörg önnur atriði eru tilgreind í samkomulaginu, þar á meðal fjármögnunarleiðir. Samtök fjarvarmafyrirtækja, Dansk Fjernvarme, sem eru samtals 400, sögðust í fréttatilkynningu fagna samkomulagi þingmannanna. En lýstu jafnframt yfir áhyggjum vegna þess að ekkert væri minnst á aðgerðir til aðstoðar húseigendum sem vilja skipta út gashitunarkynditækjum og fá græna fjarhitun.
Best geymdar á hafinu
Þótt flestum þyki vindmyllur góðar til síns brúks finnst mörgum þær ekki vera beinlínis neitt fyrir augað og þar að auki þykir hvinurinn frá spöðunum, sem sífellt verða stærri, hvimleiður. Rannsóknir hafa sýnt að sífelldur niður frá myllum í næsta nágrenni mannabústaða geti verið skaðlegur heilsunni. Þess vegna kæra fæstir, eða engir sig um að hafa myllurnar í næsta nágrenni og þar stendur hnífurinn í kúnni. Landrými í Danmörku er takmarkað og ekki um auðugan garð að gresja þegar finna skal land fyrir myllur. Þess vegna horfa Danir í síauknum mæli til sjávar þegar reisa skal nýjar myllur.
Fyrstu dönsku hafmyllurnar 1991
Árið 1991 voru reistar 11 vindmyllur úti fyrir Vindeby á Lálandi. Myllurnar gátu framleitt 5 megavött. Margir höfðu efasemdir og töldu að hafmyllur ættu ekki framtíðina fyrir sér. Vindeby myllurnar eru ekki lengur á sínum stað en á þeim rúmu þremur áratugum sem liðnir eru frá því þær fóru að snúast hafa verið reistar fleiri en 600 hafmyllur sem framleiða samtals 2.300 megavött, 2,3 gígavött. Þótt það sé mikil aukning frá upphaflegu myllunum hjá Vindeby eru það smámunir miðað við þau 12.9 gígavött sem áætlunin Danmark kan mere II miðast við. Til þess að ná því markmiði þarf að reisa milli 500 og 1000 nýjar risavindmyllur á næstu átta árum. Þær eiga allar að vera hafmyllur, flestar úti fyrir vesturströnd Jótlands. Í svokölluðum hafmyllugörðum, eins og Danir komast að orði.
Skrifræðisljón á eða í veginum
Stundum er um það deilt hvort tala skuli um ljón á veginum, eða í veginum, þegar hindranir eða óvæntir erfiðleikar tefja framkvæmdir eða ákvarðanir. Hvort sem ljónin eru í eða á veginum í áætlun danskra þingmanna um hafmyllurnar eru þau til staðar, að mati margra sérfræðinga. Þeir telja útilokað að markmiði um framleiðslu 12.9 gígavatta verði náð árið 2030.
Fyrsta skref eftir að ákvörðun hefur verið tekin um að ráðast í verkið og svæðið fyrir myllurnar ákveðið er rannsókn á svæðinu og skipulag þar.
Því næst útboð þar sem fyrirtæki bjóða í framkvæmdina. Þegar því er lokið þarf fyrirtækið sem varð hlutskarpast í útboðinu að gera frekari rannsóknir á viðkomandi svæði. Svo tekur við umhverfismat (VVM rannsókn). Þar á eftir þarf að sækja um og fá tilskilin leyfi stjórnvalda. Sömuleiðis þarf að ná samningum um að tengja vindmyllurnar dreifikerfi, það krefst leyfa og samþykkta. Þá er loks hægt að hefjast handa, smíða myllurnar, flytja þær á staðinn, koma þeim fyrir á undirstöðunum og leggja kapla til lands. Allt þetta þarf til, ef áætlunin Danmark kan mere II á að standast og straumurinn að berast um dreifingarkerfið eftir átta ár. Sérfræðingar í orkumálum hafa bent á að reynslan sýni að það taki allt að níu árum að koma vindmyllusvæði, í gagnið. Skrifræðið sé helsti þröskuldurinn, það taki einfaldlega allt of langan tíma. Kristian Jensen (fyrrverandi ráðherra) talsmaður Green Power Denmark (samtök orkufyrirtækja) segir að eins og málum sé nú háttað gangi hlutirnir alltof hægt fyrir sig í „kerfinu“.
Ráðherra er bjartsýnn
Dan Jørgensen orkumálaráðherra kvaðst í viðtali við danska sjónvarpið, DR, sammála því að bretta þurfi upp ermar ef markmið Danmark kan mere II eigi að nást. Hann segist þó bjartsýnn og ef allir leggist á eitt náist þetta háleita markmið.