Samtök atvinnulífsins gagnrýndu í umsögn sinni um fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár að ekkert tillit væri tekið til vanda ÍL-sjóðs í því. Sá vandi hangi „yfir rekstri ríkissjóðs og mun að óbreyttu skella fyrr eða síðar af fullum þunga með hundruð milljarða skuld á skattgreiðendur.“ Lauslega áætla samtökin að skuldir samkvæmt skuldareglu laga um opinber fjármál væru 38,6 prósent af landsframleiðslu ef tekið væri tillit til stöðu ÍL-sjóðs, en ekki 33,4 prósent líkt og hún er sögð vera.
Sú áætlun byggir á því að tap ÍL-sjóðs var 16 milljarðar króna á fyrstu sex mánuðum þessa árs og eigið fé sjóðsins var neikvætt um 213 milljarða króna um mitt þetta ár.
Í fjárlagafrumvarpinu segir að þróun efnahags ÍL-sjóðs sé stór óvissuþáttur í langtíma þróun skulda ríkissjóðs. „Efnahagur sjóðsins er bæði umfangsmikill og næmur fyrir breytingum á markaðsaðstæðum. Verðtryggingarjöfnuður sjóðsins er neikvæður svo verðbólga dregur niður afkomu sjóðsins og veikir efnahag hans. Uppsafnað yfir langt tímabil getur afkoma sjóðsins því haft verulega neikvæð áhrif á skuldastöðu ríkissjóðs þegar fram í sækir [...] Skuldir ÍL-sjóðs eru í formi afborgunarbréfa og hefur uppreiknað nafnvirði skulda sem ábyrgðin tekur til lækkað samhliða hóflegri verðbólgu síðustu ára. Há verðbólga undanfarna mánuði hefur hins vegar hækkað höfuðstól skulda á milli tímabila þrátt fyrir afborganir en ábyrgðir vegna skulda ÍL-sjóðs eru langstærsti hluti veittra ábyrgða, eða 87 prósent.“
Skuldareglan tekin úr sambandi í faraldrinum
Umsögn Samtaka atvinnulífsins var skilað inn áður en Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, greindi frá því að hann vildi semja við kröfuhafa ÍL-sjóðs um að þeir samþykki að gefa eftir hluta eigna sinna. Lífeyrissjóðir eiga um 75-80 prósent allra skuldabréfa sem útgefin eru af ÍL-sjóði og þeir þurfa því að taka mesta höggið, eigi tillaga Bjarna að ganga upp. Takist ekki að semja ætlar Bjarni að leggja fram frumvarp fyrir árslok sem felur í sér að ÍL-sjóði verði slitið á næsta ári, skuldir hans látnar gjaldfalla og með því myndi einföld ríkisábyrgð virkjast.
Það náðist árið 2019 en þegar kórónuveirufaraldurinn skall á var einfaldlega ákveðið að taka þessa reglu tímabundið úr sambandi, eða út árið 2025. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að skuldahlutfallið lækki á næsta ári – úr 33,4 í 33 prósent – án tillits til þeirra skuldbindinga sem ríkissjóður þarf að axla vegna ÍL-sjóðs.
Sú lækkun hvílir þó alfarið á sölu á eftirstandandi hlut ríkisins í Íslandsbanka, sem hefur ekki verið ákveðin. Verði ekki af þeirri sölu mun skuldahlutfallið hækka.
200 milljarða tímasprengja
ÍL-sjóður varð til á grundvelli laga sem samþykkt voru árið 2019, og skiptu Íbúðalánasjóði upp í tvennt. Hluti hans, sá sem snýr að fjármögnun á félagslegri uppbyggingu á húsnæði, færðist í nýja stofnun, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Skuldir og eignir vegna íbúðalána á almennum markaði, sem rekja má að mestu til skuldabréfaútgáfu á árinu 2004, voru sett í ÍL-sjóð. Skuldabréfin, sem eru með gjalddaga til 2044, eru ekki uppgreiðanleg en lánin sem sjóðurinn veitti eru það hins vegar.
Vandi ÍL-sjóðs er tilkominn vegna þess að íbúðalán bankans hafa verið greidd upp á miklum hraða, og eru nú einungis um 20 prósent af eignum sjóðsins, á meðan að enn þarf að þjónusta skuldabréfin. Áætlað er að tap vegna þessa fyrirkomulags verði að óbreyttu 200 milljarðar króna.
Viðbrögð þeirra sem gæta, eða gætt hafa, hagsmuna lífeyrissjóða landsins við þeirri hótun fjármála- og efnahagsráðherra að lög verði sett sem muni rýra eignir sjóðanna um meira en 100 milljarða króna, samþykki þeir ekki að gefa eftir sambærilega upphæð í frjálsum samningum um slit ÍL-sjóðs, hafa verið hörð.
Vill að Bjarni dragi „þessa fáránlegu hótun til baka“
Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar Gildis, sagði í Morgunblaðinu á laugardag að þarna væri ríkissjóður að fara í vasa almennings. „Þetta er tilraun til þess að ganga í sparnað almennings, sparnað sem sem liggur í lífeyrissjóðum og verðbréfasjóðum sem eru í eigu landsmanna.“
Hrafn Magnússon, sem var framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða í 36 ár þar til hann lét af störfum 2011, sagði í færslu á Facebook í gær að um „afar ósvífna aðgerð“ væri að ræða sem gæti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir sjóðsfélaga lífeyrissjóðanna. „Þessi skuld Íbúðalánasjóðs gufar ekki upp. Hana þarf að greiða hvort sem mönnum líka betur eða verr. Ráðherrann þarf að átta sig á því að það kemur ekki til greina hægt sé að nota ævisparnað fólks með þessum hætti. Nú er nóg komið. Lífeyrissjóðirnir geta ekki gefið þumlung eftir og því á ráðherrann að draga þessa fáránlegu hótun til baka.“
Lífeyrissjóðirnir hafa í áratugi keypt verðtryggð skuldabréf af íslenska ríkinu. Eftir hrun fjármálamarkaðarins haustið...
Posted by Hrafn Magnússon on Monday, October 24, 2022
Már Wolfgang Mixa, lektor í fjármálum við HÍ og stjórnarmaður í Almenna lífeyrissjóðunum, sagði í Kastljósi í gær að það að slíta ÍL-sjóði jafngildi greiðslufalli ríkissjóðs.
Mikill titringur hefur orðið á mörkuðum eftir að hótun ráðherra um lagasetningu var sett fram. Ávöxtunarkrafa á ríkisskuldabréf hefur hækkað samhliða því að hún hækkaði gríðarlega á skuldabréfaflokkanna sem ÍL-sjóður er ábyrgur fyrir. Kauphöllin setti auk skuldabréf ÍL-sjóðs á athugunarlista sem vísar til aðstæðna sem leiða af sér umtalsverða óvissu varðandi útgefandann eða verðmyndun fjármálagerninganna.
Ráðherra hafnar gagnrýni
Bjarni Benediktsson hefur mótmælt þessari gagnrýni. Hann kallaði orð Davíðs Rúdólfssonar, um að verið væri að seilast í vasa almennings, „ótrúlega afbökun á stöðu málsins“ í færslu á Facebook á laugardag. Öllu væri snúið á hvolf með því að segja það aðför að sparnaði. „Krafan um að ríkissjóður gangi í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuldum ÍL-sjóðs byggir ekki á lögum, og er í reynd krafa fyrir hönd afmarkaðs hóps á hendur öllum almenningi um að ábyrgð ríkisins verði útvíkkuð og þessu risastóra máli sópað undir teppið. Það væri engum til góðs.“
Í morgun gagnrýndi Bjarni svo harðlega orð Más um greiðslufall ríkissjóðs í færslu á Facebook og sagði það ekki standast skoðun að sú leið sem hann hafi boðað skapi lánstraust ríkissjóðs. „Helst bind ég vonir við að farsæl lausn fáist í málið með viðræðum ríkisins og kröfuhafa sjóðsins þar sem útgangspunkturinn verður að vera lagaleg staða málsins. Ég mun hins vegar ekki samþykkja að við veltum vandanum á undan okkur. Með því verða komandi kynslóðir að bera allt að 150 milljarða byrðar umfram lagalega skyldu ríkisins. Það væri bæði óábyrgt og rangt. Sama hvað þeir sem horfa eingöngu á málið út frá þröngum hagsmunum kröfuhafans segja.“
Umræddur kröfuhafi eru lífeyrissjóðir landsins.
Í gærkvöldi var í Kastljósi rætt við stjórnarmann lífeyrissjóðs um stöðu ÍL-sjóðs og þær hugmyndir sem ég hef kynnt til...
Posted by Bjarni Benediktsson on Tuesday, October 25, 2022