Skuldir heimilanna á Íslandi halda áfram að lækka og eru nú komnar niður í 99 prósent af árlegri landsframleiðslu Íslands, samkvæmt tölum frá því í júní, sem vitnað er til í Fjármálastöðugleika sem kom út í dag. Er þetta lækkun á skuldum heimilanna um 4,6 prósentustig frá því í fyrra.
Sigríður Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálastögðuleika, sagði í kynningu sinni á fundi í seðlabankanum í dag að þetta væri vel viðunandi skuldahlutfall í alþjóðlegum samanburði, einkum þegar horft væri til þjóða sem væri með húsnæðiskerfi sem byggði mikið á séreignastefnu eins og hér tíðkast. „Sé horft til ársins 2014 hafa skuldir heimila sem hlutfall af landsframleiðslu lækkað um tæplega 2,1 prósentustig og að raunvirði um 1,1 prósentu. Nýjustu tölur benda því til að skuldalækkun heimila sem hófst snemma árs 2009 sé enn í gangi. Lækkun skulda heimila í hlutfalli við landsframleiðslu það sem af er ári má helst rekja til aukinnar landsframleiðslu og afborgana en fjárhæð þeirra hefur verið umfram ný veitt lán,“ segir í Fjármálastöðugleika.
Veðrými nýtt í neyslu og skuldir
Fram kemur í ritinu að aðgerðir ríkisstjórnarinnar til lækkunar verðtryggðra íbúðalána, leiðréttingin svonefnda, ættu eftir að auka veðrými heimila umtalsvert. Áform um að færa niður verðtryggð íbúðalán um 72 milljarða og heimild til þess að nýta séreignarlífeyrissparnað til niðurgreiðslu íbúðalána, mun lækka skuldstöðu heimila. „Mat Seðlabankans er að veðrými sem losnar og hægt er að veðsetja aftur með frekari lántöku sé um 65 prósent af fjárhæð lækkunarinnar. Skuldaniðurfærslan mun auka auð heimilanna, útgjaldavilja og þar með einkaneyslu. Líklegt er að stóran hluta þess veðrýmis sem myndast hjá heimilunum muni þau nýta í aukna neyslu og skuldsetningu,“ segir í Fjármálastöðuleika.
„Skuldaniðurfærslan mun auka auð heimilanna, útgjaldavilja og þar með einkaneyslu.“
Verðtryggingin vinsæl
Eftirspurn eftir verðtryggðum fasteignaveðlánum, sem stjórnvöld vinna nú að því að draga úr, á endanum með lögum, hefur aukist mikið að undanförnu. Þegar bankarnir byrjuðu að bjóða óverðtryggð lán seinni hluta ársins 2009 var eftirspurnin eftir þeim mikil. Margir nýttu sér t.d. niðurfellingu á stimpilgjöldum vegna endurfjármögnunar, og breyttu verðtryggðum íbúðalánum í óverðtryggð. Í ritinu segir að á árinu 2013 hafi mátt greina að eftispurn eftir óverðtryggðum íbúðalánum hafði minnkað m.a. vegna þess að talið var að þeir sem höfðu huga á, greiðslugetu og svigrúm til að breyta verðtryggðum lánum í óverðtryggð hafi verið búnir að slíku. Á þessu ári hefur eftirspurn eftir verðtryggðum lánum verið meiri en eftir óverðtryggðum. Ýmsar ástæður geta verið fyrir þessari þróun, eins og minnkun verðbólgu og verðbólguvæntinga, að því er segir í Fjármálastöðugleika. Þá segir enn fremur að vægi 40 ára verðtryggðra lána hafi aukist jafnt og þétt, en þau bera lægstu mánaðarlegu greiðslubyrði húsnæðislána sem í boði er.