Skýrsla um „ruslakistu Seðlabankans“ sem átti að koma út 2018 hefur enn ekki verið skrifuð
Eftir bankahrunið var eignum sem féllu Seðlabankanum í skaut, og voru mörg hundruð milljarða króna virði, safnað saman í sérstakt félag, Eignasafn Seðlabanka Íslands. Þaðan voru þær svo seldar með ógagnsæjum hætti. Engar upplýsingar fást um nákvæmlega hvaða eignir var um að ræða né hverjir fengu að kaupa þær. Skýrsla sem átti að varpa heildarmynd á starfsemi félagsins átti að koma út 2018. Hún er enn ekki komin út, meira en fjórum árum eftir að slitaferli félagsins hófst.
Skýrsla sem Seðlabanki Íslands átti að vinna um Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ), og átti að skila til bankaráðs hans fyrir árslok 2018, er enn ekki komin út. Skýrslan átti að varpa heildarmynd á starfsemi ESÍ og dótturfélaga þess og taka átti saman hvert endanlegt tjón bankans verður af veðlánastarfsemi hans.
Í svari við fyrirspurn Kjarnans um afdrif skýrslunnar, sem barst á þriðjudag, sagði upplýsingafulltrúi Seðlabankans ástæðuna fyrir því að skýrslan væri ekki komin út vera „miklar annir við önnur verkefni“. Hann gat á þessari stundu ekki gefið svar um væntanlegan útgáfudag.
Þegar Viðskiptablaðið leitaði eftir upplýsingum um hvenær skýrslan ætti að koma út fyrir tæpum tveimur árum fengust þau svör að viðbrögð við heimsfaraldrinum hefðu valdið því að hlé hafi orðið á skýrslugerðinni. Nokkurra mánaða vinna væri eftir við gerð hennar.
„Stærsti ókosturinn er hætta á spillingu“
ESÍ, sem oft var kallað „ruslakista Seðlabankans“ starfaði frá 2009 og út árið 2017. Inn í félagið var safnað eignum sem féllu Seðlabankanum í skaut vegna falls fjármálakerfisins. Um allskyns eignir var að ræða, verðbréf, mörg hundruð fasteignir og ýmislegt annað. Á starfstíma sínum starfrækti ESÍ svo tvö dótturfélög, annars vega Sölvhól sem hafði það hlutverk að selja eignirnar, og hins vegar Hildu, sem ESÍ fékk í fangið árið 2011.
Umfang eigna og krafna sem ESÍ hélt á eftir hrunið var 490 milljarðar króna samkvæmt svari þáverandi forsætisráðherra, Bjarna Benediktssonar, við fyrirspurn á þingi í september 2017.
Slitaferli félagsins, og dótturfélaga þess, hófst árið 2017 og lauk endanlega 2019.
Margir höfðu enda varað við því að ríkið setti upp eignasölufélög. Það gerðu meðal annars hagfræðingarnir Gauti B. Eggertsson og Jón Steinsson í grein sem birtist í Morgunblaðinu í mars 2009. Þar sagði meðal annars: „Það eru ýmsir ókostir á eignasölufélögum í eigu ríkisins. Stærsti ókosturinn er hætta á spillingu. Reynslan hefur kennt Íslendingum – og raunar öðrum þjóðum – að þegar ríkið selur eignir er mikil hætta á því að umsjónarmenn söluferlisins selji vinum, ættingjum eða jafnvel sjálfum sér verðmætar eignir á undirverði.“
Undanþága frá því að upplýsa almenning
Fjölmiðlar hafa árum saman reynt að fá upplýsingar um hvaða eignir voru settar inn í ESÍ, hvernig þær voru seldar og hverjir fengu að kaupa þær. Þeim hefur öllum verið hafnað á grundvelli þagnarskylduákvæðis laga um Seðlabanka Íslands og þeirrar undanþágu frá upplýsingalögum sem ESÍ naut. Sú undanþága rann út í desember 2018.
Í síðustu viku lagði Fjármála- og efnahagsráðuneytið sjálfstætt mat á þær röksemdir sem settar hafa verið fram fyrir því að listi yfir kaupendur á 22,5 prósenta hlut ríkisins í Íslandsbanka falli undir bankaleynd. Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins stóð: „Að mati ráðuneytisins falla upplýsingar um viðskipti á milli ríkissjóðs og fjárfesta ekki undir bankaleynd og með hliðsjón af mikilvægi þess að gagnsæi ríki um ráðstöfun opinberra hagsmuna hefur ráðherra ákveðið að birta yfirlitið.“
Í ljósi þess að mikilvægt væri að gagnsæi ríki um ráðstöfun þeirra opinberu hagsmuna sem fór fram í gegnum ESÍ óskaði Kjarninn etir því að forsætisráðuneytið, sem Seðlabanki Íslands heyrir undir, myndi leggja sjálfstætt mat á þær röksemdir sem settar hafa verið fram um þagnarskyldu og bankaleynd hvað varðar starfsemi ESÍ. Yrði niðurstaða þess mats sú sama og fjármála- og efnahagsráðherra komst að varðandi listann yfir kaupendur á hlut í Íslandsbanka er þess óskað að, fá lista yfir allar eignir sem settar voru inn í ESÍ, fá yfirlit yfir sölu þeirra eigna; hvenær þær voru seldar, á hvaða verði, hverjir voru milliliðir og fá yfirlit yfir kaupendur allra þeirra eigna sem seldar voru út úr ESÍ.
Fyrirspurninni, sem send var á mánudag, hefur enn ekki verið svarað.
Sigurður Ingi spyr Bjarna
Skriflega fyrirspurnin á Alþingi sem minnst var á hér að ofan, og beint var til Bjarna Benediktssonar, á forsætisráðherra, í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, var lögð fram af manni sem Bjarni þekkir ágætlega og hefur starfað meira og minna með síðastliðinn tæpa áratug, Sigurði Inga Jóhannssyni. Hann hafði verið ráðherra í ríkisstjórninni sem sat 2013 til 2016 og endaði það kjörtímabil sem forsætisráðherra, eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þurfti að segja af sér.
Hann svo starfað í ríkisstjórnarsamstarfi með Bjarna síðan 2017. Fyrirspurnin, sem var ítarleg og bar öll þess merki að fyrirspyrjandinn þekkti vel til mála, var lögð fram á þeim nokkrum mánuðum á árinu 2017 sem Sigurður sat í stjórnarandstöðu.
- Hversu margar eignir/kröfur hefur Seðlabanki Íslands selt, beint eða í gegnum dótturfélög, svo sem ESÍ, frá því að honum var falin umsjón þeirra eftir bankahrunið árið 2008, hvert var söluandvirðið í heild og sundurliðað eftir árum, hverjir keyptu og á hvaða kjörum, sundurliðað ár fyrir ár?
- Í hvaða tilvikum var lánað fyrir kaupunum, við hversu hátt lánshlutfall var miðað, hvaða skilyrði voru sett um tryggingar fyrir greiðslu kaupverðs, hver var stefnan um vaxtakjör, var í einhverjum tilvikum vikið frá henni og ef svo er, hvers vegna?
- Hefur Seðlabankinn, beint eða í gegnum dótturfélög, keypt eignir/kröfur eða fengið framseldar með öðrum hætti, svo sem í skiptum fyrir aðrar eignir/kröfur, frá bankahruni, hvaða eignir/kröfur voru það, sundurliðað ár fyrir ár, voru þær skráðar á markaði, hvaða ástæður voru fyrir kaupunum og á hvaða lagaheimild byggði Seðlabankinn eða dótturfélög kaupin?
- Hafa eignir/kröfur verið seldar aftur og ef svo er, hver er munurinn á kaup- og söluverði, hverjir voru kaupendur og seljendur í þeim viðskiptum og hefur Seðlabankinn eða dótturfélög fengið framseldar til sín eignir sem rýrnað hafa í verði eða jafnvel tapast frá því að þeirra var aflað?
- Fyrir hvaða sérfræðiþjónustu, hverjum og hve mikið, hefur Seðlabanki Íslands, beint eða í gegnum dótturfélög, greitt vegna sölu á eignum/kröfum frá og með árinu 2013 til dagsins í dag, var þjónustan auglýst og/eða boðin út, hvernig var staðið að ráðningu á þjónustuaðilum, hver voru sjónarmið til grundvallar ráðningum og hvernig skiptust greiðslur milli aðila?
- Var sala á eignarhlutum/kröfum Seðlabanka Íslands eða dótturfélaga bankans ávallt auglýst, hvernig var staðið að útboði/sölu í þeim tilvikum, við hvaða reglur var miðað, voru viðmiðin sambærileg í öllum tilvikum og ef ekki, hvers vegna?
Bjarni svaraði fyrirspurn Sigurðar Inga með ítarlegu svari, en þó var ekki svarað efnislega og sértækt, þeim atriðum sem spurt var út í. Í svarinu var vísað til þagnarskyldu Seðlabankans um verkefni ESÍ og að bankinn myndi skila af sér skýrslu um ESÍ og starfsemi þess, þegar vinnu við slit væri lokið.
Sú skýrsla er, líkt og áður segir, enn ekki komin fram í dagsljósið.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði