Í nóvember í fyrra fékk Ted Hui, þingmaður á svæðisþinginu í Hong Kong boð um að koma til Danmerkur. Boðið kom frá tveimur dönskum þingmönnum, þeim Katarina Ammitzbøll og Uffe Elbæk. Ted Hui hafði verið ákærður fyrir að hafa níu sinnum brotið lög í tengslum við baráttu hans fyrir auknu lýðræði. Slík brot varða margra ára fangelsisvist. Ted Hui hafði verið handtekinn en síðar látinn laus gegn tryggingu, hann mátti hinsvegar ekki fara úr landi.
Boðsbréfinu fylgdi dagskrá og þar kom fram að Ted Hui byðist að taka þátt í nokkrum fundum og að minnsta kosti tveimur ráðstefnum. Lögreglan í Hong Kong taldi að Ted Hui hefði, í krafti þingmennskunnar, fengið þetta boð og myndi í ferðinni hitta danska þingmenn og fulltrúa umhverfissamtaka. Ted Hui flaug til Danmerkur í desember.
Hvorki fundir né ráðstefnur
Fljótlega eftir að Ted Hui var kominn til Danmerkur kom í ljós að tilgangur ferðarinnar var ekki að hitta þingmenn, sitja ráðstefnur eða ræða við umhverfisverndarsinna. Ted Hui var einfaldlega að flýja land og naut til þess aðstoðar dönsku þingmannanna. Katarina Ammitzbøll útbjó boðsbréfið og Uffe Elbæk „skáldaði” dagskrána. Kínversk stjórnvöld náðu ekki upp í nefið á sér fyrir bræði þegar í ljós kom að dönsku þingmennirnir höfðu platað þau upp úr skónum.
Til Bretlands og síðar Ástralíu
Ted Hui stóð ekki lengi við í Danmörku. Eftir nokkurra daga dvöl í Kaupmannahöfn hélt hann til Bretlands og síðastliðinn þriðjudag (9. mars) kom hann til Ástralíu. Þar hyggst hann setjast að og halda áfram baráttu sinni gegn stjórnvöldum í Kína.
Það hefur lengið verið grunnt á því góða milli ástralskra og kínverskra stjórnvalda. Ástralir hafa verið mjög gagnrýnir á stefnu Kínverja í mannréttindamálum og hafa kært sig kollótta um hótanir þeirra í sinn garð. Kínverjar hafa sniðgengið og bannað innflutning á áströlskum varningi.
Fékk hjálp áströlsku ríkisstjórnarinnar
Ted Hui hefur greint frá því að hann hafi notið aðstoðar ríkisstjórnar Ástralíu til að komast þangað. Vegna kórónuveirunnar gilda mjög strangar reglur um komur til landsins. Í viðtali við dagblaðið Politiken sagði Ted Hui að áströlsk stjórnvöld hefði veitt sér undanþágu frá fjölmörgum reglum varðandi það að komast inn í landið. Og þau hefðu ennfremur aðstoðað sig við að finna flug til landsins. Hann hefði verið í flugvél með fjölda Ástrala á leið heim. Ted Hui sagði að hann hefði fengið svokallaða ferðamannaáritun sem gildir í eitt ár.
Kínverjar hafa í hótunum
Carrie Lam, æðsti stjórnandi Hong Kong hefur harðlega gagnrýnt Ted Hui fyrir að flýja til Danmerkur. Öryggisstofnun Hong Kong (hlutverk hennar er að sjá til þess að lögum sé fylgt) upplýsti í viðtali við dagblaðið Politiken að í undirbúningi væri að hefja sakamálarannsókn gegn Katarina Ammitzbøll og Uffe Elbæk og hugsanlega tveimur öðrum Dönum, Anders Storgaard og Thomas Rohden sem einnig hefðu aðstoðað Ted Hui. Talsmaður Öryggisstofnunarinnar sagði í áðurnefndu viðtali að samkvæmt gildandi lögum í Hong Kong væri ólöglegt að aðstoða einstaklinga sem grunaðir eru um afbrot, við að flýja. Óljóst er hvort yfirvöld í Hong Kong gefa út alþjóðlega handtökuskipun á dönsku fjórmenningana. Dagblaðið Jótlandspósturinn greindi frá því í síðustu viku að Danska leyniþjónustan, PET, hefði varað fjórmenningana við að ferðast til landa þar sem þau yrðu hugsanlega handtekin og framseld til Kína.
Sýnir hið rétta andlit Kína
Af fjórmenningunum sem aðstoðuðu Ted Hui er Uffe Elbæk þekktastur. Hann hefur setið á þingi frá árinu 2011 og var um tíma menningarmálaráðherra, í stjórn Helle Thorning-Schmidt. Í viðtali við dagblaðið Politiken fyrir skömmu sagðist Uffe Elbæk ekki vita hversu alvarlegar hótanir Kínverja í sinn garð væru. „Þær sýna hins vegar hið rétta andlit stjórnvalda í Kína, sem vilja þagga niður í öllum sem andmæla skoðunum þeirra og ákvörðunum.”
Jeppe Kofod utanríkisráðherra Danmerkur segist undrandi á yfirlýsingum Kínverja um hugsanlegar handtökur og dómsmál. Danskir þingmenn, líkt og aðrir Danir, séu frjálsir að því að hitta og ræða við þá sem þeim sýnist. Utanríkisráðherrann sagði ennfremur að ef til þess komi að Kínverjar gefi út handtökuskipanir á hendur dönsku fjórmenningunum yrði því mætt af fullri hörku. Hann bætti því við að hugsanlegri framsalsbeiðni frá Kínverjum yrði ekki ansað. Allir flokkar á danska Þinginu, Folketinget, hafa lýst yfir stuðningi við þingmennina tvo, þau Katarina Ammitzbøll og Uffe Elbæk.
Welcome to Denmark @tedhuichifung. We will do what ever to secure your stay. #dkpol #Guardian #StandWithHongKong #12HKyouths #IPAC https://t.co/K9pjirxlQZ
— Uffe Elbaek (@uffeelbaek) December 1, 2020
Kínverjar hafa ekki tjáð sig um ummæli danska utanríkisráðherrans og þingmanna, en þegar Evrópuþingið lýsti yfir stuðningi við þingmennina tvo svaraði kínverska Öryggisstofnunin fullum hálsi. Þar sagði meðal annars að heimastjórnin í Hong Kong líði ekki aðgerðir sem vinni gegn hagsmunum samfélagsins. Talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins sagði að framkoma dönsku þingmannanna gætu skaðað orðstír Danmerkur.
Anders Storgaarad, einn fjórmenninganna sem aðstoðuðu Ted Hui við flóttann sagði ekki nóg að danskir þingmenn lýstu yfir stuðningi, utanríkisráðherrann þyrfti að kalla kínverska sendiherrann „á teppið” og gera honum grein fyrir að hugmyndir og yfirlýsingar um alþjóðlegar handtökuskipanir á hendur dönskum stjórnmálamönnum væru ólíðandi.