Hann á afmæli, hann herra forseti. Hann á afmæli í dag,“ söng Marilyn Monroe seiðandi röddu í 45 ára afmælisveislu Johns F. Kennedys sem haldin var í Madison Square Garden í maí árið 1962. Monroe var ögn sein inn á svið og virkaði taugaóstyrk í fyrstu en atriðið hafði verið æft í þaula og fór nákvæmlega eins og stefnt var. Það geislaði af henni á sviðinu líkt og þeim þúsundum gervidemanta sem kjóll hennar var alsettur.
Margt hefur dunið á í henni veröld síðan þessi veisla var haldin. Þau Kennedy og Monroe gengu bæði á vit forfeðra sinna langt fyrir aldur fram ekki löngu seinna. Monroe lést innan við þremur mánuðum síðar af völdum of stórs skammts af svefnlyfjum og Kennedy var myrtur í Dallas í nóvember árið 1963. Ekki liðu mörg ár í viðbót þar til Madison Square Garden, þriðja viðburðahúsið til að bera það nafn, var rifið. Eftir stendur kjóllinn glæsilegi sem Monroe klæddist og ratar enn í fyrirsagnir.
Saga bandarískrar tísku í brennidepli á Met Gala
Það vakti mikla athygli þegar Kim Kardashian klæddist umræddum kjól á rauða dregli Met Gala fyrr í þessum mánuði og viðbrögðin voru ýmist jákvæð eða neikvæð. Í umfjöllun Time Magazine segir að kjóllinn og allt yfirbragð Kardashian hafi verið fullkomið fyrir þema Met Gala sem í þetta skipti hverfðist um sögu bandarískrar tísku.
„Hvað er það bandarískasta sem þú getur hugsað þér? Það er Marilyn Monroe,“ sagði Kim Kardashian í viðtali við Vogue um ákvörðun sína að mæta til hátíðarboðsins í kjólnum. „Í mínum huga er þessi viðburður, þegar Marilyn söng afmælissöngin fyrir JFK það sem er mest eftirminnilegt og einkennandi fyrir hana.“
Kardashian kaus að ganga lengra heldur en að klæðast kjólnum á Met Gala. Hún leitaðist eftir umbreytingu og til þess að kóróna gervið varði hún 14 klukkustundum í stólnum hjá hárgreiðslumeistara sem aflitaði á henni hárið. Hún var Marilyn Monroe þegar hún gekk rauða dregilinn í skínandi kjólnum.
Þrátt fyrir að 14 klukkustunda hárlitun kunni að hljóma eins og þolraun, þá er hér ekki öll sagan sögð af umbreytingarferlinu. Kjólnum, sem alla jafna er geymdur við kjöraðstæður, var flogið með einkaþotu frá Flórída til Kaliforníu nokkrum mánuðum fyrir Met Gala til þess að Kardashian gæti fengið að máta hann. Hún hafði þá fengið að máta endurgerð kjólsins sem passaði fullkomlega.
Þegar upprunalegi kjóllinn var kominn á áfangastað á heimili Kardashian þá passaði hann ekki. Hún þurfti því að taka ákvörðun um hvort hún myndi finna sér nýjan sér nýjan kjól eða aðlaga sig að kjólnum. Hún kaus síðari kostinn, fór á stífan megrunarkúr og samkvæmt umfjöllun BBC missti hún 7,3 kíló á þremur vikum til þess að passa í kjólinn. Fyrir það hefur hún verið harðlega gagnrýnd, hún sé fyrirmynd milljóna og með því að grenna sig svo skarpt hafi hún sent aðdáendum sínum afar varasöm skilaboð.
Svipaðar beiðnir frá fræga fólkinu algengar
En gagnrýnin sneri að fleiru en megrunarkúr Kim Kardashian. Forverði og safnmenn rak í rogastans yfir því að Kardashian hefði verið leyft að klæðast þessum kjól og sérfræðingar úr safnaheiminum hafa gagnrýnt uppátækið harðlega. Sarah Scarturro sem var forstöðumaður forvörslu tískugripa á Met safninu hraunaði yfir Kardashian í færslu á Instagram. Þegar hún gegndi starfi yfirforvarðar hjá Costume Institue á Met safninu hafi hún reglulega fengið fyrirspurnir um hvort frægt fólk og fyrirsætur gætu fengið ómetanlega muni úr safninu að láni. Þeim var ætíð hafnað. Til marks um alvarleika málsins sendi Alþjóðaráð safna (ICOM) frá sér yfirlýsingu þar sem imprað er á því að sögufrægum flíkum ætti enginn að klæðast, nokkurn tímann, hvort sem viðkomandi er frægur eða ei.
Í yfirlýsingunni er bent á siðareglur ICOM þar sem finna má bæði fagleg viðmið og lágmarksstaðla fyrir safnastarfsemi. „Þó svo að ekki öll söfn eigi aðild að ICOM, þá hafa reglur og ábendingar alþjóðaráðsins um bestu starfshætti verið viðurkenndar og þeim fylgt af mörgum stofnunum út um allan heim,“ segir í yfirlýsingunni sem vísar í kjölfarið á viðmiðunarreglur ICOM um varðveislu klæðnaðar.
„Samkvæmt viðmuðunarreglunum þá skal meðhöndlun gripa haldið í lágmarki til þess að tryggja sem besta varðveislu þeirra; gripir skulu ekki hreinsaðir eða þvegnir af öðrum en þjálfuðum forvörðum,“ segir í yfirlýsingunni. Þar er einnig tekið fram að við meðhöndlun þurfi að nota bómullarhanska. Einnig er gerð sú krafa til þess sem meðhöndlar gripi af þessum toga að viðkomandi hafi ekki notað ilmvatn, húðkrem eða farða fyrir meðhöndlun og mælst er til þess að viðkomandi klæðist ekki skartgripum á meðan meðhöndlun stendur til að koma í veg fyrir að lausir þræðist festist í þeim.
Safngripir viðkvæmir fyrir ljósmyndaflassi
Aðrir þættir sem snúa að viðeigandi varðveislu gripa eru raka-, birtu- og hitastig en passa þarf upp á gildi þeirra í þeim rýmum þar sem gripir eru sýndir eða geymdir. Í tilkynningunni er auk þess sérstaklega bent á að forðast skuli sterka lýsingu, þá ekki síst frá leifturljósum myndavéla. Augljóst mál er að fáar flíkur hafa setið undir jafn miklu ljósmyndaflassi líkt og kjóllinn sögufrægi á Met Gala.
„Þegar kemur að forvörslu er mikilvægast að hafa eftirfarandi í huga: „Fyrirbyggjandi forvarsla er betri heldur en viðgerðir. Röng meðhöndlun eyðileggur muni að eilífu.“,“ segir enn fremur í yfirlýsingu ICOM sem greinilega lítur málið alvarlegum augum. „Þó svo að kjóllinn sé í eigu einkaaðila, þá er nauðsynlegt að horfa á hann og menningarsögulega arfleifð hans sem sameign alls mannkyns, burtséð frá því hver á hann. Sem fagfólk á sviði safna mælumst við til þess að öll söfn forðist það að lána fólki sögufrægan fatnað þar sem slíkir gripir standa fyrir efnismenningu síns tíma og þá gripi ber að varðveita fyrir komandi kynslóðir.“
Þar að auki er á það bent í yfirlýsingunni að kjóllinn er saumaður úr efni sem er ekki lengur framleitt og því ekki hægt að gera við hann eða bæta mögulegar skemmdir. Efnið er svokallað soufflé silki en framleiðsla á efninu var bönnuð eftir að í ljós kom hversu eldfimt það er.
Safn ekki það sama og safn
Íslendingar ættu að kannast við eiganda kjólsins sem er fyrirtækið Ripley's Believe It or Not! Umsvif fyrirtækisins í afþreyingariðnaði eru ansi mikil. Það gefur út bækur sem bera nafn fyrirtækisins þar sem segir frá ótrúlegum atburðum og hvers kyns undrum, sjónvarpsþættirnir Ripley's Believe It or Not! voru sýndir á Skjá 1 í nokkur ár á fyrsta áratug þessarar aldar og þá rekur fyrirtækið söfn út um víða veröld, til að mynda í Kaupmannahöfn og Amsterdam en flest eru söfnin í Norður-Ameríku.
Það er nokkur einföldun að kalla þau söfn sem Ripley's Believe It or Not! rekur út um allan heim söfn. Starfsemi þessara safna stangast nefnilega á við safnaskilgreiningu ICOM, þar sem þau eru rekin í ágóðaskyni og fyrirtækið er því eðli málsins samkvæmt ekki aðili að ICOM.
Á undanförnum árum hefur ICOM unnið að endurskoðun á safnaskilgreiningu sinni og mun ný skilgreining vera lögð fyrir allsherjarþing ICOM sem haldið verður í Prag í ágúst. Núverandi skilgreining var samþykkt á allsherjarþingi ICOM í Vín árið 2007 og er svohljóðandi: „Safn er stofnun með fastan rekstur sem ekki er rekin í ágóðaskyni heldur til þjónustu við samfélagið og til framgangs þess, er opin almenningi og safnar, varðveitir, rannsakar, miðlar og sýnir – til skoðunar, menntunarauka eða ánægju – það sem til vitnis er um fólk og umhverfi þess, bæði áþreifanlegt og óáþreifanlegt.“
Þrátt fyrir að eiga yfirgripsmikla safneign ólíkra muna sem margir hverjir eru mjög mikilvægir í menningarsögulegu tilliti, líkt og kjóllinn hennar Marily, þá er Ripley's Believe It or Not! þegar öllu er á botninn hvolft fyrirtæki en ekki safn. Því geta starfsmenn fyrirtækisins strangt til tekið gert hvað sem þeir vilja við safngripina.
Í lok maí hefst sýning á munum sem tengjast Marilyn Monroe í útibúi Ripley's Believe It or Not! í Hollywood. Meðal þeirra gripa sem verður til sýnis er kjóllinn margumtalaði sem mun vafalaust trekkja að. Kjóllinn er í heimsmetabók Guinness vegna þess að hann er dýrasti kjóll sem seldur hefur verið á uppboði. Þegar Ripley's Believe It or Not! keypti kjólinn árið 2016 nam kaupverðið 4,8 milljónum Bandaríkjadala sem samsvarar um það bil 640 milljónum króna á gengi dagsins í dag. Í kjölfar allrar þeirrar umræðu sem spunnist hefur í kringum kjólinn á síðustu vikum er óhætt að fullyrða að virði hans hafi aukist. Það verður því forvitnilegt að sjá hvort fyrirtækið muni á endanum selja kjólinn og hafa af honum milljóna dala hagnað – það er nokkuð sem söfn innan ICOM gætu ekki leyft sér að gera við merka muni í sinni safneign.