Birgir Þór Harðarson

Hvernig gengur að koma úkraínskum flóttabörnum inn í skólakerfið?

Langfæst börn sem flúið hafa stríðið í Úkraínu með foreldrum sínum á síðustu vikum og mánuðum eru komin inn í skólakerfið hér á landi og spila þar inn margir þættir. Samstarf á milli stærstu sveitarfélaganna hefur þó gengið vel og eru áform uppi um ýmsar leiðir til að koma til móts við börnin af hlýju og með ljúfri móttöku.

Eftir að stríðið í Úkra­ínu braust út í febr­úar á þessu ári hafa yfir 1.000 flótta­­menn þaðan sótt um alþjóð­­lega vernd hér á landi. Búist er við að um 3.000 flótta­menn komi til Íslands í heild­ina á þessu ári en það er mikil aukn­ing frá fyrri árum.

Þetta ástand hefur vakið upp spurn­ingar hvort helstu inn­viðir í íslensku sam­fé­lagi séu undir það búnir að taka á móti slíkum fjölda. Að mörgu þarf að huga og snýr einn angi í þessu reikn­ings­dæmi að skóla­mál­um. Stærstu sveit­ar­fé­lögin hafa haft sam­ráð sín á milli og fyr­ir­heitin eru fög­ur. En eru leik- og grunn­skólar í stakk búnir til að taka á móti þeim börnum sem hingað flýja með for­eldrum sín­um? Hvernig hefur gengið að skipu­leggja skóla­starfið með þessi börn í huga og hvernig hefur sam­starfið gengið milli stærstu sveit­ar­fé­lag­anna?

Kjarn­inn kann­aði málið og leit­aði svara við þessum spurn­ingum hjá þeim sveit­ar­fé­lögum sem helst hafa tekið á móti fólki á flótta frá Úkra­ínu.

Engin laus pláss fyrir úkra­ínsk flótta­börn í leik­skólum Reykja­víkur sem stendur

Reykja­vík er langstærsta sveit­ar­fé­lagið sem tekur á móti flótta­fólki en sam­kvæmt nýj­ustu tölum frá borg­inni hafa 45 börn og 127 full­orðnir komið þangað síðan stríðið braust út.

Tvær leiðir eru mögu­legar hvað skóla­mál varðar fyrir úkra­ínsk börn sem flúið hafa með fjöl­skyldum sínum til Íslands og til borg­ar­inn­ar, að því er fram kemur í svari Reykja­vík­ur­borgar við fyr­ir­spurn Kjarn­ans.

Önnur leiðin felur í sér að börnin eru skráð beint í almennan grunn­skóla. Sam­kvæmt Reykja­vík­ur­borg hafa nokkrir valið þessa leið en langt er liðið á skóla­önn­ina. Hægt er að skrá börnin í leik­skóla borg­ar­innar en þar eru engin laus pláss til úthlut­unar sem stend­ur, segir í svar­inu.

Hin leiðin er þátt­taka í Skóla- og fjöl­skyldu­mið­stöð­inni sem sett var á lagg­irnar fyrir börn frá 0 til 16 ára og for­eldra þeirra en 17 ára hafa líka verið tekin inn. Þar starfa sex úkra­ínsku­mæl­andi starfs­menn sem koma úr leik­skól­um, grunn­skólum og frí­stunda­starfi Reykja­vík­ur­borg­ar. Í svari borg­ar­innar segir að aðal­á­herslan sé á ljúfa mót­töku, kenna þeim íslensku á úkra­ínsku og kynna þau fyrir íslensku sam­fé­lagi. Þar taka þátt á milli 40 og 50 manns en flest börnin eru á grunn­skóla­aldri.

Samkæmt Reykjavíkurborg er aðaláherslan lögð á ljúfa móttöku, að kenna þeim íslensku á úkraínsku og kynna þau fyrir íslensku samfélagi.
Bára Huld Beck

Sam­starfið felst í því að stilla saman strengi

En hvernig gengur að skipu­leggja skóla­starf fyrir börn á flótta? Í svari Reykja­vík­ur­borgar segir að til standi að börn á leik- og grunn­skóla­aldri komi inn í almennt skóla­starf Reykja­vík­ur­borgar næsta haust. Und­ir­bún­ingur standi yfir, meðal ann­ars með starf­sem­inni í Skóla- og fjöl­skyldu­mið­stöð­unni. Þar fái fólk aðstoð við skrán­ingu og unnið sé að því að byggja brú yfir í almennu skól­ana. Jafn­framt sé unnið að því að ráða úkra­ínsku­mæl­andi brú­arsmið sem verði brú milli skóla og fjöl­skyldna. „Þetta fyr­ir­komu­lag hefur reynst mjög vel í skóla­starfi skóla- og frí­stunda­sviðs,“ segir í svar­inu.

Reykja­vík­ur­borg hefur verið í sam­ráðs­hóp á vegum mennta­mála­ráðu­neyt­is­ins með Hafn­ar­firði, Árborg og Reykja­nesbæ vegna mót­töku flótta­fólks. Í svari borg­ar­innar segir að mjög gott sam­starf sé við hin sveit­ar­fé­lögin sem eru í sam­ræmdri mót­töku flótta­fólks. Sam­starfið felst í því að stilla saman strengi og skipt­ast á hug­myndum og úrræðum sem reyn­ast vel.

Ein­ungis ein umsókn um skóla­vist borist Hafn­ar­fjarð­arbæ

Flótta­fólki frá Úkra­ínu hefur fjölgað gríð­ar­lega í Hafn­ar­firði und­an­farið en lög­heim­il­is­skrán­ingum fólks með úkra­ínskt rík­is­fang þar hefur fjölgað úr 29 í 106 á sex vik­um. Í þessum hópi eru 19 börn á grunn­skóla­aldri og fjögur á leik­skóla­aldri.

Hafn­ar­fjarð­ar­bær setti upp tvær sviðs­myndir hjá sér varð­andi mót­töku með fyr­ir­vara um fjölda barna.. „Ann­ars vegar að opna fjöl­skyldu­mið­stöð sem hugsuð er sem virkni­úr­ræði fyrir börn og for­eldra fram á sum­arið og hins vegar að taka börn beint inn í grunn­skóla og leik­skóla,“ segir í svari bæj­ar­ins.

Sam­kvæmt Hafn­ar­fjarð­arbæ hefur ein umsókn um skóla­vist borist sveit­ar­fé­lag­inu og er það barn byrjað í sínum hverf­is­skóla. Engin umsókn hefur borist um leik­skóla­vist enn sem komið er.

Lagt hefur verið upp með að börnum frá Úkra­ínu á grunn­skóla­aldri standi til boða að taka þátt í frí­stunda- og tóm­stunda­starfi í sum­ar. Unnið er að því að koma á fót sam­bæri­legri þjón­ustu fyrir leik­skóla­börn og for­eldra þeirra með úkra­ínsku­mæl­andi starfs­manni.

Fram kemur hjá Hafn­ar­fjarð­arbæ að skipu­lagn­ing hafi gengið vel og verið sé að vinna með þessar tvær sviðs­mynd­ir. Fjöldi barna og umsókna hafi bein áhrif á virkjun sviðs­mynda.

Hafn­ar­fjarð­ar­bær var með full­trúa í und­ir­bún­ings­nefnd á vegum ráðu­neyt­is­ins ásamt full­trúum Reykja­víkur og Reykja­nes­bæjar varð­andi skóla­göngu barna frá Úkra­ínu og aðkomu rík­is­ins að því verk­efni. Sam­starfið hefur aðal­lega verið milli þess­ara þriggja sveit­ar­fé­laga og gengið mjög vel.

Ekki þykir ástæða til að skrá börn tíma­bundið í skóla sem ekki eru komin með var­an­legt hús­næði

Fjöldi barna frá Úkra­ínu sem er í þjón­ustu hjá Reykja­nesbæ eða er á leið­inni til þeirra á næstu vik­um, sem vitað er um, eru níu börn á aldr­inum 6 til 16 ára, sam­kvæmt upp­lýs­ingum frá bæn­um.

Fyrstu tvö börnin komu í þjón­ustu til Reykja­nes­bæjar þann 21. apríl síð­ast­lið­inn og eru þau byrjuð í Háa­leit­is­skóla á Ásbrú. Hin börnin komu til þeirra frá 3. maí og eru vænt­an­leg í næstu viku á fyrsta fund. Þau eru enn í milli­bils­bú­setu­úr­ræðum á vegum Útlend­inga­stofn­unar eða að leita sér að hús­næði.

Talið er að yfir 6 milljónir manna hafi flúið frá Úkraínu eftir að Rússar réðust inn í landið í febrúar.
EPA

Í svari Reykja­nes­bæjar kemur fram að eðli­legt sé að það taki fólk allt að þrjár vikur að leita sér að hús­næði og ekki þyki ástæða til að skrá börn tíma­bundið í skóla á meðan stað­setn­ing er ekki föst.

Þá segir í svar­inu að aðstaða sé hjá Háa­leit­is­skóla til að bregð­ast við ef hópur barna frá Úkra­ínu kemur sem þarf skóla­vist. Á meðan ekki sé um neina slíka hópa að ræða þá fari börn eftir búsetu í sína heima­skóla.

Þetta fyr­ir­komu­lag hefur gengið vel, segir í svar­inu.

Leit­ast við að úkra­ínsk börn verði með íslenskum börnum í sum­ar­starfi

Varð­andi sum­arið þá segir í svari Reykja­nes­bæjar að börnin verði skráð í frí­stunda­úr­ræði. Þar sé leit­ast við að úkra­ínsk börn verði með íslenskum börnum í því sum­ar­starfi sem býðst í Reykja­nesbæ til að auð­velda aðlögun að íslensku sam­fé­lagi.

Meg­in­mark­miðið fram að sum­ar­fríi sé að leggja áherslu á að veita börn­unum hlýju og öryggi, skapa rútínu og ramma, skapa vett­vang fyrir sam­skipti við aðra nem­endur – bæði í leik og starfi – og veita börnum nær­ing­ar­ríkt nesti og mál­tíð í hádeg­inu.

Þá kemur fram að kennsla í Úkra­ínu fari fram í gegnum vef­for­ritið Class­rom þar sem tíma­mis­munur er á lönd­um. Allt efni sé raf­rænt og fái for­eldrar aðgang í gegnum kenn­ara sinna barna. Ef nem­endur hafa færi á að vera í raun­tíma þá fari kennsla fram á Zoom með kenn­ara.

Fjöl­skyldur frá Úkra­ínu hafa dvalist í Árborg án þess að hafa stöðu flótta­fólks

Sveit­ar­fé­lagið Árborg hefur einnig stöðu mót­töku­sveit­ar­fé­lags og segir í svari Árborgar að tals­vert sé um að þau taki við flótta­börnum frá ýmsum heims­hlutum þar sem mennta­bak­grunnur sé oft enn meira krefj­andi en gildir um börn frá Úkra­ínu.

„Hér voru um skamma hríð tvö börn frá Úkra­ínu sem höfðu stöðu flótta­fólks en þau eru farin til baka til Pól­lands og kom aldrei til þess að þau færu í skóla í Árborg. Eitt barn með stöðu sem flótta­barn er nú vænt­an­legt til Árborg­ar. Við höfum einnig haft spurnir af að fjöl­skyldur frá Úkra­ínu hafi verið í sveit­ar­fé­lag­inu án þess að hafa stöðu flótta­fólks,“ segir í svari sveit­ar­fé­lags­ins.

Þá kemur fram hjá Árborg að það hafi orðið til góð þekk­ing og reynsla í að skipu­leggja skóla­starf fyrir flótta­börn sama hvaðan þau koma. Þau leggi meðal ann­ars fyrir stöðu­mat sem auð­veldi skól­unum að meta þekk­ingu og reynslu nem­enda af erlendum upp­runa þannig að skól­inn geti und­ir­búið og lagað kennsl­una að þörfum hvers nem­anda og þekk­ing­ar­grunni hans. Í sveit­ar­fé­lag­inu sé jafn­framt starf­rækt fjöl­menn­ing­arteymi þvert á fags­við, skóla og skóla­stig.

„Við höfum átt afar gott sam­starf við nokkur sveit­ar­fé­lög, meðal ann­ars á höf­uð­borg­ar­svæð­inu. Hins vegar þró­uðu Árborg, Hafn­ar­fjörður og Reykja­nes­bær Stöðu­matið saman og fyr­ir­mynd þess kemur frá Sví­þjóð,“ segir í svar­inu.

Safna upp­lýs­ingum um þekk­ingu nem­and­ans

Á vef Mennta­mála­stofn­unar má finna mark­miðið með Stöðu­mat­inu en þar segir að mark­miðið sé að styðja við vinnu skól­anna varð­andi mat á þekk­ingu nem­enda af erlendum upp­runa þannig að skól­inn geti und­ir­búið og lagað kennsl­una að þörfum nem­and­ans og þekk­ing­ar­grunni hans.

„Mat skóla snýst um að safna upp­lýs­ingum um þekk­ingu nem­and­ans og túlka þær út frá mark­miðum mats­ins. Algeng­asta form náms­mats er að skól­inn meti þekk­ingu nem­and­ans í ólíkum aðstæðum í gegnum skóla­göngu hans. Stöðu­matið lýsir grunn­þekk­ingu nem­and­ans og liggur til grund­vallar skipu­lagi kennsl­unnar og ein­stak­lingsí­hlut­un­ar. Í efn­inu eru hug­tökin náms­mat (mat) og stöðu­mat notuð jöfnum hönd­um,“ segir á vef stofn­un­ar­inn­ar.

Þar kemur enn fremur fram að stöðu­mat á þekk­ingu nem­and­ans, aldri og per­sónu­legum aðstæðum veiti skól­anum grunn fyrir ákvarð­ana­töku skóla­stjóra um hvaða náms­hópi nem­and­inn á að til­heyra. Efnið sé ætlað grunn­skólum en það sé einnig hægt að nota á fram­halds­skóla­stigi.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar