Staðfestingarferli Ketanji Brown Jackson í embætti hæstaréttardómara hélt áfram í vikunni þegar Jackson kom fyrir dómsmálanefnd öldungardeildar Bandaríkjaþings. Vitnaleiðslurnar stóðu yfir í tvo daga.
Joe Biden Bandaríkjaforseti tilnefndi Jackson í lok febrúar og stóð þannig við orð sín úr kosningabaráttunni fyrir tveimur árum þegar hann lofaði að tilnefna fyrstu svörtu konuna sem dómara við hæstarétt landsins.
Sumir nefndarmenn Repúblikanaflokksins virtust í hefndarhug, ekki síst vegna vitnaleiðslna sem Brett M. Kavanaugh undirgekkst eftir að Donald Trump þáverandi Bandaríkjaforseti tilnefndi hann í embætti hæstaréttardómara.
En það er stór munur á Jackson og Kavanaugh. Kavanaugh var sakaður um kynferðisofbeldi og Christine Blasey Ford, sem sakaði Kavanaugh um nauðgun, bar vitni fyrir dómsmálanefnd öldungadeildarþingsins í staðfestingarferli Kavanaugh. Sjálfur sagði hann staðfestingarferli hans í embættið þjóðarskömm.
Skipun Kavanaugh var að lokum samþykkt með 50 atkvæðum gegn 48 og hefur hæstaréttardómari ekki verið samþykktur með minni mun frá árinu 1881.
Vill gera staðfestingarferlið mannlegra
Áskoranir Jackson í vitnaleiðslunum voru af allt öðrum toga. Nefndarmenn Repúblikanaflokksins sögðu hana vera róttæka í félagsmálum og fara mjúkum höndum um barnaníðinga.
Dick Durbin, þingmaður Repúblikanaflokksins fyrir Illinois, spurði Jackson út í orð kollega síns frá Missouri sem segir Jackson hafa orð á sér fyrir væga dóma í kynferðisbrotum gegn börnum, til að mynda hvað varðar vörslu barnakláms. Jackson, sem er tveggja barna móðir, vísaði ásökunum á bug. „Það er ekkert fjarri sannleikanum en þetta.“
Að vitnaleiðslunum loknum virtust fáir, ef einhverjir, nefndarmenn repúblikana sjá eftir orðum sínum. „Ég held að þetta hafi ekki verið svo gróft,“ sagði Tom Cotton, þingmaður fyrir Arkansas, sem sagði Jackson „vinstri-aðgerðasinna“ þegar hann tók til máls í vitnaleiðslunum. „Við erum bara að meta dómgreind hennar,“ sagði Cotton.
Sheldon Whitehouse, þingmaður demókrata fyrir Rhode Island, sagði vitnaleiðslurnar hafa sýnt „eitraða, kaldranalega hegðun“ sem viðgengst hefur hjá öldungardeildarþingmönnum. „Vonum að þetta hafi verið lágpunkturinn og að leiðin liggi nú upp á við,“ sagði Whitehouse.
Richard J. Durbin, öldungadeildarþingmaður demókrata í Illinois, stjórnaði vitnaleiðslunum. „Ég held að við ættum að reyna að breyta ferlinu og gera það mannlegra,“ sagði Durbin að þeim loknum.
„Ég er ekki lífffræðingur“
Jackson fékk líka óhefðbundnar og jafnvel furðulegar spurningar við vitnaleiðslunum. Þar má meðal annars nefna beiðni Marsha Blackburn, öldungardeildarþingmanns repúblikana fyrir Tennessee, sem bað Jackson um að skilgreina orðið „kona“. Umræða um málefni transfólks hefur verið áberandi upp á síðkastið eftir að ríkisstjórar í Indiana og Utah, sem báðir eru repúblikanar, beittu neitunarvaldi og komu þannig í veg fyrir samþykkt lagafrumvarps sem hefði bannað trans stúlkum að keppa í íþróttum. Ellefu ríkisstjórar hafa samþykkt sams konar frumvarp.
Judge Jackson can’t even define what a woman is. pic.twitter.com/G6OKMYR3Iy
— Sen. Marsha Blackburn (@MarshaBlackburn) March 23, 2022
Blackburn minntist á sundkonuna Lia Thomas, transkonu sem sigraði nýlega á háskólamóti í sundi, þegar hún bar upp spurninguna fyrir Jackson: „Getur þú útskýrt merkingu orðsins „kona“?“
Svar Jackson var einfalt: „Ég get það ekki.“ Þegar Blackburn furðaði sig á svari Jackson bætti hún við: „Ekki í þessu samhengi. Ég er ekki líffræðingur.“
Blackburn var ósátt með að Jackson gæti ekki svarað spurningu hennar og sagði það „undirstrika þær hættur sem fylgja framsækinni menntun sem við heyrum ítrekað meira um“.
„Hún er mögnuð“
Dómsmálanefnd öldungadeildarinnar, sem er skipuð 22 nefndarmönnum, mun greiða atkvæði um tilnefningu Jackson 4. apríl.
Verði tilnefning hennar staðfest þar fer fram atkvæðagreiðsla í öldungadeildinni. Þar hafa demókratar 48 sæti, auk tveggja óháðra þingmanna sem demókratar geta reiknað með stuðningi frá, og repúblikanar 50 sæti. Þrátt fyrir harðsvífnar vitnaleiðslur í vikunni má gera ráð fyrir að einhverjir þingmenn Repúblikanaflokksins í öldungadeildinni greiði með tilnefningu Jackson í embætti hæstaréttardómara. Verði atkvæðin jöfn kemur það í hlut Kamala Harris varaforseta að eiga úrslitaatkvæðið.
Stuðningur Harris við Jackson fer ekki á milli mála. Í færslu á Twitter sem hún birti í vikunni segir hún Jackson hafa sannað hæfi sitt fyrir dómsmálanefnd öldungadeildarþingsins. „Hún er mögnuð og hefur sýnt einstakt skaplyndi í gegnum alla vitnaleiðsluna. Þegar tilnefning hennar verður staðfest verður hún framúrskarandi hæstaréttardómari,“ segir Harris í færslu sinni.
Anyone watching Judge Jackson’s hearing can see why @POTUS nominated her. She is phenomenal and has shown exceptional temperament throughout the entire hearing. When confirmed, she will be an outstanding Justice on the Supreme Court.
— Vice President Kamala Harris (@VP) March 23, 2022
Verði tilnefning Jackson samþykkt mun hún taka sæti Stephen Breyer, sem mun setjast í helgan stein í júní. Líkt og hann er hún frjálslynd í túlkun sinni á stjórnarskrá Bandaríkjanna og sinnti hún raunar starfi aðstoðarmanns hans við hæstarétt á tímabilinu 1999-2000. Íhaldssamir dómarar verða því enn í meirihluta í hæstarétti, sex talsins, en þrír frjálslyndir.
Ef allt gengur samkvæmt áætlun ætti staðfestingarferlinu að ljúka í kringum páska og allt bendir til þess að Ketanji Brown Jackson taki við af Breyer í júní. Í 233 ára sögu Hæstaréttar Bandaríkjanna verður Jackson því fyrsta svarta konan sem tekur sæti í réttinum.