Hrafna Jóna Ágústsdóttir Kári Stefánsson MYND: Hrafna Jóna Ágústsdóttir
Hrafna Jóna Ágústsdóttir

„Tilvera án samhygðar markast af illsku“

Kári Stefánsson segist engan áhuga hafa haft á læknisfræði þegar hann rambaði af algjörri tilviljun í hana. Hér ræðir hann m.a. um hvernig hann slysaðist í fræðin, um börnin sín og fráfall eiginkonu sinnar – sem og stríðið í Úkraínu og hugarástand Pútíns út frá sjónarhóli taugavísindanna.

Illa greiddur maður í rúllu­kraga­bol situr með kross­lagðar hendur við óreiðu á skrif­borði. „Ef þetta verður leið­in­legt þá hætti ég að tala við þig,“ til­kynnir Kári Stef­áns­son áður en blaða­maður nær sam­bandi við stól­set­una. Kári er lands­mönnum kunnur fyrir fram­lag Íslenskrar erfða­grein­ingar (ÍE) til rann­sókna á erfða­mengi manns­ins og fyrir fram­lag fyr­ir­tæk­is­ins til íslenskrar þjóðar á tímum heims­far­ald­urs COVID. Færri vita að áður en hann helg­aði líf sitt rann­sóknum á vegum ÍE var hann pró­fessor í tauga­lækn­is­fræði og tauga­meina­fræði við Harvar­d-há­skóla.

Kári greinir hér frá ástæðum þess að hann lærði lækn­is­fræði og sér­hæfði sig í tauga­vís­ind­um. Hann talar um börnin sín, sem hann seg­ist hafa van­rækt og sorg­ina sem hann er að takast á við vegna frá­falls eig­in­konu sinn­ar, sem lést á síð­asta ári. Þá tjáir hann sig um stríðið í Úkra­ínu út frá kjarn­orkuógn og stríðið í huga Pútíns frá sjón­ar­hóli tauga­vís­ind­anna. Hetju­dáð eða fífldirfska Volodymyrs Zel­en­skys for­seta Úkra­ínu ber á góma og loks von­in, sem skín þrátt fyrir allt, í gegnum sprengjuregn.

Rambaði fullur inn í lækn­is­fræð­ina

Blaða­maður hittir Kára á skrif­stofu hans í ÍE, þar sem honum líður að eigin sögn eins og barni í sand­kassa.

„Ég ætl­aði ekk­ert í lækn­is­fræð­i’,“ segir hann. „Ein­hvern tíman eftir stúd­ents­próf þá datt ég í það með bekkj­ar­fé­laga mínum sem heitir Stefán Karls­son og morg­un­inn eftir þegar við vorum að ganga um í Hljóm­skála­garð­in­um, lúnir eftir að hafa verið drukknir alla nótt­ina, þá sagði hann við mig: „Ég ætla að fara upp í háskóla og skrá mig í lækn­is­fræði, viltu ekki koma með mér“ Og ég bara kom með honum og skráði mig í lækn­is­fræði. Ég hafði engan áhuga á lækn­is­fræð­i.“

Kári segir að hann hafi verið alinn upp við að maður eigi að ljúka verk­efnum sem maður byrjar á „og nú sit ég hér, rúmum 50 árum síð­ar. Sé ég eftir því? Nei ég sé ekki eftir því. Ég sé eftir ýmsu öðru, en ekki því.“

Hann seg­ist sjá mest eftir að hafa ekki varið meiri tíma með börn­unum sínum þegar þau voru lít­il.

„Ég var allt of metn­að­ar­fullur og það er ekk­ert ljót­ara gagn­vart börnum heldur en van­ræksla og ég held því fram að ég hafi verið sekur um tölu­verða van­rækslu á börn­unum mín­um.“

Kári sér­hæfði sig í tauga­lækn­is­fræði vegna þess að honum þótti spenn­andi hversu mikið átti eftir að upp­götva um heil­ann „enn þann dag í dag erum við á þeim stað að við vitum raun­veru­lega afskap­lega lítið hvernig heil­inn virkar,“ segir hann.

Er það vegna þess sem það reyn­ist svo erfitt að díla við geð­sjúk­dóma?

„Já, hvernig ætlarðu að fara að lækna vanda­mál sem á rætur sínar í því að það er biluð ein­hver starf­semi heil­ans þegar þú veist ekk­ert um þessa starf­semi heil­ans,“ segir Kári.

Hann segir að eitt af því sem við vitum um heil­ann sé að hann er líf­færi með­vit­undar og að inni­hald með­vit­undar eru hugs­anir og til­finn­ing­ar. Hugs­anir og til­finn­ingar skil­greina okkur sem dýra­teg­und og sem ein­stak­linga innan teg­und­ar­inn­ar, segir hann.

Kári var pró­fessor við Harvar­d-há­skóla og yfir­læknir við Beth Isra­el-­sjúkra­húsið í Boston áður en hann stofn­aði Íslenska erfða­grein­ingu árið 1996.

„Að fá að vinna hérna, innan um allt þetta flotta unga fólk sem er sífellt að gera upp­götv­an­ir, að fá að vera hluti af því og fá að taka þátt í því er ævin­týra­lega spenn­andi og gam­an,“ segir hann. „Ég er svo hepp­inn að þegar ég kem í vinn­una þá finnst mér ein­hvern veg­inn eins og ég sé ennþá að leika mér í sand­kass­an­um,“ segir hann og bros­ir.

Kári segir að markmiðið hjá honum núna sé að reyna að vakna til hvers dags svolítið jákvæður.
Bára Huld Beck

Ekk­ert sér­stak­lega not­enda­vænt þetta líf

Rödd vís­inda­manns­ins breyt­ist þegar talið berst að eig­in­konu hans, Val­gerði Ólafs­dótt­ur, sem lést í nóv­em­ber á síð­asta ári.

„Mark­miðið hjá mér núna er að reyna að vakna til hvers dags svo­lítið jákvæð­ur. Mér gengur það mis­mun­andi vel,“ segir hann hugsi. „Þegar mað­ur, sko, það er dálítið flókið þegar maður missir félaga og sam­ferð­ar­mann­eskju sem maður hefur átt í 53 ár, því að þegar maður er búinn að eiga ferða­fé­laga um mjög langan tíma þá endar það á því að manni finnst ein­hvern veg­inn maður ekki vera búinn að upp­lifa neitt fyrr en maður er búinn að deila því með þeim ein­stak­lingi. En svo allt í einu getur maður það ekki og þá verður maður að finna nýja leið til þess að fóta sig í til­ver­unni og það tekur smá tíma, það gerir það,“ segir hann og þagnar um stund. „En ég á mjög góð börn sem hlúa að mér, og barna­börn og vini og félaga. Þannig að ég er með tölu­vert stuðn­ings­net.“

Eftir umhugsun bætir hann við: „Ég held að mark­miðið sé alltaf að láta sér líða vel í augna­blik­inu, því lífið er bara sam­an­safn augna­blika. En við erum öll að ströggla að ein­hverju leyti. Það er ekk­ert sér­stak­lega „user fri­end­ly“ þetta líf. Það er vandi að láta sér líða vel.“

Stríðið beri vott um heimsku og mis­kunn­ar­leysi

Vorið er framundan og COVID virð­ist loks­ins vera að renna sitt skeið. En þá gerir Rúss­land inn­rás í Úkra­ínu. Hvaða hug­renn­ingar vekur þessi staða heims­mál­anna hjá þér?

„Mér líður núna mjög skringi­lega vegna þess að jú, við erum að kom­ast út úr COVID. Ég held að við lok þessa mán­aðar verði þessi pest að mestu leyti far­in. En þá sitjum við uppi með stríð í Evr­ópu, sem mér finnst alveg með ólík­ind­um. Að við skulum núna vera nær því að lenda í kjarn­orku­stríði heldur en nokkru sinni áður. Þetta er nátt­úru­lega fyrst og fremst Pútín en það er líka það að NATO skuli halda áfram að seil­ast austar og aust­ar. Það má nátt­úru­lega líta á það sem ögrun. Mér finnst þetta alveg gjör­sam­lega út í hött. Hvurs konar heimska, hvurs konar mis­kunn­ar­leysi og vit­leysa.“

Heims­byggðin í vanda þegar fólk sem skortir sam­hygð endar á að stjórna stór­veldum

Fyrir flest venju­legt fólk er lík­lega erfitt að skilja hvernig á því stendur að til séu ein­stak­lingar sem eru til­búnir til að rústa lífum sak­lauss fólks. Geta tauga­vís­indin varpað ljósi á slíkt hug­ar­á­stand og er illska til?

„Sko, það er ýmis­legt sem bendir til þess að illskan sé til,“ segir hann. „Sumt fólk fæð­ist með afskap­lega litlar til­finn­ingar til ann­ars fólks og síns umhverf­is. Við köllum það sið­leys­ingja, sýkópata og svo fram­veg­is. Fólk sem bara fæð­ist fatlað á þann hátt að það hefur enga sam­hygð og til­vera án sam­hygðar markast af illsku.“

Er illska þá skortur á til­finn­ing­um?

„Já og skortur á sam­hygð,“ segir Kári. „Þú getur rétt ímyndað þér hvað það hlýtur að vera dap­ur­legt að vera til án sam­hygð­ar. Án þess að hafa vænt­um­þykju sem hluta af þínu lífi. Það hlýtur að vera mjög erfitt og sárs­auka­fullt og við verðum að finna leið til þess að hlúa að þannig fólki. Ekki bara fyll­ast af heil­agri vand­læt­ingu og refsa því. Við verðum að reyna að koma þeim á rétta braut,“ segir hann. „En þegar að svona fólk endar á því að stjórna stór­veldi eins og Rúss­landi þá erum við í svolitlum vanda.“

Kári telur að lífið hljóti að vera dapurlegt án samhygðar. „Án þess að hafa væntumþykju sem hluta af þínu lífi. Það hlýtur að vera mjög erfitt og sársaukafullt og við verðum að finna leið til þess að hlúa að þannig fólki.“
Hrafna Jóna Ágústsdóttir

Margir efuð­ust fram á síð­asta dag um að Pútín myndi láta verða af því að ráð­ast á Úkra­ínu, vegna þess að það þótti aug­ljóst að inn­rás myndi hafa mjög slæmar afleið­ingar fyrir Rússa sjálfa. En Pútín lét verða af því. Er það ekki sér­stakt áhyggju­efni fyrir heims­byggð­ina hversu óstöð­ugur og óút­reikn­an­legur Pútín virð­ist vera?

„Við erum öll meira og minna óstöðug og óút­reikn­an­leg. En ef okkur er falið það vald í hendur að geta byrjað kjarn­orku­stríð þá erum við komin á mjög skrít­inn stað. Og Pútín virð­ist vera býsna harð­ur, býsna grimm­ur, býsna mis­kunn­ar­laus og með býsna litlar til­finn­ingar til þess heims sem hann býr í.“

Kári telur að stríðið sé ekki háð með vilja rúss­nesku þjóð­ar­inn­ar, heldur sé það ein­stak­ling­ur­inn sem standi að baki stríðs­rekstr­in­um. „Þetta hefur nú ekki reynst gæfu­rík aðferð við að stjórna landi og ég er ekk­ert viss um að hann lifi þetta af. Það er nátt­úru­lega ljótt að segja að maður von­ist til þess að hann lifi þetta ekki af en ein­hvern veg­inn er maður kom­inn á þann stað.“

Vonar að þetta endi ekki með skelf­ingu

For­seti Úkra­ínu, Volody­myr Zel­en­sky, sýndi strax í upp­hafi mikið hug­rekki og ótta­leysi þrátt fyr­ir, það sem margir töldu vera, von­lausa stöðu Úkra­ínu. Eða hefur hann sýnt fífldirfsku á móti kjarn­orku­veld­inu Rúss­landi?

Kári bros­ir. „Þessi gamli uppi­stand­ari sem allt í einu er orð­inn for­seti Úkra­ínu og stendur sig svona rosa­lega vel,“ segir hann. „Sá sem lítur á eitt­hvað sem hetju­dáð er að vissu leyti að búa til hetju­dáð­ina en í til­felli Zel­en­skys þá eru menn ansi sam­mála um að hann sé að sýna mik­inn kjark, dugnað og svo fram­veg­is. Við skulum bara vona að þetta endi ekki með skelf­ing­u.“

Zel­en­sky hefur blásið von og kjarki í úkra­ínsku þjóð­ina og í raun í stóran hluta heims­byggð­ar­inn­ar. Um leið hefur hann komið öðru af tveimur stærstu kjarn­orku­veldum heims í opna skjöldu.

„Já, já,“ segir hann. „Sko, hann hrífur mann, það er engin spurn­ing um það og maður verður rosa­lega mont­inn af hon­um. En sko, þetta er samt svo ofboðs­lega flók­ið. Ef þú veltir þessu fyrir þér, þegar Rússar réð­ust inn í Úkra­ínu, hvað hefð­irðu viljað gera? Menn segja Pútín hafa gert ráð fyrir að geta bara rúllað inn í Úkra­ínu og þetta væri bara allt búið. Nú getur hann það ekki og við fyllt­umst stolti yfir hug­rekki og dugn­aði Úkra­ínskrar þjóð­ar. En þetta hug­rekki og þessi dugn­aður gæti verið það sem leiðir til kjarn­orku­stríðs þannig að þetta er mjög flókið hvernig maður á að hugsa um þetta, þó að ég sé nátt­úru­lega þannig gerður að ég er voða fegin því að þeir eru að berj­ast á móti Rúss­unum en ekki láta þá rúlla yfir sig.“

„Sko, hann hrífur mann, það er engin spurning um það og maður verður rosalega montinn af honum,“ segir Kári um forseta Úkraínu Volodymyr Zelensky.
EPA

„Ógn­ar­jafn­vægi“ er ógn­ar­vald í höndum óþverra

Fyr­ir­fram töldu margir að Úkra­ínu­menn yrðu að gef­ast upp strax en eins og þú segir þá er hart barist á móti Rússum og stríðs­rekstur þeirra hefur ekki gengið sam­kvæmt áætl­un. Hins vegar styður stór hluti alþjóða­sam­fé­lags­ins Úkra­ínu með ráðum, dáð og vopna­send­ing­um. Eitt af því sem flækir stöð­una er að Pútín hefur fyr­ir­skipað hernum að setja kjarn­orku­sveitir í við­bragðs­stöðu og banda­rískir emb­ætt­is­menn telja sumir hverjir að slæmt gengi Rússa geti aukið líkur á að Pútín beiti kjarn­orku­vopn­um.

„Sko, þessi hug­mynd um að það sé hægt að við­halda friði í heim­inum með ógn­ar­jafn­vægi, það er að segja með því að hafa kjarn­orku­vopn hjá Banda­ríkja­mönnum og Rússum, manni er alger­lega ljóst núna að það bara virkar ekki vegna þess að það þarf ekki nema bara ein­hvern óþverra öðrum megin og hann hótar því að nota vopnin og þá getur hann leyft sér allt.“

Vonin sótt í smiðju sög­unnar

Und­an­farna daga hafa birst fréttir af frið­ar­við­ræðum Rúss­lands og Úkra­ínu. Zel­en­sky hefur sætt sig við að Úkra­ína verði ekki með­limur NATO en á sama tíma kemur Pútín fram á leik­vangi í Moskvu, þar sem hann segir að Rúss­land muni ná öllum sínum mark­miðum í Úkra­ínu. Banda­rískir emb­ætt­is­menn ótt­ast að þetta gæti þýtt harð­ari aðgerðir Rússa, jafn­vel beit­ingu efna­vopna. Á meðan á öllu þessu stendur eru margir borg­arar Úkra­ínu fastir heima­fyrir án raf­magns, matar og vatns. Íbúar sem kom­ast ekki í burtu vegna þess að Rússar hafa ekki staðið við vopna­hlé. En mann­kyns­sagan geymir sögur sem veita von um að það sé ekki algilt að hinir sterku taki það sem þeir vilja og hinir veiku verði að þjást. Bar­átta fólks í veikri stöðu hefur borið árangur og veitir þeim sem á eftir koma von.

„Fyrir nokkrum dögum hringdi ég í vin minn sem er tón­list­ar­maður og sagði ,,nú verður þú að setj­ast niður og syngja þína útgáfu af lag­inu We Shall Overcome eftir Charles Albert Tind­ley’’, og ég breytti text­anum pínu­lítið fyrir hann. Og nú erum við búin að fá fullt af tón­list­ar­mönnum til þess að syngja sína útgáfu af þessum gamla bar­áttu­söng, sem upp­haf­lega var kaþ­ólsk bæn, sem síðan Mart­einn Luther King gerði að bar­áttu­söng svartra í Banda­ríkj­un­um,“ segir Kári.

Á þessum tíma­punkti opnar Kári tölv­una sína og snýr henni að blaða­manni. Svo hljóm­aði lagið We Shall Overcome, með aðlög­uðum texta Kára.

Texti: Charles Albert Tind­ley, aðlag­aður af Kára Stef­áns­syni.

„Og nú ætlar Ellen Krist­jáns­dóttir og dætur hennar þrjár að syngja sína útgáfu af þessu lagi og síðan ætlar Eyþór Gunn­ars­son, mað­ur­inn henn­ar, að spila hljóð­færa-­út­gáfu af lag­inu á píanó. Svo á að koma þessu öllu til útvarps­stöðva í Úkra­ín­u,“ segir hann.

„Þetta eru svo flottir krakk­ar. Það eina sem ég gerði var að hringja í þau og segja „þetta er lagið sem þið eigið að syngja“.“

Kári lítur á úrið. Klukkan er korter í eitt. Hann á að vera mættur á fund klukkan eitt og á eftir að borða hádeg­is­mat. „En nú þarf ég að fara,“ segir hann og áður en blaða­maður nær að standa upp, er hann horf­inn.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiViðtal