Breiður af sólarsellum eru að verða sífellt algengari sjón víða í Evrópu. Kalla mætti þetta sólvanga, svona til jafns við „vindorkugarða“ eða „vindorkulundi“ líkt og fyrirtæki í þeirri orkustarfsemi gera gjarnan. Sólvangarnir eru í að margra áliti tákn um nýja tíma, um framfaraskref í átt að grænni framtíð. Í nýlegri könnun Evrópska fjárfestingarbankans kom í ljós að mikill meirihluti fólks (80 prósent) sem býr í löndum Evrópusambandsins segist finna fyrir loftslagsbreytingum á eigin skinni í sínu daglega lífi. Sumar öfga í veðri er enda að baki, þar sem hitabylgjur og þurrkar hafa herjað á mörg ríki.
Frá maí og til ágústloka í ár var 12 prósent alls rafmagns innan ESB framleitt með sólarorku. Það er algjört met og mun hafa sparað ríkjunum tæpa 30 milljarða evra í kaup á gasi. Gasi sem Rússar framleiða einna mest af og sem Evrópa notar einna mest af. Þessa stöðu hafa rússnesk stjórnvöld nýtt sér til að forðast allsherjar viðskiptabann í kjölfar innrásar sinnar í Úkraínu í byrjun árs.
Mjög misjafnt er hins vegar milli ríkja Evrópu hversu mikil orka var unnin úr sólinni í sumar. Hlutfallið var hæst í Hollandi (23 prósent), Þýskalandi (19 prósent) og í sólskinsríkinu Spáni (17 prósent). Grikkir bera hins vegar höfuð og herðar yfir ESB-löndin þegar kemur að því að nota endurnýjanlega orkugjafa og í sumar náðu þeir því markmiði að framleiða allt sitt rafmagn úr slíkum orkuuppsprettum – þótt það hafi aðeins verið staðan í fimm klukkustundir. Pólverjar eiga hins vegar metið í mestri aukningu á virkjun sólarorku en nýting hennar hefur 26-faldast frá árinu 2018. Finnland og Ungverjaland eru á svipaðri braut.
Stórhuga áform
Og þetta er engin tilviljun því ef ná á því markmiði að halda hlýnun jarðar frá upphafi iðnbyltingar undir 1,5 gráðum er reiknað með að nífalda þurfi sólarorkuframleiðslu í Evrópu til ársins 2035, að mati evrópsku hugveitunnar Ember.
Evrópuþingið og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafa sett sér þau markmið að 45 prósent af orkuframleiðslunni komi frá endurnýjanlegum orkugjöfum fyrir árið 2050. En sum aðildarríkin segja útilokað að ná því og vilja að markmiðin verði lækkuð í 40 prósent. Og til að þessi markmið náist þarf mikla sólarorku og mikla vindorku.
Flestir líta svo á að það sé af hinu góða að auka við sólarorkuna. Flestir íbúar ESB eru til dæmis áfram um að fleiri sólvangar verði settir upp til að stemma stigu við neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga. Einn þeirra, svo dæmi sé tekið, hefur þegar verið reistur í 2.500 metra hæð í Ölpunum í Sviss. Þeir geta verið nánast alls staðar þar sem sólin skín.
En vill fólk hafa þá alls staðar?
Nei, og stjórnmálamenn eru vissulega ekki á einu máli þar um. Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, sagði m.a. fyrir nokkru að hann vildi ekki sjá „stóra hluta okkar besta landbúnaðarlands tapast undir sólvanga“.
Á það hefur hins vegar verið bent að eins og staðan er í dag þekja þeir um 0,1 prósent Bretlandseyja – mun minna land en golfvellir, svona sem dæmi.
Á meginlandi Evrópu er sólarorkuver að finna á margvíslegum stöðum. Vissulega á gömlum landbúnaðarsvæðum, en líka hátt uppi í fjöllum við miðlunarlón og á ónýttu landi meðfram lestarteinum og vegum. Sem og auðvitað víðar.
Ein ástæða þess að nýting sólarorku er á allra vörum þessi misserin er sú að sólarsellur eru orðnar mun ódýrari en þær voru fyrir um áratug. Svokölluð „ljósspennuaðferð“ (e. Photovoltaics) við föngun sólarorkunnar er líka eins og fyrr segir möguleg mjög víða. Meira að segja inni í miðri Svíþjóð.
Gígavatts-löndin
Sambandið SolarPower Europe, sem í eiga sæti fulltrúar ESB-ríkja, hefur ákveðna skilgreiningu þegar kemur að stórframleiðendum rafmagns úr sólarorku. Löndin sem mest virkja þá orku eru kölluð „gígavatts-löndin“ og er þar átt við þau sem eru með sólarorkuver sem samanlagt eru að minnsta kosti 1 gígavatt að afli eða á pari við afl eins kjarnakljúfs. Með 1 GW er hægt að framleiða rafmagn fyrir um 300 þúsund heimili, segir í grein Euronews um málið.
Þýskaland, Holland og Spánn eru komin þangað. Þau eru líka stór og geta fengið góð tilboð í stóra sólvanga. Danmörk er einnig á lista yfir „gígavatts-löndin“ og Ítalía, Svíþjóð og Belgía eru í þann veginn að ná þeim mörkum.
Sólvangar hafa ýmsa kosti. Það er fljótlegt að setja þá upp þegar tilskilin leyfi eru komin. Þeir vinna vel með vindorkuverum og vatnsaflsverum en framleiðsla í öllum þessum orkuverum sveiflast með veðri og vindum. Og birtu.
Þeir eiga ekki heima alls staðar að mati almennings og stjórnvalda en hvert ríki ESB setur sínar reglur um hvar orkuvinnsla á að vera. Framkvæmdastjórn ESB hefur hins vegar hvatt aðildaríkin til að vinna að skipulagi vegna sólarorkuvera, að skoða og ákveða hvar hægt er að koma þeim fyrir.
En sólarorkuver eru ekki án umhverfisáhrifa. Þau taka mikið pláss. Af þeim er sjónmengun, þau gjörbylta ásýnd lands, og geta haft áhrif á líffræðilega fjölbreytni sem er einn lykilþáttur í því að vernda vistkerfi heimsins og þar með loftslagið. Því er svo mikilvægt að vandað sé til verka þegar þeim eru valdir staðir.
Sólarsellur geta veitt skjól
Sunak hefur áhyggjur af landbúnaðarlandi en margir sérfræðingar í sólarorkuverum vilja meina að sólarsellur á ræktarlandi geti jafnvel stutt við vöxt og viðgang plantna. Þær geti til dæmis gefið plöntum skjól fyrir brennandi sólinni í hitabylgjum.
Tilraunir með þetta eru þegar hafnar, m.a. í Þýskalandi og Frakklandi. SolarPower Europe segja rannsóknir sýna að líffræðileg fjölbreytni geti við ákveðnar aðstæður aukist með því að setja niður sólarsellur.
Einnig er hægt að nota sólarsellur sem hljóðmanir, þ.e. að segja: Koma þeim fyrir í nágrenni umferðarþungra vega. Þetta hefur m.a. verið gert í Hollandi og Sviss. Þessar svokölluðu „sólarorku-hraðbrautir“, sem vinna á skipulega að á næstu árum, gætu orðið um 55 GW að afli.
Bláir sólvangar
Í Rúmeníu, Póllandi og Búlgaríu hefur sólarorkuverum verið komið fyrir í aflögðum kolanámum.
Þá hafa Portúgalir gert tilraunir með að koma upp „bláum sólvöngum“, fljótandi sólarorkuverum á vatni. Stærst slíka vera í heimi hefur verið reist í Alqueva-uppistöðulóninu.
En sólarorkuver hafa ekki aðeins áhrif á ásýnd lands og landnotkun. Í hverri einustu sólarsellu er að finna sjaldgæf jarðefni, málma og annað, sem í fyrsta lagi eru einmitt sjaldgæf en í öðru lagi í einhverjum tilvikum unnin úr jörðu í ríkjum á borð við Austur-Kongó þar sem mannréttindabrot eru framin á starfsmönnum í námuvinnslu. Og þessi námuvinnsla skilur eftir sig spor. Til hennar eru notaðar vélar sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Flytja þarf efnin frá upprunastað með skipum eða flugvélum sem nota jarðefnaeldsneyti.
Þetta kolefnisfótspor sólarsella fer eðli málsins samkvæmt eftir því hvar þær eru framleiddar og hversu mikið jarðefnaeldsneyti þarf til framleiðslunnar. Sem dæmi þá voru 64 prósent allrar raforku í Kína framleidd með kolum árið 2020. Og meira en 60 prósent allra sólarsella sem framleiddar eru koma einmitt frá því landi. Það er því ljóst að kol eru í stórum stíl notuð til framleiðslu á sólarsellum.
Efnin geta svo verið mengandi. Sólarsellur eru flókin fyrirbæri. Það þarf jú mjög sérstaka tækni við að vinna raforku úr sólarljósi. Í þeim er því að finna margvísleg efni, sum hættuleg mönnum og öðrum dýrum eða vistkerfum í heild. Má þar nefna efnasamsetningar á borð við koparseleníð (copper selenide), þungmálminn kadmíum telluríð (Cadium Telluride) og brennisteinssýru.
Að síðustu þá eru fáar góðar leiðir til að endurvinna þau efni sem notuð eru í sólarsellum. Þær enda því, að minnsta kosti sem komið er, flestar sem landfyllingar. Sem er auðvitað ekki sjálfbært og taka þarf með í reikninginn þegar talað er um slík orkuver sem „umhverfisvæn“ og „græn“.
Sólarorka er vissulega endurnýjanleg. En öflun hennar gengur á aðrar auðlindir, auðlindir sem sumar eru af skornum skammti og ekki eru endurunnar – endurnýttar – nema að mjög litlu leyti. Metnaðarfull áform hafa verið viðruð til að breyta þessu.
Það sem hins vegar er oft bent á er að vinnsla kola, olíu og gass er líka mengandi. Til hennar eru einnig notuð hættuleg efni og losun gróðurhúsalofttegunda við bruna þeirra eru svo auðvitað gríðarleg.
Þannig að í þessum samanburði hafa sólarsellur vinninginn. Og sé nýting þeirra góð og þær notaðar eins lengi og mögulegt er, er ávinningurinn mikill.