Spenna í hagkerfinu - haftalosun og kjaradeilur í algleymingi

verkamenn.jpg
Auglýsing

Íslensk stjórnvöld vinna nú að því að losa um fjármagnshöft, sem sett voru á með lögum í nóvember 2008, og leysa úr greiðslujafnaðarvandanum sem stafar af þrotabúum hinna föllnu banka. Nákvæm útfærsla á því hvernig leyst verður úr stöðunni liggur ekki fyrir opinberlega ennþá, en samkvæmt fréttum Morgunblaðsins frá því í morgun, áttu Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, fund með Lee Bucheit, ráðgjafa stjórnvalda, fram á kvöld í gær þar sem farið var yfir stöðu mála.

Rætt hefur verið um útgönguskatt, eða stöðugleikaskatt eins og forsætisráðherra orðaði það á landsþingi Framsóknarflokksins um liðna helgi, en honum er ætlað, í einföldu máli, að slá á þrýsting á krónuna, vegna krónueignar erlendra aðila, þar á meðal slitabúa hinna föllnu banka. Ríkissjóður gæti með þessari aðgerð fengið umtalsverða fjármuni til sín í gegnum skattinn, líklega upphæðir sem nema hundruð milljörðum króna, allt eftir því hversu hár skatturinn verður og hvernig útfærslan verður nákvæmlega útlistuð. Samhliða yrði leyst úr greiðslujafnaðaráhættu sem þessum þrýstingi hefur fylgt allt frá hruni.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Tekur langan tíma


Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, lét hafa eftir sér á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í gær, að það væri ekki svo að höftin yrðu farin í júní, heldur myndi losun hafta taka lengri tíma. Á næstunni verði þó stigin stór skref, þar sem rýmkað verður fyrir gjaldeyrisviðskipti einstaklinga og fyrirtækja, en um leið verði tæki innleidd sem gefa seðlabankanum færi á að stýra ferðinni, stjórna fjármagnshreyfingunum inn og út úr þjóðarbúinu, með  það að markmiði að vernda stöðugleika í hagkerfinu. Eins og fram hefur komið hjá seðlabankastjóra, Má Guðmundssyni, þá er þessi staða fordæmalaus í hagsögunni, þegar litið er til hlutfallslegra stærða í samhengi við landsframleiðslu Íslands. Eignir slitabúanna nema um 2.500 milljörðum króna, en þar á meðal eru 95 prósent eignarhlutur í Íslandsbanka, og 87 prósent eignarhlutur í Arion banka. Árleg landsframleiðsla nemur um 1.900 milljörðum.

Kjaradeilur í algleymingi


Á sama tíma og stjórnvöld vinna nú að því að losa um fjármagnshöftin, þá eru kjaradeilur á vinnumarkaði í algleymingi. Félagsmenn BHM eru í verkfallsaðgerðum, og við blasa verkfallsaðgerðir hjá verkalýðshreyfingunni. Starfsgreinasambandið (SGS) er með þær í undirbúningi, og það sama má segja um fleiri stéttarfélög. Kröfurnar sem uppi eru, og hafa verið nefndar, eru órafjarri þeim sem Samtök atvinnulífsins telja sig geta mætt.

Auglýsing

Eins og Kjarninn hefur bent á áður þá er rík krafa um það hjá verkalýðshreyfingunni að lægstu laun verði hækkuð myndarlega, og hafa samningar ríkisins við lækna, þar sem samið var um meira en 20 prósent hækkun launa, haft mikil áhrif á kröfugerð stéttarfélaga og andann í samningaviðræðunum yfir höfuð. Þetta staðfesta viðmælendur beggja megin borðsins. Hjá SGS hefur krafan verið sú að lægstu laun verði hækkuð í 300 þúsund en þau eru 214 þúsund í dag. Hækkunin á að koma fram á þremur árum, en meðal mánaðarlaun þessa hóps hafa verið sögð meira en 400 þúsund krónur þegar allt er talið.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA. Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA.

Ólíkar kröfur eftir félögum


Flóabandalagið hefur sett fram kröfur um 35 þúsund króna hækkun lægstu byrjunarlauna. Auk þess sem þau verði leiðrétt miðað við hækkanir hjá öðrum umfram forsendur síðustu kjarasamninga. Formaður Eflingar og talsmaður Flóabandalagsins, Sigurður Bessason, hefur látið hafa eftir sér að Flóabandalagið geri kröfu um þessa hækkun á einu ári, einfaldlega vegna þess að þau treysti ekki stjórnvöldum og því sé ekki hægt að semja til lengri tíma. Þegar allt er talið telja Samtök atvinnulífsinss að kröfur Flóabandalagsins feli í sér 17,5-22% hækkun launataxta, og þeim sé ekki hægt að mæta.

Hjá Verzlunarmannafélagi Reykjavíkur (VR) er uppi krafa um 50 þúsund króna launaþróunartryggingu. Það þýðir um 20% hækkun þeirra sem lægstu laun hafa. Samkvæmt heimildum Kjarnans er horft til þess að semja til tólf mánaða. Samtök atvinnulífsins hafa lýst yfir áhyggjum, sem snúa því að krónutöluhækkanir taxta, sem samið yrði um, fari upp allan launaskalann, og þannig geti þeir sem hæstu launin hafa í reynd fengið meiri krónutöluhækkun en aðrir. Þessu hafa forsvarmenn VR hafnað, og tala fyrir nauðsyn þess að hækka launin hjá þeim sem minnst hafa. Einblína á þann hóp, enda séu félagsmenn VR upp til hópa ekki hluti af hálaunastéttum í landinu.

Iðnaðarmenn og stéttarfélög þeirra hafa gert almenna kröfu um tuttugu prósent launhækkun. Þar af um um 100 þúsund króna hækkun lægstu taxta. Kröfur hafa verið uppi um enn meiri hækkanir hjá Matvís, félagi iðnaðarmanna í matvæla- og veitingageiranum, sem eru með lægri taxta en hinir hópar iðnaðarmanna eins og mál standa nú. Líkt og hjá hjá Flóabandalaginu og VR, hefur verið horft til þess að semja aðeins til tólf mánaða.

Stjórnvöld í slæmri samningsstöðu eftir niðurlægjandi tap


Eftir að stjórnvöld töpuðu máli sem þau höfðuðu fyrir Félagsdómi, til að reyna að koma í veg fyrir verkfallsaðgerðir félagasmanna BHM, er staðan í kjaraviðræðunum snúin og flestir viðmælendur Kjarnans eru á því, að hún sé stjórnvöld mjög í óhag. Traustið í garð þeirra er lítið, á sama tíma og sigurinn í dómsmálinu þjappaði fólkinu innan BHM enn meira saman. Kröfur hafa verið gerðar í viðræðunum, um að lægstu laun hækki úr 265 þúsund í 400 þúsund. Í tilfelli einstakra stéttarfélaga innan BHM er gerð krafa um meiri hækkanir. Helstu rök fyrir kröfum BHM eru þau, að margar háskólamenntaðar stéttir hafi setið eftir í launaþróun undafarinna ára, eins og gögn sýna, og síðan að stjórnvöld hafi þegar gefið tóninn um hvernig skuli horft til kröfugerðar um þessi mál með samningum við lækna og kennarastéttir sömuleiðis. BHM hefur horft til þess að semja til þriggja ára en eins og mál standa nú eru samningar órafjarri, samkvæmt heimildum Kjarnans.

Svipaða sögu er að segja af kröfum BSRB, sem meðal annars er með SFR innan sinna vébanda, nema hvað rætt hefur verið um að semja til tólf mánaða, og þá um hækkun sem er í kringum 17 til 20 prósent. Auk þess sem rætt hefur verið um styttingu vinnuviku, breytt starfsfyrirkomulag og fleiri atriði sem snúa að því.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, er undir pressu félagsmanna sinna fyrir komandi kjarasamninga. Þeir vilja fá myndarlega launahækkun, í takt við það sem stjórnvöld hafa samið um að undanförnu. Meðal annars ríflega 20 prósent hækkun launa hjá læknum. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, er undir pressu félagsmanna sinna fyrir komandi kjarasamninga. Þeir vilja fá myndarlega launahækkun, í takt við það sem stjórnvöld hafa samið um að undanförnu. Meðal annars ríflega 20 prósent hækkun launa hjá læknum.

Mikil samstaða - sátt órafjarri


Mikil samstaða hjá verkalýðsforystunni hefur einkennt samningaviðræðurnar til þessa, jafnvel þó kröfur einstakra stéttarfélaga séu ólíkar innbyrðis. Samstaðan er um að kvika ekki frá kröfunum, og ná fram mikilli launahækkun í þetta skiptið. Á meðan eru Samtök atvinnulífsins hörð á því, að ekki sé hægt að semja um þær kröfur sem lagðar hafa verið fram. Hagkerfið einfaldlega geti ekki staðið undir þeim.

Ljóst er að ríkisstjórninni er mikill vandi á höndum við að „vernda stöðugleikann“, eins og Bjarni Benediktsson hefur talað fyrir, á meðan stöðugleikinn í kjaraviðræðunum, bæði hjá þeim sem starfa hjá hinu opinbera og á almennum vinnumarkaði, er einkum fólginn í því að vera stöðugt ósammála viðsemjendum í öllum meginatriðum um samningsgrundvöllinn og hvað sé hægt að semja um.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Sjókvíaeldi hefur aukist hratt á síðustu árum
Sjókvíaeldi hefur 13-faldast á sex árum
Umfang laxeldis hefur margfaldast á síðustu árum og útlit er fyrir að það muni vaxa enn frekar í náinni framtíð. Gangi spár eftir mun sjókvíaeldi á laxi árið 2023 verða tæplega helmingi meira en það var samanlagt á árunum 2010-2018.
Kjarninn 7. maí 2021
Eldgos hófst í Geldingadölum í Fagradalsfjalli þann 19. mars síðastliðinn.
„Nýr ógnvaldur“ við heilsu manna kominn fram á suðvesturhluta Íslands
Lungnalæknir segir að lítið sé vitað um langtímaáhrif vegna gasmengunar í lágum styrk til lengri tíma og áhrif kvikugasa í mjög miklum styrk í skamman tíma á langtímaheilsu. Nauðsynlegt sé að rannsóknir hefjist sem fyrst.
Kjarninn 7. maí 2021
Viðsnúningur Bandaríkjanna í óþökk lyfjarisa
Óvænt og fremur óljós stefnubreyting Bandaríkjanna varðandi afnám einkaleyfa af bóluefnum gegn COVID-19 hefur vakið litla kátínu í lyfjageiranum. Deildar meiningar eru um hvort afnám einkaleyfa kæmi til með að hraða framleiðslu bóluefna.
Kjarninn 7. maí 2021
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Ísland skoðar að kaupa 100 þúsund skammta af Spútnik V og vill fá þorra þeirra fyrir 2. júní
Viðræður hafa átt sér stað milli fulltrúa íslenskra stjórnvalda og þeirra sem framleiða og markaðssetja hið rússneska Spútnik V bóluefni. Ísland myndi vilja fá að minnsta kosti 75 þúsund skammta fyrir 2. júní.
Kjarninn 7. maí 2021
Tæknivarpið
Tæknivarpið
Tæknivarpið – Sonos fær uppreist æru og Framsóknarmaður vill aldurstakmark á snjalltæki
Kjarninn 7. maí 2021
Bólusetningar ganga nú mjög hratt fyrir sig á Íslandi og samhliða dregur úr takmörkunum.
Fjöldatakmarkanir hækkaðar í 50 manns frá og með næsta mánudegi
Opnunartími veitingastaða verður lengdur um klukkustund, leyfilegur fjöldi í verslunum tvöfaldast, fleiri mega vera í sundi og fara í ræktina. Grímuskylda verður hins vegar óbreytt.
Kjarninn 7. maí 2021
Skálað á kaffihúsi í Danmörku.
Ýta við ferðaþjónustunni með 32 milljarða króna „sumarpakka“
Danska ríkisstjórnin ætlar að setja 1,6 milljarða danskra króna, um 32 milljarða íslenskra, í „sumarpakka“ til að örva ferðaþjónustu landsins.
Kjarninn 7. maí 2021
Kvótinn um 1.200 milljarða króna virði – Þrjár blokkir halda á tæplega helmingi hans
Miðað við síðustu gerðu viðskipti með aflaheimildir þá er virði þeirra langtum hærra en bókfært virði í ársreikningum útgerða. Í næstu viku munu örfáir eigendur útgerðar selja tæplega 30 prósent hlut sinn í henni.
Kjarninn 7. maí 2021
Meira eftir höfundinnMagnús Halldórsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None