Meðan unnið er að afnámi eða rýmkun fjármagnshafta, er eðlilegt að beina spjótunum að íslenska bankakerfinu og hvernig innviðir þess eru um þessar mundir í hinni fölsku veröld haftabúskapar. Samkvæmt nýjustu birtu hagtölum Seðlabanka Íslands blasir við mynd af bankakerfi sem er svo gott sem einangrað frá alþjóðamörkuðum, og sækir fjármögnun nær eingöngu til almennings og íslenskra fyrirtækja í formi innlána. Eigið fé hefur byggst hratt upp í bönkunum, og er það álitið með sterka stöðu í augnablikinu, samkvæmt upplýsingum sem birst hafa Peningamálum Seðlabanka Íslands.
Ómögulegt er að um það að spá hvernig heimili og fyrirtæki munu bregðast við, þegar stjórnmálamenn munu rýmka eða afnema höftin sem þeir komu á með lögum í nóvember 2008. Á endanum er það alltaf pólitísk aðgerð stjórnmálamanna að rýmka eða afnema fjármagnshöft, enda eru þau bundin við lagatexta sem Alþingi samþykkti inn í lög. Hversu margir munu færa sparnað sinn til þegar höftin verða rýmkuð eða afnumin? Það er spurning sem erfitt er að svara, en ekki síst í ljósi þess skiptir máli hvernig innviðir bankakerfisins eru núna, tæplega sex og hálfu ári eftir hrun Kaupþings, Landsbankans og Glitnis, og endurreisn nýs kerfis á þeim grunni.
Eignahliðin
Heildareignir innlánsstofnana, það er endurreistu bankanna og annarra innlánsstofnanna, námu rúmlega þrjú þúsund milljörðum króna í lok desember 2014 og lækkuðu um 128,9 milljarða í þeim mánuði. Af heildareignum námu innlendar eignir 2.625,2 milljörðum og lækkuðu um 59 milljarða í mánuðinum. Erlendar eignir innlánsstofnana námu 392,9 milljörðum og lækkuðu um 69,9 milljarða í desember, samkvæmt hagtöluyfirliti Seðlabanka Íslands.
Skuldahliðin
Skuldir innlánsstofnana námu 2.423,7 milljörðum í lok desember og lækkuðu um 135,9 milljarða í mánuðinum. Þar vega langsamlega þingst innlánsskuldbindingar. Innlendar skuldir námu 2.274,6 milljörðum og lækkuðu um 129,4 milljarða í mánuðinum. Erlendar skuldir innlánsstofnana námu 149,1 milljörðum og lækkuðu um 6,5 milljarða í desember. Eigið fé innlánsstofnana nam 594,4 milljörðum, í lok desember og hækkaði um sjö milljarða króna. Það er upphæð sem nemur tæplega þriðjungi af árlegri landsframleiðslu Íslands, sem nam ríflega 1.800 milljörðum króna 2013, og telst það vera hátt í alþjóðlegu samhengi.
Ný útlán námu 272,2 milljörðum í desember þar af eru verðtryggð lán 44,3 milljarðar, óverðtryggð lán 123,3 milljarðar, gengisbundin lán 101,3 milljarðar króna og eignarleigusamningar 3,3 milljörðum, samkvæmt upplýsingum seðlabankans. Ný útlán að frádregnum uppgreiðslum og umframgreiðslum námu 5,4 milljörðum.
Lífeyrissjóðirnir með háar fjárhæðir í innlánum
Fjármagnshöftin hafa haft mikil áhrif á lífeyrissjóðakerfið. Heildareignir þess nema rúmlega þrjú þúsund milljörðum, erlendar eignir, aðallega bundnar í verðbréfum, nema rúmlega 660 milljörðum og íslenskar eignir eru um 2.100 milljarðar króna. Lífeyrissjóðirnir eiga mikla fjármuni í bankainnistæðum, sem gefur ákveðna vísbendingu um hversu erfitt það er fyrir sjóðina að finna fjárfestingamöguleika. Innlán sjóðanna nema ríflega 160 milljörðum króna, en áður en höftin voru lögfest þá var aðeins lítill hluti af þeirri fjárhæð geymdur í innlánum eins og meðfylgjandi mynd sýnir.
Stóra spurningin er sú, hvernig þróun innlána í bankakerfinu verður þegar höftin verða rýmkuð eða þau afnumin. Mun fjármagn frá almenningi leita út úr kerfinu í meira mæli en margir reikna með, eða mun lítið breytast? Erfitt er að átta sig á þessu. Hvað lífeyrissjóðina varðar er líklegt að þeir muni þurfi að stýra sínum fjárfestingum samkvæmt regluverki þar um, líkt og kynnt hefur verið í skýrslum Seðlabanka Íslands um þessi mál. Í þeim skilningi verða höftin kannski aldrei afnumin að fullu.
Í skilgreiningum á fjármálamarkaði hefur sparnaður almennings og lífeyrissjóðanna ekki verið talinn vera hluti af hinu svonefndu snjóhengju, það er skammtímakrónueign erlendra aðila hér á landi. Hún nemur nú um 300 milljörðum króna, og hefur minnkað um tæplega 160 milljarða á undanförnum fjórum árum, samkvæmt upplýsingum sem greiningardeild Arion banka tók saman á dögunum eftir að útboðum í tengslum við fjárfestingaleiðina svonefndu lauk.