Íþróttaþvætti og sportþvottur eru þau tvö orð sem helst hafa verið notuð á íslenskri tungu til þess að ná utan um enska hugtakið „sportswashing“, sem felur í sér ríkisstjórnir, fyrirtæki eða aðrir aðilar reyni að bæta ímynd sína með því að tengjast íþróttaviðburðum eða íþróttaliðum og beisla það mjúka vald sem íþróttirnar hafa í dægurmenningu nútímans. Sveigja almenningsálitið sér í vil.
Þetta hugtak hefur verið mikið notað af vestrænum fjölmiðlum í tengslum við heimsmeistaramótið í fótbolta, sem hefst á morgun í Katar, með leik heimamanna gegn Ekvadorum. Skal ef til vill engan undra, þar sem hér er afturhaldssamt ólýðræðislegt ríki, hvar mannréttindabrot eru daglegt brauð, að eyða stjarnfræðilegum upphæðum í að halda fótboltamót og setja upp sparibros framan í heiminn.
Katar 2022 sé dæmi um hart vald, ekki mjúkt
Sumum þykir reyndar að hugtakið sportþvottur nái í reynd ekki utan um það sem er að eiga sér stað í Katar. Helsti íþróttaskríbent breska blaðsins Guardian, Barney Ronay, sagði í nýlegum pistli að HM í Katar snerist ekki um að yfirvöldum þar langaði að Vestur-Evrópubúum líkaði betur við sig, heldur væri mótahaldið úthugsuð geópólitísk öryggisaðgerð af hálfu Katara.
Valdið sem hér væri um að ræða væri „hart íþróttavald“, ekki mjúkt vald ásýndarinnar, og liður í því að tryggja Katar sess á alþjóðasviðinu, ekki síst í öryggissamskiptum við önnur ríki.
Þrátt fyrir að hugtakið sportþvottur hafi fyrst skotið upp kollinum og náð útbreiðslu fyrir einungis rúmum áratug hafa ýmsir viðburðir og atburðir fyrri tíma verið felldir undir þann sama flokk.
Kjarninn rifjaði nokkra þeirra upp, í bland við nýrri dæmi, en óhætt er að segja að sportþvottur hafi færst í aukana upp á hið síðasta.
Þegar Hitler hélt Ólympíuleikana og fékk nasistakveðju frá íslenska hópnum
Árið 1936 var Adolf Hitler búinn að ná traustataki á þýsku samfélagi. Það hafði hann hins vegar ekki árið 1931, þegar Berlín hafði betur en Barselóna á Spáni í baráttunni um að fá að halda Ólympíuleika ársins 1936.
Í aðdraganda leikanna fór fram nokkur umræða utan Þýskalands um hvort æskilegt væri að taka þátt í leikunum vegna stjórnarhátta Hitlers, en svo fór á endanum fá ríki sniðgengu leikana í Berlín. Spánverjar létu reyndar ekki sjá sig.
Það gerðum Íslendingar hinsvegar og heilsaði íslenski hópurinn, sem var óvenjustór þar sem Íslendingum var boðið að senda sundknattleiklið á leikana, meira að segja að nasistasið á setningarathöfn leikanna, sem var áróðurshátíð Hitlers og þriðja ríkis hans.
„Menn hafa velt vöngum yfir því af hverju þetta var gert. En það var að undirlagi fararstjóranna. Annars vegar dr. Björns Björnssonar, aðalfararstjóra sem hallur var undir þriðja ríkið, og hins vegar Ásgeirs Einarssonar. Íþróttamönnunum var í raun fyrirskipað að heilsa að nasistasið allan tímann meðan þeir voru í ólympíuþorpinu og voru margir þeirra ósáttir við það. Fregnir af athæfinu voru birtar hér á landi við misjafnar undirtektir,“ skrifaði Kristinn Haukur Guðnason í fréttaskýringu um för Íslendinga á Ólympíuleika Hitlers í Kjarnann fyrir nokkrum árum.
Þegar herforingjastjórnin í Argentínu tók á móti heiminum
Árið 1978 fór HM í fótbolta fram í Argentínu, einungis tveimur árum eftir að herinn rændi völdum í landinu af lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum. Ákveðið hafði verið heilum tólf árum fyrr að halda keppnina í landinu og fyrirsvarsmenn hjá Alþjóða knattspyrnusambandinu FIFA létu ekki valdarán hersins og pyntingar og dráp hans á pólítískum andstæðingum raska þeim áætlunum.
Herforingjastjórnin, undir stjórn Jorge Rafael Videla, baðaði sig í sviðsljósi keppninnar og lagði strax frá því að hún tók öll völd í landinu mikla áherslu á að hún færi fram eins og ákveðið hefði verið. Heimsmeistarakeppnin var skilgreind sem þjóðaröryggismál einungis dögum eftir að herforingjastjórnin tók við stjórnartaumunum í landinu.
„Að halda keppnina mun sýna heiminum að Argentína er traustverðugt land, sem getur tekist á við risavaxin verkefni. Og það mun hjálpa til við að takast á við gagnrýnina sem rignir yfir okkur héðan og þaðan úr heiminum,“ hefur verið haft eftir einum háttsettum foringja stjórnarinnar.
Persaflóaríkin og Evrópufótboltinn
Á undanförnum rúmum áratug hefur það orðið æ algengara að fjárfestingarsjóðir með beinar tengingar við stjórnvöld í vellauðugum olíuríkjum við Persaflóa eignist ráðandi hlut í knattspyrnuliðum í Evrópu og víðar.
Þekktustu dæmin um þetta eru eignarhald Abu Dhabi United Group á Manchester City í Englandi frá 2008, emírsins í Katar á PSG í Frakklandi síðan árið 2011 og nýleg kaup fjárfestingasjóðs Sádi-Arabíu á Newcastle United.
Mannréttindabrotamótaröð golfsins
Golf nýtur sívaxandi vinsælda sem íþrótt. Fjárfestingarsjóður Sádi-Arabíu fór fyrr á þessu ári af stað með nýja alþjóðlega mótaröð, LIV mótaröðina, sem olli miklum usla í golfheiminum. Margir af bestu kylfingum heims ákváðu að taka þátt í hinni nýju mótaröð, til dæmis Phil Mickelson, Sergio Garcia og Dustin Johnson.
Verðlaunaféð sem boðið er upp á er afar hátt í samanburði við helstu golfmótaraðir heimsins – en gagnrýnendur hafa sagt mótaröðina enn eina aðgerð Sáda til þess að öðlast lögmæti og viðurkenningu í augum almennings á Vesturlöndum, og beina sjónum um leið frá mannréttindabrotum sem eiga sér stað í ríkinu.
Pútin, HM í fótbolta og vetrarólympíuleikarnir í Sochi
Vladimír Pútín hefur á undanförnum mánuðum einangrast á heimssviðinu, í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.
Það eru þó ekki mörg ár síðan að hann tók á móti mörgum helstu fyrirmennum annarra ríkja í kokteilboðum vegna bæði vetrarólympíuleikanna í Sochi árið 2014 og HM í fótbolta árið 2018.
Í aðdraganda HM 2018 var rússneska ríkið verið ásakað um að hafa eitrað fyrir Skripal-feðginunum á breskri grundu. Þáverandi forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, bar í kjölfarið HM í Rússlandi saman við ólympíuleika Hitlers í Berlín. Rússnesk yfirvöld sögðu ummælin dæma sig sjálf.
Gianni Infantino, forseti FIFA, kallaði HM í Rússlandi besta mót sögunnar og sagði þá áhorfendur sem mættu á staðinn hafa uppgötvað fallegt land, sem vildi „gjarnan sýna heiminum að allt sem hefðu verið sagt um það áður væri ef til vill ekki satt.“ Fyrirframgefnar hugmyndir fólks hefðu breyst, þar sem fólk hefði séð „hið raunverulega eðli Rússlands“.
Þessi orð hafa ef til vill ekki elst neitt sérlega vel.
Dæmin um sportþvott úr sögunni eru svo að sjálfsögðu mun fleiri – og ef marka má þróun undanfarinna ára eru engar líkur á öðru en að ríkisstjórnir með laskaða ásýnd reyni að bæta hana í gegnum íþróttir, á einn eða annan hátt.