Fjármálaráðherra Grikklands, Yanis Varoufakis, segist vera tilbúinn að gera „hvað sem er“ til þess að ná samkomulagi við kröfuhafa landsins, þar á meðal Evrópusambandsríkin, um breytta skilmála fyrir endurgreiðslu skulda landsins. Breska ríkisútvarpið BBC greindi frá þessu í gærkvöldi.
Fjármálaráðherrar Evrópusambandsríkjanna stóðu upp frá samningaborðinu í gærkvöldi og lét formaður samninganefndar Evrópusambandsins í viðræðunum við Grikkja, Jeroen Dijsselbloem, þau orð falla að nú væri tíminn orðinn naumur. Hann talaði fyrir því að framlengja áætlunina, upp á 240 milljarða evra, sem unnið hefur verið eftir frá því að Grikkjum voru veitt neyðarlán í fjármálakreppunni, fyrst 2010 og síðan aftur 2012. Áætlunin rennur út 28. febrúar, nema að hún hafi þá þegar verið framlengd með samkomulagi milli Grikkja og Evrópusambandsins.
Áætlun eða ekki áætlun, það er spurningin
Það sem helst er deilt um er einkum tvennt. Annars vegar er það krafa Varoufakis og félaga í Syriza flokknum, um að falla frá niðurskurði hjá hinu opinbera og eignasölu ríkisins í Grikklandi, og endursemja um greiðslubyrði skuldanna, og hins vegar kröfur Syriza um frekari afskriftir skulda ríkisins, eða lækkun á höfuðstól þeirra. Dijsselbloem og félagar eru með áhrifaríka og einfalda nálgun á viðræðurnar; höldum okkur við áætlunina, hún er að virka.
We live in a strange world: "Adam Smith Institute calls on Osborne to back Varoufakis's Greek debt-swap plan" http://t.co/aaReZf2EPF
— Yanis Varoufakis (@yanisvaroufakis) February 4, 2015
Auglýsing
Forsvarsmenn samninganefndar Evrópusambandsins hafa bent á að Grikkir hafi sýnt jákvæð efnahagsleg merki, ítrekað, frá því að áætluninni var hrint í framkvæmd og að þessi merki sýni að hún sé að reynast vel. Varoufakis er þessu algjörlega ósammála og segir innviði Grikklands fúna, atvinnuleysi hafi ekkert lækkað og að niðurskurðurinn hjá hinu opinbera hafi veikt almannaþjónustu mikið. Atvinnuleysi í Grikklandi mælist nú tæplega 26 prósent, en meðaltalið í Evrópusambandinu er ríflega ellefu prósent. Varoufakis segir nauðsynlegt að breyta skilyrðum lántöku Grikkja þannig, að greiðslubyrðin sveiflist með næmum hætti í takt við hagvöxt. Það sé ekki raunin nú, og það ráði almenningur í Grikklandi ekki við til lengdar.
Tíminn tikkar
Nú hafa Grikkir ellefu daga til þess að ná samkomulagi við kröfuhafa sína, einkum Evrópusambandið og Seðlabanka Evrópu, annars er voðinn vís. Ýmsir hafa spáð því að nú sé raunveruleg hætta á því að Grikkir yfirgefi evruna, og taki upp eigin mynt á nýjan leika, en Varoufakis hefur talað allt slíkt niður. Grikkir vilji áfram vera hluti af evrunni, en á eigin forsendum.