Viðræðum milli Samtaka atvinnulífsins (SA) og Starfsgreinasambandsins (SGS) hefur nú verið slitið og er SGS þegar byrjað að undirbúa næstu aðgerðir. Félagsmenn eru ríflega tólf þúsund og aðildarfélögin sextán talsins, en SGS sleit viðræðunum þar sem SA voru ekki tilbúin að koma til móts við hugmyndir um hækkun lágmarkslauna upp í 300 þúsund krónur. „Kröfur SGS eru skýrar: Að lægstu laun verði komin upp í 300 þúsund krónur innan þriggja ára svo launafólk hafi möguleika til að lifa af dagvinnulaunum. Það eru mikil vonbrigði að Samtök atvinnulífsins voru ekki tilbúin til að koma til móts við þessar kröfur. Starfsgreinasambandið er því nauðbeygt til að hefja undirbúning aðgerða og leita heimildar hjá sínum félögum til verkfallsboðunar,“ segir í tilkynningu frá SGS vegna þessa. Næsta mál á dagskrá er að aðildarfélögin fái heimildir til þess að boða til verkfalla, til þess að knýja á um betri kjör. Aðildarfélög SGS eru AFL Starfsgreinafélag, Aldan stéttarfélag, Báran stéttarfélag, Drífandi stéttarfélag, Eining-Iðja, Framsýn stéttarfélag, Stéttarfélagið Samstaða, Stéttarfélag Vesturlands, Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðsfélag Grindavíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis, Verkalýðsfélag Snæfellinga, Verkalýðsfélag Suðurlands, Verkalýðsfélag Vestfirðinga og Verkalýðsfélag Þórshafnar. Ljóst er því að verkfallsaðgerðir geta haft víðtæk áhrif.
Horft til húsnæðisliðarins
Ljóst er að kjarasamningsviðræður eru sigldar í strand og viðhorf SA og verkalýðshreyfingarinnar eru gjörólík. SA hefur talað fyrir því að laun geti einungis hækkað um 3,5 til 5 prósent á meðan verklýðshreyfingin, og SGS, horfa til þess að laun geti hækkað um 20 til 30 prósent, einkum hjá þeim sem lægstu launin hafa, og að lágmarkslaun verði 300 þúsund.
Margt fleira hefur þó verið rætt í viðræðunum til þessa, samkvæmt heimildum Kjarnans, og eru þar meðal annars leiðir sem mögulegt væri að fara til þess að bæta hag hins launafólks almennt. Þau atriði snúa meðal annars að málefnum sem heyra undir sveitarfélög og ríki, sem snúa að fasteignamarkaðnum. Hafa SA meðal annars talað fyrir mikilvægi þess að atriði sem þessu tengjast, séu hluti af kjarasamningunum og þannig kallað eftir aðkomu hins opinbera með virkum hætti.
Eygló Harðardóttir, er ráðherra húsnæðismála, og hefur boðað miklar breytingar á húsnæðiskerfinu í átt að danskri fyrirmynd. Ekkert hefur þó komið til framkvæmda ennþá.
Lækka verð á lóðum
Skipta má þessum atriðum í fjóra meginþætti, samkvæmt heimildum Kjarnans. Í fyrsta lagi er að endurskoða byggingarreglugerðir til að lækka byggingakostnað og auðvelda byggingu smærri íbúða. Í öðru lagi er að fá sveitarfélög til að endurskoða áherslur sínar hvað varðar skipulag og lóðaverð, til að stuðla að lægri byggingakostnaði, og á endanum minni verðbólguþrýstingi vegna fasteignaverðs. Í þriðja lagi er samræming vaxta- og húsaleigubóta en ljóst er að húsaleigubætur byrja fyrr að skerðast vegna tekna. Í fjórða lagi er það fyrirkomulag félagslegs íbúðakerfis, og mikilvægi þess að það verði skipulagt í samhengi við samræmda launastefnu verkalýðshreyfingarinnar og SA.
Hvað gerist næst?
Samkvæmt heimildum Kjarnans hafa stjórnvöld miklar áhyggjur af stöðu mála í kjaraviðræðunum, og má búast við því að samtal stjórnvalda með aðilum vinnumarkaðarsins, í anda þjóðarsáttar, verði enn virkara á næstu misserum. Þar verður meðal annars horft til þess hvernig ná má meiri kaupmætti fram með breytingum á húsnæðiskerfinu. En helstu baráttumálin munu þó áfram snúast um krónur og aura, beinar krónutöluhækkanir og hvar línan skuli dregin í þeim efnum.