Klukkan tíu í fyrramálið verður þingfest hópmálsókn fyrrum hluthafa í Landsbanka Íslands gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni, ríkasta Íslendingnum og einum ríkasta manni í heimi. Hluthafarnir fyrrverandi hafa myndað málsóknarfélag og í dag hafa á þriðja hundrað aðilar samþykkt að taka þátt í málinu gegn Björgólfi Thor. Á meðal þeirra eru íslenskir lífeyrissjóðir.
Málshöfðunin verður sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi er lýtur að dómsmálum sem tengjast bankahruninu. Aldrei áður hafa fyrrum hluthafar í íslenskum banka tekið sig saman og stefnt fyrrum aðaleiganda hans fyrir að hafa blekkt sig með saknæmum hætti til að eiga í bankanum. Og krefjast skaðabóta fyrir. Björgólfur Thor hefur ávallt neitað sök og sagt málshöfðunina vera gróðrabrall lögmanna sem að henni starfa.
Kjarninn hefur stefnuna í málinu, sem er 50 blaðsíður að lengd, undir höndum.
Kaupa verðlaus hlutabréf til að taka þátt
Fréttablaðið greindi frá því í morgun að 207 aðilar hafi þegar tilkynnt að þeir taki þátt í hópmálsókninni. Á meðal þeirra Karen Millen, Kristján Loftsson í Hval, Bolli Héðinsson hagfræðingur, Svana Helen Björnsdóttir, fyrrverandi formaður Samtaka iðnaðarins, Lífeyrissjóður verkfræðinga, Lífeyrissjóður starfsmanna íslenskra sveitarfélaga, lífeyrissjóðurinn Stapi og Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Búist er við að það fjölgi í hópnum næstu daga. Samkvæmt heimildum Kjarnans eru fleiri lífeyrissjóðir meðal annars að skoða aðkomu að stefnunni.
Auk þess hafa einhverjir aðilar keypt hlutabréf í Landsbankanum af fyrrum eigendum þeirra til þess eins að geta tekið þátt í málsókninni, en það fellur til kostnaður vegna þátttöku í henni. Kjarninn hefur ekki upplýsingar um hvernig slík hlutabréf eru verðmetin. Þ.e. bréf í banka sem féll fyrir rúmum sjö árum og eru verðlaus.
Kenna blekkingum Björgólfs um tjón sitt
Málsóknarfélagið var stofnað af fjórum fyrrum hluthöfum í Landsbankanum, Vilhjálmi Bjarnasyni alþingismanni, Ólafi Kristinssyni lögmanni, Stapa lífeyrissjóði og Samtökum sparifjáreigenda. Síðan hafa ansi margir slegist í hópinn.
Það krefst þess að skaðabótaskylda Björgólfs Thors á því tjóni sem aðilar að félaginu urðu fyrir þegar hlutabréf í Landsbankanum urðu verðlaus við fall hans 7. október 2008. Í stefnunni kemur fram að félagsmenn byggi málsóknina á því „að þeir hefðu ekki verið hluthafar í Landsbanka Íslands hf. og þar með ekki orðið fyrir tjóni, ef ekki hafði komið til hinnar saknæmu og ólögmætu háttsemi stefnda [Björgólfs Thors]“.
Það sem málsóknarfélagið telur að Björgólfur Thor hafi gert, og hafi ollið þeim skaða, er þrennt. Í fyrsta lagi hafi ekki verið veittar upplýsingar um lánveitingar Landsbanka Íslands til Björgólfs Thors og tengdra aðila í ársreikningum bankans fyrir rekstrarárið 2005 og í öllum uppgjörum eftir það fram að hruni.
Í öðru lagi hafi Björgólfur Thor vanrækt á tímabilinu 30. júní 2006 til 7. október 2008, að „upplýsa opinberlega um að Samson eignarhaldsfélag ehf. [Í aðaleigu Björgólfs Thors og föður hans] færi með yfirráð yfir Landsbanka Íslands hf., og teldist því móðurfélag bankans“.
Í þriðja lagi telur félagið að Björgólfur Thor hafi vanrækt að „sjá til þess að Samson eignarhaldsfélag ehf. gerði öðrum hluthöfum Landsbanka Íslands hf. yfirtökutilboð hinn 30. júní 2006, eða síðar, í samræmi við ákvæði laga um verðbréfaviðskipti“.
Málavextir eru síðan raktir í löngu máli. Nánar tiltekið nær sú upptalning yfir á fimmta tug blaðsíðna.
Ætla að leggja fram mikið magn gagna
Í lok stefnunnar er farið yfir þau sönnunargögn sem málsóknarfélagið hyggst leggja fram til stuðnings máli sínu.
Þar segir að eftirfarandi gögn verði lögð fram við málsmeðferðina: „Samskipti eigenda Samson við FME vegna umsóknar um heimild til að fara með virkan eignarhlut í Landsbankanum og samskipti sömu aðila í tengslum við viðvarandi eftirlit með hæfi eigenda Samson, minnispunkta af fundi hjá PWC sem haldinn var þann 20. október 2005, samskipti í aðdraganda og kaupsamning Samson og Hersis, samskipti starfsmanna Samson og Novators við starfsmenn Landsbankans vegna mats á því hvort stefndi [Björgólfur Thor] skuli teljast tengdur aðili við Landsbankann, samskipti starfsmanna Samson og Novators, við starfsmenn Landsbankans í Lúxemborg og samskipti sömu aðila við starfsmenn lögmannsstofu á Kýpur, yfirlýsingu Björgólfs Guðmundssonar til PWC í janúar 2008, ársreikninga og árshlutareikninga Landsbankans frá 2005.
Ársreikninga Samson frá 2005 til 2008 og ársreikninga Hersis fyrir sama tíma, upplýsingar úr hlutaskrá Landsbankans, sem og skýrslur um eigin hluti bankans, upplýsingar og skjöl vegna aflandsfélaga Landsbankans, endurrit af skýrslum sem gefnar voru fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur“ í máli sem málsóknarfélagið hafði höfðað vegna gagnaöflunnar á árinu 2012.
Sakar Vilhjálm Bjarnason um þráhyggju
Björgólfur Thor tjáði sig um málið á heimasíðu sinni, btb.is, fyrr í dag. Þar sagði hann að störfum hlaðið dómskerfi Íslands þurfi nú að bæta á sig duttlungum Vilhjálms Bjarnasonar. "Málefni mín og bankans hafa verið rannsökuð í þaula af þar til bærum yfirvöldum og ekki talin ástæða til aðgerða í nokkru þeirra. Þar að auki hef ég gert upp allar mínar skuldir við bankann og hann því skaðlaus af viðskiptum við mig. Slitastjórn bankans hefur staðfest að hann eigi engar kröfur á mig. Misfærslum í skýrslu rannsóknarnefndar hef ég svarað ítarlega enda hef ég ekkert saknæmt unnið.
Þráhyggja Vilhjálms Bjarnasonar á sér hins vegar lítil takmörk. Með hana að vopni sér hann rangfærslur og svik þar sem sérfróðir rannsakendur sjá ekkert aðfinnsluvert. Það er illt að dómskerfið þurfi að eyða tíma sínum í slíkan málatilbúnað."