Ríkisstjórnarflokkarnir þrír mælast með 40 til 40,7 prósent sameiginlegt fylgi í tveimur könnunum sem birtar voru í lok árs, annars vegar frá Maskínu og hins vegar frá Prósent. Í kosningunum sem fram fóru haustið 2021 fengu Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Vinstri græn samtals 54,3 prósent fylgi og hafa því tapað rúmum fjórðungi þess á þeim 14 mánuðum sem liðnir eru af kjörtímabilinu.
Samkvæmt könnun Maskínu tapa allir stjórnarflokkarnir fylgi og Sjálfstæðisflokkurinn, sem alla jafna mælist stærsti flokkur landsins, missir þá stöðu yfir til Samfylkingarinnar þótt munurinn sé sáralítill og vel innan skekkjumarka. Fylgistap stjórnarflokkanna þriggja er á bilinu 4,4 til 5,1 prósentustig, minnst hjá Sjálfstæðisflokki en mest hjá Framsókn. Hlutfallslega tapa Vinstri græn þó mestu fylgi, en 38 prósent þess hefur snúið sér annað á kjörtímabilinu.
Í könnun Prósents er staðan aðeins önnur. Niðurstaða hennar er að Sjálfstæðisflokkurinn tapar litlu – rúmu prósentustigi frá síðustu kosningum – en Vinstri græn tæplega helmingi síns fylgis og Framsókn tæplega 40 prósent. Flokkur Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra yrði næst minnsti flokkurinn sem næði inn á þing, ef niðurstaða síðustu könnunar Prósents kæmi upp úr kjörkössunum næst þegar kosið verður.
Samfylkingin tvöfaldast á rúmu ári
Þorri þess fylgis sem rjátlast hefur af stjórnarflokkunum hefur lent hjá tveimur stjórnarandstöðuflokkum, Samfylkingu og Pírötum.
Samfylkingin bætir við sig fylgi milli mánaða samkvæmt báðum könnunum og mælist með 20,1 til 20,5 prósent fylgi. Það er rúmlega tvöfalt meira fylgi en flokkurinn fékk í kosningunum í fyrrahaust, þegar 9,9 prósent landsmanna kusu flokkinn. Í könnun Maskínu gerðist það einnig að Samfylkingin mældist 0,1 prósentustigi stærri en Sjálfstæðisflokkurinn. Mikil fylgisaukning flokksins er tilkomin í kjölfar þess að Kristrún Frostadóttir var kjörinn formaður Samfylkingarinnar í haust. Samhliða formannskjörinu hefur Kristrún boðað nýjar áherslur hjá flokknum. Hægt er að lesa um þær í viðtali Kjarnans við hana hér.
Píratar mælast líka með umtalsvert meira fylgi en þeir fengu í síðustu kosningum, eða 12,5 til 14,3 prósent í stað þeirra 8,6 prósenta sem kom upp úr kjörkössunum 25. september 2021. Fylgisaukningin er 3,9 til 5,7 prósent.
Samanlagt hefur fylgi Samfylkingar og Pírata aukist um 14,1 prósent samkvæmt Maskínu og um 16,3 prósent samkvæmt Prósent. Í síðarnefndu könnuninni er það ekki fjarri sameiginlegu fylgi stjórnarflokkanna þriggja. Samfylkingin og Píratar mælast þar með 34,8 prósent fylgi en stjórnarflokkarnir þrír mælast með 40,3 prósent.
Misvísandi mælingar
Flokkur fólksins fær mjög misvísandi niðurstöðu út úr könnunum tveimur Í könnun Prósents er fylgi flokksins rétt við tíu prósent, og meira en í síðustu kosningum, en í könnun Maskínu er það sjö prósent, og töluvert undir því sem flokkur Ingu Sæland fékk þá.
Sömu sögu er að segja af Miðflokknum, sem rétt skreið inn á þing i kosningunum í september 2021 með 5,4 prósent atkvæða. Hjá Prósent mælist hann með 4,5 prósent fylgi, sem allar líkur eru á að dugi ekki til að ná inn manni, en hjá Maskínu mælist fylgið 6,7 prósent og á uppleið.
Svipað er uppi á teningnum hjá Sósíalistaflokknum, sem fékk 4,1 prósent í síðustu kosningum. Prósent mælir flokkinn á svipuðum stað og þá en Maskína segir 6,1 prósent svarenda styðja Sósíalistaflokkinn, sem myndi skila honum nokkuð örugglega inn á þing.
Könnun Maskínu var lögð fyrir dagana 16. til 28. desember og 1.703 svarendur tóku afstöðu. Könnun Prósents var framkvæmd 22. til 30. desember, var netkönnun með fjögur þúsund manna úrtak og 49,6 prósent svarhlutfalli.