Þótt þingmennirnir á danska þinginu, Folketinget, hafi skellt uppúr þegar félagi þeirra ræddi um Kattegat-tenginguna, eins og hann orðaði það, vöktu orð hans eigi að síður athygli. Ekki bara á þinginu því danskir fjölmiðlar greindu frá þessum orðum þingmannsins. Í kjölfarið birtust í miðlunum vangaveltur um hvernig þessari tengingu yrði háttað, ekki síst hvar „upphafs- og endapunktarnir“ yrðu. Málið var sömuleiðis viðrað á fundum þingflokka og flestir úr hópi þingmanna lýstu sig samþykka því að þessi hugmynd, sem þeim virtist í fyrstu allt að því fráleit, yrði skoðuð betur.
Rétt er að hafa í huga að þegar þingmaðurinn nefndi fyrst Kattegat-tenginguna voru einungis örfá ár síðan Stórabeltisbrúin milli Sjálands og Fjóns var tekin í notkun og fæstir leiddu hugann að því að þörf yrði á að tengja beint saman Sjáland og Jótland.
Flestir lýstu sig samþykka
Vorið 2007 kom Kattegat-tengingin til umræðu í þinginu. Mikill meirihluti þingmanna lýsti yfir stuðningi við að hafin yrði skipuleg athugun varðandi hugsanlega framkvæmd. Kostnaður, staðsetning, þörfin fyrir slíka tengingu og margt fleira. Í umræðum í þinginu var rifjað upp að mörgum árum fyrr fóru danskir og sænskir stjórnmálamenn að tjá sig um nauðsyn annarrar tengingar milli Danmerkur og Svíþjóðar, til viðbótar Eyrarsundsbrúnni sem tekið var í notkun árið 2000.
Helsingjaeyri, Helsingjaborg og Kattegat
Þegar danskir þingmenn ræddu um Kattegat-tenginguna vorið 2007 höfðu sjónir stjórnmálamanna og sérfræðinga fyrir þann tíma fyrst og síðast beinst að Helsingjaeyri Danmerkurmegin og Helsingjaborg Svíþjóðarmegin í því skyni að bæta samgöngur milli landanna. Fjarlægðin milli þessara tveggja borga við Eyrarsund norðanvert er tæpir 5 kílómetrar. Margoft hafði verið rætt um að tengja þessar tvær borgir saman með göngum. Kostnaðurinn var alltaf stóra hindrunin. Nýleg tækni, að leggja göng (risahólk) á sjávarbotninn, er aftur á móti bæði einfaldari og ódýrari en að bora.
Þótt tenging á milli Helsingjaeyrar og Helsingjaborgar myndi létta á umferð um Eyrarsundsbrúna myndi slík tenging stórauka umferð suður Sjáland og yfir Stóra- og Litlabelti. Umferð um þessar brýr er mjög mikil og talið að eftir tiltölulega fá ár, kannski 15-20 verði Stórabeltisbrúin fullnýtt, hún anni þá ekki meiri umferð. Þess má geta að Stórabeltisbrúin, eins og tengingin er ætíð kölluð, er 17 kílómetra löng og samanstendur af tveim brúm, göngum og uppbyggðum vegi. Tenging milli Sjálands og Jótlands yrði miklu lengri, hve miklu lengri færi eftir staðsetningunni. Allt þetta blandaðist inn í Kattegatsumræðuna í danska þinginu.
Niðurstaða þingsins var sú að hefja þegar í stað það sem þingmenn kölluðu hænufet í undirbúningi. Sem sé að samgöngunefnd þingsins hæfi þegar í stað vinnu við mat á hugsanlegri framkvæmd, þeirri vinnu skyldi lokið á nokkrum mánuðum, fyrir haustið 2007. Niðurstaða nefndarinnar var að rétt væri að setja af stað undirbúningsvinnu, sem fyrirséð var að yrði bæði flókin og tímafrek. Sú undirbúningsvinna fór þegar af stað á vegum samgönguráðuneytisins, bankahrunið 2008 tafði vinnuna nokkuð en nefnd ráðuneytisins skilaði áliti, meðal annars grófri kostnaðaráætlun, um áramót 2010-2011.
Til að gera langa sögu stutta lagði þáverandi samgönguráðherra allar fyrirætlanir um Kattegat-tengingu á hilluna snemma árs 2011. Ekki voru allir þingmenn sáttir við þessa ákvörðun en fátt gerðist næstu misserin og engar línur lagðar. Danska vegamálastofnunin vann þó, með samþykki þingsins, ýmis konar undirbúningsvinnu, einkum varðandi staðarval hugsanlegrar tengingar, eins og það var kallað.
Tímamót
Árið 2018 tók danska þingið ákvörðun um að setja kraft í undirbúningsvinnu við hugsanlega tengingu milli Sjálands og Jótlands. Þar með var í raun búið að ákveða að ráðast í þetta verkefni sem fyrirséð var að yrði stærsta og kostnaðarsamasta samgönguverkefni sem Danir hefðu ráðist í. Kostnaðurinn myndi að talsverðu leyti fara eftir staðarvalinu. Ef ráðast þyrfti í miklar vegaframkvæmdir beggja vegna sundsins myndi það hleypa kostnaðinum upp. Þingmenn lögðu áherslu á nauðsyn þess að hratt yrði unnið og við það miðað að fyrir árslok 2020 yrðu línur farnar að skýrast. Það gekk eftir og þá var ákveðið að Vegamálastofnunin skyldi leggja fram ákveðna tillögu um staðarvalið og ennfremur grófa kostnaðaráætlun. Miðað skyldi við að þessari vinnu yrði lokið í árslok 2021. Sú áætlun stóðst ekki en tillaga Vegamálastofnunar og samstarfsaðila hennar hefur nú litið dagsins ljós.
46 kílómetrar og Samsø klofin í tvennt
Þótt nokkrir möguleikar varðandi staðsetningu tengingarinnar hafi verið ræddir varð niðurstaðan sú að Sjálandsmegin skyldi lagt út nálægt Kalundborg, yfir suðurhluta Samsø og komið á land Jótlandsmegin við smábæinn Hov (líka skrifað Hou) fyrir austan Horsens. Leiðin er samtals 46 kílómetrar, sundið milli Sjálands og Samsø er 19 kílómetrar, yfir eyjuna 9 kílómetrar og sundið frá Samsø til Jótlands 20 kílómetrar. Gróf kostnaðaráætlun hljóðar uppá 110 milljarða danskra króna (rúma 2100 milljarða íslenska) miðað við brú og uppbyggðan veg, fyrir bíla og járnbrautir. Vegamálastofnunin setti fram tvo möguleika, sem velja þarf á milli en báðir gera ráð fyrir að farið verði um suðurhluta Samsø.
Íbúar Samsø (tæplega 4 þúsund) höfðu vonað að önnur leið en sú að fara um eyjuna yrði fyrir valinu og margir eru mjög ósáttir. Segja eyjuna einhverja helstu útivistarperlu í landinu, einkum suðurhlutann. Í viðtali við danska útvarpið, DR, sögðu talsmenn íbúanna að þeir myndu gera allt sem þeir gætu til að koma í veg fyrir að tillaga Vegamálastofnunarinnar næði fram að ganga.
Þess má í lokin geta að áætlanir Vegamálastofnunarinnar gera ráð fyrir að tengingin, sem verður að hluta fjármögnuð með veggjaldi, komist í gagnið árið 2035.