Samkvæmt nýjum könnunum styður um helmingur Svía bann við betli og hefur stuðningurinn aukist mikið síðustu mánuði. Ástæðuna má rekja til mikillar fjölgunar betlara sem flestir koma frá Rúmeníu og tilheyra hópi Róma-fólks. Samkvæmt tölum sænska ríkissjónvarpsins eru á bilinu 3.900 til 4.700 í þessum hópi og hefur talan tvöfaldast á einu ári. Þessar tölur eru þó ónákvæmar því þær byggja á talningu og upplýsingum frá sveitarfélögum og lögreglu.
Hægriflokkurinn Moderaterna hefur lýst því yfir að hann vilji banna skipulagða starfsemi í kringum betl, þótt hann leggist ekki gegn því að einstaklingar betli. Viðbrögð hinna flokkanna eru blendin en þó virðist stuðningurinn vera nokkuð útbreiddur. Vandamálið er hins vegar að erfitt er að skilgreina hvað teljist vera skipulagt betl og hverjum eigi að refsa komist upp um það.
Sögur af ofbeldi og vændi
Frá því að betlurum tók að fjölga á götum Svíþjóðar fyrir um þremur árum hefur reglulega verið fjallað um það hvernig glæpasamtök nýta sér neyð þess. Fréttirnar eru þó oft óljósar og bera þess merki að vera flökkusögur frekar en endilega staðreyndir. Í skýrslu sem gefin var út af borgaryfirvöldum í Stokkhólmi í fyrra kom fram að árið 2013 hefðu á milli 300 til 500 einstaklingar verið þvingaðir til að betla. Upplýsingarnar koma frá lögreglu, sveitarfélögum og hjálparsamtökum og byggja yfirleitt á samtölum eða jafnvel yfirheyrslum. Martin Valfridsson var í janúar skipaður af ríkisstjórninni sem umsjónarmaður verkefna sem snúa að betlurum. Hann segist vita til þess að vændi og ofbeldi þrífist innan hópsins en getur þó ekki sagt hversu algengt það sé.
Hún segir að frumskógarlögmálið ráði á götunum og að hún þekki dæmi þess að fólk hafi borgað fyrir bestu staðina til að betla á.
Í viðtali við Dagens Nyheter segir Geta Iorgu frá Rúmeníu að glæpamenn nýti sér neyð fólksins. Hún styður því að lög verði sett sem eigi að taka á vandamálinu. Geta betlaði fyrst eftir að hún kom til Stokkhólms en í dag selur hún hannyrðavörur sem hún bæði býr til sjálf og flytur inn frá Rúmeníu. Hún segir að frumskógarlögmálið ráði á götunum og að hún þekki dæmi þess að fólk hafi borgað fyrir bestu staðina til að betla á. Sjálf gerði hún það ekki og hún segir að þeir sem borgi öðrum geti sjálfum sér um kennt, fólk verði að þora að mótmæla slíkum kröfum.
Hvað telst vera skipulagt betl?
Geta segir að hún hafi komið til Svíþjóðar með fjölskyldu sinni og veltir því fyrir sér hvort þau teljist því hafa stundað skipulagt betl. Það er nefnilega ekki ljóst hvar eigi að draga mörkin á milli þess að fólk styðji hvert annað og að starfsemin sé orðin skipulögð. Þetta er heldur ekki vel skilgreint í tillögum Moderaterna sem enn eru á vinnslustigi. Í grein í Dagens Nyheter leggja tveir þingmenn flokksins fram nokkrar tillögur til þess að taka á ástandinu. Ein þeirra snýr að skipulagðri starfsemi en hinar snúast um heimildir sveitarfélaga til að bregðast við ástandinu. Á meðal þess sem lagt er til er að öryggisverðir megi banna fólki að gista á opinberum stöðum og einkalóðum, en hingað til hefur ekki verið hægt að vísa fólki frá nema með tilstuðlan lögreglu.
Önnur tillaga Moderaterna virðist þó vera hönnuð til þess að sveitarfélög geti bannað betl án þess að lagabreytingu þurfi. Sum sveitarfélög krefjast þess að fólk fái opinbert leyfi áður en það safnar peningum á opinberum stöðum. Ef betl verður fellt undir þessa skilgreiningu geta svetiarfélögin einfaldlega vísað til þess að betlarar hafi ekki leyfi til að safna peningum. Augljóslega er nær engar líkur á því að betlari muni sækja um leyfi í þríriti og því er betli nær sjálfhætt í þessum sveitarfélögum.
Ung stúlka við byggð Róma-fólks í Rúmeníu. Mynd: EPA
Blendin viðbrögð hinna flokkanna
Flokkur Jafnaðarmanna brást nokkuð vel við tillögunni og sagði að nauðsynlegt væri að stöðva þá sem högnuðust á eymd annarra. Tillagan var sögð áhugaverð þótt ekki væri nánar farið út í hvað átt var við. Umhverfisflokkurinn og VInstri flokkurinn gagnrýndu hins vegar tillöguna og sögðu að glæpavæðing væri ekki lausnin við því sem í grunninn væri fátæktarvandamál.
Hjá minni flokkunum á hægri vængnum voru menn varkárir, sögðu að vissulega þyrfti að bregðast við vandamálinu en stíga þyrfti varlega til jarðar. Til dæmis mætti ekki haga lagasetningu þannig að fjölskyldur sem betluðu saman féllu undir skilgreiningu á skipulagðri starfsemi. Allir virðast vera sammála um að bregðast þurfi við sívaxandi hópi betlara í Svíþjóð, en flokkana greinir á um hvar áherslan eigi að vera.
Ráðleggur fólki að gefa ekki peninga, heldur mat eða föt
Reyndar eru það ekki bara stjórnmálamenn sem glíma við þetta vandamál því Svíar eru mjög uppteknir af því hvernig þeir eigi að hegða sér gagnvart betlurum. Er til dæmis í lagi að gefa þeim peninga, eða eykur það ef til vill bara vandamálið. Í sænskum miðlum má lesa fjölmargar greinar um það hvaða áhrif það hefur á fólk að sjá betlara á götum úti. Rannsóknir benda til dæmis til þess að þegar fleiri betlarar eru á götunum minnkar samúð fólks umtalsvert. Fólk hættir að hugsa um þetta sem einstaklinga og sér bara hópinn. Betlarar ógna líka þeirri sjálfsmynd Svía að þeir séu mannvinir sem berjist gegn óréttlæti hvar sem það þrífst. Þegar fátækt er sjáanleg á götum úti brestur goðsögnin um hið góða samfélag.
Forstöðumaður rúmenskra samtaka sem berst fyrir réttindum Róma-fólks segir að fólk ætti ekki að gefa peninga. Það sé þó ekki þar með sagt að fólk eigi ekki að hjálpa. Hann mælir með því að fólk tali við betlarana, spyrji hvað þeir þurfi og aðstoði þá við til dæmis mat eða klæðnað. Peningagjafir hvetji fólk hins vegar til að flytja til annarra landa og gera betl að iðju.
Florin Ivanovici fór til Stokkhólms í vor og tók viðtöl við fjölmarga betlara. Hann sagði að flestir hefðu viljað vera áfram í Rúmeníu en þar biði þeirra ekkert nema fátækt og atvinnuleysi. Florin hefur enga trú á því að fjölgun betlara í Svíþjóð megi rekja til skipulagðar glæpastarfsemi eða þess að fólk sé þvingað til að betla. Staðreyndin sé einfaldlega sú að vel hafi gengið hjá þeim sem fyrst fóru og þess vegna hafi fleiri fylgt í kjölfarið. Hann segist vita dæmi þess að fjölskyldur hafi snúið aftur frá Svíþjóð vegna þess að það borgi sig ekki lengur að betla í landinu. Samkeppnin sé einfaldlega orðin það mikil.
Sænska ríkissjónvarpið heimsótti fjölskyldu í Rúmeníu sem fer reglulega til Stokkhólms til að betla. Þau hafa farið fimm sinnum og dvelja í þrjá mánuði í hvert sinn. Upp úr krafsinu hafa þau um 4.000 sænskar krónur á mánuði, en þá á eftir að greiða ferðir og uppihald. Þetta er engu að síður mun hærri upphæð en þau gætu nokkurn tímann fengið í rúmenska bænum þar sem búa enda atvinnuleysi mikið og fá tækifæri fyrir ómenntað Róma-fólk. Þau skipuleggja nú enn eina ferðina til Stokkhólms en segjast eiga þá ósk að þau geti lifað og starfað í heimalandinu þar sem þau eru nálægt fjölskyldu og vinum. Þar til ástandið í Rúmeníu lagast og Róma-fólk nýtur fullra réttinda eru þó litlar líkur á að það gerist.