Úttekt segir að um 600 milljónir króna hafi verið teknar ólöglega út úr Heilsustofnun
Úttekt eftirlitsdeildar Sjúkratrygginga Íslands á Heilsustofnuninni í Hveragerði er lokið. Niðurstaðan er sú að háar fjárhæðir hafi verið teknar út úr stofnuninni með hætti sem ekki er lögmætur og kostnaði vegna þessa velt yfir á sjúklinga. Gerðar hafa verið úrbótakröfur en samningur Heilsustofnunar við Sjúkratryggingar, sem tryggir henni næstum milljarð króna á ári úr ríkissjóði, rennur út í lok mars. Heilsustofnun hafnar niðurstöðu úttektarinnar.
Náttúrulækningafélag Íslands, eigandi Heilsustofnunarinnar í Hveragerði, tók fjármuni út úr stofnuninni með ólögmætum hætti. Alls er um að ræða tæplega 600 milljónir króna á núvirði á 15 ára tímabili. Þetta var gert með því að Náttúrulækningafélagið tók einhliða ákvörðun um að hækka arðgreiðslur til sín án aðkomu Sjúkratrygginga Íslands og heilbrigðisráðuneytisins, en Heilsustofnunin fær tæpan milljarða króna úr ríkissjóði á ári. Til að standa undir arðgreiðslunum hafi umframkostnaði verið velt á sjúklinga. Þá hafi rekstrarfé Heilsustofnunarinnar verið nýtt til „heilsutengdrar ferðaþjónustu“ sem er ekki hluti af samningum hennar við Sjúkratryggingar og hún látin greiða afborganir af lánum sem eru þinglýstar í eigu Náttúrulækningafélagsins ásamt því að bera allan viðhalds- og rekstrarkostnað af fasteignunum.
Þetta er niðurstaða úttektar eftirlitsdeildar Sjúkratrygginga Íslands á fjármálum Heilsustofnunarinnar. Úttektinni lauk í síðasta mánuði og forsvarsmönnum Náttúrulækningafélagsins/Heilsustofnunar var greint frá henni með bréfi sem sent var 13. desember 2021. Afrit af bréfinu var sent til ríkisendurskoðunar og heilbrigðisráðuneytisins. Hægt er að lesa bréfið hér.
Í bréfinu er farið fram á að Náttúrulækningafélagið hætti að taka arð út úr rekstri Heilsustofnunarinnar, að skilið verði milli rekstrar hennar og annars óskylds rekstrar í bókum stofnunarinnar, að fasteignir og lóðarréttindi sem eru þinglýst eign Náttúrulækningafélagsins verði færðar til Heilsustofnunar eða hún látin hætta að greiða kostnað vegna þeirra og að gjald sem tekið er af þeim sem sækja endurhæfingu í Hveragerði verði „lækkað umtalsvert þannig að það endurspegli raunkostnað vegna gistinátta.“ Samkvæmt upplýsingum Kjarnans er það gjald hátt í fjögur hundruð þúsund krónur á mánuði fyrir þá einstaklinga í endurhæfingu sem gista í einstaklingsherbergi.
Samningur Sjúkratrygginga Íslands við Heilsustofnunina rennur út í lok mars næstkomandi. Því verður honum ekki rift að óbreyttu en ofangreindar kröfur eru undirliggjandi í þeim samningaviðræðum sem eru framundan. Ekki verður gerð endurgreiðslukrafa á Náttúrulækningafélagið vegna þeirra fjármuna sem teknir voru út úr Heilsustofnun þar sem litið er svo á að þeir einstaklingar sem sæki sér endurhæfingu hafi greitt þessa fjármuni.
Félagasamtök sem eiga félagasamtök
Heilsustofnunin í Hveragerði býður upp á endurhæfingu fyrir einstaklinga sem þurfa á slíkri að halda í kjölfar sjúkrahúsvistar, tiltekinna sjúkdóma og slysa. Hún hefur starfað frá árinu 1955 og er í eigu Náttúrulækningafélags Íslands, félagasamtaka sem stofnuð voru árið 1937.
Forseti þess félags er einnig stjórnarformaður Heilsustofnunarinnar, Gunnlaugur K. Jónsson. Hann hefur einnig starfað sem aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Stofnandi heilsustofnunarinnar, Jónas Kristjánsson, var langafi hans. Varaforseti Náttúrulækningafélagsins er Geir Jón Þórisson, fyrrverandi varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi yfirlögregluþjónn. Hann er varamaður í stjórn Heilsustofnunarinnar. Auk þeirra sitja þrír aðrir í stjórn Náttúrulækningafélagsins. Báðir þessir aðilar eru skráð félagasamtök og skila því ekki ársreikningum til Skattsins líkt og flestir rekstraraðilar þurfa að gera. Þá er afar óvenjulegt að félagasamtök eigi önnur félagasamtök.
Umfjöllun Kjarnans 24. janúar 2020
Árið 1991 var gerður samningur milli heilbrigðisráðuneytisins og Náttúrulækningafélagsins um að opinberu fé yrði veitt í rekstur Heilsustofnunarinnar í Hveragerði. Samhliða voru gerðar bókanir um hvað fælist í samningnum. Meðal þess sem þar kom fram var að nýjar fjárfestingar sem stofnað yrði til yrðu eign Náttúrulækningafélagsins, ekki Heilsustofnunarinnar og að félagið „beri eðlilegur arður af eignum sínum, sem nýttar eru í þágu Heilsustofnunarinnar.“
Að auki var gert samkomulag um hvernig skipta ætti eignum milli Náttúrulækningafélagsins og Heilsustofnunarinnar þar sem ekki var í gildi formlegur skiptasamningur. Í því samkomulagi, sem Kjarninn hefur fengið afhent og hægt er að lesa hér, sagði að „allar eignir á Heilsuhælislóðinni tilheyra Heilsuhæli NLFÍ og koma til afnota fyrir Heilsustofnun NLFÍ frá 1. janúar 1992.“ Að auki voru gerðar bókanir við samninginn til að skýra betur virkni hans. Þær má lesa hér.
Náttúrulækningafélagið átti að fá leigutekjur vegna þeirra afnota og arðgreiðslurnar átti að nota til að standa undir viðhaldi og endurbótum.
Fær tæpan milljarð úr ríkissjóði á ári
Heilsustofnunin er með þjónustusamning við Sjúkratryggingar sem var endurnýjaður árið 2019. Sá samningur, sem skrifað var undir eftir þriggja ára viðræður og níu framlengingar fyrri þjónustusamnings, felur í sér ákvæði um hvernig sé heimilt að ráðstafa fé sem greitt er vegna samningsins. Ríkið greiðir alls um 67 prósent að heildarrekstrarkostnaði stofnunarinnar en hitt sem upp á vantar er greitt með innheimtu sértekna, þar á meðal sala stofnunarinnar á vörum og þjónustu til annarra.
Samningurinn tryggði stofnuninni 875,5 milljónir króna fjárveitingu úr ríkissjóði á árinu 2019, 914 milljón króna á árinu 2020, 966 milljón króna framlag á síðasta ári, og á að tryggja henni 996 milljón króna framlag á þessu ári samkvæmt fjárlögum. Samningur Sjúkratrygginga við Heilsustofnunina rennur hins vegar út í mars næstkomandi og því er ljóst að þeir fjármunir eru ekki í hendi.
Sjúkratryggingar Íslands ákváðu í byrjun árs 2020 að ráðast í úttekt á starfsemi Heilsustofnunarinnar í kjölfar þess að Stundin fjallaði um háar greiðslur til Gunnlaugs, formanns rekstrarstjórnar hennar.
Stjórnarformaðurinn með 1,2 milljónir króna á mánuði
Samkvæmt rekstrarreikningi Heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands, sem er að finna í ársreikningi hennar fyrir árið 2018, jókst kostnaður við rekstur stjórnar félagasamtakanna um 43,3 prósent á árinu 2018, fór úr 12,8 milljónum króna í 18,4 milljónir króna. Í frétt Stundarinnar frá því í júlí 2019 kom fram að Gunnlaugur K. Jónsson, stjórnarformaður Heilsustofnunarinnar, hefði fengið 1,2 milljónir króna á mánuði í greiðslur á því ári.
Kjarninn sendi síðla árs 2019 fyrirspurn til Brynjars Þórssonar, framkvæmdastjóra rekstrar hjá Heilsustofnun, og spurði meðal annars um aukinn kostnað við rekstur stjórnar á árinu 2018.
Í svörum hans sagði meðal annars að launa stjórnar stofnunarinnar væru ákveðin af stjórn Náttúrulækningafélags Íslands, eiganda Heilsustofnunarinnar. Forseti þess félags er sami maður og er stjórnarformaður Heilsustofnunarinnar, áðurnefndur Gunnlaugur K. Jónsson. Hann tók því sjálfur þátt í að ákveða laun sín.
Í svörum Brynjars við fyrirspurn Kjarnans vegna þessa sagði að upp hefði komið „verkefni sem stjórn þurfti að grípa inn í, umfram það sem áður hefur verið. Þar var meðal annars um að ræða samningamál við Sjúkratryggingar Íslands og erfið samskiptavandamál innan stofnunarinnar þar sem meðal annarra aðgerða þurfti að kalla til aðstoð vinnustaðasálfræðings. Þungi þeirrar vinnu var unnin af stjórnarformanni.“ Þá sagði Brynjar að vegna mistaka hefðu 2,5 milljónir króna verið færðar á þennan lið í ársreikningi, en það hafi ekki komið í ljós fyrr en eftir gerð hans.
Kjarninn spurði stofnunina einnig hvernig greiðslur skiptust niður á einstaklinga en framkvæmdastjóri rekstrar neitaði að svara þeirri fyrirspurn og sagði greiðslur til einstaklinga trúnaðarmál.Þegar spurningin var ítrekuð, með vísun í að starfsemi Heilsustofnunar væri að uppistöðu fjármögnuð með opinberu fé, og óskað skýringa á því hvaða hagsmunir krefðust þess að um stjórnarlaun ríkti trúnaður, þá barst ekkert svar.
Í ársreikningi Heilstofnunarinnar fyrir árið 2018 kom fram að kostnaður vegna umsjónar og reksturs fasteigna/lausafjármuna hafi aukist um 64,2 prósent á árinu 2018, úr 119,1 milljónum króna í 195,6 milljónir króna.
Brynjar svaraði því til að á árinu 2018 hafi verið ráðist í „viðhaldsframkvæmdir sem höfðu setið á hakanum undanfarin ár, m.a. skipti á þakjárni, endurnýjun gólfefna og lagfæring á herbergjaálmum sem skýrir hækkun á liðnum milli ára.“
Í ársskýrslum Heilsustofnunar vegna áranna 2019 og 2020, sem birtar eru á vefsíðu hennar, eru engar sundurliðaðar rekstrarupplýsingar né efnahagsreikningur.
Við skoðun þeirra upplýsinga var talið tilefni til að ráðast í heildstæðari úttekt á starfseminni.
„Þessi úttekt var ekki lögmæt“
Úttektin tafðist hins vegar mikið. Í svari Maríu Heimisdóttur, forstjóra Sjúkratrygginga, við fyrirspurn Kjarnans um málið sem barst í júní 2021 sagði að úttektin væri „á bið og ekki hefur verið tekin afstaða til þess hvort því verður haldið áfram.“ Ástæðan væru annir, meðal annars í tengslum við COVID-19.
Sérstök eftirlitsdeild var sett á fót innan Sjúkratrygginga fyrir ári síðan og úttektin færðist yfir til hennar í fyrrahaust. Í kjölfarið kláraðist hún á nokkuð skömmum tíma.
Þann 13. desember sendi deildarstjóri eftirlitsdeildarinnar bréf á lögmann HNLFÍ þar sem honum var greint frá niðurstöðum úttektarinnar.
Í bréfinu, sem Kjarninn hefur fengið afhent með vísun í upplýsingalög, segir að móðurfélagið NLFÍ hafi tekið tæplega 600 milljónir króna á núvirði úr rekstri Heilsustofnunarinnar á undanförnum 15 árum og að hún hafi verið látin greiða afborganir lána af fasteignum í eigu NLFÍ ásamt því að bera allan viðhalds- og rekstrarkostnað sem hafi skekkt rekstrarreikning Heilsustofnunarinnar sem því nemi.
„Rétt er að halda því sjónarmiði til haga að þessi úttekt var ekki lögmæt, að mati SÍ, enda engin bókun um slíkt við gerða samninga og enn fremur að samkomulag um færslu eigna inn í HNLFÍ hefur aldrei verið efnt. Sem fyrr segir hefur endurskoðandi félagsins árlega gert athugasemd í áritun sinni á ársreikning. Að auki er upplýst að teknir hafa verið fjármunir út úr rekstrinum sem koma rekstri Heilsustofnunarinnar ekkert við,“ segir í bréfinu.
Sjúklingar greiða mörg hundruð þúsund á mánuði
Þetta er að mati eftirlitsdeildarinnar í andstöðu við ákvæði í samningi milli Sjúkratrygginga og Heilsustofnunarinnar, en þar segir að halda skuli aðskildum fjárreiðum og reikningshaldi vegna þeirrar starfsemi og þjónustu er samningurinn tekur til aðgreindum í bókhaldi frá öðrum rekstri og eignum verksala. Auk þess segir í öðru ákvæði að óheimilt sé að ráðstafa fé sem greitt er vegna samningsins til annars en þeirra verkefna sem tilgreind séu í honum og „samrýmist almennum kröfum sem gera verður um meðferð á skattfé.“
Til viðbótar við þá fjármuni sem ríkið greiðir til Heilsustofnunarinnar á ári þá greiða þeir sem sækja sér endurhæfingu þar gistigjald. Fyrir þá sem koma þangað í endurhæfingu, með beiðni frá lækni, getur kostnaður við mánaðardvöl verið hátt í 400 þúsund krónur. Einnig er hægt að dvelja á stofnuninni án beiðni frá lækni og er þar um að ræða svokallaða heilsudvöl. Samkvæmt verðskrá er verð fyrir einn í einbýli 151.900 krónur á viku, eða yfir 600 þúsund krónur fyrir mánuð. Innifalið í heilsudvöl er gisting, matur og aðgengi að sundlaug, baðhúsi og líkamsrækt.
upplýsingum Kjarnans getur það verið breytilegt eftir því hversu góð gistiaðstaðan er en að jafnaði er verðið hátt í 400 þúsund krónur á mánuði.
Í bréfi eftirlitsdeildar Sjúkratrygginga segir að gistigjaldið fyrir þá einstaklinga sem koma á Heilsustofnun í endurhæfingu hafi verið hækkað langt umfram það sem samið var um. „Aldrei var veitt heimild til slíkrar úttektar og hún er beinlínis í andstöðu við samninginn.“
Hið háa gistigjald, sem þeir sem njóta endurhæfingar eru látnir greiða, sé svo látið standa undir rekstrinum.
Fjórar úrbótakröfur
Í bréfi eftirlitsdeildar Sjúkratrygginga segir að Heilsustofnun hafi ekki efnt samning sinn við stofnunina og gerðar eru fjórar úrbótakröfur. Sú fyrsta er að Náttúrulækningafélagið hætti að taka árlega arðgreiðslu út úr rekstri Heilsustofnunarinnar, enda sé engin heimild fyrir þeim. Önnur er að skilið verði á á milli rekstrar Heilsustofnunar og annars óskylds rekstrar í bókum stofnunarinnar. Þriðja að samkomulagið um fasteignir og lóðarréttindi frá 1991 verði efnt. „Að öðrum kosti verði allt fjarlægt úr reikningum stofnunarinnar sem lýtur að skuldbindingum og skyldum sem tengjast fasteignum og lóðarréttindum. HNLFÍ leggi þá fram ábyrgðaryfirlýsingu frá banka svo sýna megi fram á jákvætt eigið fé sem væri að minnsta kosti 1/3 af ársveltu.“
Þinglýst fram og til baka
Í bréfi eftirlitsdeildar Sjúkratrygginga er sérstaklega fjallað um að á tímabilinu 2001 til 2004 hafi lóðin sem fasteignirnar sem Heilsustofnun notast við verið stækkuð umtalsvert og hún þinglýst á Heilsustofnunina. Hún hafði áður verið í þinglýstri eigu Náttúrulækningafélagsins.
Síðan var stórt landsvæði selt út úr stofnuninni til verktaka sem byggði svokallaða C-álmu án þess að það sjáist að greiðslur vegna þessa hafi runnið til Heilsustofnunarinnar. Árið 2004, þegar framkvæmdum var lokið var lóðinni þinglýst aftur á Náttúrulækningafélagið. Allur kostnaður sem fallið hefur til vegna eignanna hafi verið greiddur af Heilsustofnuninni.
„Allan þennan tíma var HNLFÍ lóðarhafi og mikilvægt að hafa í huga að NFLÍ og HNLFÍ eru hvor sinn lögaðilinn með hvora sína kennitöluna og hvorn sinn rekstrar- og efnahagsreikning. SÍ ítreka að þessi umsvif þarfnast frekari skoðunar sem og önnur fasteignaumsvif og fjármunafærslur þeim tengdar.“
Enn fremur telur eftirlitsdeildin mikilvægt að skoðað verði hvort sú tilhögun á gerð ársreiknings hvað varðar skuldir og eignir standist lög um ársreikninga. Það er hvort það standist að þar standi inni eignir og skuldir sem eru þinglýstar öðrum aðila. „Þá má velta upp þeirri spurningu hvort kennitala HNLFÍ sé samningstæk samkvæmt lögum um opinber innkaup enda standa engar þinglýstar eignir þar að baki. Slík athugun er ekki á verksviði SÍ og hefur þessum þætti málsins vísað til Ríkisendurskoðunar sem hefur heimild til eftirlits með framkvæmd samninga sem gerðir eru við sveitarfélög eða einkaaðila. [...] Sú heimild nær bæði til fjárhags- og stjórnsýsluendurskoðunar.“
Að lokum er gerð sú krafa að það gjald sem tekið er af þeim sækja þverfaglega endurhæfingu „verði lækkað umtalsvert þannig að það endurspegli raunkostnað vegna gistinátta.“
Hafna niðurstöðunni og áskilja sér rétt til að sækja bætur
Lögmaður fyrirsvarsmanna Náttúrulækningafélagsins/Heilsustofnunarinnar, Kristján B. Thorlacius hjá Fortis lögmannsstofu, svaraði bréfi Sjúkratrygginga Íslands 3. janúar síðastliðinn. Í því bréfi, sem Kjarninn hefur fengið afhent og hægt er að lesa í heild sinni hér, segir að ekki séu forsendur til að fallast á þau sjónarmið sem komi fram í bréfi stofnunarinnar, að þau séu ekki í samræmi við þá samninga og þær forsendur sem samstarf aðila hafi byggt á frá því að núverandi fyrirkomulag var tekið upp á árinu 1991.
Fulltrúar Heilsustofnunar lýsa sig til að mynda ósammála fullyrðingum um að daggjald sem rukkað sé af sjúklingum sé óhoflegt og að hækkun þess hafi fyrst og síðast stýrst af hækkun verðlags. Þá hafi það fyrirkomulag sem sé til staðar varðandi ákvörðun á daggjöldum komið til að frumkvæði Sjúkratrygginga.
Það sé „ljóst að þær fullyrðingar sem fram eru settar af hálfu eftirlitsdeildar SÍ í bréfinu frá 13. desember sl. um vanefndir á þjónustusamningi aðila eiga ekki við rök að styðjast. Því er alfarið hafnað að Heilsustofnun og Náttúrulækningafélag Íslands hafi ekki staðið við þær skuldbindingar sem þau hafa tekist á hendur gagnvart hinu opinbera.“
Í niðurlagi bréfs lögmannsins segir að „í ljósi þess að í bréfi eftirlitsdeildar er því hótað að gripið verði til riftunar samnings gagnvart umbjóðendum mínum skal áréttað að lögformleg skilyrði riftunar eru alls ekki til staðar í málinu. Ólögmæt riftun getur haft grafalvarlegar afleiðingar fyrir umbjóðendur mína, þá sem þangað sækja þjónustu og endurhæfingu, svo og starfsmenn og íbúa á Suðurlandi. Grípi SÍ, þrátt fyrir þetta, til þess að rifta samningi aðili áskilja umbjóðendur mínir sér rétt til að krefja Sjúkratryggingar Íslands um bætur fyrir allt það tjón, beint og óbeint, sem af slíkri riftun kann að leiða.“
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði