„Það er alveg hluti af því að vera myndlistarmaður í dag að selja verkin sín“
„Almenningur er orðinn miklu opnari fyrir myndlist. Ég finn mjög mikinn mun á því, því það var oft uppi viðhorfið „ég hef ekki vit á myndlist,“ hjá fólki sem kannski tengist ekki bransanum eitthvað beint. Það hafði einhvern ótta gagnvart myndlistinni en er núna orðið spennt.“ Jólabasarar eru á meðal þeirra áhrifaþátta sem brotið hafa niður múra milli myndlistar og almennings á nýliðnum árum að mati stofnenda Multis. Þær opnuðu jólasýningu í byrjun mánaðar í sýningarrými við Hafnartorg.
Fyrir þessi jól hafa þær Ásdís Spanó og Helga Óskarsdóttir hjá Multis lagst í hálfgerða útrás með opnun nýs sýningarrýmis við Hafnartorg í miðborg Reykjavíkur. Þar settu þær upp jólasýningu Multis sem sækir titil sinn til þekkts jólatréssöngs; „Svona gerum við“. Multis sérhæfir sig í sölu á fjölfeldisverkum, listaverkum sem gefin eru út í ákveðið mörgum eintökum – svokölluðu upplagi. Alla jafna sitja þær Ásdís og Helga á skrifstofum Multis í Mjólkurstöðinni við Snorrabraut en þar er einnig að finna sýningarsal. Fyrir jólin vildu þær hreiðra um sig þar sem umferð fólks er meiri og þær kunna vel við sig við Hafnartorg, þó svo kunni að fara að þær verði þar aðeins tímabundið.
Sýning Multis er frábrugðin öðrum jólasýningum sem Kjarninn hefur heimsótt þessi jól að því leyti að þar er ekki sama basarastemningin. Verkin eru ekki rifin af veggjunum jafnóðum og fólk hefur fest kaup á þeim. „Af því þetta eru fjölfeldi þá förum við og náum í eintak, nema ef fólk vill fá nákvæmlega það númer sem er á veggnum þá bara skiptum við verkinu út. Það er kannski munurinn á þessu og basar, þetta er ekki hugsað þannig þó að vissulega geti það gerst og þá er bara annað sett upp í staðinn,“ segir Ásdís. Að auki skilur jólasýning Multis sig frá hinum jólamörkuðunum að því leyti að henni lýkur ekki á Þorláksmessu en til stendur að hafa sýningarrýmið við Hafnartorg opið síðustu daga ársins.
Þó svo að verkin séu ekki rifin af veggjum jafnóðum á sýningunni þá er töluverður fjöldi verka til sölu. Það skýrist einna helst að því að verkin eru fjölfeldi. „Við erum með um 42 listamenn. Hér er náttúrlega töluvert af verkum af því að hvert verk er til í upplagi þannig að við erum örugglega með hátt í 150 verk en við höfum ekki tekið það nákvæmlega saman. Hver listamaður er kannski með verk sem er til í upplagi af 15 til 20. Sumir bara með þrjú til fimm. Það er bara misjafnt hvernig það er,“ segir Ásdís.
Sýningin „svolítið spontant“
Hvernig er með undirbúning fyrir svona sýningu, hvenær hefst hann?
Ásdís: „Þetta var nú svolítið „spontant“ hjá okkur. Við vorum reyndar búnar að ákveða í nóvember, byrjun nóvember að við ætluðum að vera með sýningu sem færi upp í desember og myndi vera uppi allan mánuðinn.“
Helga: „Það sem einfaldaði þetta fyrir okkur er að við erum nýbúnar að vera með stóra sýningu í Listasafni Reykjanesbæjar þar sem við vorum með allt okkar grunnsafn af verkum. Við fluttum þetta næstum því beint hingað af safninu og vissum svolítið hvaða nálgun við vildum hafa. Þannig að þá vorum við komnar með skýra mynd af því hvað við vildum. Þannig við gátum gengið dálítið hreint til verks þegar við fengum þetta fína húsnæði.“
Spurðar að því hvers vegna þær hafi ákveðið að velja þá leið að halda jólasýningu segir Helga það meðal annars hafa verið til að vekja athygli á starfsemi Multis. „Í janúar á þessu ári þá settumst við að á Snorrabrautinni í Mjólkurstöðinni. Þar erum við með skrifstofu og lítið sýningarrými en við fundum það alveg að það vantar svolítið upp á að fólk viti af okkur. Listasenan veit af okkur og þessi radíus í kringum okkur. Svo við finnum að við þurfum að ná til stærri hóps og þetta er mjög góð leið til þess, að vera hérna á áberandi stað. Fólk lítur hingað inn og uppgötvar okkur. Þetta er búið að gera allt fyrir okkur sem við vonuðumst til.“
Þannig að það hefur verið svolítið rennerí af fólki hérna á aðventunni?
Helga: „Jájájá og fólk er duglegt að kaupa list.“
Ásdís: „Það er líka gaman því verkin eru fyrst og fremst á netinu en hérna fær fólk tækifæri til þess að koma og skoða verkin og líka kynna sér betur starfsemina okkar. Sýningin hér var hugsuð sem kynning fyrst og fremst á Multis og þessum listaverkum og sérstaklega á nýjum verkum sem við vorum að kynna núna í desember. Ný fjölfeldi eftir einhverja af okkar listamönnum og fleiri sem eru að bætast við.“
Helga: „Við höfum líka verið að nota tækifærið fyrst við erum í þessu fína húsnæði að vera með viðburði. Við erum búnar að vera með nokkrar uppákomur.“
Jólasýningarnar hafa brotið niður múra
Snorri Ásmundsson reið fyrstur á vaðið í uppákomuröð Multis er hann hélt gjörning í sýningarrýminu. Einnig var nýtt verk Snorra sem sýnir frú Vigdísi Finnbogadóttur kynnt. Að sögn Helgu hafa eftirprentanir verksins „slegið í gegn“. Auk Snorra hefur Gjörningaklúbburinn framið gjörning samhliða kynningu á nýrri plötu. Þar var einnig haldið útgáfuhóf nýrrar bókar Jónu Hlífar Halldórsdóttur, Drifhvít sýn, og þá var sérstök kynning á verkum Rúríar við opnun sýningarrýmisins í upphafi mánaðar.
Ásdís: „Við höfum verið að setja upp margar sýningar. Þessi sýning fyrir jólin er bara viðbót í flóruna. Það hefur verið svo öflug myndlistarflóra í gangi fyrir jólin, margar sýningar og það er gaman að taka þátt.“
Helga: „Maður sér að það hefur ofsalega skemmtileg áhrif hvað það eru margir með svona jólasýningar og -basara. Ásmundarsalur hefur kannski náð að leiða ákveðna stemningu sem mörgum finnst spennandi. Almenningur er orðinn miklu opnari fyrir myndlist. Ég finn mjög mikinn mun á því, því það var oft uppi viðhorfið „ég hef ekki vit á myndlist,“ hjá fólki sem kannski tengist ekki bransanum eitthvað beint. Það hafði einhvern ótta gagnvart myndlistinni en er núna orðið spennt. Fólk er að koma hérna, fólk sem hefur aldrei tengst myndlist sérstaklega, en er einhvern veginn að vakna til vitundar um þetta fyrirbæri og er spennt.“
Hafa jólamarkaðirnir brotið niður þá múra?
Helga: „Nákvæmlega. Ég held að það sé alveg málið.“
Áhuginn aukist á síðustu árum
Hvers vegna eru þeir orðnir svona margir?
Ásdís: „Ég held að almennt sé fólk áhugasamara um myndlist heldur en það var fyrir 10, 20 árum síðan. Það er náttúrlega alltaf einhver hópur sem er áhugasamur en ég held að þessi hópur sé að stækka og þessi meðvitund um að velja fallega samtímamyndlist heim til sín, upp á vegg, inn á heimilin. Ég held að fólk sé meðvitaðra um að það sé mikilvægt, að það sé ekki bara mikilvægt að vera með fína hönnun heldur líka myndlist. Hún er áhugaverð og hún endurspeglar það sem er að gerast í umhverfinu og í samtímanum. Þannig ég held að áhuginn sé bara að aukast.“
Helga: „Þetta kemur frá báðum áttum. Bæði kemur þetta frá myndlistinni sem vill komast út og vill að fólk viti af sér. Það er alveg hluti af því að vera myndlistarmaður í dag að selja verkin sín og þetta er ákveðið tækifæri. Svo er það líka þessi aukni áhugi. Þetta er að skila sér í miklu sterkara og flottara samtali heldur en hefur verið áður á milli almennings og myndlistarinnar.“
Ásdís segir að hægt væri að verja heilum degi í að ræða hvað einkenni listsköpun samtímalistamanna þegar þær eru spurðar út í hvað hægt sé að segja um það. Eitt sé þó víst og það er að myndlistarmenn hafi mikið að segja í verkum sínum.
„Listaverk verður ekki bara til og sprettur eingöngu út frá litum og formi, þó það gerist vissulega. Ég held að það sé yfirleitt heilmikið um vangaveltur og pælingar á bakvið verkin. Það er það sem mér finnst einkennandi að þegar listamaðurinn býr til listaverk er hann að fást við heilmiklar vangaveltur og pælingar og hefur jafn vel verið að rannsaka ýmislegt og setur þetta svo fram í samhengi við samtímann.“ segir Ásdís og bætir við að það megi líka oft finna einhvern leik í samtímalistinni.
Helga tekur í sama streng, segir að það sé oft eitthvað „raunverulegt content“ í listaverkum samtímalistamanna. Þau þurfi þó líka að vera fagurfræðilega sterk. „Þetta verður að vera það fyrir það sem við erum að gera. Þessi fjölfeldi eru kölluð „objects“. Þetta eru hlutir sem að hafa myndlistarlegt inntak en höfða jafnframt til fegurðarskynsins og það er mikilvægt að bæði sé til staðar.“
Fjölfeldin vantaði sinn vettvang
Hvernig kom Multis til, hvers vegna farið þið af stað með það?
Ásdís: „Okkar samtal hófst fyrir einhverjum fjórum árum að minnsta kosti. Þetta byrjar kannski upphaflega þegar Helga var að reka Týsgallerí. Þau voru byrjuð að vinna á þessum nótum, að fá listamenn til að búa til fjölfeldi.“
Helga: „Við gerðum tvær seríur, annað var þrívítt og hitt var prentverkefnið Þrettán þrykk. Ég hef alltaf verið spennt fyrir fjölfeldum og meira að segja vann aðeins þannig sjálf þegar ég var virkur myndlistarmaður. Ég var einu sinni virkur myndlistarmaður en ekki í dag, ég finn mig betur í umhverfinu og umgjörðinni. Í okkar samtali þá sáum við það að í rauninni vantaði einhvern vettvang þar sem unnið var með fjölfeldi vegna þess að það var ekkert. Það voru einhverjir að prenta. En okkur fannst vanta þrívíð fjölfeldi, að það þyrfti einhver að sinna því. Okkur fannst það spennandi verkefni fyrir okkur og rými á markaðnum fyrir það. Svo ætluðum við fyrst bara að vera með þrívíðu fjölfeldin en svo breyttist það og við tókum tvívíddina inn líka þannig að við erum að sinna báðu. En núna, og ég er ekki að segja að það megi rekja það til okkar, en það er orðin mikil stemning fyrir fjölfeldum, bæði þrívíðum og tvívíðum hjá fleirum sem eru að reka svona batterí.“
Ásdís: „Mörg gallerí hafa verið með fjölfeldi, það er að segja listamennirnir sem þau vinna með halda sýningar og stundum eru einhver fjölfeldi búin til eða þau kynnt sérstaklega á síðu gallerísins. En þessi áhersla, þessi megináhersla á fjölfeldi hefur ekki verið að finna áður í íslenskri galleríflóru. Einnig fyrir fólk sem hefur ekki mikla innsýn í myndlist, þá er þessi möguleiki til staðar á að fjárfesta í myndlist eftir vel þekktan og virtan listamann á viðráðanlegu verði. Það opnar enn fleiri möguleika á sölu og líka fyrir fleiri til að eignast verkin.“
Íslensk myndlist eigi erindi „úti í hinum stóra heimi“
Helga: „Þetta er bæði sniðugt fyrir unga safnara eða fólk sem er að stíga sín fyrstu skref. Svo er fólk sem hefur keypt af okkur, það er stundum fólk sem er búið að safna lengi og það lítur á þetta sem spennandi kost. Það er ekkert endilega út af verðinu heldur af því að þetta eru spennandi verk eftir flotta myndlistarmenn.“
Ásdís: „Líka því þetta er númerað upplag þá er áhugavert að sumir eru áhugasamir um ákveðin númer og finnst upplagið sjálft áhugavert konsept. Erlendis sér maður að það er orðið heilmikill markaður í kringum svona fjölfeldi og eitthvað sem er farið að byggjast upp hérna heima sem við viljum leggja smá stuðning við.“
Helga: „Við erum líka spenntar fyrir því sem er að gerast erlendis og okkur langar að skoða þennan markað í stærra samhengi því íslensk myndlist á svo sannarlega erindi úti í hinum stóra heimi.“
Hvað ber framtíðin í skauti sér fyrir Multis?
Ásdís: „Það er eitthvað spennandi. Við erum með alls konar að gerast á nýju ári og við erum að fá inn ný verk og verðum með nýjar sýningar. En erum alltaf með skrifstofurnar og sýningarrými á Snorrabraut en við erum ekki bundnar við það rými. Okkur finnst gaman að geta sett upp sýningar á ólíkum stöðum.“
Helga. „Við finnum að það er spennandi að vera þar sem fólk er. Þar sem maður þarf ekki sérstaklega að bjóða því í heimsókn, það þarf ekki endilega að þekkja okkur persónulega eða vera alveg inni í málunum til þess að geta hitt á okkur.“
Sumir listamennirnir aldrei unnið fjölfeldi áður
Hafið þið verið með fastar sýningar þarna á Snorrabraut eða rúllar þetta frekar, það sem er á veggjunum hverju sinni?
Ásdís: Við erum í samtali við listamennina um að búa til fjölfeldi. Við eigum þetta samtal og höfum þannig náð að móta ferlið og þau hafa búið til verk. Við erum með svona útgáfu á verkinu þar sem fólki er boðið og verkin eru sett upp og sýnd. Annað hvort á Snorrabraut í sýningarrýminu okkar þar eða þá annars staðar. Við erum til dæmis búnar að vera með nokkrar kynningar hér og svo höfum við verið á Hjartatorgi.
Helga. En við erum duglegar að nýta okkur þetta sýningarrými sem við erum með þarna í Mjólkurstöðinni sem er mjög skemmtilegt. Við höfum jafnvel verið að færa okkur meira út í að nota það rými sem „project rými“, í eitthvað annað en útgáfu, þannig að úr verði smá samtal.
Í upphafi greinar var tæpt á þeim atriðum sem gera jólasýninguna „Svona gerum við“ frábrugðna öðrum sýningum í jólabasaraflóðinu. Eitt atriði má telja til viðbótar, en Ásdís nefnir að þær Helga sýningarstýri sýningunni að einhverju leyti. „Þegar við förum í það samstarf að vinna með listamanni að búa til fjölfeldi, þá er þetta samtal og verkin verða því til í samtali við listamanninn. Listamaðurinn verður því að vinna með þessa hugmyndafræði að búa til fjölfeldi. Hér hafa orðið til alveg fullt af listaverkum sem hefðu ekki endilega orðið til hefði þetta samtal á milli listamannsins og Multis hafi ekki átt sér stað,“ segir Ásdís.
Helga bætir því við að sumir af þeim listamönnum sem Multis starfar með eru að vinna upplagsverk í fyrsta sinn: „Og það hafa ekkert allir listamennirnir sem við erum í samtali við gert fjölfeldi áður. Sumir hafa gert mikið af því en aðrir bara jafnvel ekki neitt. Og þetta er alveg ný hugsun. Það er líka skemmtilegt, því listamennirnir þurfa svolítið að útvíkka sig til þess að mæta þessu konsepti.“