Bára Huld Beck Multis
Bára Huld Beck

„Það er alveg hluti af því að vera myndlistarmaður í dag að selja verkin sín“

„Almenningur er orðinn miklu opnari fyrir myndlist. Ég finn mjög mikinn mun á því, því það var oft uppi viðhorfið „ég hef ekki vit á myndlist,“ hjá fólki sem kannski tengist ekki bransanum eitthvað beint. Það hafði einhvern ótta gagnvart myndlistinni en er núna orðið spennt.“ Jólabasarar eru á meðal þeirra áhrifaþátta sem brotið hafa niður múra milli myndlistar og almennings á nýliðnum árum að mati stofnenda Multis. Þær opnuðu jólasýningu í byrjun mánaðar í sýningarrými við Hafnartorg.

Fyrir þessi jól hafa þær Ásdís Spanó og Helga Ósk­ars­dóttir hjá Multis lagst í hálf­gerða útrás með opnun nýs sýn­ing­ar­rýmis við Hafn­ar­torg í mið­borg Reykja­vík­ur. Þar settu þær upp jóla­sýn­ingu Multis sem sækir titil sinn til þekkts jóla­trés­söngs; „Svona gerum við“. Multis sér­hæfir sig í sölu á fjöl­feld­is­verk­um, lista­verkum sem gefin eru út í ákveðið mörgum ein­tökum – svoköll­uðu upp­lagi. Alla jafna sitja þær Ásdís og Helga á skrif­stofum Multis í Mjólk­ur­stöð­inni við Snorra­braut en þar er einnig að finna sýn­ing­ar­sal. Fyrir jólin vildu þær hreiðra um sig þar sem umferð fólks er meiri og þær kunna vel við sig við Hafn­ar­torg, þó svo kunni að fara að þær verði þar aðeins tíma­bund­ið.

Sýn­ing Multis er frá­brugðin öðrum jóla­sýn­ingum sem Kjarn­inn hefur heim­sótt þessi jól að því leyti að þar er ekki sama basarastemn­ing­in. Verkin eru ekki rifin af veggj­unum jafn­óðum og fólk hefur fest kaup á þeim. „Af því þetta eru fjöl­feldi þá förum við og náum í ein­tak, nema ef fólk vill fá nákvæm­lega það númer sem er á veggnum þá bara skiptum við verk­inu út. Það er kannski mun­ur­inn á þessu og basar, þetta er ekki hugsað þannig þó að vissu­lega geti það gerst og þá er bara annað sett upp í stað­inn,“ segir Ásdís. Að auki skilur jóla­sýn­ing Multis sig frá hinum jóla­mörk­uð­unum að því leyti að henni lýkur ekki á Þor­láks­messu en til stendur að hafa sýn­ing­ar­rýmið við Hafn­ar­torg opið síð­ustu daga árs­ins.

Þó svo að verkin séu ekki rifin af veggjum jafn­óðum á sýn­ing­unni þá er tölu­verður fjöldi verka til sölu. Það skýrist einna helst að því að verkin eru fjöl­feldi. „Við erum með um 42 lista­menn. Hér er nátt­úr­lega tölu­vert af verkum af því að hvert verk er til í upp­lagi þannig að við erum örugg­lega með hátt í 150 verk en við höfum ekki tekið það nákvæm­lega sam­an. Hver lista­maður er kannski með verk sem er til í upp­lagi af 15 til 20. Sumir bara með þrjú til fimm. Það er bara mis­jafnt hvernig það er,“ segir Ásdís.

Sýn­ingin „svo­lítið spont­ant“

Hvernig er með und­ir­bún­ing fyrir svona sýn­ingu, hvenær hefst hann?

Ásdís: „Þetta var nú svo­lítið „spont­ant“ hjá okk­ur. Við vorum reyndar búnar að ákveða í nóv­em­ber, byrjun nóv­em­ber að við ætl­uðum að vera með sýn­ingu sem færi upp í des­em­ber og myndi vera uppi allan mán­uð­inn.“

Helga: „Það sem ein­fald­aði þetta fyrir okkur er að við erum nýbúnar að vera með stóra sýn­ingu í Lista­safni Reykja­nes­bæjar þar sem við vorum með allt okkar grunn­safn af verk­um. Við fluttum þetta næstum því beint hingað af safn­inu og vissum svo­lítið hvaða nálgun við vildum hafa. Þannig að þá vorum við komnar með skýra mynd af því hvað við vild­um. Þannig við gátum gengið dálítið hreint til verks þegar við fengum þetta fína hús­næð­i.“

Fjölfeldin á sýningunni eru bæði í tví- og þrívídd.
Bára Huld Beck

Spurðar að því hvers vegna þær hafi ákveðið að velja þá leið að halda jóla­sýn­ingu segir Helga það meðal ann­ars hafa verið til að vekja athygli á starf­semi Mult­is. „Í jan­úar á þessu ári þá sett­umst við að á Snorra­braut­inni í Mjólk­ur­stöð­inni. Þar erum við með skrif­stofu og lítið sýn­ing­ar­rými en við fundum það alveg að það vantar svo­lítið upp á að fólk viti af okk­ur. Lista­senan veit af okkur og þessi rad­íus í kringum okk­ur. Svo við finnum að við þurfum að ná til stærri hóps og þetta er mjög góð leið til þess, að vera hérna á áber­andi stað. Fólk lítur hingað inn og upp­götvar okk­ur. Þetta er búið að gera allt fyrir okkur sem við von­uð­umst til.“

Þannig að það hefur verið svo­lítið renn­erí af fólki hérna á aðvent­unni?

Helga: „Já­jájá og fólk er dug­legt að kaupa list.“

Ásdís: „Það er líka gaman því verkin eru fyrst og fremst á net­inu en hérna fær fólk tæki­færi til þess að koma og skoða verkin og líka kynna sér betur starf­sem­ina okk­ar. Sýn­ingin hér var hugsuð sem kynn­ing fyrst og fremst á Multis og þessum lista­verkum og sér­stak­lega á nýjum verkum sem við vorum að kynna núna í des­em­ber. Ný fjöl­feldi eftir ein­hverja af okkar lista­mönnum og fleiri sem eru að bæt­ast við.“

Helga: „Við höfum líka verið að nota tæki­færið fyrst við erum í þessu fína hús­næði að vera með við­burði. Við erum búnar að vera með nokkrar upp­á­kom­ur.“

Jóla­sýn­ing­arnar hafa brotið niður múra

Snorri Ásmunds­son reið fyrstur á vaðið í upp­á­komu­röð Multis er hann hélt gjörn­ing í sýn­ing­ar­rým­inu. Einnig var nýtt verk Snorra sem sýnir frú Vig­dísi Finn­boga­dóttur kynnt. Að sögn Helgu hafa eft­ir­prent­anir verks­ins „slegið í gegn“. Auk Snorra hefur Gjörn­inga­klúbb­ur­inn framið gjörn­ing sam­hliða kynn­ingu á nýrri plötu. Þar var einnig haldið útgáfu­hóf nýrrar bókar Jónu Hlífar Hall­dórs­dótt­ur, Drif­hvít sýn, og þá var sér­stök kynn­ing á verkum Rúríar við opnun sýn­ing­ar­rým­is­ins í upp­hafi mán­að­ar.

Ásdís: „Við höfum verið að setja upp margar sýn­ing­ar. Þessi sýn­ing fyrir jólin er bara við­bót í flór­una. Það hefur verið svo öflug mynd­list­ar­flóra í gangi fyrir jól­in, margar sýn­ingar og það er gaman að taka þátt.“

Helga: „Maður sér að það hefur ofsa­lega skemmti­leg áhrif hvað það eru margir með svona jóla­sýn­ingar og -basara. Ásmund­ar­salur hefur kannski náð að leiða ákveðna stemn­ingu sem mörgum finnst spenn­andi. Almenn­ingur er orð­inn miklu opn­ari fyrir mynd­list. Ég finn mjög mik­inn mun á því, því það var oft uppi við­horfið „ég hef ekki vit á mynd­list,“ hjá fólki sem kannski teng­ist ekki brans­anum eitt­hvað beint. Það hafði ein­hvern ótta gagn­vart mynd­list­inni en er núna orðið spennt. Fólk er að koma hérna, fólk sem hefur aldrei tengst mynd­list sér­stak­lega, en er ein­hvern veg­inn að vakna til vit­undar um þetta fyr­ir­bæri og er spennt.“

Hafa jóla­mark­að­irnir brotið niður þá múra?

Helga: „Ná­kvæm­lega. Ég held að það sé alveg mál­ið.“

Áhug­inn auk­ist á síð­ustu árum

Hvers vegna eru þeir orðnir svona margir?

Ásdís: „Ég held að almennt sé fólk áhuga­sam­ara um mynd­list heldur en það var fyrir 10, 20 árum síð­an. Það er nátt­úr­lega alltaf ein­hver hópur sem er áhuga­samur en ég held að þessi hópur sé að stækka og þessi með­vit­und um að velja fal­lega sam­tíma­mynd­list heim til sín, upp á vegg, inn á heim­il­in. Ég held að fólk sé með­vit­aðra um að það sé mik­il­vægt, að það sé ekki bara mik­il­vægt að vera með fína hönnun heldur líka mynd­list. Hún er áhuga­verð og hún end­ur­speglar það sem er að ger­ast í umhverf­inu og í sam­tím­an­um. Þannig ég held að áhug­inn sé bara að aukast.“

Helga: „Þetta kemur frá báðum átt­um. Bæði kemur þetta frá mynd­list­inni sem vill kom­ast út og vill að fólk viti af sér. Það er alveg hluti af því að vera mynd­list­ar­maður í dag að selja verkin sín og þetta er ákveðið tæki­færi. Svo er það líka þessi aukni áhugi. Þetta er að skila sér í miklu sterkara og flott­ara sam­tali heldur en hefur verið áður á milli almenn­ings og mynd­list­ar­inn­ar.“

Þó að jólasýning Multis sé að einhverju leyti frábrugðin öðrum jólasýningum þá er upphengið með salon stíl.
Bára Huld Beck

Ásdís segir að hægt væri að verja heilum degi í að ræða hvað ein­kenni list­sköpun sam­tíma­lista­manna þegar þær eru spurðar út í hvað hægt sé að segja um það. Eitt sé þó víst og það er að mynd­list­ar­menn hafi mikið að segja í verkum sín­um.

„Lista­verk verður ekki bara til og sprettur ein­göngu út frá litum og formi, þó það ger­ist vissu­lega. Ég held að það sé yfir­leitt heil­mikið um vanga­veltur og pæl­ingar á bak­við verk­in. Það er það sem mér finnst ein­kenn­andi að þegar lista­mað­ur­inn býr til lista­verk er hann að fást við heil­miklar vanga­veltur og pæl­ingar og hefur jafn vel verið að rann­saka ýmis­legt og setur þetta svo fram í sam­hengi við sam­tím­ann.“ segir Ásdís og bætir við að það megi líka oft finna ein­hvern leik í sam­tíma­list­inni.

Helga tekur í sama streng, segir að það sé oft eitt­hvað „raun­veru­legt content“ í lista­verkum sam­tíma­lista­manna. Þau þurfi þó líka að vera fag­ur­fræði­lega sterk. „Þetta verður að vera það fyrir það sem við erum að gera. Þessi fjöl­feldi eru kölluð „object­s“. Þetta eru hlutir sem að hafa mynd­list­ar­legt inn­tak en höfða jafn­framt til feg­urð­ar­skyns­ins og það er mik­il­vægt að bæði sé til stað­ar.“

Fjöl­feldin vant­aði sinn vett­vang

Hvernig kom Multis til, hvers vegna farið þið af stað með það?

Ásdís: „Okkar sam­tal hófst fyrir ein­hverjum fjórum árum að minnsta kosti. Þetta byrjar kannski upp­haf­lega þegar Helga var að reka Týs­gall­erí. Þau voru byrjuð að vinna á þessum nót­um, að fá lista­menn til að búa til fjöl­feld­i.“

Helga: „Við gerðum tvær ser­í­ur, annað var þrí­vítt og hitt var prent­verk­efnið Þrettán þrykk. Ég hef alltaf verið spennt fyrir fjöl­feldum og meira að segja vann aðeins þannig sjálf þegar ég var virkur mynd­list­ar­mað­ur. Ég var einu sinni virkur mynd­list­ar­maður en ekki í dag, ég finn mig betur í umhverf­inu og umgjörð­inni. Í okkar sam­tali þá sáum við það að í raun­inni vant­aði ein­hvern vett­vang þar sem unnið var með fjöl­feldi vegna þess að það var ekk­ert. Það voru ein­hverjir að prenta. En okkur fannst vanta þrí­víð fjöl­feldi, að það þyrfti ein­hver að sinna því. Okkur fannst það spenn­andi verk­efni fyrir okkur og rými á mark­aðnum fyrir það. Svo ætl­uðum við fyrst bara að vera með þrí­víðu fjöl­feldin en svo breytt­ist það og við tókum tví­vídd­ina inn líka þannig að við erum að sinna báðu. En núna, og ég er ekki að segja að það megi rekja það til okk­ar, en það er orðin mikil stemn­ing fyrir fjöl­feldum, bæði þrí­víðum og tví­víðum hjá fleirum sem eru að reka svona batt­er­í.“

Ásdís: „Mörg gall­erí hafa verið með fjöl­feldi, það er að segja lista­menn­irnir sem þau vinna með halda sýn­ingar og stundum eru ein­hver fjöl­feldi búin til eða þau kynnt sér­stak­lega á síðu gall­er­ís­ins. En þessi áhersla, þessi meg­in­á­hersla á fjöl­feldi hefur ekki verið að finna áður í íslenskri gall­er­íflóru. Einnig fyrir fólk sem hefur ekki mikla inn­sýn í mynd­list, þá er þessi mögu­leiki til staðar á að fjár­festa í mynd­list eftir vel þekktan og virtan lista­mann á við­ráð­an­legu verði. Það opnar enn fleiri mögu­leika á sölu og líka fyrir fleiri til að eign­ast verk­in.“

Íslensk mynd­list eigi erindi „úti í hinum stóra heimi“

Helga: „Þetta er bæði snið­ugt fyrir unga safn­ara eða fólk sem er að stíga sín fyrstu skref. Svo er fólk sem hefur keypt af okk­ur, það er stundum fólk sem er búið að safna lengi og það lítur á þetta sem spenn­andi kost. Það er ekk­ert endi­lega út af verð­inu heldur af því að þetta eru spenn­andi verk eftir flotta mynd­list­ar­menn.“

Ásdís: „Líka því þetta er núm­erað upp­lag þá er áhuga­vert að sumir eru áhuga­samir um ákveðin númer og finnst upp­lagið sjálft áhuga­vert konsept. Erlendis sér maður að það er orðið heil­mik­ill mark­aður í kringum svona fjöl­feldi og eitt­hvað sem er farið að byggj­ast upp hérna heima sem við viljum leggja smá stuðn­ing við.“

Helga: „Við erum líka spenntar fyrir því sem er að ger­ast erlendis og okkur langar að skoða þennan markað í stærra sam­hengi því íslensk mynd­list á svo sann­ar­lega erindi úti í hinum stóra heim­i.“

Seglar og málmar mætast í skúlptúrum Magnúsar Helgasonar sem ögra þyngdaraflinu.
Bára Huld Beck

Hvað ber fram­tíðin í skauti sér fyrir Multis?

Ásdís: „Það er eitt­hvað spenn­andi. Við erum með alls konar að ger­ast á nýju ári og við erum að fá inn ný verk og verðum með nýjar sýn­ing­ar. En erum alltaf með skrif­stof­urnar og sýn­ing­ar­rými á Snorra­braut en við erum ekki bundnar við það rými. Okkur finnst gaman að geta sett upp sýn­ingar á ólíkum stöð­u­m.“

Helga. „Við finnum að það er spenn­andi að vera þar sem fólk er. Þar sem maður þarf ekki sér­stak­lega að bjóða því í heim­sókn, það þarf ekki endi­lega að þekkja okkur per­sónu­lega eða vera alveg inni í mál­unum til þess að geta hitt á okk­ur.“

Sumir lista­menn­irnir aldrei unnið fjöl­feldi áður

Hafið þið verið með fastar sýn­ingar þarna á Snorra­braut eða rúllar þetta frekar, það sem er á veggj­unum hverju sinni?

Ásdís: Við erum í sam­tali við lista­menn­ina um að búa til fjöl­feldi. Við eigum þetta sam­tal og höfum þannig náð að móta ferlið og þau hafa búið til verk. Við erum með svona útgáfu á verk­inu þar sem fólki er boðið og verkin eru sett upp og sýnd. Annað hvort á Snorra­braut í sýn­ing­ar­rým­inu okkar þar eða þá ann­ars stað­ar. Við erum til dæmis búnar að vera með nokkrar kynn­ingar hér og svo höfum við verið á Hjarta­torgi.

Helga. En við erum dug­legar að nýta okkur þetta sýn­ing­ar­rými sem við erum með þarna í Mjólk­ur­stöð­inni sem er mjög skemmti­legt. Við höfum jafn­vel verið að færa okkur meira út í að nota það rými sem „project rým­i“, í eitt­hvað annað en útgáfu, þannig að úr verði smá sam­tal.

Í upp­hafi greinar var tæpt á þeim atriðum sem gera jóla­sýn­ing­una „Svona gerum við“ frá­brugðna öðrum sýn­ingum í jóla­basara­flóð­inu. Eitt atriði má telja til við­bót­ar, en Ásdís nefnir að þær Helga sýn­ing­ar­stýri sýn­ing­unni að ein­hverju leyti. „Þegar við förum í það sam­starf að vinna með lista­manni að búa til fjöl­feldi, þá er þetta sam­tal og verkin verða því til í sam­tali við lista­mann­inn. Lista­mað­ur­inn verður því að vinna með þessa hug­mynda­fræði að búa til fjöl­feldi. Hér hafa orðið til alveg fullt af lista­verkum sem hefðu ekki endi­lega orðið til hefði þetta sam­tal á milli lista­manns­ins og Multis hafi ekki átt sér stað,“ segir Ásdís.

Helga bætir því við að sumir af þeim lista­mönnum sem Multis starfar með eru að vinna upp­lags­verk í fyrsta sinn: „Og það hafa ekk­ert allir lista­menn­irnir sem við erum í sam­tali við gert fjöl­feldi áður. Sumir hafa gert mikið af því en aðrir bara jafn­vel ekki neitt. Og þetta er alveg ný hugs­un. Það er líka skemmti­legt, því lista­menn­irnir þurfa svo­lítið að útvíkka sig til þess að mæta þessu konsept­i.“

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnGrétar Þór Sigurðsson
Meira úr sama flokkiViðtal