„Það er stórslys í uppsiglingu“
Tugir fólks sem ýmist býr í Norðurárdal og nágrenni hans eða á þangað reglulega erindi mótmæla harðlega hugmyndum um vindorkuver í dalnum. Forseti sveitarstjórnar Borgarbyggðar segir allt í biðstöðu þar til ríkið gefi tóninn fyrir nýtingu vindsins.
Tröllvaxið iðnaðarsvæði sem mun spilla tignarlegri fjallasýn í friðsælli sveit. Til marks um dómgreindarleysi og gróðafíkn fárra á kostnað einstakrar náttúru og mannlífs. Undrun, vonbrigði og óhugnaður. Yfirgangur og ásælni. Stórslys er í uppsiglingu.
Þetta eru aðeins örfá dæmi um það sem fólkið sem býr í Norðurárdal í Borgarfirði eða leitar þar athvarfs hluta úr ári hefur að segja um þau áform fyrirtækisins Qair Iceland að reisa vindorkuver á 3.500 hektara landi bæjarins Hvamms. Orkuverið, sem fyrirtækið kallar Múla, myndi telja 13-17 vindmyllur sem hver yrði um 200 metrar á hæð. Fyrstu skref í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafa verið tekin en virkjunarhugmyndin er hvorki komin inn á skipulag sveitarfélagsins né hefur hún fengið umfjöllun í rammaáætlun.
„Að lesa þennan texta er eins og að bíta í álpappír,“ skrifar arkitekt sem ólst upp á bænum Hvammi og þekkir þar því hverja þúfu og hvern hól. Erlend stórfyrirtæki vaða nú yfir landið „eins og logi yfir akur í leit að tækifærum til að hagnast á auðlindum landsins,“ segir eigandi frístundahúss í dalnum.
Yfir sextíu manns sem hafa náin tengsl við Norðurárdal sendu inn athugasemdir við matsáætlun Qair er hún var auglýst í vetur. Þar er lýst eindreginni andstöðu og jafnvel andúð á áformunum. Fólkið segir að verið myndi spilla útsýni, m.a. við fjallið Baulu, sem og kyrrðinni sem ríkt hefur í aldir. Það hefur auk þess miklar áhyggjur af áhrifum framkvæmdarinnar á lífríkið, ekki síst á fugla og Norðurá – „drottningu íslenskra laxveiðiáa“. Orkuverið yrði í „æpandi mótsögn“ við ímynd Norðurárdalsins sem einstakrar íslenskrar náttúruperlu.
Bent er á rannsóknir sem sýni að gríðarlegt magn af örplasti feykist af spöðum vindmylla vegna veðrunar og að hundruð lítra af olíu þurfi til að reka þær ár hvert. Þá sé vandkvæðum bundið að farga þeim líkt og dæmi erlendis frá sýni. „Við eyðileggingu á landi og samfélagi ætti að hverfa frá notkun hugtaksins „sjálfbærni“, annað er hvorki siðferðilega rétt né heiðarlegt,“ bendir kona sem unnir dalnum á.
„Hvernig passar risastórt mannvirki sem sést mjög víða að við ferðaþjónustu á sama svæði?“ spyr Anja Mager á Dýrastöðum sem er næsti bær við Hvamm.
„Hæð vindmyllanna samsvarar 2,7 Hallgrímskirkjuturnum ofan á hver öðrum,“ segir Hrafnhildur Sverrisdóttir, arkítekt og fyrrum heimasæta í Hvammi. Vindmyllurnar myndu ekki aðeins valda sjónmengun í öllum Norðurárdal heldur sjást ofan af hálendi, frá mörgum þekktari ferðamannastöðum landsins.
„Ég og fjölskylda mín höfum frá árinu 1989 átt okkar annað heimili að Háreksstöðum en þar hefur verið búið frá landnámi óslitið,“ segir Birgir Þór Borgþórsson. Ef hugmyndirnar ná fram að ganga myndi það hafa veruleg áhrif á hagi hans og fjölskyldunnar, fjárhagslega en ekki síður tilfinningalega. „Það er stórslys í uppsiglingu nái skammtíma gróðasjónarmið kauphéðna fram að ganga í dalnum.“
Dagmar Guðrún Gunnarsdóttir, Króki, segist vera í hópi þeirra fjölmörgu sem hafi um langan tíma tengst Norðurárdalnum tryggðar- og tilfinningaböndum og eigi því erfitt með að skilja það dómgreindarleysi að vilja dreifa um hann vindmyllum. „Ég vona að okkur sem unnum dalnum beri gæfa til að afstýra þessu umhverfisslysi og hafa betur í baráttu við útsendara gróðaaflanna.“
Hafna tengingu um land sitt
Eigendur jarðanna Sveinatungu og Gestsstaða, næstu bæja við Hvamm, benda á að í matsáætluninni sé lítið fjallað um tengingar versins við raforkukerfið. Hins vegar komust þeir að því við skoðun á enskri útgáfu lýsingar Qair á framkvæmdinni að lögð sé til tenging um land Sveinatugu, áleiðis að tengivirki í Hrútatungu. „Um þetta hefur ekki verið haft neitt samráð við eiganda Sveinatungu og rétt er að taka fram að tengingar fyrirhugaðrar framkvæmdar við dreifikerfi um land Sveinatungu og Geststaða munu ekki verða heimilaðar.“
Þeir vekja einnig athygli á því að frístundabyggð í landi Sveinatungu sé í um 1-1,3 kílómetra fjarlægð frá tillögu að syðstu vindmyllunum. Allar yrðu þær í innan við sex km fjarlægð frá byggðinni. Því megi öruggt telja að staðsetningin uppfylli ekki skilyrði reglugerðar um leyfilegan hávaða frá atvinnustarfsemi nærri frístundabyggð.
Undir þetta taka margir. Vindmyllurnar myndu trufla þann frið sem verið hefur hér í aldir, skrifa ábúendur og eigendur Glitstaða og Svartagils.
Enginn heilvita maður kaupir hús við vindorkuver
Eigendur Brautarlækjar, frístundahúss í landi Króks í Norðurárdal, segja að ef öll þau framkvæmdaáform gangi eftir sem viðruð hafi verið „erum við nánast orðin umkringd vindmyllum.“ Vísa þeir þar til þess að þrjú vindorkuver séu áformuð á þessum slóðum: Á Grjóthálsi ofan Hafþórsstaða, við Sýrdalsborgir í landi Króks auk versins fyrirhugaða í landi Hvamms. „Megin aðdráttarafl hússins okkar er einstaklega falleg sýn til Baulufjallanna, inn Sanddal og áfram upp á heiði þar sem Snjófjöllin og Tröllakirkjan gleðja augað í fjarskanum. Frá húsinu okkar munu vindmyllurnar verða yfirgnæfandi í landslaginu og sennilega verða þær allar með tölu sýnilegar út um stofugluggann hjá okkur.“
Ef orkuverið verður reist muni það verðfella eign þeirra. „Enginn heilvita maður kaupir frístundahús á landspildu þar sem það helsta sem grípur augað í landslaginu eru 200 metra háar vindmyllur.“
Eins og flugvél sé að nálgast
Það þekkja allir sem hafa komið í nálægð við vindorkuver erlendis að það er stöðugur hvinur frá þeim, jafnvel í margra kílómetra fjarlægð, „eins og flugvél sé að nálgast,“ skrifa Magnús Leópoldsson, fasteigna- og jarðasali til áratuga og Árný Sigrún Helgadóttir, ábúendur að Hvassafelli II. Þau segja þetta hljóð ef til vill ekki hávært mælt í desíbelum en „ákaflega hvimleitt“, sérstaklega á stöðum þar sem náttúrukyrrð ríkir.
Vegna þessara „stórtæku áforma“ sé eignaverð á svæðinu þegar farið að lækka og eftirspurn að minnka. Skaðinn sé þegar skeður. „Það verður ekki gott að búa í Norðurárdal ef af þessu verður. Til þess þarf að stöðva allar vindorkuframkvæmdahugmyndir í uppsveitum Borgarfjarðar og víðar á sambærilegum svæðum.“
Skemmdarverk á umhverfinu
Eigendur Króks segja það vekja mesta undrun og mestum vonbrigðum „að til skuli vera fólk, sem kemur í þessa dali, sem eru víðfrægir fyrir fegurð, og virðist albúið til þess að fremja skemmdarverk á umhverfinu“.
Í dalnum er vissulega mikil orka, skrifar Gunnar Óli Dagmararson, sem einnig hefur tengsl við Krók. „Fólk hefur sótt í þessa orku í árhundruð, orku sem einkennist af friði, fegurð og veðursæld.“ Hann segir áform Qair „víðáttu heimskuleg“. Um sé að ræða „ófyrirleitna og ógeðfellda græðgi einkaaðila“.
Fegurðin dælir blóði um hug og hjarta
Lykilorð skýrslunnar eru: Vindmyllur, vindorkugarður, Qair, matsáætlun, mat á umhverfisáhrifum, skrifar Gunnar Hersveinn, heimspekingur. „Lykilorð mín eru önnur. Það sem vegur margfalt þyngra til lengri tíma er sú fegurðarreynsla og upplifun sem svæðið veitir. Ég býst ekki við að þið skiljið það en: Fegurðin sem hverfur dælir nú blóði um hug og hjarta, hún snarvekur ímyndunaraflið sem bræðir okkur saman, okkur sjálf, samfélagið og náttúruna. Norðurárdalur er ekki virkjanavöllur, hann er landslag sem við viljum eiga eins og það er núna.“
„Það ætti að vera hverjum manni ljóst að það er fjarstæðukennd hugmynd að reisa orkuver af nokkru tagi á þessu svæði,“ skrifar Jón Hjörtur Brjánsson, skógræktarmaður á Króki. Hann veltir fyrir sér hvernig hægt sé að koma á framfæri andmælum við „þessa firru“ þannig að forsvarsmenn Qair, landeigandi í Hvammi og aðrir sem telji hugmyndina góða skilji „að þetta er glæpur gegn náttúrunni“ og fólkinu sem um hana fer.
Bjó að Hvammi í 65 ár
Þeir sem best þekkja til í Hvammi, feðginin Hrafnhildur Sverrisdóttir og Sverrir Guðmundsson segja fuglalífið á jörðinni einstaklega fjölskrúðugt. Þar hafi, auk algengari tegunda á borð við ýmsa mófugla, gæsir og endur, viðkomu uglur, fálkar og ernir. Sverrir bjó að Hvammi í 65 ár. Á jörðinni sé að finna aldagamlan birkiskóg. Um hann þyrfti að leggja vegi. „Á Íslandi er kappsmál að koma upp skógum og endurheimta votlendi,“ skrifar Sverrir. „Í Múla og víða um jörðina Hvamm er náttúrulegur skógur og votlendi hefur ekki verið framræst. Það ætti að leggja sérstaka áherslu á að varðveita þessi fyrirbæri vegna loftslagsmála“.
Hann segir svo, líkt og margir aðrir Dalbúar, að framkvæmd upp á 13-17 stykki af 200 metra háum vindmyllum eigi ekki „að kalla jafn huggulegu nafni og garður“.
Vitlaust gefið
Sveitarstjórnaryfirvöld hafa aldrei kannað hug íbúa og landeigenda í Norðurárdal til framkvæmdanna, skrifa Kristín Helga Gunnarsdóttir, Erla Guðný Helgadóttir og Soffía Sóley Helgadóttir, Króki. „Aldrei hafa þessi sömu yfirvöld kannað drauma, vonir og þrár þeirra sem hafa staðið vörð um dalinn um áratuga skeið.“
Þær segja „lukkuriddara“ hafa fengið að kanna virkjanakosti í Krókslandi, en landeigendur höfnuðu þeim virkjanahugmyndum alfarið. „Skýrslan [um vindorkuver að Króki] fer samt áfram og er lögð fram sem raunhæf hugmynd að virkjanakosti á vef Orkustofnunar sem tillaga í rammaáætlun.“
Í þessu endurspeglist lýðræðishalli. Einstaklingar þurfi að taka sig saman og „verjast einkafyrirtækjum í innrás með verkfræðistofur og stjórnvald [Orkustofnun] í vinnu.“
Fólk í Norðurárdal verði þráfalt fyrir „yfirgangi og ásælni“ sem reynt sé að verjast af mismiklu þreki. „Stjórnvaldið í formi Orkustofnunar og sveitarstjórnar vinna með einkafyrirtækjum og framkvæmdavaldi. Þarna er vitlaust gefið.“
Hundruð lítra af olíu
Ef áætlun um það magn steypu sem þarf í grunnana undir vindmyllurnar stenst, um 14.000 m3, munu 1900 steypubílar aka fram og aftur frá Akranesi að framkvæmdasvæðinu, 78 kílómetra leið, benda Málfríður Kristjánsdóttir arkitekt og jarðeigandi í Norðurárdal á.
Þá komi fram í matsáætlun Qair að 100 lítra af olíu á ári þurfi fyrir hverja vindmyllu eða fyrir 13 vindmyllur eru það 1.300 lítrar á ári. Fyrir sautján 1.700 lítrar.
Þögnin rofin
Þær opinberu stofnanir sem gefa umsögn við matsáætlun Qair taka undir margt það sem fólkið í Norðurárdal bendir á.
Þorsteinn Narfason, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlit Vesturlands, skrifar t.d. þó svo að unnt verði að halda hljóðvist innan við regugerðarmörk þá geti hávaði eða hljóð frá vindmyllum valdið ónæði. „Þannig getur stöðugur niður sem mælist innan við meðaltalsmörk fyrir heilan sólarhring haft neikvæð áhrif á líðan og heilsu fólks. Fyrir íbúa og gesti getur þetta munað því að vera í þögn og að vera ekki lengur í þögn.“
Hann segir einnig ekki útilokað að vindmyllur geti haft neikvæð áhrif á virði nálægs lands og fasteigna vegna sjónrænna áhrifa og vegna breytinga á hljóðstigi.
Náttúrufræðistofnun segir að vegna eðlis og umfangs mun áætluð framkvæmd fela í sér mikla breytingu á notkun og ásýnd svæðisins og töluverðu raski á lítt snortinni náttúru. „Mikilvægt er að taka fram að ásýnd og nánasta umhverfi stórra jarðmyndana eins og Baulu hefur einnig áhrif á verndargildi hennar og taka þarf tilllit til þess í umhverfismati þótt ekki sé hætta á eiginlegu jarðraski.“
Þá hafi athuganir sýnt að umferð hafarna um Norðurárdal sé töluverð og að ránfuglar séu sérstaklega viðkvæmir fyrir áflugi á vindmyllur.
Umhverfisstofnun bendir á að framkvæmd Qair yrði á votlendi sem njóti verndar í náttúruverndarlögum. Það sama eigi við um gamla birkiskóga. Þá sé framkvæmdasvæðið í námunda við óbyggð víðerni.
Við segjum nei takk
Svona virkjunaráform varða alla landsmenn, skrifa ábúendur og eigendur Glitstaða og Svartagils. „Til þess að svona starfsemi verði samþykkt þarf að taka samtalið við íbúana og þjóðina. Við þurfum ekki annað umhverfisslys í boði erlends fjármagns. Við segjum nei takk.“
Ríkið þarf að setja rammann
Guðveig Eyglóardóttir, forseti sveitarstjórnar Borgarbyggðar, segist hafa fullan skilning á því að fólkið í Norðurárdal gagnrýni áformin harðlega. Enginn vilji stórar framkvæmdir í sínu næsta nágrenni, hvorki vindmyllur né annað. Ekki standi hins vegar til að fara í skipulagsbreytingar vegna þessa vindorkuvers né annarra, að minnsta kosti á næstunni. „Við og væntanlega önnur sveitarfélög bíðum eftir því að ríkið móti einhverja rammaáætlun um nýtingu vindorku,“ segir hún við Kjarnann. „Frá okkar bæjardyrum séð er það grundvallarforsenda áður en við förum að ræða þessi mál eitthvað frekar.“
Henni finnst umræðan um vindorkuver komin langt fram úr sér og að erfitt sé fyrir sveitarfélög að taka þátt í henni á meðan ríkið hafi ekki mótað stefnu.
Umræðan í fjölmiðlum er hins vegar vel skiljanleg þar sem fjöldi fyrirtækja hefur sett fram á ýmsum vettvangi áform sín um byggingu slíkra vera. Tvö eru t.d. þegar komin inn á aðalskipulag sveitarfélagsins Dalabyggðar og hugmyndir að 34 voru sendar til umfjöllunar í 4. áfanga rammaáætlunar. Guðveig segist skilja að vissu leyti að fyrirtækin séu farin af stað í þessa vinnu. Gera þurfi margar og tímafrekar rannsóknir. „Kannski eru þessir fjárfestar eins og aðrir að freista þess að nota tímann til að vinna sér í haginn.“
Ríkið verði að skapa rammann og ríkisstjórnin hefur ákveðið að mörkuð skuli stefna um uppbyggingu vindorkuvera á afmörkuðum svæðum. Nýskipaður starfshópur á að fara ofan í kjölinn á þeim áætlunum og koma með tillögur. Annars myndi beiðnum um vindorkuver rigna yfir sveitarfélög „og þetta yrði eins og villta vestrið og það væri byrjað að drita þessu niður út um allt.“
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Zephyr frestar kynningarfundi á vindorkuveri í Hvalfirði
-
29. desember 2022Vindmyllur við Lagarfoss þurfa í umhverfismat
-
8. desember 2022Áforma að reisa 70-100 vindmyllur í grennd við Stuðlagil
-
2. desember 2022Skrítið ef „enginn staður á Íslandi kæmi til greina fyrir vindorku“
-
30. nóvember 2022Vindorkuver um land allt yrðu mesta umhverfisslys Íslandssögunnar
-
27. nóvember 2022Hugmyndir um útbreidd vindorkuver „alls ekki raunhæfar”
-
26. október 2022Kínverjar áforma langstærsta vindorkuver heims
-
24. október 2022Vindurinn, rammaáætlun og orkuskipti
-
21. október 2022Vindmylluframleiðandi ekki lengur á dagskrá vettvangsferðar Grænvangs
-
29. september 2022Óeðlilegt að formaður starfshóps um stöðu orkumála tali fyrir öfgafyllstu sviðsmyndinni