Hin fagurhærði fasteignamógúll og forsetaframbjóðandi Donald Trump hefur verið nokkuð áberandi á sviði íþróttanna í gegnum tíðina. Hann á fjölmarga golfvelli um heim allan, hefur skipulagt og haldið hnefaleikabardaga og keppt (já keppt) í amerískri fjölbragðaglímu. Það hefur verið deilt um það hvort Trump sé innilegur íþróttaaðdáandi eða hvort hann sé einungis að koma sjálfum sér á framfæri. Honum finnst nefnilega ekki leiðinlegt að vera í sviðsljósinu. Draumur Trump var lengi að eignast lið í amerísku ruðningsdeildinni NFL. En sú ást var ekki endurgoldin því að NFL vildi ekkert með Trump hafa.
USFL byrjar
USFL var hugarfóstur kaupsýslumannsins David Dixon. Hann hafði gengið með hugmyndina í maganum í tæplega 20 ár áður en hún varð loks að veruleika árið 1982. Leikir í USFL voru spilaðir á vorin þegar NFL deildin lá niðri. NFL, sem er langvinsælasta íþróttadeild Bandaríkjanna, hefur lengsta fríið af öllum stóru atvinnumannadeildunum og Dixon sá tómarúm sem hann ákvað að nýta sér. Hann hafði mjög skýra sýn á það hvernig deildin ætti að bera sig. Hann þurfti góða fjárfesta, aðgang að stórum völlum á svæðum sem þegar höfðu NFL lið og góða sjónvarpssamninga. Hann lagði líka áherslu á aðhald í rekstrinum og að liðin færu ekki fram úr sér við það að skáka NFL. Deildin átti hægt og bítandi að skipa sér ákveðinn sess í íþróttaflóru Bandaríkjanna. Hún átti líka að vera öðruvísi og fersk. Hún var „skemmtilega deildin“ með alls kyns reglum sem voru hannaðar til þess að auka sóknarbolta. Hún var spennandi og óútreiknanleg. USFL náðu samningum við ABC og hina nýstofnuðu ESPN um sýningarrétt. Myndatakan á leikjunum var öðruvísi en áhorfendur áttu að venjast, þ.e. mikið um snöggar klippingar og endursýningar og búningarnir og hjálmarnir voru litríkir og nýmóðins. Leikmenn deildarinnar urðu einnig þekktir fyrir að fagna snertimörkum á frumlegan hátt. Frægar stjörnur á borð við Burt Reynolds og Loni Anderson voru fengnar til að kynna deildina.
From player introductions. To the game-winning play. @Broncos vs. @Chiefs Live #TNF @Snapchat Story! #DENvsKC http://t.co/qy1y8h7Gwa
— NFL (@NFL) September 18, 2015
Trump tekur völdin
Trump hafði verið í hópi upprunalegu fjárfestanna í deildinni. Hann stofnaði liðið New Jersey Generals sem spiluðu í East Hanover, rétt sunnan við New York. En áður en fyrst leiktíðin hófst seldi hann liðið til J. Walter Duncan, olíubaróns frá Oklahoma. Ári seinna keypti Trump liðið aftur og fór þá ekki leynt með áætlanir sínar. Hann skar upp herör gegn NFL til þess eins að þvinga samruna deildanna. Hann sá fyrir sér að nokkur lið (þar með talið hans eigið) úr USFL myndu fá aðgang að NFL rétt eins og gerðist þegar körfuboltadeildin ABA lognaðist út af árið 1976. Þá gengu fjögur lið inn í NBA deildina. Trump hafði dýpstu vasana af eigendunum og stærsta munninn. Hann fékk því mestu athyglina og varð því nokkurs konar rödd deildarinnar. Það var ekki bara út á við heldur hafði hann tögl og hagldir í eigendahópnum líka. Hann keyrði upp eyðsluna í deildinni. Peningarnir flæddu og USFL liðin yfirbuðu NFL á leikmannamarkaðinum. Bestu leikmennirnir úr háskólaboltanum og margir af eldri leikmönnum úr NFL deildinni streymdu í hina nýju, ríku og skemmtilegu deild. En það var ekki nóg að keppa við NFL um leikmenn, Trump vildi líka keppa um tíma. Hann vildi færa dagskránna yfir á haustin og spila samhliða NFL. Hann sagði í viðtali að „Ef guð hefði viljað vor-fótbolta.....hefði hann aldrei skapað hafnabolta.“ Þetta gekk algerlega gegn upprunalegu hugjón Dixons en smátt og smátt fékk hann eigendur hinna liðanna til þess að samþykkja að færa dagskránna. 13 af 15 eigendum kusu með því að fjórða tímabilið, árið 1986 yrði spilað að hausti til.
Deildin hrynur
Þó að deildin hafi byrjað með látum var ljóst að undirstöðurnar voru veikar. Aðsókn á leiki og sjónvarpsáhorf var langt á eftir NFL. Mikil offjárfesting á mjög stuttum tíma kom í bakið á eigendunum. USFL og NFL voru í eiginlegu launastríði til þess að tryggja sér bestu leikmennina. Meðallaun NFL leikmanna þrefölduðust á örfáum árum en munurinn á deildunum tveimur var sá að eigendur NFL liðanna höfðu efni á því. USFL deildin stækkaði líka alltof hratt. Liðunum fjölgaði úr 12 í 18 eftir fyrsta tímabilið. Eigendur flestra liðanna höfðu ekki nærri jafn djúpa vasa og Donald Trump og mörg liðin lentu strax í miklum fjárhagslegum kröggum. Sum liðin gátu ekki greitt leikmönnunum laun. Deildin var ótrygg og nokkur lið voru flutt milli borga eða sameinuðust öðrum. Samhliða þeirri ákvörðun að færa dagskránna yfir á haustið var farið í skaðabótamál gegn NFL sem Donald Trump leiddi. Kæran var sú að NFL hefði einokunarstöðu á haustmarkaðnum með sjónvarpssamningum við allar þrjár stærstu sjónvarpsstöðvarnar. Vonir margra USFL eigenda héngu á þessari málsókn. Dómurinn féll og NFL deildin var fundin sek af öllum ákæruliðum. En kviðdómurinn leit svo á að Trump og félagar hans væru ekki í alvöru samkeppni á haustmarkaðnum og skaðabæturnar voru því aðeins þrír dollarar. Í kjölfarið á dómsuppskurði gáfust eigendur USFL liðanna upp og deildin var samstundis lögð niður.
Eftirmálar
Kergjan og biturðin voru töluverð eftir að USFL hrundi. Ekkert af liðunum var tekið inn í NFL heldur voru þau öll lögð niður en bestu leikmennirnir fóru vitaskuld yfir. Trump leit aldrei til baka, hann hefur yfirleitt varist spurningum um þennan tíma en telur sig þó hafa staðið sig prýðilega sem leiðtogi deildarinnar og að hún hafi í raun aldrei átt möguleika. Margir aðrir telja þó að upprunalega hugmyndin hafi verið góð og deildin hafi átt prýðisgóða möguleika á að vaxa og dafna á sínum eigin hraða. Þegar deildin hrundi höfðu bæði ABC og ESPN stöðvarnar boðið umtalsvert betri samninga en það var enginn til að skrifa undir. Sagan af USFL er í raun smækkuð mynd af ferli og lífi Donalds Trump. Hann kemur inn, sprengir allt í loft upp, fær alla á sitt band og ef allt gengur ekki upp, skilur hann þá eftir í rústunum. Allt snýst um hans eigin persónu sem er stanslaust í fjölmiðlum með sinn stóra munn og aldrei er hlustað á gagnrýnisraddir. Það væri sennilega betra fyrir alla að hann yrði áfram í raunveruleikasjónvarpinu og slúðurdálkunum en ekki í hvíta húsinu.