Kjarninn endurbirtir nú valda pistla Borgþórs Arngrímssonar sem samhliða eru gefnir út sem hlaðvarpsþættir. Fréttaskýringar Borgþórs njóta mikilla vinsælda og sú sem er endurbirt hér að neðan var upphaflega birt þann 29. ágúst 2021.
Flestir kannast við Einar Áskel, burstaklippta strákinn sem býr með pabba sínum. Færri þekkja hinsvegar nafn höfundarins sem skrifaði sögurnar og teiknaði myndirnar. Gunilla Bergström er látin.
Í útvarpsviðtali fyrir nokkrum árum sagði Gunilla Bergströ: „Mjög fáir þekkja nafn mitt en það líkar mér vel. En það þekkja aftur á móti margir hann Alfons Åberg enda kann hann að stela athyglinni drengur sá.“ Gunilla Bergström tók ekki of djúpt í árinni þegar hún sagði að margir þekktu Alfons Åberg, eins og strákurinn heitir á frummálinu. Bækurnar um Einar Áskel, eins og hann heitir í íslensku þýðingunni, eru samtals 26. Þær hafa verið gefnar út í að minnsta kosti 40 löndum og fjöldi seldra eintaka nálgast 10 milljónir.
Gunilla Bergström fæddist í Gautaborg í Svíþjóð 3. júlí 1942. Móðir hennar var kennari en faðirinn verkfræðingur. Þau skildu nokkrum árum eftir að Gunilla fæddist, faðir hennar giftist danskri myndlistarkonu og móðirin tók saman við vinnufélaga úr skólanum. Gunilla sagði síðar frá því að hjá föður hennar og „nýju“ konunni hefði lífið verið allt öðruvísi en hjá kennurunum, móður hennar og sambýlismanninum. „Seinni konan hans pabba kenndi mér að bera virðingu fyrir listamannsstarfinu.“
Blaðamaður og fyrsta bókin
Árið 1966 útskrifaðist Gunilla Bergström úr blaðamannanámi í Gautaborg. Hún fékk strax vinnu og starfaði næstu árin sem blaðamaður, hjá Dagens Nyheter og Aftonbladet.
Árið 1968 tók hún viðtal við þrjár konur, sem allar voru fráskildar. „Eftir á uppgötvaði ég að við höfðum í þessum samtölum alveg gleymt börnunum, það þótti mér einkennilegt. Ég mundi svo vel skilnað foreldra minna þótt það væru næstum liðin 20 ár síðan það gerðist.“ Í framhaldi af viðtölunum við konurnar þrjár skrifaði Gunilla Bergström sína fyrstu bók, Pabbi Míu flytur. Þótt stúlkan í bókinni héti Mía var þetta í raun saga Gunillu sjálfrar.
Þáverandi maður Gunillu sagði að sagan um Míu væri fyrir börn og hún ætti að senda hana til útgefanda. Gunilla þekkti lítið til bókaútgáfu en sendi handritið til forlagsins Rabén og Sjögren en það forlag gaf meðal annars út bækur Astrid Lindgren.
Bókin Pabbi Míu flytur kom út 1971, með myndskreytingum höfundarins.
Alfons Åberg, Einar Áskell
Myndirnar sem Gunilla Bergström hafði teiknað í bókina um pabba Míu var, að hennar sögn, kveikjan að bókunum um Einar Áskel. Hana langaði að gera bendibók, eins og hún komst að orði. Aðalpersónan skyldi vera ánægður strákur og ekki allt of mjúkmáll. Það tók Gunillu aðeins eina helgi að teikna myndirnar, sem áttu að vera aðalatriði bókarinnar. Sagan, sem var hálfgert aukaatriði í byrjun, fjallar um dreng sem býr hjá pabba sínum. Pabbinn leggur svo hart að sér við að fá drenginn til að sofna að sjálfur liggur hann að lokum örmagna á gólfinu.
Bókin varð þó aldrei bendibók, því útgefandinn vildi fá myndabók með lengri söguþræði. Úr varð bókin Góða nótt Einar Áskell sem kom út árið 1972. Gunilla Bergström sagði síðar að hvorki sig né útgefandann hefði grunað að bókin yrði jafn vinsæl og raun varð á. Vinsældir þessarar fyrstu bókar kölluðu á aðra bók og samtals urðu bækurnar um Einar Áskel 26 talsins. Sögurnar um burstaklippta strákinn og pabbann með pípuna höfðuðu til barna um allan heim. „Einar Áskell er heimsmaður,“ sagði höfundurinn einhverju sinni í viðtali.
Venjulegur strákur en ekki ofurhetja
Einar Áskell er ekki hetja og er í raun algjör andstæða annarrar þekktrar persónu í sænskum barnabókmenntum, Línu Langsokks. Einar Áskell er ekki sterkur, hann á hvorki hest né apa og býr í blokk en ekki stóru húsi. En hann spyr og leitar svara við spurningum sem flest börn spyrja sig, hvort sem þau eru kornung eða að byrja í skóla.
Bækurnar um Einar Áskel eru í senn tímalausar en jafnframt afsprengi mikilla breytingatíma. Svíþjóð var meðal fyrstu landa í heimi þar sem hjónaskilnaðir töldust ekki til tíðinda. Hlutverkaskipting kynjanna var að breytast. Gunilla Bergström sagði í viðtölum að eiginlega þætti sér vænst um föðurinn í bókunum um Einar Áskel. „Svolítið utan við sig, vingjarnlegur og ekki uppfullur af hugmyndum um hvað væri hið eina rétta í uppeldinu. Öryggi frá þeim fullorðnu alltaf í bakgrunni, eins og þegar ég var barn.“
Kvartað yfir kvenmannsleysi og kvikmynd
Konur og stúlkur koma lítið við sögu í bókunum um Einar Áskel. Það var fyrst í næst síðustu bókinni, þeirri tuttugustu og fimmtu, að fyrst var minnst á mömmu Einars Áskels. Mjög stuttlega þó.
Höfundurinn fékk ótal kvartanir vegna þessa kvenmannsleysis í bókunum en hélt sínu striki. Forleggjarinn fékk líka kvartanir en það breytti engu. Hinsvegar tók hann í taumana og fékk höfundinn til að breyta textanum þar sem Einar Áskell drekkur appelsínusafa, eftir að hafa burstað tennurnar. Það þótti ekki æskileg fyrirmynd. Hinsvegar var höfundurinn ófáanlegur til að láta pabbann hætta að reykja pípuna sem hann skildi aldrei við sig.
Einar Áskell hefur líka komist á hvíta tjaldið. Meðal þeirra bóka sem gerðar hafa verið myndir eftir er Einar Áskell og ófreskjan. Sú mynd fjallar um að Einar Áskell fékk samviskubit eftir að hafa slegið annan strák. Hann gat ekki sofið og fannst ófreskja vera undir rúminu. Ófreskjan hvarf ekki fyrr en Einar Áskell hafði beðið drenginn sem hann sló afsökunar.
Eftir að myndin var sýnd á leikskólanum Sadelmakarebyns förskola í Malmö fékk yfirstjórn leikskólanna í Malmö kvörtun frá foreldrum drengs í skólanum. Hann gat ekki sofið eftir að hafa séð myndina og fannst ófreskja vera undir rúminu sínu. Þegar þetta hafði gengið svona í viku kvörtuðu foreldrarnir. Sögðu myndina ekki fyrir lítil börn og reyndar væri allt of mikið um kvikmyndasýningar í leikskólanum. Skólastjóri leikskólans ákvað í framhaldi af þessari kvörtun að hætta, í bili, að sýna kvikmyndir í skólanum. Benti jafnframt á að aldurstakmörk vegna kvikmyndarinnar um ófreskjuna væri 0 ár. Einn framleiðenda myndarinnar sagði að milljónir barna um víða veröld hefðu séð myndina um ófreskjuna en áðurnefnd kvörtun væri sú fyrsta sem hann hefði heyrt af.
Atvinnurithöfundur
Vinsældir fyrstu bókarinnar um Einar Áskel gerðu Gunillu Bergström kleift að snúa sér alfarið að ritstörfum. Hún skrifaði samtals rúmlega 40 bækur, allar með eigin myndskreytingum.
Þótt bækurnar um Einar Áskel hafi aflað höfundi sínum mestra tekna eru þó aðrar bækur sem stóðu hjarta hennar nær. Árið 1972 eignaðist Gunilla Bergström dótturina Boel, en þremur árum fyrr kom sonurinn Pål í heiminn. Boel greindist ung með einhverfu og við það breyttist margt í lífi fjölskyldunnar. Gunilla Bergström fylltist þunglyndi, og sá aðeins myrkur, eins og hún komst síðar að orði um ástand sitt. Með aðstoð tókst henni að komast yfir þetta erfiðleikatímabil, Boel var lífsglatt barn þótt hún væri öðruvísi en mörg önnur börn, eins og móðir hennar komst að orði.
Ætlaði ekki að skrifa um sín eigin börn
Gunilla Bergström hafði lofað sjálfri sér að skrifa aldrei um sín eigin börn. Þörfin fyrir að skrifa um að vera foreldri einhverfs barns varð þó yfirsterkari. Bókin sem til varð var einskonar rímnaþulubók og hefði getað heitið Pål og Boel, eftir börnunum, en fékk nafnið Ramsor og tramsor om Bill og Bolla. Síðar kom önnur bók um sama efni.
Vinsæll á Íslandi
Fyrsta bókin um Einar Áskel kom út á Íslandi árið 1980 í þýðingu Sigrúnar Árnadóttur. Hún sagði frá því í viðtölum að það hefði ekki verið einfalt að finna burstaklippta og kringluleita stráknum íslenskt nafn. Einar Áskell hefði að lokum orðið fyrir valinu „og ég held að það val hafi lukkast vel“. Flestir geta tekið undir það og bækurnar um Einar Áskel hafa notið mikilla vinsælda á Íslandi. Sigrún lést í síðasta mánuði.
Gunilla Bergström lést síðastliðinn miðvikudag, 25. ágúst, 79 ára að aldri. Hennar hefur verið minnst í fjölmiðlum um allan heim. Í nýlegum tölum frá samtökum bókasafna í Svíþjóð kom fram að á útlánalista safnanna þar í landi er aðeins Astrid Lindgren sem trónir ofar.