Þjóðin ætti að fá að vita hve mikil orka fer í rafmyntagröft

Dominic Ward forstjóri Verne Global, sem rekur gagnaver í Reykjanesbæ, segir að önnur gagnaver á Íslandi geri lítið annað en að grafa eftir rafmyntum. Verne Global hefur á undanförnum árum sagt upp öllum samningum sínum við viðskiptavini sem eru að grafa eftir Bitcoin og telur Ward framtíð gagnaveraiðnaðarins á Íslandi ekki liggja þar.

Gagna­ver Verne Global á Ásbrú í Reykja­nesbæ lætur ekki mikið yfir sér. Í tveimur bygg­ingum sem áður þjón­uðu sem vöru­skemmur Atl­ants­hafs­banda­lags­ins er þó nóg að ger­ast allan sól­ar­hring­inn. Tölvur suða í svölum véla­sölum dag­ana langa.

Lóðin er afgirt og örygg­is­hlið tók á móti blaða­manni Kjarn­ans, sem var eilítið efins um að hann væri að koma á réttan stað, á storma­sömum mið­viku­dags­morgni í byrjun mars. Öryggið á þess­ari fyrr­ver­andi her­stöðv­ar­lóð er einn af kost­unum við stað­setn­ing­una, segir Dom­inic Ward, for­stjóri Verne Global, sem tók á móti blaða­manni í and­dyr­inu.

Ward var staddur á land­inu í upp­hafi mán­aðar og ræddi við Kjarn­ann um fram­tíð gagna­vera á Íslandi og hvernig Verne Global sér fyrir sér að stækka sinn rekstur á kom­andi árum. Hann sagði einnig frá því hvað hann telur að íslensk stjórn­völd þurfi að gera til þess að þessi orku­sækna atvinnu­grein, sem orðið hefur til á und­an­förnum ára­tug, geti vaxið enn frek­ar.

Einnig svar­aði hann spurn­ingum blaða­manns um það, sem ekki hefur legið ljóst fyrir opin­ber­lega, hversu mikil orka fer í að grafa eftir raf­myntum á borð við Bitcoin á Íslandi. Við kannski byrjum bara þar, en Ward svar­aði slíkum spurn­ing­um, sem blaða­maður hafði talið að yrði ef til vill feimn­is­mál, með glöðu geði.

Hann segir Verne Global nefni­lega vera að gera hluti sem önnur gagna­ver hér á landi séu ekki að gera, nánar til­tekið að þjóna alþjóð­legum fyr­ir­tækjum sem þurfa að keyra orku­frekar ofur­tölvur í stórum stíl, fremur en að fást aðal­lega við raf­mynta­gröft.

Ward segir frá því að Verne Global þjón­usti meðal ann­ars þýska bíla­fram­leið­and­ann BMW og að þung tölvu­vinnsla þess fyr­ir­tæk­is, meðal ann­ars við hönn­un­ar­ferli nýrra bíla, fari fram á Ásbrú. Þá þjón­usti Verne Global einnig vef­þjóna fyrir sjálf­virkt þýð­ing­ar­for­rit, af þeirri teg­und sem gerir fólki kleift að eiga sam­töl augliti til auglitis þrátt fyrir að tala enga sam­eig­in­lega tungu, sem krefj­ist gríð­ar­legrar reikni­getu. Af við­skipta­vinaflór­unni nefnir hann einnig fyr­ir­tækið Pept­o­ne, sem keyrir risa­stór gervi­greind­ar­módel í ofur­tölvum til þess að reyna að koma auga á nýja mögu­leika við þróun lyfja.

Allt að 160 MW fari í raf­mynta­gröft í gagna­verum lands­ins

Í heild­ina, segir Ward, hafa gagna­ver lands­ins í dag um 200 MW af upp­settu afli (e. data center capacity) til þess að selja við­skipta­vinum sín­um. Af þessum 200 MW seg­ist hann telja að ein­ungis um 41 MW fari í eitt­hvað annað en að grafa eftir raf­mynt­um. Þar af segir hann að um 40 MW í gagna­veri Verne Global sem fari í aðra vinnslu fyrir við­skipta­vini en raf­mynta­gröft. Ein­ungis 1 MW fer í þjón­ustu við fyr­ir­tæki í öðrum gagna­verum lands­ins. Restin er raf­mynta­gröft­ur, full­yrðir Ward.

Hann nefnir sér­stak­lega að annað fyr­ir­tæki sem sé með gagna­ver á Ásbrú, sem noti um 80-85 MW, geri nær ekk­ert annað þar en að þjón­usta raf­mynta­gröft. Sama félag sé svo með lítið gagna­ver á höf­uð­borg­ar­svæð­inu sem þjón­usti aðra geira.

„Þú skilur mína stöðu, ég vil gjarnan tala um þetta,“ ­segir Ward og bros­ir, en hann deildi því með blaða­manni að Verne Global hafi á und­an­förnum árum sagt upp samn­ingum við alla við­skipta­vini sem hafa verið að grafa eftir raf­myntum á borð við Bitcoin í gagna­veri fyr­ir­tæk­is­ins. Í gagna­veri Verne Global er þó enn verið að grafa eftir sýnd­ar­fénu verð­mæta – en síð­ustu samn­ing­arnir renna sitt skeið á næsta ári.

Ward segir að hann vildi gjarnan hafa það uppi á borðum nákvæm­lega hversu mikið af orku fer í að grafa eftir raf­myntum á Íslandi á hverjum tíma og furðar sig raunar á því að Orku­stofnun telji sig ekki geta svarað fyr­ir­spurnum um það vegna sam­keppn­is­sjón­ar­miða – ekki einu sinni þegar kjörnir full­trúar þjóð­ar­innar á Alþingi fara fram á þær upp­lýs­ing­ar.

Raf­myntir skópu íslenska gagna­ver­a­iðn­að­inn

Ward útskýrir að í upp­hafi rekst­urs gagna­vers­ins hafi í reynd verið nauð­syn­legt að fá inn kúnna sem voru að grafa eftir raf­mynt­um, til þess að kom­ast yfir 10 MW markið sem þarf til þess að geta samið um raf­orku sem stórnot­andi.

„Bitcoin og hinar raf­mynt­irnar hafa gert Íslandi kleift að verða gagna­versland. Þú getur horft á það á einn hátt og sagt það slæmt, eða horft á það á annan hátt og sagt að það hafi hjálpað til við að búa atvinnu­grein­ina til,“ segir Ward, en hann segir að ákvarð­anir hafi fremur snemma verið teknar hjá Verne Global um að horfa frá raf­mynt­unum og leggja fremur áherslu á að ná inn við­skipta­vinum úr öðrum geir­um.

Úr einum tölvusalnum í gagnaveri Verne Global.
Mynd: Aðsend

„Það að fara út úr raf­myntum er eitt­hvað sem hefur verið til umræðu frá því eig­in­lega um leið og við tókum fyrstu kúnn­ana inn. Við höfum nokkrum sinnum lent í slæmum upp­lif­un­um. En árið 2014 vorum við í klemmu og þurftum að koma okkur yfir 10 MW til þess að flokk­ast sem stórnot­endur hjá Orku­stofn­un. Við ákváðum þá að taka til okkar nokkra við­skipta­vini sem voru að gera þetta nýja dæmi, sem kall­að­ist að grafa eftir Bitcoin,“ segir Ward og bætir við að það sé búið að vera áhuga­vert að fylgj­ast með þró­un­inni síðan þá.

„Árið 2014 var þetta varla iðn­að­ur, en hreyfð­ist svo gríð­ar­lega hratt og árin 2017 til 2018 varð ljóst að vöxt­ur­inn yrði stjarn­fræði­leg­ur. Þá voru allir sem voru að grafa eftir mynt­inni að reyna að finna ódýran stað til þess að gera þetta og Ísland hafði þann kost að vera ódýr stað­ur. Svo við gerðum þetta,“ segir Ward.

Hann lætur það þó fylgja að flestir fyrstu við­skipta­vin­anna hafi farið á haus­inn innan tveggja ára. „Og þá tókum við inn annan skammt af við­skipta­vin­um, sumir þeirra fóru einnig á haus­inn en aðrir lifðu leng­ur. En árið 2018 og 2019 tókum við ákvörðun um að þetta væri komið gott og ákváðum að setja markið á að þjón­usta fyr­ir­tæki. En við þurftum að geta kom­ist á þann stað að vera með samn­inga fyr­ir­tæki sem þurftu meira en 10 MW og ég skal bara vera heið­ar­leg­ur, við vorum ekki komin á þann stað árið 2014, það tók okkur fleiri ár og það var ekki fyrr en á árunum 2017 til 2018 sem það var orðið mögu­leik­i,“ segir Ward.

Ekki bjart­sýnn á fram­tíð Bitcoin

Sjálfur er hann ekki bjart­sýnn á fram­tíð fyrstu kyn­slóðar bálka­keðju­tækn­innar sem Bitcoin og fleiri raf­myntir hvíla á, ekki síst sökum þess hve mikla orku þarf til þess að leysa reikni­þraut­irn­ar. Sökum þessa og fleiri ástæðna telur hann Bitcoin vera með gríð­ar­lega háan „áhættu­prófíl“.

Ward segist ekki vongóður um hvert Bitcoin sé að fara.
Pexels

Hann bendir á að Kína hafi í fyrra bannað gröft eftir Bitcoin með einu penna­striki. „Allur Bitcoin-gröft­ur­inn sem var í Kína og var slökkt á í des­em­ber færð­ist til Banda­ríkj­anna. Það er tíma­sprengja sem bíður þess að springa að ein­hver blaða­maður í Banda­ríkj­unum kveiki á þessu, fjalli um málið og það að það þurfti að kveikja á öllum gömlu kolaknúðu orku­ver­unum til að anna eft­ir­spurn­inni. Við erum að tala um þús­undir mega­vatta sem eru að bæt­ast við kolefn­is­fót­spor Banda­ríkj­anna. Eng­inn er að fjalla um þetta, en það verður gert, gefum þessu sex mán­uð­i,“ segir Ward.

„Ég er ekki von­góður um hvert Bitcoin er að fara,“ bætir hann við, en bendir þó á að bálka­keðju­tækni sem slík sé til margra hluta nyt­sam­leg og eigi eftir að verða mik­il­væg til fram­tíðar – þá sér­stak­lega sú tækni sem byggi á svoköll­uðu proof of stake fremur en proof of work eins og fyrsta kyn­slóðin sem Bitcoin hvílir á. Sú tækni sé marg­falt minna orku­frek og feli í sér tæki­færi.

Mikil stækkun framundan

Eig­enda­skipti urðu hjá Verne Global síð­asta haust, en í sept­em­ber keypti fjár­fest­inga­fé­lagið Digi­tal 9 Infrastruct­ure fyr­ir­tækið á 231 milljón punda, sem þá var jafn­virði tæp­lega 41 millj­arðs íslenskra króna.

„Þetta er breskur inn­viða­fjár­fest­inga­sjóður sem er á hluta­bréfa­mark­aði í London og þau eru með mjög skýra sýn: þau fjár­festa í sjálf­bærum staf­rænum innvið­um. Þau heita meira að segja eftir níunda mark­miði Sam­ein­uðu þjóð­anna um sjálf­bæra þró­un, sem snýst um sjálf­bæra inn­við­i,“ segir Ward.

Spurður hvað nýir eig­end­ur, sem keyptu út íslenska fjár­festa á borð við Novator og Stefni, hygg­ist fyrir með félag­ið, segir hann að mörkuð hafi verið stefna um hraðan vöxt. „Þegar fyr­ir­tækið var keypt í sept­em­ber var eitt af því sem var ákveðið að setja meira fé í vöxt og það eru 90 millj­ónir doll­ara [jafn­virði nærri 12 millj­arða íslenskra króna] eyrna­merktar stækk­un­inni. Eft­ir­spurn við­skipta­vina eykst og eykst og við eigum allt þetta land þarna fyrir aftan okk­ur,“ segir Ward og bendir út um glugg­ann í fund­ar­her­ginu.

Blaða­maður spyr hvort til standi að byggja alla leið út að mörkum mal­bik­aðs bílaplans sem þar stendur – en þá svarar Ward því til að stefnan sé sett á að byggja tölu­vert lengra. „Sérðu rút­una sem stendur þarna við veg­inn? Við ætlum alla leið­ina þang­að,“ útskýrir hann.

„Við erum með tvö hús, sam­tals um 23 þús­und fer­metra. Bygg­ing númer þrjú á að verða 10 þús­und fer­metrar og svo ætlum við að koma sex bygg­ingum fyrir á þessu svæði. Þegar við verðum búin að full­byggja svæðið verður heild­ar­getan á þessu svæði um 100 MW af gagna­vers­get­u,“ segir Ward.

Íslandi geti verið leið­andi í gagna­verum

Kost­irnir við að stað­setja gagna­ver á Íslandi eru miklir, segir Ward. Fyrir utan aðgengi að hreinni og stöðugri orku frá vatns- og jarð­varma­virkj­unum á sam­keppn­is­hæfu verði er hita­stigið mjög hag­stætt rekstr­inum og ekki þarf að kosta miklu til hér­lendis til þess að starf­rækja gagna­ver í sam­an­burði við lönd þar sem hita­sveiflur til beggja átta eru meiri.

„Við erum að gera eitt­hvað sem Ísland gæti verið leið­andi í og við erum alltaf að reyna að stað­setja okkur og þá Ísland, í sam­tölum við stjórn­völd, sem leið­toga í sjálf­bærri tölvu­vinnslu,“ segir Ward og bætir því við að það sé hans mat að Ísland ætti að horfa á gagna­ver­a­iðn­að­inn sem eina meg­in­stoð vaxtar í hag­kerf­inu.

„Hug­verka­iðn­aður á Íslandi var árið 2021 um 16 pró­sent af lands­fram­leiðslu. Það er ansi stór hluti og mikið af því er gagna­ver­a­iðn­að­ur­inn. Þetta er stækk­andi, en með aðeins meiri hvatn­ingu og skýr­ari sýn á gagna­ver­a­iðn­að­inn gæti þetta orðið enn stærri hlut­i,“ segir Ward og bætir við að ríki á borð við Sví­þjóð og Nor­eg, sem hafi svip­aða kosti upp á að bjóða hvað varðar orku og lofts­lag, séu að leggja mikla áherslu á þennan geira.

Hvað þarf gagna­ver­a­iðn­að­ur­inn frá stjórn­völd­um?

Ward hafði nefnt við blaða­mann í aðdrag­anda við­tals­ins að hann væri áhuga­samur um að ræða við blaða­mann um hvað íslensk yfir­völd gætu gert til þess að stuðla að vexti í gagna­ver­a­iðn­að­inum hér­lend­is. Í því sam­hengi nefnir hann fjóra hluti; raf­orku, gagna­teng­ing­ar, almenna með­vit­und stjórn­valda um iðn­að­inn og skil­virkni í skatt­heimtu.

„Það tekur langan tíma að gera áætlanir fyrir orku áratugi fram í tímann og ríkisstjórnin þarf að tryggja að orkumálin gangi upp fyrir gagnaveraiðnaðinn,“ segir Ward.
Arnar Þór

Aðgengi að raf­orku er auð­vitað lyk­il­þáttur fyrir starf­sem­ina. „Við þurfum orku og teng­ingar raf­orku til þess að halda áfram vext­i,“ segir Ward og minn­ist á þá stöðu sem hefur verið hér á landi und­an­farna mán­uði varð­andi skerð­an­lega raf­orku. Hann segir þörf á því að horft sé til langs tíma við upp­bygg­ingu flutn­ings­kerf­is­ins og öfl­unar raf­orku. „Það tekur langan tíma að gera áætl­anir fyrir orku ára­tugi fram í tím­ann og rík­is­stjórnin þarf að tryggja að orku­málin gangi upp fyrir gagna­ver­a­iðn­að­inn,“ segir Ward.

Í öðru lagi nefnir hann gagna­teng­ingar og fagnar því að þriðji sæstreng­ur­inn sem tengir eyj­una okkar við umheim­inn verði tek­inn í notkun síðar á þessu ári. „Við vorum búin að berj­ast fyrir öðrum fjar­skiptakapli og það er að hafast, IRIS er að tengja Ísland við Írland og það er gott fyrir okkar iðnað og mögu­leik­ann á því að tengj­ast á milli mis­mun­andi kapla­kerfa,“ segir Ward og bætir því við að það sé gott að geta tengst við Írland með miklum hraða.

„Við komumst hratt til Dublin, sem er risamark­aður fyrir gagna­ver, sér­stak­legar fyrir þá sem kall­ast hyperscal­ers, eins og Goog­le, Microsoft, Amazon, Oracle og aðra sem eru með risa­stór gagna­ver þar,“ segir Ward og bætir því við að í reynd sé mjög mikið af „ský­inu“ í Dublin. „Að geta tengst þangað með mjög miklum hraða er kost­ur,“ segir Ward.

Það þriðja sem hann nefnir er almenn með­vit­und stjórn­valda á iðn­að­inn og hver fók­us­inn til fram­tíðar eigi að vera. „Ég held að rík­is­stjórnin sé byrjuð að hugsa um þetta,“ segir Ward og bætir við að Lands­virkjun hafi verið ansi skýr með þá sýn sína að fram­tíð gagna­ver­a­iðn­að­ar­ins á Íslandi liggi ólík­lega í frek­ari raf­mynta­grefti, heldur fremur í þungri tölvu­vinnslu fyrir hátækni­fyr­ir­tæki.

Í fjórða lagi eru það svo skatta­mál. Segir Ward að það sé í hag atvinnu­grein­ar­innar að þeir sem kjósa að stunda við­skipti á Íslandi geti gert það með eins auð­veldum hætti og hægt er. „Eitt af því sem er vanda­mál er skil­virkni virð­is­auka­skatts­ins, það er mun flókn­ara ferli hér en í Sví­þjóð, Frakk­landi eða Bret­landi. Það er eitt af því sem við erum sífellt að ræða við stjórn­völd,“ segir Ward, en breyt­ingin sem hann segir að þurfi að gera hér­lendis er sú að virð­is­auka­skattur í við­skiptum fyr­ir­tækja, sem fáist end­ur­greidd­ur, verði ekki inn­heimtur nema á papp­ír­um.

Hann segir að á Íslandi þurfi í dag að leggja út fyrir virð­is­auka­skatt­inum og það geti tekið þrjá mán­uði að end­ur­heimta féð frá Skatt­in­um. Því þurfi þeir sem kjósa að koma í við­skipti hjá Verne Global að kosta 25 pró­sentum meira fé vegna kaupa á rán­dýrum tölvu­bún­aði. „Þetta ætti ekki að vera svona og ætti að breyt­ast því þetta er hindrun fyrir suma við­skipta­vini. En aðilar eru með mis­mun­andi getu til að bregð­ast við þessu.“

„Ég vil gjarnan tryggja að Ísland skilji hvað við erum að gera og koma því á fram­færi að við erum öðru­vísi en sumir aðrir hlutir sem eru í gangi í iðn­að­in­um. Verne Global er öðru­vísi, við erum búin að vera með það að mark­miði að ná inn alþjóð­legum kúnnum og fyr­ir­tækjum í við­skiptum og nú búum við að því að vera með nýja eig­endur sem ætla að halda áfram að fjár­festa í okk­ur. Við sjáum vöxt framundan í þessum nýja iðn­aði sem mun vaxa um allan heim og teljum að Ísland ætti að hagn­ast á því,“ segir Ward.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiViðtal