Gagnaver Verne Global á Ásbrú í Reykjanesbæ lætur ekki mikið yfir sér. Í tveimur byggingum sem áður þjónuðu sem vöruskemmur Atlantshafsbandalagsins er þó nóg að gerast allan sólarhringinn. Tölvur suða í svölum vélasölum dagana langa.
Lóðin er afgirt og öryggishlið tók á móti blaðamanni Kjarnans, sem var eilítið efins um að hann væri að koma á réttan stað, á stormasömum miðvikudagsmorgni í byrjun mars. Öryggið á þessari fyrrverandi herstöðvarlóð er einn af kostunum við staðsetninguna, segir Dominic Ward, forstjóri Verne Global, sem tók á móti blaðamanni í anddyrinu.
Ward var staddur á landinu í upphafi mánaðar og ræddi við Kjarnann um framtíð gagnavera á Íslandi og hvernig Verne Global sér fyrir sér að stækka sinn rekstur á komandi árum. Hann sagði einnig frá því hvað hann telur að íslensk stjórnvöld þurfi að gera til þess að þessi orkusækna atvinnugrein, sem orðið hefur til á undanförnum áratug, geti vaxið enn frekar.
Einnig svaraði hann spurningum blaðamanns um það, sem ekki hefur legið ljóst fyrir opinberlega, hversu mikil orka fer í að grafa eftir rafmyntum á borð við Bitcoin á Íslandi. Við kannski byrjum bara þar, en Ward svaraði slíkum spurningum, sem blaðamaður hafði talið að yrði ef til vill feimnismál, með glöðu geði.
Hann segir Verne Global nefnilega vera að gera hluti sem önnur gagnaver hér á landi séu ekki að gera, nánar tiltekið að þjóna alþjóðlegum fyrirtækjum sem þurfa að keyra orkufrekar ofurtölvur í stórum stíl, fremur en að fást aðallega við rafmyntagröft.
Ward segir frá því að Verne Global þjónusti meðal annars þýska bílaframleiðandann BMW og að þung tölvuvinnsla þess fyrirtækis, meðal annars við hönnunarferli nýrra bíla, fari fram á Ásbrú. Þá þjónusti Verne Global einnig vefþjóna fyrir sjálfvirkt þýðingarforrit, af þeirri tegund sem gerir fólki kleift að eiga samtöl augliti til auglitis þrátt fyrir að tala enga sameiginlega tungu, sem krefjist gríðarlegrar reiknigetu. Af viðskiptavinaflórunni nefnir hann einnig fyrirtækið Peptone, sem keyrir risastór gervigreindarmódel í ofurtölvum til þess að reyna að koma auga á nýja möguleika við þróun lyfja.
Allt að 160 MW fari í rafmyntagröft í gagnaverum landsins
Í heildina, segir Ward, hafa gagnaver landsins í dag um 200 MW af uppsettu afli (e. data center capacity) til þess að selja viðskiptavinum sínum. Af þessum 200 MW segist hann telja að einungis um 41 MW fari í eitthvað annað en að grafa eftir rafmyntum. Þar af segir hann að um 40 MW í gagnaveri Verne Global sem fari í aðra vinnslu fyrir viðskiptavini en rafmyntagröft. Einungis 1 MW fer í þjónustu við fyrirtæki í öðrum gagnaverum landsins. Restin er rafmyntagröftur, fullyrðir Ward.
Hann nefnir sérstaklega að annað fyrirtæki sem sé með gagnaver á Ásbrú, sem noti um 80-85 MW, geri nær ekkert annað þar en að þjónusta rafmyntagröft. Sama félag sé svo með lítið gagnaver á höfuðborgarsvæðinu sem þjónusti aðra geira.
„Þú skilur mína stöðu, ég vil gjarnan tala um þetta,“ segir Ward og brosir, en hann deildi því með blaðamanni að Verne Global hafi á undanförnum árum sagt upp samningum við alla viðskiptavini sem hafa verið að grafa eftir rafmyntum á borð við Bitcoin í gagnaveri fyrirtækisins. Í gagnaveri Verne Global er þó enn verið að grafa eftir sýndarfénu verðmæta – en síðustu samningarnir renna sitt skeið á næsta ári.
Um leyndarmálin í íslenska gagnaveraiðnaðinum
Ward segir að hann vildi gjarnan hafa það uppi á borðum nákvæmlega hversu mikið af orku fer í að grafa eftir rafmyntum á Íslandi á hverjum tíma og furðar sig raunar á því að Orkustofnun telji sig ekki geta svarað fyrirspurnum um það vegna samkeppnissjónarmiða – ekki einu sinni þegar kjörnir fulltrúar þjóðarinnar á Alþingi fara fram á þær upplýsingar.
Rafmyntir skópu íslenska gagnaveraiðnaðinn
Ward útskýrir að í upphafi reksturs gagnaversins hafi í reynd verið nauðsynlegt að fá inn kúnna sem voru að grafa eftir rafmyntum, til þess að komast yfir 10 MW markið sem þarf til þess að geta samið um raforku sem stórnotandi.
„Bitcoin og hinar rafmyntirnar hafa gert Íslandi kleift að verða gagnaversland. Þú getur horft á það á einn hátt og sagt það slæmt, eða horft á það á annan hátt og sagt að það hafi hjálpað til við að búa atvinnugreinina til,“ segir Ward, en hann segir að ákvarðanir hafi fremur snemma verið teknar hjá Verne Global um að horfa frá rafmyntunum og leggja fremur áherslu á að ná inn viðskiptavinum úr öðrum geirum.
„Það að fara út úr rafmyntum er eitthvað sem hefur verið til umræðu frá því eiginlega um leið og við tókum fyrstu kúnnana inn. Við höfum nokkrum sinnum lent í slæmum upplifunum. En árið 2014 vorum við í klemmu og þurftum að koma okkur yfir 10 MW til þess að flokkast sem stórnotendur hjá Orkustofnun. Við ákváðum þá að taka til okkar nokkra viðskiptavini sem voru að gera þetta nýja dæmi, sem kallaðist að grafa eftir Bitcoin,“ segir Ward og bætir við að það sé búið að vera áhugavert að fylgjast með þróuninni síðan þá.
„Árið 2014 var þetta varla iðnaður, en hreyfðist svo gríðarlega hratt og árin 2017 til 2018 varð ljóst að vöxturinn yrði stjarnfræðilegur. Þá voru allir sem voru að grafa eftir myntinni að reyna að finna ódýran stað til þess að gera þetta og Ísland hafði þann kost að vera ódýr staður. Svo við gerðum þetta,“ segir Ward.
Hann lætur það þó fylgja að flestir fyrstu viðskiptavinanna hafi farið á hausinn innan tveggja ára. „Og þá tókum við inn annan skammt af viðskiptavinum, sumir þeirra fóru einnig á hausinn en aðrir lifðu lengur. En árið 2018 og 2019 tókum við ákvörðun um að þetta væri komið gott og ákváðum að setja markið á að þjónusta fyrirtæki. En við þurftum að geta komist á þann stað að vera með samninga fyrirtæki sem þurftu meira en 10 MW og ég skal bara vera heiðarlegur, við vorum ekki komin á þann stað árið 2014, það tók okkur fleiri ár og það var ekki fyrr en á árunum 2017 til 2018 sem það var orðið möguleiki,“ segir Ward.
Ekki bjartsýnn á framtíð Bitcoin
Sjálfur er hann ekki bjartsýnn á framtíð fyrstu kynslóðar bálkakeðjutækninnar sem Bitcoin og fleiri rafmyntir hvíla á, ekki síst sökum þess hve mikla orku þarf til þess að leysa reikniþrautirnar. Sökum þessa og fleiri ástæðna telur hann Bitcoin vera með gríðarlega háan „áhættuprófíl“.
Hann bendir á að Kína hafi í fyrra bannað gröft eftir Bitcoin með einu pennastriki. „Allur Bitcoin-gröfturinn sem var í Kína og var slökkt á í desember færðist til Bandaríkjanna. Það er tímasprengja sem bíður þess að springa að einhver blaðamaður í Bandaríkjunum kveiki á þessu, fjalli um málið og það að það þurfti að kveikja á öllum gömlu kolaknúðu orkuverunum til að anna eftirspurninni. Við erum að tala um þúsundir megavatta sem eru að bætast við kolefnisfótspor Bandaríkjanna. Enginn er að fjalla um þetta, en það verður gert, gefum þessu sex mánuði,“ segir Ward.
„Ég er ekki vongóður um hvert Bitcoin er að fara,“ bætir hann við, en bendir þó á að bálkakeðjutækni sem slík sé til margra hluta nytsamleg og eigi eftir að verða mikilvæg til framtíðar – þá sérstaklega sú tækni sem byggi á svokölluðu proof of stake fremur en proof of work eins og fyrsta kynslóðin sem Bitcoin hvílir á. Sú tækni sé margfalt minna orkufrek og feli í sér tækifæri.
Mikil stækkun framundan
Eigendaskipti urðu hjá Verne Global síðasta haust, en í september keypti fjárfestingafélagið Digital 9 Infrastructure fyrirtækið á 231 milljón punda, sem þá var jafnvirði tæplega 41 milljarðs íslenskra króna.
„Þetta er breskur innviðafjárfestingasjóður sem er á hlutabréfamarkaði í London og þau eru með mjög skýra sýn: þau fjárfesta í sjálfbærum stafrænum innviðum. Þau heita meira að segja eftir níunda markmiði Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, sem snýst um sjálfbæra innviði,“ segir Ward.
Spurður hvað nýir eigendur, sem keyptu út íslenska fjárfesta á borð við Novator og Stefni, hyggist fyrir með félagið, segir hann að mörkuð hafi verið stefna um hraðan vöxt. „Þegar fyrirtækið var keypt í september var eitt af því sem var ákveðið að setja meira fé í vöxt og það eru 90 milljónir dollara [jafnvirði nærri 12 milljarða íslenskra króna] eyrnamerktar stækkuninni. Eftirspurn viðskiptavina eykst og eykst og við eigum allt þetta land þarna fyrir aftan okkur,“ segir Ward og bendir út um gluggann í fundarherginu.
Blaðamaður spyr hvort til standi að byggja alla leið út að mörkum malbikaðs bílaplans sem þar stendur – en þá svarar Ward því til að stefnan sé sett á að byggja töluvert lengra. „Sérðu rútuna sem stendur þarna við veginn? Við ætlum alla leiðina þangað,“ útskýrir hann.
„Við erum með tvö hús, samtals um 23 þúsund fermetra. Bygging númer þrjú á að verða 10 þúsund fermetrar og svo ætlum við að koma sex byggingum fyrir á þessu svæði. Þegar við verðum búin að fullbyggja svæðið verður heildargetan á þessu svæði um 100 MW af gagnaversgetu,“ segir Ward.
Íslandi geti verið leiðandi í gagnaverum
Kostirnir við að staðsetja gagnaver á Íslandi eru miklir, segir Ward. Fyrir utan aðgengi að hreinni og stöðugri orku frá vatns- og jarðvarmavirkjunum á samkeppnishæfu verði er hitastigið mjög hagstætt rekstrinum og ekki þarf að kosta miklu til hérlendis til þess að starfrækja gagnaver í samanburði við lönd þar sem hitasveiflur til beggja átta eru meiri.
„Við erum að gera eitthvað sem Ísland gæti verið leiðandi í og við erum alltaf að reyna að staðsetja okkur og þá Ísland, í samtölum við stjórnvöld, sem leiðtoga í sjálfbærri tölvuvinnslu,“ segir Ward og bætir því við að það sé hans mat að Ísland ætti að horfa á gagnaveraiðnaðinn sem eina meginstoð vaxtar í hagkerfinu.
„Hugverkaiðnaður á Íslandi var árið 2021 um 16 prósent af landsframleiðslu. Það er ansi stór hluti og mikið af því er gagnaveraiðnaðurinn. Þetta er stækkandi, en með aðeins meiri hvatningu og skýrari sýn á gagnaveraiðnaðinn gæti þetta orðið enn stærri hluti,“ segir Ward og bætir við að ríki á borð við Svíþjóð og Noreg, sem hafi svipaða kosti upp á að bjóða hvað varðar orku og loftslag, séu að leggja mikla áherslu á þennan geira.
Hvað þarf gagnaveraiðnaðurinn frá stjórnvöldum?
Ward hafði nefnt við blaðamann í aðdraganda viðtalsins að hann væri áhugasamur um að ræða við blaðamann um hvað íslensk yfirvöld gætu gert til þess að stuðla að vexti í gagnaveraiðnaðinum hérlendis. Í því samhengi nefnir hann fjóra hluti; raforku, gagnatengingar, almenna meðvitund stjórnvalda um iðnaðinn og skilvirkni í skattheimtu.
Aðgengi að raforku er auðvitað lykilþáttur fyrir starfsemina. „Við þurfum orku og tengingar raforku til þess að halda áfram vexti,“ segir Ward og minnist á þá stöðu sem hefur verið hér á landi undanfarna mánuði varðandi skerðanlega raforku. Hann segir þörf á því að horft sé til langs tíma við uppbyggingu flutningskerfisins og öflunar raforku. „Það tekur langan tíma að gera áætlanir fyrir orku áratugi fram í tímann og ríkisstjórnin þarf að tryggja að orkumálin gangi upp fyrir gagnaveraiðnaðinn,“ segir Ward.
Í öðru lagi nefnir hann gagnatengingar og fagnar því að þriðji sæstrengurinn sem tengir eyjuna okkar við umheiminn verði tekinn í notkun síðar á þessu ári. „Við vorum búin að berjast fyrir öðrum fjarskiptakapli og það er að hafast, IRIS er að tengja Ísland við Írland og það er gott fyrir okkar iðnað og möguleikann á því að tengjast á milli mismunandi kaplakerfa,“ segir Ward og bætir því við að það sé gott að geta tengst við Írland með miklum hraða.
„Við komumst hratt til Dublin, sem er risamarkaður fyrir gagnaver, sérstaklegar fyrir þá sem kallast hyperscalers, eins og Google, Microsoft, Amazon, Oracle og aðra sem eru með risastór gagnaver þar,“ segir Ward og bætir því við að í reynd sé mjög mikið af „skýinu“ í Dublin. „Að geta tengst þangað með mjög miklum hraða er kostur,“ segir Ward.
Það þriðja sem hann nefnir er almenn meðvitund stjórnvalda á iðnaðinn og hver fókusinn til framtíðar eigi að vera. „Ég held að ríkisstjórnin sé byrjuð að hugsa um þetta,“ segir Ward og bætir við að Landsvirkjun hafi verið ansi skýr með þá sýn sína að framtíð gagnaveraiðnaðarins á Íslandi liggi ólíklega í frekari rafmyntagrefti, heldur fremur í þungri tölvuvinnslu fyrir hátæknifyrirtæki.
Í fjórða lagi eru það svo skattamál. Segir Ward að það sé í hag atvinnugreinarinnar að þeir sem kjósa að stunda viðskipti á Íslandi geti gert það með eins auðveldum hætti og hægt er. „Eitt af því sem er vandamál er skilvirkni virðisaukaskattsins, það er mun flóknara ferli hér en í Svíþjóð, Frakklandi eða Bretlandi. Það er eitt af því sem við erum sífellt að ræða við stjórnvöld,“ segir Ward, en breytingin sem hann segir að þurfi að gera hérlendis er sú að virðisaukaskattur í viðskiptum fyrirtækja, sem fáist endurgreiddur, verði ekki innheimtur nema á pappírum.
Hann segir að á Íslandi þurfi í dag að leggja út fyrir virðisaukaskattinum og það geti tekið þrjá mánuði að endurheimta féð frá Skattinum. Því þurfi þeir sem kjósa að koma í viðskipti hjá Verne Global að kosta 25 prósentum meira fé vegna kaupa á rándýrum tölvubúnaði. „Þetta ætti ekki að vera svona og ætti að breytast því þetta er hindrun fyrir suma viðskiptavini. En aðilar eru með mismunandi getu til að bregðast við þessu.“
„Ég vil gjarnan tryggja að Ísland skilji hvað við erum að gera og koma því á framfæri að við erum öðruvísi en sumir aðrir hlutir sem eru í gangi í iðnaðinum. Verne Global er öðruvísi, við erum búin að vera með það að markmiði að ná inn alþjóðlegum kúnnum og fyrirtækjum í viðskiptum og nú búum við að því að vera með nýja eigendur sem ætla að halda áfram að fjárfesta í okkur. Við sjáum vöxt framundan í þessum nýja iðnaði sem mun vaxa um allan heim og teljum að Ísland ætti að hagnast á því,“ segir Ward.
Lestu meira
-
10. janúar 2023Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
-
5. janúar 2023Vindorkan áskorun fyrir stjórnkerfi skipulags- og orkumála
-
3. janúar 2023Orku- og veitumál í brennidepli
-
30. desember 2022Austurland 2022: Miklar fórnir fyrir stóra vinninga?
-
19. desember 2022Nær öllum sundlaugum höfuðborgarsvæðisins lokað vegna bilunar í Hellisheiðarvirkjun
-
17. desember 2022Samgöngur á landi – í hinu stóra samhengi orku- og auðlindadrifins skattkerfis
-
13. desember 2022Vindurinn er samfélagsauðlind
-
13. desember 2022Spá stökkbreyttu orkulandslagi á allra næstu árum
-
8. desember 2022Hver ekinn kílómetri á rafbíl kosti sex krónur í stað annarra gjalda
-
8. desember 2022Fallið vindmastur Orkuveitu Reykjavíkur