Kristian Thulesen Dahl formaður Dansk Folkeparti, Danska Þjóðarflokksins er í dönskum fjölmiðlum stundum kallaður þriðji maðurinn. Nafngiftin á þó ekkert skylt við heimsfræga kvikmynd Orson Welles heldur er nafnið dregið af því að Danski Þjóðarflokkurinn er þriðji stærsti stjórnmálaflokkur landsins. Samkvæmt nýjustu spám fær flokkurinn 33 þingmenn í þingkosningunum 18. júní næstkomandi, fékk 22 fulltrúa í kosningunum 2011. Gangi þessar spár eftir er flokkurinn sannkallaður hástökkvari í dönskum stjórnmálum, en hann sækist ekki eftir aðild að ríkisstjórn.
Stofnendurnir komu úr Framfaraflokki Glistrups
Danski Þjóðarflokkurinn varð til haustið 1995. Stofnendurnir voru fjórir fyrrverandi félagar úr Framfaraflokki Mogens Glistrups. Í Framfaraflokknum hafði allt logað í illdeilum, eins og reyndar oft áður, sem lauk með því að varaformaðurinn Pia Kjærsgaard sagði skilið við flokkinn ásamt Kristian Thulesen Dahl og tveimur öðrum þingmönnum flokksins. Pia Kjærsgaard fór með formennsku í Framfaraflokknum á meðan stofnandinn Mogens Glistrup afplánaði fangelsisdóm vegna skattsvika en hana greindi á við formanninn um fjölmörg mál. Brotthvarf fjórmenninganna markaði upphafið að endalokum Framfaraflokksins.
Danski þjóðarflokkurinn (DF) bauð fyrst fram til þings árið 1998 og fékk þá 13 þingmenn af þeim 179 sem sæti eiga á Folketinget. Pia Kjærsgaard var fyrsti formaður flokksins og gegndi því starfi til haustsins 2012. Í kosningunum 2001 fékk flokkurinn 12 prósent atkvæða og 22 þingmenn kjörna. Var þar með orðinn þriðji stærsti flokkur landsins. Þrátt fyrir þessa velgengni taldi flokksforystan sig þó engan veginn tilbúna til ríkisstjórnarþátttöku en gerðist hinsvegar stuðningsflokkur minnihlutastjórnar Venstre (sem er hægri miðjuflokkur) og Íhaldsflokksins Konservative, undir forystu Anders Fogh Rasmusssen.
Pia Kjærsgaard stillir sér upp ásamt eiginmanni sínum í útgáfuhófi. Mynd: EPA
Þótt DF styddi ríkisstjórnina sýndi flokksforystan þó klærnar þegar svo bar undir. Árið 2006 bar stjórnarandstaðan upp vantrauststillögu á Lars Barfoed, sem þá var ráðherra neytendamála. Vantraustið tengdist kjöthneykslinu svokallaða og snerist um dagstimpla á kjöti og slöku matvælaeftirliti. Danski þjóðarflokkurinn studdi ekki vantraustið en eftir að skýrsla ríkisendurskoðunar vegna málsins leit dagsins ljós skömmu síðar, dró flokkurinn stuðning sinn við ráðherrann til baka og hann neyddist til að segja af sér.
Stjórn Venstre og Íhaldsflokksins, hélt velli í kosningunum 2005 og 2007 og sat til ársins 2011, allan tímann með stuðningi Danska Þjóðarflokksins, sem fékk 25 þingmenn í kosningunum 2007 en missti þrjá í septemberkosningunum 2011. Stjórn Venstre og Íhaldsflokksins féll í þeim kosningum og við tók stjórn undir forystu Helle Thorning-Schmidt formanns Sósíaldemókrata.
Nýr formaður árið 2012
Pia Kjærsgaard sagði af sér formennsku í Danska Þjóðarflokknum árið 2012 og Kristian Thulesen Dahl tók við. Hann er 45 ára og með háskólapróf í viðskiptafræði og lögum, varð þingmaður Framfaraflokksins árið 1994 en stofnaði ári síðar Danska Þjóðarflokkinn ásamt Piu Kjærsgaard og fleirum.
Kristian Thulesen Dahl nýtur mikils álits og þykir koma vel fyrir í fjölmiðlum. Fylgi flokksins tók stökk upp á við eftir að hann settist í formannsstólinn og er spáð 33 þingmönnum í komandi kosningum. Mesta fylgi frá upphafi.
Hvers konar flokkur er Danski Þjóðarflokkurinn?
Þótt Danski Þjóðarflokkurinn hafi verið stuðningsflokkur ríkisstjórnar Venstre og Íhaldsflokksins frá 2001 til 2011 er hvorki hægt að draga hann í vinstri eða hægri dilk í dönskum stjórnmálum. Flokkurinn er fylgjandi ströngum reglum um innflytjendur, lætur sig málefni og velferð aldraðra og þeirra sem standa höllum fæti miklu varða, vill herta refsilöggjöf og er gagnrýninn á Evrópusambandssamstarfið sem flokkurinn styður þó.
Sumt í stefnu flokksins fellur vel að stefnu Sósíaldemókrata enda segir Kristian Thulesen Dahl að flokkur sinn sé á sumum sviðum lengra til vinstri en Sósíaldemókratar. Ýmis stefnumál flokksins eru hinsvegar líkari þeim sem Venstre hafa á sinni stefnuskrá. Kristian Thulesen Dahl hefur að undanförnu lagt áherslu á að flokkur sinn sé hreint ekki neinn hægriflokkur og hefur lýst vilja til að starfa með Sósíaldemókrötumí framtíðinni, án þess þó að útskýra það frekar.
Helle Thorning Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur og formaður Sósíaldemókrata, háir nú harða kosningabaráttu til að halda völdum í landinu. Mynd: EPA
Við erum ekki tilbúin í ríkisstjórn segir formaðurinn
Á þessu ári verða liðin 20 ár frá stofnun Danska Þjóðarflokksins. Þótt kannski sé það ekki einsdæmi er sjaldgæft að jafn stór flokkur sem hefur auk þess haft úrslitaáhrif á stjórnarmyndun oftar en einu sinni, sækist ekki eftir ríkisstjórnarsetu. Hvað veldur er spurt.
Svar flokksforystunnar hefur alla tíð verið að flokkurinn sé einfaldlega ekki tilbúinn og hafi auk þess meiri áhrif með sterkri stöðu utan stjórnar en innan. En getur svona stór flokkur endalaust skotið sér undan þeirri ábyrgð sem fylgir setu í ríkisstjórn og er ekki hætt við að kjósendur snúi á endanum baki við flokki sem ekki hefur metnað til að stýra landsmálunum, nema þá úr aftursætinu? Kristian Thulesen Dahl segir að kjósendur flokksins viti vel að hann reyni ekki að skjóta sér undan ábyrgð og hafi aldrei gert.
Hvenær verður Danski Þjóðarflokkurinn tilbúinn?
Þessa spurningu lagði blaðamaður Weekendavisen fyrir formanninn Kristian Thulesen Dahl fyrir nokkrum dögum. Svar formannsins var á þá leið að sá dagur nálgaðist. Svo bætti hann við að fyrir nokkrum árum hefði hann sagt að á því yrði all löng bið. En enginn fengi stöðvað tímans rás og ef flokkurinn yrði jafn stór eftir kosningarnar og kannanir sýna nú yrði flokksforystan vitaskuld að hugsa sinn gang.
Formaðurinn hefur þó ætíð verið mjög gætinn í orðum þegar talið hefur borist að hugsanlegri stjórnarþátttöku og litlu svarað. Það er hinsvegar talið til marks um að afstaða flokksforystunnar sé að breytast að Pia Kjærsgaard fyrrverandi formaður, sem enn er þar í innsta hring, hefur í tvígang undanfarna daga sagt í blaðaviðtölum, að „það væri nú gaman að verða menningarmálaráðherra.“ Þetta hafa margir fréttamenn túlkað sem stefnubreytingu og að kannski sé þess skammt að bíða að Danski Þjóðarflokkurinn eignist sína fyrstu ráðherra. Hvort þetta gengur eftir verður ekki svarað fyrr en að loknum kosningum sem nú nálgast óðfluga