Í sumar ákvað franska þingið að lögfesta bann við því að henda mat. Í fyrstu munu lögin ná til verslana og stórmarkaða og er þeim gert að gefa mat til góðgerðarstarfs, t.d. í samfélagshjálparverkefni eða til bágstaddra, eða í dýrafóður. Lögin þykja vera merkilegt skref í átt að sjálfbærni, ekki síst í fjölmennum borgarsamfélögum þar sem matarsóun er risavaxið vandamál sem erfitt hefur reynst að tækla með góðum vilja og kynningarstarfi.
Allt að tveggja ára fangelsi
Lögin taka gildi í júní á næsta ári og skyldar þá sem eru með 400 fermetra húsnæði undir starfsemi sína, eða meira, til þess að nýta betur mat sem annars hefði verið hent með því að gefa hann til þeirra sem hafa fyrir hann þörf, eða í versta falli í dýrafóður.
Viðurlög eru í versta falli tveggja ára fangelsi fyrir þá sem bera ábyrgð á því að maturinn sé nýttur í takt við það sem lögin segja til um.
Mikill vandi á heimsvísu
Í Frakklandi er um 7,1 milljónum tona af mat hent árlega, 67 prósent af þeirri tölu falla undir stórmarkaði og neytendur, 15 prósent eru hjá veitingahúsum og síðan 11 prósent hjá öðrum búðum. Afgangurinn dreifist á marga smærri. Á heimsvísu er um 1,3 milljörðum tonna af mat hent árlega, sem annars hefði verið mögulegt að nýta, að því er The Guardian greinir frá.
Frakkar hafa gengið lengra í að skoða þessi mál heldur en margir aðrir, bæði með því að taka saman mikið magn af upplýsingum um neytendahegðun þegar kemur að matarinnkaupum. Stjórnvöld í Frakklandi telja að neytendur henti 20 til 30 kílóum á ári af mati sem væti hægt að nýta, þar af sjö kílóum af mati sem er enn í umbúðunum. Kostnaður samfélagsins í Frakklandi, með rúmlega 64,3 milljónir íbúa, vegna þessarar slæmu nýtingar er talinn nema um 25 milljörðum evra á ári.
Markaðir sem hafa selt mat sem telst uppfylla skilyrði sem lífrænt ræktaður, hafa beitt sér mikið í þessum efnum, ekki síst í Bandaríkjunum, enda þeirra hagur og beinlínis viðskiptahugmynd, að neytendur séu meðvitaðir um matinn sem þeir kaupa og hvernig hann verður til. Allt ýtir þetta undir betri nýtingu og meiri gæði við matvælaframleiðslu, og innkaup. Stórmarkaðirnir hafa ekki sama hvata í sínum rekstri, enda markmiðið þar fyrst og fremst að selja sem mest, hvað sem tautar og raular. Eða þannig horfir þetta við frönskum stjórnvöldum, í það minnsta.
Ekki allir sáttir við lögin
Verslunarráðið í Frakklandi, og samtök stórmarkaða, telja lögin vera alltof ströng og að þau muni ekki bæta miklu við það sem þegar hefur verið gert. Í versta falli muni þau hækka verð á mat, og valda mörgum rekstrarerfiðleikum vegna þess hve erfitt verður að hafa eftirlit með lögunum. Þá hafa samtökin bent á að 4.500 verslanakeðjur í Frakklandi séu nú þegar með samninga við góðgerðarsamtök og aðra, um að gefa frá sér mat sem ekki seljist. Undir þetta megi ýta með öðrum hætti en að beinlínis lögfesta skipun um að gefa matinn.
Deilibyltingin ýtir undir vakningu
Eitt af því sem hefur ýtt undir umræðu um matarnýtingu er deilihagkerfið alþjóðlega sem nú þegar hefur fest rótum með þjónustu eins og AirBnb, þar sem heimili eru leigð til ferðamanna. Það sama má segja um nýtingu á bílferðum í borgum, þar sem borgarar deila bílum til að spara kostnað. Svo eitthvað sé nefnt.
Það sama ætti að geta gilt um matinn, og hafa vefsíður sprottið fram að undanförnu, meðal annars í Þýskalandi, þar sem markmiðið er að nýta betur mat. Vandinn sem snýr að slæmri nýtingu á mat er yfirþyrmandi stór, og kostnaðarsamur fyrir samfélög heimsins. Líklega mun þó þróun í þessum efnum ekki verða jafn hröð eins og reyndin hefur verið með leigu og deilingum á heimilum fólks, enda eru alls ekki allir tilbúnir að deila mat.