Frestun Seðlabanka Íslands á birtingu á Fjármálastöðugleikariti sínu, sem kynna átti fyrir sex dögum síðan, hefur valdið nokkrum titringi, meðal annars hjá kröfuhöfum slitabúa föllnu bankanna. Ástæðan er sú að í ritinu átti að birtast viðauki um þau stöðugleikaskilyrði sem slitabúin þurfa að greiða til að komast hjá 39 prósent stöðugleikaskatti og um nauðasamning þeirra. Á kynningarfundi vegna útkomu ritsins átti einnig að opinbera mat á tillögum um aðgerðir og greiðslu stöðugleikaframlags sem uppfylla ætti sett stöðugleikaskilyrði stjórnvalda.
Óttast hluti kröfuhafa nú að mögulega sé verið að breyta um stefnu í málinu sem gæti sett nauðasamninga slitabúanna í uppnám.
Það hefur aldrei áður gerst að Seðlabankinn fresti birtingu Fjármálastöðugleikarits síns, ítarlegri úttekt á þjóðhagslegu umhverfi, fjármálamörkuðum og fjármálastofnunum, sem birt er tvisvar á ári. Skömmu áður en ritið átti að koma út síðastliðinn þriðjudag barst hins vegar stutt tilkynning um að útgáfu ritsins hafi verið frestað um „nokkra daga“. Ástæðan væri sú að ekki hefði tekist að ljúka því samráðs- og kynningarferli sem reiknað var með að yrði lokið áður en ritið yrði birt.
Enn hefur ekki verið tilkynnt hvenær von sé á ritinu. Í svari við fyrirspurn Kjarnans um málið í dag sagði talsmaður Seðlabankans að það yrði birt á næstu viku til tíu daga.
Framlag eða skattur
Í júní var áætlun stjórnvalda um losun hafta opinberuð. Þar kom fram að slitabúum Glitnis, Kaupþings og Landsbankans gæfist kostur á því að mæta svokölluðum stöðugleikaskilyrðum til að fá að ljúka slitum sínum án þess að stöðugleika í gengis- og peningamálum Íslands væri ógnað. Ef ekki næðist samkomulag um greiðslu þess framlags myndi leggjast 39 prósent stöðugleikaskattur á allar eignir búanna sem átti að skila um 850 milljörðum króna til ríkissjóðs. Mjög skammur tími var gefin til þess að ljúka skiptunum. Nauðasamningar ættu að liggja fyrir og afgreiðsla þeirra að klárast fyrir árslok.
Áður en áætlunin var kynnt hafði hins vegar þegar náðst samkomulag við stærstu kröfuhafa föllnu bankanna um að greiða stöðugleikaframlag til að sleppa við álagningu skattsins. Þeir höfðu þá fundað reglulega með fulltrúum stjórnvalda frá því í febrúar.
Uppfylla "í stórum dráttum" stöðugleikaskilyrðin
Undanfarna mánuði hafa slitabúin síðan unnið að því að standa við það samkomulag með Seðlabankanum. Þegar hefur verið samþykkt á kröfuhafafundum þeirra allra að greiða stöðugleikaframlag sem verður samtals um 334 milljarðar króna. Slitabú Glitnis mun greiða uppistöðuna af þeirri greiðslu, eða um 200 milljarða króna.
Í lok september birti Már Guðmundsson seðlabankastjóri opinberlega bréf til InDefence-hópsins svokallaða, sem hefur efast mjög um þá leið sem er verið að fara í uppgjöri á slitabúum föllnu bankanna. Í bréfinu komu fram þau merkilegu tíðindi, í fyrsta sinn, að Seðlabankinn telji nauðasamninga Glitnis, Kaupþings og Landsbankans uppfylla „í stórum dráttum skilyrði um stöðugleika í gengis- og peningamálum“ og tryggja fjármálalegan stöðugleika í íslensku hagkerfi. Ýmis atriði þyrfti þó að skoða nánar, meðal annars áhrif nauðsamninganna á á lausafjárstöðu fjármálafyrirtækja og söluferli Íslandsbanka og Arion. „Sú skoðun er á lokastigi og í framhaldi af því gætu skapast forsendur fyrir nánari opinberri kynningu,“ sagði Már. Sú opinbera kynning átti að vera síðastliðinn þriðjudag.
Seðlabankinn telur nauðasamninga Glitnis, Kaupþings og Landsbankans uppfylla „í stórum dráttum skilyrði um stöðugleika í gengis- og peningamálum“ og tryggja fjármálalegan stöðugleika í íslensku hagkerfi. Þetta kom fram í bréfi Más Guðmundssonar seðlabankastjóra til InDefence í lok september.
Kaupþing og Landsbankinn langt komnir
Samkvæmt heimildum Kjarnans virtist málið í góðum farvegi í byrjun október. Töluverð samskipti voru milli kröfuhafa og Seðlabankans vegna upplýsinga sem bankinn þarf til að ljúka greiningu sinni á áhrifum slitanna. Þannig séu mál slitabús Kaupþings og Landsbankans bæði mjög langt komin og fátt sem virðist geta sett nauðasamningsgerð þeirra í uppnám.
Slit Glitnis eru flóknari, enda þarf slitabú hans að greiða mun víðtækari stöðugleikaframlag en hinir bankarnir. Þessi staða kom raunar fram að einhverju leyti í orðum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra í seinni fréttum RÚV síðastliðinn miðvikudag, þótt hann hefði ekki nefnt sérstök slitabú á nafn. Þar sagði forsætisráðherra að honum heyrðist „að það gangi svona misvel hjá slitabúunum að uppfylla þessi skilyrði, en takist það ekki á þeim skamma tíma sem eftir er nú þá er bara skattaleiðin augljós.“
Það vakti því mikla athygli, og olli tortryggni á meðal kröfuhafa, þegar Seðlabankinn hætti skyndilega við að birta Fjármálastöðugleikaritið á þriðjudag. Samhliða átti enda að opinbera mat á tillögum um aðgerðir og greiðslu stöðugleikaframlags sem uppfylla ætti sett stöðugleikaskilyrði stjórnvalda. Viðmælendur Kjarnans fullyrða að þetta mat, og ósætti um hvernig það eigi að vera sett fram, sé ástæða þess að birtingu ritsins var frestað.
Segja kröfuhafa vera að fá ódýra leið
Gagnrýni InDefence-hópsins og undirtektir sumra stjórnmálamanna á hana er talin vera að hafa áhrif á stöðugleikaframlagsferlið. Sú gagnrýni snýst helst um að hópurinn segir að talsverð hætta sé að svigrúm til að aflétta höftum á almenning verði lítið næstu árin, að stöðugleikaskilyrðin séu ódýr leið fyrir kröfuhafa slitabúa föllnu bankanna úr gjaldeyrishöftum og að greiðsla stöðugleikaskilyrða muni skerða lífskjör almennings. Þessi gagnrýni hefur meðal annars verið tekin upp á Alþingi af Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar. Hann óskaði eftir því í síðustu viku að ríkisstjórnin myndi upplýsa þjóðina um „þann mikla afslátt sem verið sé að beita slitabúum föllnu bankanna“ í gegnum greiðslu stöðugleikaframlagsins.
Sú skoðun að hægt sé að það sé þjóðhagslega hagkvæmara að leggja á stöðugleikaskatt á sér líka stuðningsmenn innan Framsóknarflokksins og hjá hluta Sjálfstæðismanna, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Skattur gæti leitt til lagalegs ágreinings
Það hefur hins vegar ítrekað komið fram í máli ráðamanna þjóðarinnar að markmið stöðugleikaframlagsins, eða álagningu stöðugleikaskatts, á ekki að vera að afla ríkissjóði tekna heldur að koma í veg fyrir óstöðugleika í gengis- og peningamálum og fjármálaóstöðugleika við slit búa fallinna fjármálafyrirtækja.
Þá kom skýrt fram í svarbréfi Más Guðmundssonar til InDefence, sem sent var í síðasta mánuði, að skattlagningarleiðin hefði vissa annmarka. Meðal annars feli hún í sér meiri hættu á eftirmálum og lagalegum ágreiningi sem myndi leiða til þess að losun fjármagnshafta myndi ganga hægar en ella. „Hámarksfjárhæð stöðugleikaskattsins (án frádráttarliða) ætti því ekki að bera saman við fjárhæð stöðugleikaframlags, heldur verður að einnig taka tillit til annarra þátta nauðasamningsleiðar sem stuðlar að stöðugleika,“ sagði Már.