1. Vildu helst vera í annarri ríkisstjórn en eru í þessari til að „passa upp á að hlutir gerist ekki“
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, varaformaður Vinstri grænna og félags- og vinnumarkaðsráðherra, hélt fyrstur ræðu af forystufólki flokksins. Þar ræddi hann meðal annars um erindi Vinstri grænna í stjórnmálum og viðurkenndi að hann hefði hugsað talsverð um það í tengslum við veru flokksins í ríkisstjórn á síðustu tveimur kjörtímabilum. „Kannski er réttara að spyrja hvers vegna við erum í ríkisstjórn, eða í þeirri ríkisstjórn sem við erum í núna.“
Guðmundur svaraði svo eigin spurningu og sagði að Vinstri græn væru í stjórnmálum til að hafa áhrif. Koma að sterkum vinstri áherslum og sterkum grænum áherslum. „Þess vegna erum við í ríkisstjórn.“
Varaformaðurinn bætti þó síðar við að það mætti ekki gleymast að Vinstri græn séu líka í ríkisstjórn til að „passa upp á að hlutir gerist ekki“. „Að þessu sögðu, þá er draumaríkisstjórnin mín með stjórnmálahreyfingum sem eru lengra til vinstri og grænni. Og, þar vil ég sjá okkur í framtíðinni.“
2. Umhverfismálin ekki látin til Sjálfstæðisflokksins í blindni
Í ræðu Guðmundar kom fram að það væri ekkert launungarmál að það hafi verið Vinstri grænum erfitt að láta umhverfisráðuneytið, sem hann stýrði á síðasta kjörtímabili, af hendi í stjórnarmyndunarviðræðum. Nú er Guðlaugur Þór Þórðarson úr Sjálfstæðisflokki yfir þeim málaflokki.
3. Launaþjófnaður er „grimmileg illska“
Þá minntist varaformaðurinn á að innflytjendum væri að fjölga mjög hratt hérlendis, mestmegnis vegna stríðsins í Úkraínu. Vel hefði gengið að finna vinnu fyrir það fólk sem hingað kæmi.
Eitt af stóru verkefnunum sem sé fyrirstandandi sé þó að sporna gegn félagslegum undirboðum og launaþjófnaði. „Launaþjófnaður er auðvitað ekkert annað en grimmileg illska sem bitnar fyrst og fremst á innflytjendum og þeim sem lægst hafa kjörin.“
4. Nú er kominn tími til að fjármagnstekjufólkið greiði útsvar
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna og forsætisráðherra, var næst í pontu. Hún fór um víðan völl og varði árangur flokks síns í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki frá haustinu 2017.
Formaðurinn sagði að Vinstri græn myndu halda áfram að vinna að réttlátara skattkerfi á Íslandi. „Nú er kominn tími til að breyta skattlagningu þeirra sem fyrst og fremst hafa fjármagnstekjur og tryggja að þau greiði sanngjarnan hlut í útsvar til sveitarfélaganna til að fjármagna þau mikilvægu verkefni sem þau sinna ekki síst í félags- og velferðarþjónustu. Um það hefur verið talað í tuttugu ár en nú er kominn tími aðgerða.“
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá 30. nóvember 2021 sagði að regluverk í kringum tekjutilflutning yrði „tekið til endurskoðunar til að tryggja að þau sem hafa eingöngu fjármagnstekjur reikni sér endurgjald og greiði þannig útsvar.“
5. Ekki hægt að kalla eftir ábyrgð launafólks á stöðugleika en hækka svo forstjóralaunin
Forsætisráðherrann blandaði sér einnig í hitaumræðu um launakjör þeirra sem best hafa það á Íslandi og kröfu efsta lagsins í efnahagslegu fæðukeðjunni hérlendis um að almennt launafólk taki ekki til sín launahækkanir í haust, þar sem ekkert svigrúm sé til þess.
Í ræðu sinni sagði Katrín að það væri mikilvægt að tala ekki að tala niður kröfur launafólks um bætt kaup og kjör og kalla eftir ábyrgð um leið og launahæstu forstjórar landsins, sem hafi margföld mánaðarlaun venjulegs fólk, fá launahækkanir sem einar nemi kannski hundruð þúsunda á mánuði ásamt mögulegum kaupréttum og háum arðgreiðslum til eigenda fyrirtækjanna í landinu. „Hér má t.d. taka dæmi af forstjórum tveggja stærstu fyrirtækjanna á dagvörumarkaði sem höfðu í fyrra mánaðarlaun sem nema 15-16 földum lágmarkslaunum á vinnumarkaði (5,4-5,6 milljónir króna) og launahækkun ársins nam ein og sér einum og hálfum til tvennum lágmarkslaunum (480-740 þúsund) – á tímum þar sem launafólk er beðið að sýna hófsemd í kröfum sínum.“
Sú krafa hafi í áranna rás skilað því að Ísland sé meðal allra fremstu ríkja innan OECD-ríkja þegar kemur að tekjujöfnuði. „Við ætlum ekki að glata þeirri stöðu.“
6. Landsvirkjun verði aldrei einkavædd
Katrín talaði einnig um mikilvægi þess að almenningur á Íslandi eigi helsta orkufyrirtæki landsins, Landsvirkjun. Hún sagði að það yrði ekki ítrekað nægjanlega að því stæði ekki til að breyta. „Og ég hlýt að minna á andstöðu VG við hugmyndir fyrri ríkisstjórna um sæstreng til Evrópu – sú staða sem við erum í núna sem þjóð með okkar fyrirtæki í almannaeigu og orkumarkað undir innlendri stjórn er öfundsverð. Nú þegar raforkuverð í Evrópu er í hæstu hæðum sýnir staða okkar hér á Íslandi að okkar afstaða – okkar Vinstri-grænna – hefur reynst farsæl fyrir íslenskan almenning.“
7. Vinstri græn lýsa yfir stuðningi við hækkun veiðigjalda
Flokksráðsfundurinn samþykkti á sunnudag ýmsar ályktanir, sem eiga að vera leiðarvísir í stjórnmálalegum áherslum Vinstri grænna næstu misserin.
Sú sem vakti mesta athygli snýr að því að flokknum fannst nauðsynlegt að taka fram að hann lýsi yfir stuðningi við hugmyndir um hækkun veiðigjalda, þar sem sérstaklega sé tekið tillit til smærri útgerða, endurskoðun laga sem lúta að gagnsæi um raunverulega eigendur sjávarútvegsfyrirtækja og að sporna gegn samþjöppun í sjávarútvegi. „Stórútgerðin hefur haldið áfram að skila hagnaði í gegnum heimsfaraldur og innrás Rússa í Úkraínu og á að leggja meira til samfélagsins.“
Vinstri græn hafa setið í ríkisstjórn í næstum fimm ár og fara nú með ráðuneyti sjávarútvegsmála.
8. Sérstaklega lýst yfir stuðningi við baráttu launafólks fyrir mannsæmandi kjörum
Þá lýsti fundurinn yfir stuðningi við baráttu launafólks fyrir mannsæmandi kjörum. „Ábyrgir kjarasamningar eru mikilvægir til að tryggja efnahagslega velsæld en þeir munu ekki nást meðan laun stjórnenda hækka óhóflega og risavaxnar arðgreiðslur eru greiddar út til fjármagnseigenda. Gæta þarf þess að laun stjórnenda ríkisstofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins hækki ekki upp úr öllu valdi úr takti við almenna launaþróun í landinu. Ef svigrúm er til þess þá er svigrúm til launahækkana fyrir launafólk.“
Fundurinn ítrekaði að það væri hagsmunamál allra að ná farsælum samningum á vinnumarkaði. „Brýnt er í þeim samningum að bæta kjör hinna verst settu og halda áfram innleiðingu á styttingu vinnuvikunnar sem gagnast samfélaginu öllu.“
9. Endurskoða þarf almannatryggingakerfið
Fundurinn ítrekaði mikilvægi þess að afkoma öryrkja og eldri borgara yrði tryggð. „Endurskoða þarf almannatryggingakerfi örorkulífeyrisþega þannig að það verði í senn sanngjarnara og gagnsærra og skoða þarf sérstaklega stöðu hinna tekjulægstu í hópi eldri borgara og öryrkja. Einnig er mikilvægt að fjölga atvinnutækifærum fyrir fólk með skerta starfsgetu og efla starfsendurhæfingu við hæfi.“
10. Kalla eftir skýrum reglum um innheimtu auðlindagjalds af vindorkuverum
Flokksráðsfundurinn gerði sérstaka ályktun um vindorku. Í henni ítreka Vinstri græn þá afstöðu að ekki verði ráðist í uppbyggingu vindorkuvera, annarra en þeirra tveggja sem þegar eru í nýtingarflokki rammaáætlunar, fyrr en stefna um uppbyggingu vindorku liggur fyrir sem og almennur og skýr lagarammi um gjaldtöku af vindorkuverum.
Umhverfisrannsóknir og náttúruverndarsjónarmið eigi að vera grundvöllur fyrir ákvörðunum um uppbyggingu í þágu orkunýtingar að mati flokksins. „Vinstri græn telja að uppbygging vindorku eigi heima á mjög fáum þegar röskuðum svæðum með tengingu við vatnsaflsvirkjanir Landsvirkjunar en eðlilegt er að fyrirtæki sem er í almannaeigu hafi forgang í þessum málum. Frá upphafi verður að ríkja sátt um nýtingu þessarar auðlindar. Kalla þarf eftir afstöðu almennings og félagasamtaka m.t.t. náttúru- og umhverfisverndarsjónarmiða og eignarhalds vindorkuvera hérlendis. Þá þarf að setja skýrar reglur um innheimtu auðlindagjalds af vindorkuverum sem renna á til samfélagsins. Marka þarf stefnu hið fyrsta um nýtingu vindorku í efnahagslögsögunni.“
Vinstri græn mældust með 7,5 prósent fylgi í síðustu könnun Maskínu sem birt var í síðustu viku. Það er umtalsvert undir þeim 12,6 prósentum sem flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Alls hafa Vinstri græn, flokkur forsætisráðherrans Katrínar Jakobsdóttur, tapað 5,1 prósentustigi það sem af er kjörtímabili.