Um 50 milljarða hagnaður á níu mánuðum
Allir stóru bankarnir þrír; Landsbankinn, Arion banki og Íslandsbanki, birtu uppgjör sitt vegna fyrstu níu mánaða ársins í liðinni viku. Þar kemur fram að samanlagður hagnaður þeirra á tímabilinu var 50,2 milljarðar króna. Arion banki hagnaðist um 20,4 milljarða króna, Íslandsbanki um 18,5 milljarða króna og Landsbankinn um 11,3 milljarða króna. Ástæða þess að hagnaður ríkisbankans er minni en hinna er að uppistöðu vegna þess að hann á óbeint stóran hlut í Marel, sem hefur hrunið í verði það sem af er ári. Sá liður í efnahagsreikningi bankans hefur lækkað um 7,6 milljarða króna það sem af er ári. Arion banki seldi auk þess Valitor á árinu og bókfærði 5,6 milljarða króna söluhagnað.
Gangi bönkunum jafnvel á síðasta ársfjórðungi og þeim hefur gengið hingað til á árinu mun sameiginlegur hagnaður þeirra vera um 67 milljarðar króna á yfirstandandi ári.
Það er minna en þeir högnuðust um í fyrra, þegar þeir höluðu inn 81,2 milljörðum króna. Þann fyrirvara verður þó að hafa á þeim hagnaði að hann var gríðarlegur, eða 170 prósent meira en bankarnir þrír högnuðust um árið 2020.
Bankarnir þrír urðu allir til á grundvelli neyðarlaga sem sett voru haustið 2008, í kjölfar bankahrunsins. Þá voru eignir fallinna banka fluttar með handafli yfir á nýjar kennitölur. Samanlagður hagnaður stóru bankanna frá hruni er 800,4 milljarðar króna. Mestur var hann árið 2015, en þá litaði umfangsmikil eignasala uppgjörið.
Virði útlánasafna eykst hjá tveimur bönkum
Hinn mikli hagnaður bankanna í fyrra var að stóru leyti tilkominn vegna þess að virðismat á útlánasafni þeirra jókst um samtals 13,2 milljarða króna. Auk þess stækkuðu útlánasöfn þeirra mikið, aðallega vegna þess að þeir hafa aukið við lánveitingar til íbúðarkaupa.
Hjá tveimur bönkum hefur þróunin varðandi virðisbreytingu haldið áfram. Hún var jákvæð um 2,7 milljarða króna hjá Landsbankanum á fyrstu níu mánuðum ársins og um 2,2 milljarða króna hjá Íslandsbanka. Virðisbreyting lán var hins vegar neikvæð um 267 milljónir króna á tímabilinu hjá Arion banka.
Vaxtamunur um og yfir þrjú prósent
Vaxtamunur bankanna þriggja – munurinn á því sem þeir borga fyrir að fá fjármagn að láni og því sem þeir rukka fyrir að lána heimilum og fyrirtækjum – er nú 2,8 til 3,2 prósent. Mestur er hann hjá Arion banka. Þetta er umtalsvert meiri vaxtamunur en var í fyrra, þegar hann var 2,3 til 2,8 prósent, og á árinu 2020, þegar hann var að meðaltali 2,7 prósent. Þetta er viðsnúningur frá fyrri árum en frá 2016 lækkaði vaxtamunurinn nokkuð stöðugt.
Þessi þróun hefur átt sér stað þrátt fyrir að ríkisstjórn Íslands hafi ákveðið, sem efnahagslegt viðbragð við kórónuveirufaraldrinum, að lækka bankaskatt á heildarskuldir þeirra banka sem skulda yfir 50 milljarða króna úr 0,376 í 0,145 prósent árið 2020. Ein helsta röksemdarfærsla forsvarsmanna fjármálakerfisins fyrir því að lækka bankaskattinn hefur verið sú að það skili minni vaxtamun. Að peningarnir sem ríkið gefi eftir í tekjum, um sex milljarðar króna á ári, muni skila sér til neytenda. Það virðist þó ekki vera raunin miðað við þann vaxtamun sem er hjá bönkunum.
Stórsókn á íbúðalánamarkað
Samsetning á útlánasafni bankanna þriggja hefur hefur tekið töluverðum breytingum síðustu ár þar sem útlán til heimila námu tæplega 55 prósent af heildarútlánum til heimila og fyrirtækja um mitt þetta ár en hlutfallið var 45 prósent í lok árs 2019. Langstærstur hluti útlána til heimila eru íbúðalán, en meðalvextir íbúðaútlána til heimila eru lægri en á fyrirtækjalánum. Hlutdeild banka í útistandandi íbúðalánum er nú yfir 70 prósent en var 55 prósent í byrjun árs 2020.
Í síðasta Fjármálastöðugleikariti Seðlabanka Íslands sagði að öðru óbreyttu ætti vaxtamunur bankanna að lækka eftir því sem hlutfall íbúðalána eykst í útlánasöfnunum. Ólíklegt sé því að vaxtamunur bankanna þriggja muni ná fyrri gildum nema álag hækki.
Þóknanatekjur jukust um tólf prósent
Annar stór póstur í tekjumódeli banka eru þóknanatekjur, stundum líka kallaðar þjónustutekjur. Þar er um að ræða þóknanir fyrir t.d. eignastýringu og fyrirtækjaráðgjöf. Alls innheimtu bankarnir þrír 30 milljarða króna í hreinar slíkar tekjur frá byrjun árs og út septembermánuð. Það er rúmlega tólf prósent meira en þeir fengu í greinar þóknanatekjur á sama tímabili 2021.
Til að setja aukinn hagnað bankanna af þóknanatekjum í samhengi má benda á að þær jukust gríðarlega í fyrra, og því er eftirtektarvert að þær haldi áfram að vaxa í ár. Hjá Landsbankanum jukust þær um fjórðung milli 2020 og 2021, hjá Íslandsbanka um 22,1 prósent og hjá Arion banka um heil 26,7 prósent.
Arðsemin yfir markmiði hjá öllum nema Landsbanka
Bankar halda á miklu magni af eigin fé. Það magn sem þeir þurfa að halda á, til að geta til dæmis tekist á við áföll og virðisrýrnun lána, var aukið verulega eftir bankahrunið til að koma í veg fyrir að sama staða kæmi upp á ný. Eigið fé viðskiptabankanna þriggja var samanlagt 671,3 milljarðar króna í lok september.
Sá mælikvarði sem stjórnendur banka nota til að mæla árangur sinn er ekki endilega hversu mikill hagnaður er í krónum talið, heldur hver hlutfallsleg arðsemi þessa eigin fjár er. Stjórnir viðskiptabanka á Íslandi gera kröfu um að arðsemi eigin fjár sé að minnsta kosti tíu prósent, og í sumum tilfellum hærri. Arion gerir til að mynda kröfu um að hún sé yfir 13 prósent. Sögulega þá náði hún að vera sameiginlega rúmlega ellefu prósent að meðaltali hjá bönkunum þremur á árunum 2009 til 2018, en þar vigtar inn í að einskiptistekjur vegna t.d. sölu eigna voru umtalsverðar á fyrri hluta þess tímabils. Arðsemi eigin fjár Landsbankans hækkaði úr 4,3 prósent 2020 í 10,8 prósent í fyrra. Hún hefur hins vegar lækkað umtalsvert það sem af er ári og var 5,6 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins. Mikil lækkun hlutabréfum Marel, sem hafa lækkað um rúmlega 40 prósent á árinu, skiptir þar mestu enda á bankinn umtalsverðan óbeinan hlut í félaginu í gegnum Eyri Invest.
Hjá Íslandsbanka hækkaði hún úr 7,6 prósent í 14,2 prósent í fyrra en var 12,1 prósent á fyrstu níu mánuðum yfirstandandi árs. Hjá Arion banka fór arðsemin úr 6,5 prósent í 14,7 prósent milli 2020 og 2021. Hún var mest allra bankanna það sem af er ári, eða 14,8 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins 2022.
Kostnaðarhlutfall tveggja nálgast 40 prósent
Önnur leið til að auka hagnað er að spara í kostnaði. Þar snýst allt um að ná niður hinu svokallaða kostnaðarhlutfalli, sem mælir hvað kostnaðurinn er stórt hlutfall af tekjum. Yfirlýst markmið íslensku bankanna hefur verið að ná því hlutfalli niður fyrir 45-50 prósent og þeir eru að ná þeim markmiðum.
Tugum milljarða skóflað út til hluthafa
Ein skilvirkasta leiðin til að auka arðsemi eigin fjár er að minnka einfaldlega eigið féð með því að greiða það eigið fé sem þeir halda á umfram kröfur eftirlitsaðila út til hluthafa. Bæði Arion banki og Íslandsbanki hafa það sem yfirlýst markmið að gera það, í gegnum arðgreiðslur og endurkaup á bréfum. Minna eigið fé þýðir að hlutfallsleg arðsemi eiginfjár í annars óbreyttum rekstri eykst.
Arion banki, eini stóri bankinn sem er ekki að neinu leyti í opinberri eigu, hefur verið allra banka duglegastur í þessari vegferð. Alls greiddi bankinn út arð eða keypti eigin bréf af hluthöfum fyrir 31,5 milljarða króna á síðasta ári. Á fyrstu níu mánuðum ársins 2022 hefur Arion banki skilað 28,9 milljörðum króna til hluthafa sinna í gegnum arðgreiðslur og endurkaup á bréfum. Því hefur Arion banki greitt yfir 60 milljarða króna út til hluthafa sinna á tveimur árum. Bankinn hefur þegar boðað áform um að greiða enn meira út til þeirra í fyrirsjáanlegri framtíð þannig að útgreiðslurnar nálgist 90 milljarða króna.
Íslandsbanki greiddi hluthöfum sínum 11,9 milljarða króna í arð vegna síðasta árs. Auk þess kom fram fyrr á þessu ári að stjórn bankans stefni að því að greiða út 40 milljarða króna í umfram eigið fé fyrir lok næsta árs. Þegar hefur verið samþykkt endurkaupa áætlun fyrir 15 milljarða króna í ár.
Bankaráð Landsbankans samþykkti á aðalfundi í mars að greiða 14,4 milljarðar króna í arð vegna ársins 2021. Bankaráð samþykkti auk þess fyrr í ár að greiða út sérstaka arðgreiðslu upp á 6,1 milljarð króna. Arðgreiðslur Landsbankans fara nær allar í ríkissjóð.
Hluthöfum Arion banka fjölgar en hluthöfum Íslandsbanka fækkar
Landsbankinn er að nánast öllu leyti í eigu íslenska ríkisins þótt nokkur fjöldi starfsmanna eigi lítinn hlut. Arion banki hefur verið skráður á markað frá sumrinu 2018. Fjöldi hluthafa hans óx úr 7.400 í 11.300 í fyrra, eða um 53 prósent. Hlutabréfaverð í bankanum tvöfaldaðist í fyrra. Það sem af er þessu ári hefur fjöldi hluthafa haldið áfram að vaxa, eða alls um 9,2 prósent, og voru þeir 12.350 í lok september. Það sem af er ári hefur hlutabréfaverð í Arion banka lækkað um 7,4 prósent, en stærstu eigendur hans eru íslenskir lífeyrissjóðir.
Samkvæmt uppgjöri Íslandsbanka fyrir fyrstu níu mánuði ársins voru hluthafar í Íslandsbanka 13.559 í lok september. Þeim hefur því fækkað um rúmlega tíu þúsund frá því í fyrrasumar. Stærstu hluthafarnir eru íslenskir lífeyrissjóðir. Alls hefur hlutabréfaverð í Íslandsbanka hækkað um 6,8 prósent það sem af er ári og er nú 63 prósent hærra en það var í almenna útboðinu í fyrrasumar. Í mars var 22,5 prósent hlutur í Íslandsbanka seldur í lokuðu útboði til 207 fjárfesta á genginu 117 krónur á hlut. Gengið nú er tæplega tíu prósent hærra.
Frekari einkavæðing á ís
Í fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var í byrjun september er gert ráð fyrir að eftirstandandi 42,5 prósent hlutur ríkisins í Íslandsbanka verði seldur fyrir 75,8 milljarða króna.
Það er gert þrátt fyrir yfirlýsingu formanna stjórnarflokkanna og að salan hafi verið sett á ís í vor á meðan að Ríkisendurskoðun og fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands rannsökuðu hluta síðasta skrefs sem stigið var í söluferlinu.
Hvorki Ríkisendurskoðun né fjármálaeftirlitið hefur birt neins konar niðurstöðu úr rannsóknum sínum, Samkvæmt könnun sem Gallup gerði í vor töldu 88,4 prósent þjóðarinnar að óeðlilegir viðskiptahættir hafi átt sér stað við söluna á Íslandsbanka og 83 prósent þjóðarinnar var óánægð með framkvæmdina.
Kjarninn greindi frá því í byrjun október að forsætisráðuneytið segði að ekki hefði verið tekin ákvörðun um áframhaldandi sölu eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka. Yfirlýsing formanna stjórnarflokkanna þriggja frá 19. apríl, þar sem segir að ekki verði ráðist í sölu á frekari hlutum í Íslandsbanka að sinni, stendur því enn.