Íþróttir spila stórt hlutverk í daglegu lífi fólks, og sumar þjóðir hafa náð ótrúlegum árangri í hinum fjölbreytilegustu íþróttum. Kristinn Haukur Guðnason sagnfræðingur kafaði ofan í íþróttasöguna og svaraði spurningunni stóru; hver er mesta íþróttaþjóð í heimi þegar allt er tekið með í reikninginn?
10. Suður-Kórea
Milli stórveldanna Kína og Japan liggur Kóreuskagi og þar er hið eiginlega íþróttastórveldi Asíu. Með „einungis“ 50 milljónir íbúa hafa þeir náð árangri í greinum sem Asíuþjóðir eru ekki sérlega þekktar fyrir. Knattspyrnuliðið þeirra hefur komist á öll heimsmeistaramót í 30 ár og einu sinni haldið mótið, árið 2002 ásamt Japan. Þá komust þeir í undanúrslit. Þeir eiga langsterkasta handknattleikslandslið Asíu og náðu t.d. silfri á ólympíuleikunum árið 1988, á heimavelli í Seoul. Árangur þeirra á ólympíuleikum er frábær og yfirleitt eru þeir meðal 10 sigursælustu þjóðanna. Þeir hafa verið sigursælir í bardagaíþróttum á borð við judó, taekwondo og glímu og einnig í bogfimi, hafnabolta og skautahlaupi. Næstu vetrarólympíuleikar verða haldnir í Pyeongchang í Suður Kóreu.
9. Bandaríkin
Bandaríkin telja um 320 milljónir og eru ríkasta þjóð heims. Vitaskuld skara þeir fram úr en það verður að segjast að yfirburðirnir eru svakalegir. Þeir eiga 1072 gullverðlaun á ólympíuleikunum og 2681 medalíur alls, aðrir eru skildir eftir í rykinu. Yfirburðirnir eru mestir í frjálsum íþróttum og sundi. Á vetrarleikunum skara þeir mest frammúr á listskautum. Þeir hafa haldið leikana átta sinnum, oftar en nokkrir aðrir. Þeir hafa yfirburði í körfuknattleik, tennis, golfi, hnefaleikum og mörgu öðru. Þeir eiga sínar eigin íþróttir sem velta milljörðum þó að engir aðrir keppi í þeim. Má þar nefna amerískan ruðning, NASCAR og fjölbragðaglímu. Bandaríkjamenn þrífast á súperstjörnum eins og Michael Jordan, Mike Tyson, Carl Lewis, Williams systrum og Tiger Woods. Árangur Bandaríkjamanna er að miklu leyti öflugu íþróttastarfi háskólanna að þakka. Oft er áhugi almennings meiri á því en á atvinnumennskunni.
Draumaliðið, með Michael Jordan í broddi fylkingar.
8. Króatía
Króatía er einungis 24 ára gamalt land með rúmlega 4 milljónir íbúa og ekki háþróaðan efnahag. Engu að síður hafa þeir náð ótrúlegum árangri í íþróttum, þá sérstaklega liðaíþróttum. Körfuknattleiksliðið þeirra hefur unnið silfur og brons á stórmótum. Frægasta liðið þeirra innihélt m.a. Drazen Petrovic og Toni Kukoc sem kepptu úrslitaleikinn við draumalið Bandaríkjanna á ÓL 1992. Knattspyrnulið þeirra náði bronsi á HM 1998, lið sem innihélt t.a.m. Davor Suker og Zvonimir Boban. Hanknattleiksliðið þeirra hafa samt risið hæst. Unnið tvö gull á ólympíuleikum og einn heimsmeistaratitil. Ivano Balic var á tímabili besti handknattleiksmaður veraldar. Sundknattleiksliðið þeirra er einnig frammúrskarandi. Af einstaklingsíþróttamönnum má helst nefna skíðafólkið og sérstaklega fjórfaldan ólympíumeistara í alpagreinum kvenna, Janicu Kostelic.
7. Noregur
Það er ekki til sú þjóð sem elskar vetraríþróttir meira en Norðmenn gera. Þeir eiga líka flest verðlaun af öllum á vetrarólympíuleikunum, 329 og þar af 118 gull. Þetta er í raun ótrúlegt miðað við að Norðmenn eru ekki nema rúmlega fimm milljónir. Norðmenn eiga þrjá mest verðlaunuðu íþróttamennina á vetrarólympíuleikum, skíðagöngufólkið Björn Dæhlie og Marit Björgen og svo skíðaskotfimimanninn Ole Einar Björndalen. Tvisvar hafa þeir haldið leikana, í Osló árið 1952 og Lillehammer árið 1994. Norsk kvennalið hafa náð góðum árangri í gegnum tíðina. Bæði knattspyrnu og handknattleiksliðið hafa unnið heims, evrópu og ólympíutitla. Handknattleiksliðið hefur haft algera yfirburði í nokkuð mörg ár núna undir stjórn Þóris Hergeirssonar. Svo eiga Norðmenn Magnus Carlsen, stórmeistara og undrabarn.
6. Spánn
Fyrir um 15 árum síðan hefðu Spánverjar tæplega komist á þennan lista. Árangur þeirra á ólympíuleikum er ekkert til að monta sig af (sérstaklega ekki vetrarleikunum). Knattspyrnuliðið þeirra var aðallega þekkt fyrir að standa ekki undir væntingum og önnur lið varla á kortinu. Síðan hafa þeir sprungið út. Knattspyrnuliðið sem vann þrjú stórmót í röð er sennilega það besta í sögunni. Körfuknattleiksliðið hefur raðað inn verðlaunum og er það næst besta í heimi. Handknattleiksliðið hefur líka skipað sér í sess með þeim bestu og unnið tvo heimsmeistaratitla. Auk þess hefur Fernando Alonso unnið tvo heimsmeistaratitla í Formúlu 1. Spánverjar hafa lengi verið ein sterkasta hjólreiðaþjóð heims. Miguel Indurain vann t.a.m. fimm Tour de France mót í röð á tíunda áratugnum. Þeir eru sterkir í tennis og langsterkasta golfþjóðin utan hins enskumælandi heims.
5. Sovétríkin
Sovétríkin komu út úr einangrun eftir seinni heimstyrjöldina og brutust fram á sjónarsvið íþróttanna með hvelli. Þeir urðu öflugasta íþróttaríki heims í 40 ár, eða þangað til ríkið lagðist af árið 1991. Rússar hafa ekki náð að leika eftir afrek Sovétríkjanna og í raun fjarlægjast þeir þau stöðugt. Á þeim 18 ólympíuleikum sem Sovétmenn kepptu á, urðu þeir sigursælastir á 14. Þeir höfðu mikla yfirburði í fimleikum, lyftingum, glímu, blaki og fleiru. Eitt helsta stolt Sovétmanna var íshokkíliðið þeirra sem vann flest stórmót. Íþróttaundrið var þrælskipulagt af stjórnvöldum og afrekin notuð í pólitískum tilgangi. Íþróttamennirnir voru ekki hetjur í sjálfu sér heldur hetjur Sovétríkjanna og notaðar í áróðursskyni. Margar viðureignir þeirra við Bandaríkjamenn urðu hluti af kalda stríðinu sjálfu. Má þar nefna úrslitaleiki í körfuknattleik (1972) og íshokkí (1980) á ólympíuleikum og stórmeistaraeinvígið í Reykjavík.
4. Ástralía
Í þessu risavaxna landi búa einungis rúmlega 20 milljónir en sagt er að þjóðin sé íþróttaóð. Þeir hafa náð merkilega góðum árangri á Ólympíuleikum. Sérstaklega í sundi þar sem einungis Bandaríkjamenn hafa unnið til fleiri verðlauna. Frægastir voru sundkapparnir Murray Rose og Ian Thorpe sem skáru fram úr í þau tvö skipti sem Ástralir hafa haldið leikana. Rose í Melbourne árið 1956 og Thorpe í Sydney árið 2000. Einnig eru Ástralir sterkir í frjálsum íþróttum, róðri, siglingum og hjólreiðum. Þeir eru langsterkasta krikketþjóð heims og hafa unnið 5 af 11 heimsmeistaramótum. Þeir hafa einnig unnið tvo heimsmeistaratitla í ruðningi. Ofan á þetta allt er golfmenningin mjög sterk í landinu. Kylfingar á borð við Adam Scott, Karrie Webb og hvíti hákarlinn sjálfur Greg Norman koma þaðan.
3. Svíþjóð
Fyrirmyndarríkið Svíþjóð er með heilbrigðan lífstíl og íþróttir á heilanum. Svíþjóð er í sjöunda sæti yfir sigursælustu þjóðirnar á ólympíuleikunum sem er stórmerkilegt í ljósi þess að Svíar eru ekki nema tæplega tíu milljónir. Knattspyrnuliðið þeirra hefur náð silfri og bronsi á heimsmeistaramóti, handknattleiksliðið hefur unnið fjölmörg heims- og evrópumeistaramót og íshokkíliðið þeirra hefur unnið níu heimsmeistaratitla. Þeir eru heldur engir aukvisar í einstaklingsíþróttum. Björn Borg er besti tennisleikmaður allra tíma, Ingemar Stenmark besti alpagreinamaðurinn og Annika Sörenstem besti kvenkylfingurinn. Svíar hafa meira að segja átt þungavigtar heimsmeistara í hnefaleikum, Ingemar „Þórshamar“ Johansson.
2. Jamaíka
Þetta þriggja milljón manna þriðja-heims eyríki hefur heldur betur sett svip sinn á heim íþróttanna. Frægastir eru Jamaíkumenn fyrir spretthlaupara sína. Þeir eiga samtals 67 ólympíumedalíur og 66 af þeim hafa komið úr spretthlaupi. Af körlum má nefna einn besta íþróttamann heims Usain Bolt, sem og Asafa Powell og Yohan Blake. Af konum eru merkastar Merlene Ottey og Shelly-Ann Fraser-Pryce. Jamaísku hlaupararnir hafa haft algera yfirburði á tveimur seinustu leikum. Jamaíkumenn hafa tvisvar orðið heimsmeistarar í krikket (í liði Vestur-Indía) og þeir hafa átt góða körfuknattleiksmenn eins og Patrick Ewing og Andre Drummond. Frægasta liðið þeirra er þó án nokkurs vafa bobbsleðaliðið þeirra sem komst á vetrarólympíuleikana í Calgary 1988........og svo fimm sinnum síðan þá.
Usain Bolt, sprettharðasti maður sögunnar. Mynd: EPA.
Auglýsing
1. Finnland
Þessi fimm milljón manna þjóð er þekktust fyrir saunaböð og þungt skap en er einnig fremsta íþróttaþjóð heims. Fólk á það til að líta framhjá Finnum vegna þess hversu afleitt knattspyrnuliðið þeirra er en Finnar skara fram úr í mörgu öðru. Þeir eru sterkasta kappakstursþjóð heims. Þeir eiga fjóra heimsmeistaratitla í Formúlu 1 og 14 í rallý. Mika Hakkinen og Tommi Makinen eru stórstjörnur. Tvisvar hefur íshokkílandslið þeirra unnið heimsmeistaratitil. Árangur þeirra á ólympíuleikunum er aðdáunaverður, sérstaklega í frjálsum íþróttum. Þar eiga þeir 48 gull og 114 medalíur alls. Einungis Bandaríkin, Sovétríkin og Bretland hafa halað inn fleiri medalíum. Langhlaupararnir (hinir fljúgandi Finnar) Paavo Nurmi, Ville Ritola og Lasse Viren eiga stóran þátt í þessum árangri. Árangurinn á vetrarleikunum er líka góður, sérstaklega í skíðastökki og skíðagöngu.