Boston Dynamics. Leggið nafn þess fyrirtækis á minnið. Google keypti það í desember í fyrra og þá komust uppfinningar fyrirtækisins fyrir alvöru fram í dagsljósið. Google hóf að sýna fyrirtækinu áhuga eftir að það gerði 10,8 milljóna dala (1,3 milljarðar króna) samning við Bandaríkjaher. Samningurinn felst öðru fremur í því að herinn fær að prófa vélmenni, faratæki og flutningstæki og þróa þau til þátttöku í ýmsum verkefnum hersins.
Minnir á þróun netsins
Tæknin að baki internetinu var áratugi að þróast í þá átt sem við þekkjum nú. Lykilaugnablikin í magnaðri sögu internetsins voru rannsóknir sem unnar voru í samvinnu við Bandaríkjaher. Einkum á árunum 1970 og fram til 1990. Þá tókst sérfræðingum og vísindamönnum að þróa internetið þannig að það tengdi fólk við tölvur saman og gerði því kleift að eiga samskipti. Smátt og smátt varð internetið að þeim veruleika sem við þekkjum í dag. Dygg aðstoð Bandaríkjahers skipti sköpum.
Þróun gervigreindarinnar sem Boston Dynamics hefur unnið með undanfarin ár hefur verið ógnarhröð. Saga fyrirtækisins teygir sig til ársins 1992 þar sem unnið var að gervigreindarrannsóknum í MIT háskólanum í Boston. Meginmarkmið Boston Dynamics hefur frá upphafi verið að búa til vélknúnin tæki sem eru fjarstýrð, sem geta aðstoðað við hvers dagslega hluti. Svo sem flutt hluti til og, það sem kannski hræðir einhvern, varist árásum annarra og einnig haft frumkvæði að þeim ef svo ber undir.
Herinn vinnur með Cheetah
Sú vara frá Boston Dynamics sem hefur vakið einna mesta athygli er Cheetah/Wild Cat vélmennið. Það gengur fyrir vélarafli, fjarstýrðum tölvuhermi sem er með mikla næmni fyrir ytra áreiti og hefur ótrúlega hreyfigetu. Mesti hraði sem vísindamenn hafa mælt vélmennið á er 29 mílur á klukkustund, eða sem nemur um 45 kílómetra hraða. „Það er ótrúlegt að hugsa til þess að þetta sé hægt og að þróunin með vélmenni sé komin þetta langt. Við höfum fundið fyrir því að þetta getur líka hjálpað til í fjölbreytilegum verkefnum hersins,“ sagði Mark Wise, yfirmaður í bandaríska hernum, í viðtali við Marines TV um notkun á Cheetah/Wild Cat við æfingar.
http://www.youtube.com/watch?v=wE3fmFTtP9g
Bandríkjaher hefur auk þess verið að vinna að þróun vélmennis, Petman, sem hreyfir sig eins og maður, og getur brugðist við áreiti, en það er eitt af því sem þykir það snjallasta við tölvubúnaðinn frá Boston Dynamics. Viðbragð vélmenna við áreiti og fullkomin og snögg „ákvörðunartaka“.
http://www.youtube.com/watch?v=0HALC9PBQMQ
Hvað er Google að spá?
Google hefur að undanförnu fært sig sífellt meira inn á gervigreindarsviðið. Larry Page, annars stofnenda Google, hefur raunar sagt að hann sjá Google fyrir sér sem leiðandi fyrirtæki á sviði gervigreindar í framtíðinni og að skilin á milli tækjanotkunar eins og við þekkjum hana í dag, og síðan hlutverka sem vélmenni munu geta séð um í framtíðinni, verði sífellt minni. Sjálfstýrandi bílar á föstum leiðum, vélmenni sem bera töskur fyrir fólk á flugvöllum, drónar sem koma vörum á réttan stað og síðast en ekki síst vélmenni sem berjast á vígvöllum. Þetta er veruleiki í dag, þó í mýflugumynd sé miðað við það sem getur orðið þegar fram í sækir. Boston Dynamics er leiðandi á þessu sviði í heiminum og má reikna með að Google muni koma fram með spennandi vörur þar sem þessum mögnuðu uppfinningum verður mörkuð stærri hilla í vörulínu hugbúnaðarrisans í framtíðinni.
Google gaf ekki upp í ársskýrslu sinni fyrir síðasta ár hversu mikið það greiddi fyrir Boston Dynamics.