Í dag heldur yngsta sjálfstæða ríki heims, Suður-Súdan, upp á fjögurra ára sjálfstæði sitt. Því miður er þó lítið tilefni til hátíðarhalda þar í landi um þessar mundir vegna borgarastyrjaldar, sem fangar athygli vestrænna fjölmiðla af afar takmörkuðu leyti. Þrátt fyrir að margt sé á uppleið í Afríku sunnan Sahara, eins og bent hefur verið á á þessum vettvangi, er saga Suður-Súdan síðastliðin ár og áratugi blóði drifin og sorgleg.
Árið 2011 fékk Suður-Súdan sjálfstæði frá Súdan, en það liðu ekki nema tvö ár þar til borgarastyrjöld braust út árið 2013 og þeim átökum er í dag hvergi nærri lokið. Hugtakið „harmleikur“ er oft notað í daglegu tali, en það er sjaldan jafn viðeigandi og í tilfelli Suður-Súdan. Það þarf því vart að taka fram að landið er í dag eitt allra fátækasta og vanþróaðasta ríki heims.
Samfelld sorgarsaga
Súdan, sem Suður-Súdan tilheyrði áður, fékk sjálfstæði frá Bretum árið 1956. Íbúarnir í suðri fengu þó ekki sjálfstæði að kalla því þeim var ráðið frá Kartúm í norðrinu. Íbúar Suður-Súdan eru flestir af nilótískum uppruna (e. Nilotic people), en í norðurhluta landsins búa Arabar og skyldir þjóðflokkar. Súdan hafði ekki verið sjálfstætt lengi þegar fór að bera á kúgun og misskiptingu auðs og valds, sem hallaði mjög á suðurhluta landsins. Því braust út borgarstyrjöld milli landshlutanna nánast á sama tíma og landið fékk sjálfstæði. Sú styrjöld stóð allt fram til ársins 1972 og lauk með vopnahléi þegar um hálf milljón manna lág í valnum.
Árið 1978 fundust miklar ólíulindir í Suður-Súdan og ekki leið að löngu þar til barátta um yfirráð yfir þeim leiddi til annarrar borgarastyrjaldar. Önnur borgarastyrjöld Súdan hófst árið 1983 og henni lauk ekki fyrr en árið 2005. Í stríðinu féllu á milli 1 og 2 milljónir manna og 4 milljónir í Suður-Súdan neyddust til að flýja heimili sín. Stríðið er ein lengsta borgarstyrjöld allra tíma og ekki hafa jafn margir óbreyttir borgarar fallið í stríði frá lokum Síðari heimsstyrjaldarinnar. Þá er ekki meðtalin annar hryllingur sem birtist í stríðinu eins og þúsundir barnahermanna og þrælahald.
Friðargæsluliðar frá Suður-Kóreu leika við börn í borginni Bor fyrr í þessum mánuði. Mynd:EPA
Sjálfstæði og þriðja borgarastyrjöldin
Það var loks árið 2011 sem haldin var þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði Suður-Súdan og kusu 99% kjósenda með sjálfstæði. Átökum í landinu var þó hvergi nærri lokið þegar landið fékk formlega sjálfstæði og Salva Kiir Mayardit varð fyrsti forseti landsins 9. júlí 2011, ekki síst vegna deilna um yfirráð yfir olíulindum landsins. Í lok ársins 2011 brutust t.d. út mikil átök á milli Lou Nuer og Murle ættbálkanna.
Það var svo í desember 2013 sem yfirstandandi borgarastyrjöld braust út þegar forsetinn, sem tilheyrir Dinka ættbálknum sakaði fyrrverandi varaforsetann Rieck Machar, sem tilheyrir Nuer ættbálknum, um valdarán. Við það hófust bardagar á milli Nuer og Dinka hermanna. Fljótlega blönduðust ýmsir skæruliðahópar og úganski herinn inn í átökin og fólk tók að flýja landið í stórum stíl.
Þegar þetta er ritað standa átökin enn yfir, þó að sárafáar fréttir um stríðið rati á síður íslenskra fjölmiðla. Enginn veit hversu margir hafa fallið í stríðinu, en í nóvember í fyrra var talið að a.m.k. 50,000 manns hafi fallið - hugsanlega tvöfalt fleiri.
Fórnarlömbin eru mun fleiri
Fólk sem fellur fyrir vopnum eru þó langt í frá einu fórnarlömb stríðsins því meira en tvær milljónir manna hafa þurft að flýja heimili sín frá því að átökin hófust. Það, ásamt átökunum, hefur leitt til þess að bændur geta ekki uppskorið svo að óhætt er að segja að landið hafi verið á barmi hungusneyðar frá upphafði stríðsins. Vegna neyðarástandsins færir Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) fólki á átakasvæðunum hundruði tonna af mat á dag.
Á athyglisverðu bloggi, sem Stefán Ingi Stefánsson fyrrverandi framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi hélt úti þegar hann starfaði í Suður-Súdan fyrir ári síðan, sést þetta glögglega. Ein færslan nefnist The F-word og vísar til þess að alvarlegar umræður áttu sér stað meðal hjálparstofnanna í Júba, höfuðborg Suður-Súdan, um hvort kalla mætti aðstæðurnar í landinu „hungursneyð“ (e. famine). Skilgreining Sameinuðu þjóðanna á hungusneyð er þegar 30% mannfjöldans er vannærður, 20% heimila búa við alvarlegan matarskort og a.m.k. tveir af af hverjum 10.000 deyja úr hungri á dag. Til að setja það í samhengi er það eins og ef um 70 manns myndu deyja á úr hungri á Íslandi daglega.
Stríðið hefur ekki einungis valdið vannæringu, uppskerubresti, lamandi óöryggi og því að líf fjölskyldna er hér um bil lagt í rúst. Kynbundið ofbeldi og hópnauðganir eru daglegt brauð og reglulega berast fregnir um fjöldamorð og morð erlendum friðargæsluliðum. Stríðandi fylkingar hafa jafnframt þúsundir barnahermanna á sínu bandi, bæði drengi og stúlkur, sem ganga til liðs við vopnaða hópa í örvæntingu. UNICEF telur að sum þeirra séu ekki nema 9 ára gömul. Þá er heilbrigðiskerfi landins í molum og menntakerfið sömuleiðis, en aðeins 27% þjóðarinnar er læs.
Hvernig er staðan í dag?
Það stóð til að kosningar færu fram í júní síðastliðnum en þeim var frestað um óákveðinn tíma vegna stríðsins. Lítið hefur orðið ágengt í tilraunum til að enda átökin og friðarumleitunum sem hófust í Addis Ababa í Eþíópíu í ágúst á síðasta ári lauk án árangurs fyrr á árinu. Átökin halda áfram og lítið bendir til þess að það muni breytast á næstunni.
Hagkerfi landsins er mjög djúpri kreppu og ofan á miklar olíuverðslækkanir undanfarna mánuði hefur olíuframleiðsla í landinu fallið um 70%, en olía er nánast eina útflutningsvara landsins. Þá braust nýlega út kólerufaraldur sem hefur fellt 70 manns og sýkt 3.200 manns þegar þetta er ritað og vægast sagt ógeðslegar fregnir af ofbeldi berast reglulega.
Það er enn von
„Það virðist alltaf ómögulegt þar til það er búið.“ sagði Nelson Mandela eitt sinn. Þó að staðan í Suður-Súdan sé hörmuleg er ennþá von. Ekki þarf að fara lengra aftur en til þjóðarmorðanna í Rúanda árið 1994 til að sjá það. Síðan þá hefur verið friður og nokkur uppgangur þar í landi - t.a.m. hefur landsframleiðsla Rúanda fimmfaldast á 20 árum. Fáir hefðu getað ímyndað sér það á meðan þjóðarmorðunum stóð. Alþjóðsamfélagið getur einnig beitt sér í meira mæli og hefur það skilað árangri að því leyti að nýlega voru hundruðir barna leyst undan vopnum vegna þrýstings frá UNICEF. En betur má ef duga skal.
Auðvelt er fyrir einstaklinga að hugsa með sér að þeir geti ekkert gert. Það er rangt. Til dæmis er hægt að styrkja ýmsar hjálparstofnanir og mannréttindasamtök sem starfa í Suður-Súdan. Einnig gætu íslensk stjórnvöld lagt alþjóðlegum stofnunum betur lið til að koma á friði í landinu. Fáar þjóðir eiga jafn mikið skilið að fá loksins að búa við öryggi í friðsælu landi.