Undirbúa sókn fjárfesta í flesta innviði samfélagsins „til að létta undir með hinu opinbera“
Í nýlegri kynningu vegna fyrirhugaðrar stofnunar á 20 milljarða innviðasjóði er lagt upp með að fjölmörg tækifæri séu í fjárfestingu á innviðum á Íslandi. Það eru ekki einungis hagrænir innviðir heldur líka félagslegir, eins og á sviði heilbrigðis, menntunar og menningu. Forseti ASÍ segir að vísað verði til skulda ríkissjóðs til að „afhenda fjármálaöflum sameiginlegar eigur og auka þannig ójöfnuð til að fáir útvaldir geti makað krókinn.“
Íslenska sjóðstýringarfyrirtækið Summa hefur unnið að því um nokkurt skeið að fá íslenska lífeyrissjóði til að leggja fram fjármagn í nýjan innviðafjárfestingasjóð. Samkvæmt nýlegri kynningu, sem kallast Innviðir 2, er áætluð stærð sjóðsins allt að 20 milljarðar króna.
Í kynningunni, sem Kjarninn hefur undir höndum, segir að sjóðurinn muni fjárfesta í innviðum á Íslandi. Þar verði áhersla lögð á svokallaða hagræna innviði en einnig verði þeim möguleika haldið opnum að fjárfesta í félagslegum innviðum, ef tækifæri til þess bjóðast. Summa gerði meðal annars tilboð í Mílu í sumar með það fyrir augum að sú eign yrði hluti af eignum hins nýja sjóðs. Sá biti fór hins til franska sjóðstýringafyrirtækisins Ardian, sem hefur reyndar boðað að íslenskum lífeyrissjóðum verði boðinn hlutur í þeirra fjárfestingu.
Samkvæmt kynningu Summu er ávöxtunarmarkmið sjóðsins á bilinu sex til tíu prósent raunávöxtun eftir kostað.
Til samanburðar má nefna að íslenska ríkið gaf út vaxtalaus skuldabréf í evrum í janúar á þessu ári upp á 750 milljónir evra, um 110 milljarða króna á núverandi gengi. Ávöxtunarkrafa þeirra sem keyptu þau skuldabréf, en fjórföld eftirspurn var eftir þeim, til sjö ára er 0,117 prósent. Ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisskuldabréfa hefur hækkað nokkuð á árinu, krafa styttri flokka hækkað um tæp 1,5 prósentustig en lengri flokkar um eitt prósentustig.
Íslenska ríkið ætti þó nokkuð örugglega að geta náð í mun ódýrara fjármagn til að borga fyrir innviðauppbyggingu en það fjármagn sem stefnt er að nýr sjóður Summu komi með að borðinu.
Tækifæri til fjárfestingar í nánast öllum innviðum
Í kynningu Summu er lagt upp með að ýmis tækifæri séu til fjárfestingar í innviðum á Íslandi. Kostnaður vegna viðhalds á núverandi innviðum í eigu ríkis og sveitarfélaga hafi verið metið á um 420 milljarða króna af Samtökum iðnaðarins. Þá sé þörf fyrir fjárfestingu í félagslegum innviðum á borð við hjúkrunarheimili og spítala og fjárfesting í öðrum hagrænum innviðum svo sem í fjarskiptum, veitum og orku sé líka nauðsynleg. Auk þess liggi fyrir að nýfjárfesting í samgöngum vegna verkefna eins og Borgarlínunnar, tvöföldun Hvalfjarðarganga og Ölfusárbrúar þurfi að vera um 200 milljarðar króna.
Samanlagt er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs verði 1.128 milljörðum krónum lægri en útgjöld hans á sjö ára tímabili, frá byrjun síðasta árs og út árið 2026. Summa sér „tækifæri til að létta undir með hinu opinbera“ vegna þessa hallareksturs. Þau tækifæri liggi meðal annars í því að ríki og sveitarfélög gætu verið tilbúin að selja hagræna innviði til að mæta hallarekstri og taka á móti fjárfestingu til að byggja upp félagslega innviði. Að mati sjóðstýringarfyrirtækisins sé aðkoma fjárfesta „lykilforsenda fyrir uppbyggingu innviða á Íslandi í framtíðinni.“
Félagslegt húsnæði, lögreglustöð og bílastæði
Summa segir í kynningunni að fyrirtækið hafi unnið að fjölda fjárfestingarverkefna sem Innviðasjóðurinn geti haft aðkomu að. Heildarpípustaða í hagrænum innviðum sé upp á rúmlega 150 milljarða króna í hlutafé. Þar sé um að ræða mögulega fjárfestingu í hlutafé vegna veitna, fjarskipta, orku og samgangna. Ávöxtunarmarkmið fyrir kjarnainnviði sé fimm til tíu prósent verðtryggt en fyrir virðisaukandi innviði sé það hærra, eða sex til tíu prósent verðtryggt.
Þar er einnig fjallað um geira í fjárfestingarmengi félagslegra innviða. Þar er um að ræða heilbrigði (m.a. elliheimili, sjúkrahús, heilsugæsla, hjúkrunarheimili), húsnæði (m.a. félagslegt húsnæði og „aðrar niðurgreiddar lausnir“, hús fyrir opinbera þjónustu, lögreglustöð, dómshús), menntun (leik-, grunn-, mennta- og háskólar) og menning (m.a. bókasöfn, söfn, samkomuhús, íþróttaleikvangar og hús, sundlaugar, tónlistahús, almenningsgarðar og leikvellir). Þá eru tiltaldar „aðrar rauneignir“ eins og bílastæði og samfélagslega tengd þjónusta eins og strætisvagnastöðvar.
Í aukaglærupakka er gert grein fyrir áætlaðri tímasetning fyrirsjáanlegra verkefna hvað varðar hagræna innviði. Þá tímalínu má sjá á myndinni hér að neðan:
Þar er einnig fjallað sértækt um tækifæri í samgönguframkvæmdum, fráveitu, orkuframleiðslu og við ýmiskonar lánsfjármögnun samhliða hlutafjárþátttöku:
Skuldir afsökun til að afhenda sameiginlegar eigur
Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), fjallaði um stöðu mála hvað varðar innviðafjárfestingar í pistli sem hún birti í gær. Þar segir hún komandi ríkisstjórn, sem verður kynnt til leiks á morgun, standa frammi fyrir stórum spurningum. Á meðal þeirra sé hvort verja eigi innviði samfélagsins eða hvort nýta eigi tækifærið með vísan til skulda ríkissjóðs til að „afhenda fjármálaöflum sameiginlegar eigur og auka þannig ójöfnuð til að fáir útvaldir geti makað krókinn.“
Í pistlinum segir Drífa fjármagnseigendur vera með fulla hendur fjár og þeir bíði eftir að komast yfir samfélagslegar eigur því þar sé helsta gróðavonin um þessar mundir. „Að reka hluta af grunninnviðum fyrir ríkið „tryggir greiðsluflæði“ eins og það heitir á fjármálatungumáli. Á venjulegu máli heitir það að vera með hendurnar í vasa skattgreiðenda, eða vera hreinlega á ríkisspenanum. Innviðirnir verða að vera til staðar, þeir mega ekki klikka og því er ljóst að ríkið hleypur undir bagga ef í harðbakkann slær. Þetta er módel sem getur ekki klikkað fyrir fjármagnseigendur og hefur um áratugaskeið verið kynnt fyrir almenningi sem hagkvæmni í rekstri. Ríkið hefur minnkað skuldir sínar með því að fá einkaaðila til verka og bindast þeim svo notenda- eða leigusamningsböndum um ókomna tíð, sem alla jafna eru dýrari fyrir skattgreiðendur. Hagkvæmnin er því aðeins til á pappír og í vösum fjármagnseigenda.“
Drífa segist hafa upplýsingar um að fjárfestingarsjóðir undirbúi innviðasókn í traust þess að komandi ríkisstjórn vinni með þeim að því markmiði. „Það verður áhugavert að vita hvaða öfl innan stjórnmálanna munu leggjast á sveif með almenningi í þessu máli og hvaða öfl ætla að leyfa fjármagnsöflunum að vaða uppi. ASÍ mun fylgjast náið með þróuninni, en almenningur verður líka að eiga sína hagsmunaverði í hópi stjórnmálamanna. Saman eiga slíkir stjórnmálamenn, verkalýðshreyfingin og félagasamtök að mynda öflugt þrýstiafl sem stendur vörð um velferð, eignir og þjónustu sem við höfum byggt upp síðustu áratugi og eigum sem samfélag að njóta góðs af.“
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars