Samfylkingin logar stafna á milli eftir að Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingkona Samfylkingarinnar í Reykjavík og formaður velferðarnefndar Alþingis, ákvað að bjóða sig fram gegn Árna Páli Árnasyni formanni á landsfundi flokksins sem hófst í dag. Sigríður Ingibjörg tilkynnti Árna Páli um að hún ætlaði sér að fara gegn honum rétt fyrir klukkan sex í gær símleiðis. Kosningin um formann flokksins, þar sem Sigríður Ingibjörg og Árni Páll berjast um sigur, fer fram milli 17:30 og 18:30 í dag.
Ákvörðun Sigríðar Ingibjargar kom Árna Páli á óvart. „Sigríður Ingibjörg hringdi í mig klukkan þrjár mínútur í sex í gær og tilkynnti mér um framboð sitt. Það kom mér algjörlega í opna skjöldu,“ sagði Árni Páll í samtali við Kjarnann.
Undirbúningurinn hafinn áður?
Sigríður Ingibjörg ákvað það klukkan fimm í gær, að hennar sögn, að bjóða sig fram gegn Árna Páli. Hún segist ekki hafa undirbúið þetta sérstaklega, en ákvörðunin hafi átt sér nokkurn aðdraganda. „Ég er ekki klækjastjórnmálamaður. Það hefur verið mikil umræða í flokknum að undanförnu, vegna þess að fylgið er lágt,“ sagði Sigríður Ingibjörg.
Sp. blm. En er þetta svona Sigríður Ingibjörg? Ertu ekki búin að vera skipuleggja hallarbyltingu með þínu baklandi að undanförnu? „Nei. Ég starfa ekki þannig. Ef svo hefði verið hefði það alltaf borist forystunni til eyrna. Ekkert slíkt var í gangi,“ sagði Sigríður Ingibjörg. Hún segir ákvörðunina alfarið hafa verið sína, tekna í gær. Hún segist vera með breitt bakland, hjá ungum jafnaðarmönnum, flokksfólki almennt, Samfylkingarfélaginu í Reykjavík, í kvennahreyfingunni og „60 plús“, eins og hún orðaði það sjálf.
Ekkert persónulegt @ArniPallArnason http://t.co/vYJOv0YVxq
— Ungir jafnaðarmenn (@ungjofn) March 19, 2015
Strax byrjað að hringja
Samkvæmt heimildum Kjarnans á formannsframboð Sigríðar Ingibjargar sér lengri aðdraganda, einkum og sér í lagi í einstökum flokksfélögum Samfylkingarinnar. Strax í gærkvöldi voru stuðningsmenn Sigríðar Ingibjargar byrjaðir að hringja í flokksfólk og óska eftir stuðningi. Þar beinast spjótin að Samfylkingarfélaginu í Reykjavík. Innan þess hefur grasserað óánægja með Árna Pál, og töluverð umræða farið fram um það, einkum á síðustu vikum, að nýr formaður gæti „tekið flokkinn áfram“, eins og einn viðmælenda Kjarnans komst að orði.
Innan þingflokksins, sem aðeins telur níu þingmenn eftir síðustu kosningar, komu fréttirnar um framboð Sigríðar Ingibjargar nokkuð á óvart, samkvæmt heimildum Kjarnans. En þingmenn flokksins höfðu þó heyrt af því að nokkur óánægja væri með störf Árna Páls, einkum hjá ungliðum í flokknum og einnig hjá flokksmönnum í Reykjavík. Í samtölum við flokksmenn í dag bar nafn Kjartans Valgarðssonar, flokksmanns Samfylkingarinnar í Reykjavík, oft á góma þegar rætt var um þá sem væru að þrýsta á um að breytingar yrðu gerðar í forystu flokksins.
Furða sig á aðdragandanum
Þungavigtarfólk í flokknum, sem sumt hefur reynslu af flokksstarfinu allt frá stofnun hans, furðaði sig á því hvernig formannsslaginn bar að, þegar Kjarninn ræddi við það. Var þar meðal annars rætt um landsfundinn sjálfan, þá sem hafa valist til að sitja hann og fyrirkomulagið í kosningunni sjálfri. Landsfundarfulltrúar eru um 800 en ekki hafði verið gert ráð fyrir því að full mæting yrði á fundinn. Til að mynda er sagt að fjöldi skráðra landsfundarfulltrúa utan af landi hafi ekki ætlað að mæta vegna þess að ekki hafi stefnt í nein átök á fundinum.
Ekki lengur lýðræðisveisla?
Formaður Samfylkingarinnar hefur hingað til alltaf verið kjörinn í allsherjaratkvæðagreiðslu allra félagsmanna flokksins, þegar fleiri en einn hafa verið í framboði. Það er því ljóst að nú kemur það í hlut landsfundarfulltrúa í fyrsta skipti að velja formann flokksins.
Í síðasta formannskjöri voru 18.318 á kjörskránni og 5.621 greiddi atkvæði. Árni Páll hlaut 3.474 atkvæði í þeirri kosningu, eða 62,2 prósent atkvæða.
Flokkurinn hefur lengi stært sig af þessu fyrirkomulagi við kjör formanns, enda hefur hann verið eini flokkurinn sem ekki kýs formann á lokuðum landsfundi. Formaður flokksins hefur því yfirleitt verið talinn með mjög víðtækt umboð í krafti þessarar atkvæðagreiðslu.
Flokkurinn hefur lengi stært sig af þessu fyrirkomulagi við kjör formanns, enda hefur hann verið eini flokkurinn sem ekki kýs formann á lokuðum landsfundi. Formaður flokksins hefur því yfirleitt verið talinn með mjög víðtækt umboð í krafti þessarar atkvæðagreiðslu. Árni Páll talaði til að mynda um þetta fyrirkomulag sem „lýðræðisveislu“ fyrir síðasta landsfund, þar sem allir geta tekið þátt svo lengi sem þeir skrá sig í flokksfélag. „Sjálfstraust Samfylkingarinnar birtist í því að þora að vera opinn flokkur. Við erum lýðræðisleg fjöldahreyfing og bjóðum öllum að hafa áhrif. Það greinir okkur frá öðrum flokkum. Þannig skulum við hafa það áfram,“ sagði hann þá.
Í lögum Samfylkingarinnar segir „Formaður Samfylkingarinnar - jafnaðarmannaflokks Íslands skal kjörinn allsherjaratkvæðagreiðslu meðal allra skráðra félagsmanna enda komi fram krafa þar um frá a.m.k. 150 flokksmönnum eigi síðar en 45 dögum fyrir boðaðan landsfund.“
Ef ekki fer fram atkvæðagreiðsla um formannskjör samkvæmt ofangreindu á að kjósa formann á landsfundi, og þá eru allir í kjöri. Kosning fer fram þótt aðeins einn sé í kjöri. Því ákvæði var bætt inn í lögin á síðasta landsfundi. Það er á grundvelli þessa ákvæðis sem Sigríður Ingibjörg býður sig fram svona seint.
Klofningur getur farið með flokkinn
Augljóst er að formannsslagur Sigríðar Ingibjargar og Árna Páls getur haft mikil áhrif innan flokksins til framtíðar litið. Einn viðmælenda Kjarnans sagðist líta á formannsframboð Sigríðar Ingibjargar sem „aðför úr launsátri“ sem gæti skapað djúpstæðan ágreing innan flokksins, á versta tíma. Þar sem mikil hreyfing væri á fylgi vinstri megin og við miðju í hinu pólitíska landslagi. Slagurinn gæti komið enn meiri hreyfingu á fylgið, og grafið undan flokksstarfinu. Á móti gæti það einnig gerst, að forystubreyting á þessum tímapunkti myndi færa honum byr í segl, en flestir viðmælenda voru sammála um að það væru minni líkur en meiri á því.