Danski þjóðarflokkurinn (DF) var stofnaður haustið 1995. Stofnendur voru fjórir félagar úr Framfaraflokki Mogens Glistrup. Á þeim bæ hafði, ekki í fyrsta sinn, allt logað í illdeilum sem lauk með því að varaformaðurinn Pia Kjærsgaard sagði skilið við flokkinn, ásamt Kristian Thulesen Dahl og tveimur þingmönnum til viðbótar. Pia Kjærsgaard hafði farið með formennsku í Framfaraflokknum á meðan stofnandinn Mogens Glistrup afplánaði fangelsisdóm vegna skattsvika. Brotthvarf fjórmenninganna markaði upphafið að endalokum Framfaraflokksins.
Pia Kjærsgaard var í forystu fyrir hópnum sem klauf sig út úr Framfaraflokknum og hún varð fyrsti formaður DF.
DF bauð fyrst fram til þings árið 1998 og fékk þá 13 þingmenn af þeim 179 sem sæti eiga á danska þinginu (Folketinget). Í kosningunum árið 2001 fékk flokkurinn 22 þingmenn, og var þar með orðinn þriðji stærsti flokkur landsins. Flokkurinn taldi sig ekki tilbúinn til ríkisstjórnarþátttöku en gerðist stuðningsflokkur minnihlutastjórnar Venstre (sem er hægri miðjuflokkur) og Íhaldsflokksins (Konservative), undir forystu Anders Fogh Rasmussen.
Sökum stærðar sinnar gat flokkurinn haft mikil áhrif á stefnu og ákvarðanir stjórnarinnar. Það kom berlega í ljós árið 2006 en þá studdi DF vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar á Lars Barfoed, ráðherra neytendamála. Vantraustið tengdist kjöthneykslinu svokallaða og snerist um dagstimpla á kjöti og slöku matvælaeftirliti. Ráðherrann neyddist til að segja af sér. Stjórn Venstre og Íhaldsflokksins sat til árins 2011, allan tímann með stuðningi DF. Flokkurinn fékk 25 þingmenn í kosningunum 2007 en missti 3 í kosningunum 2011.
Formannsskipti og DF næst stærsti flokkurinn
Eins og áður sagði var Pia Kjærsgaard kjörinn formaður DF við stofun flokksins árið 1995. Hún gegndi formennskunni til ársins 2012. Þá tók Kristian Thulesen Dahl núverandi formaður við. Fylgi flokksins tók stökk upp á við eftir að hann settist í formannsstólinn.
Í kosningunum 2015 fékk DF 37 þingmenn, bætti við sig 15 frá kosningunum fjórum árum fyrr og var orðinn næst stærsti flokkur landsins. Danskir stjórnmálaskýrendur töldu ástæður velgengninnar vera skýra stefnu í málefnum innflytjenda og flóttmanna, vildi takmarka „strauminn til Danmerkur“ eins og það var orðað. Flokkurinn talaði sömuleiðis skýrt varðandi aldraða og öryrkja, sem hann vildi standa vörð um. Loks má nefna persónulegar vinsældir formannsins Kristian Thulesen Dahl.
Vildi ekki í stjórn
Eftir kosningarnar 2015 tók stjórn Venstre, undir forystu Lars Løkke Rasmussen við völdum. Mörgum þótti undarlegt að DF skyldi ekki sækjast eftir að komast í ríkisstjórn eftir að hafa náð jafn góðum árangri í kosningunum og raun bar vitni. Svar flokksforystunnar var eins og áður að flokkurinn væri einfaldlega ekki tilbúinn og hafi auk þess haft meiri áhrif utan stjórnar en innan. Stjórnmálaskýrendur veltu fyrir sér hvort kjósendur myndu ekki á endanum snúa baki við flokki sem ekki hefur metnað, eða vill axla þá ábyrgð að stýra landsmálunum nema þá úr aftursætinu. Kristian Thulesen Dahl gerði lítið úr slíkum vangaveltum, sagði kjósendur flokksins vita að hann skyti sér aldrei undan ábyrgð. Annað kom þó á daginn fjórum árum síðar, árið 2019.
Hrun og óánægjuraddir
Úrslit kosninganna 5. júní 2019 voru reiðarslag fyrir DF. Flokkurinn tapaði 21 þingmanni, fékk 16. Skýringar á þessu fylgistapi voru ekki augljósar, en ýmsir stjórnmálaskýrendur nefndu að sú harða stefna sem flokkurinn fylgdi í málefnum innflytjenda og hælisleitenda hefði að nokkru leyti gufað upp, vegna breyttra aðstæðna. Líka var bent á að Pia Kjærsgaard fyrrverandi formaður hafði í umræðum talað í niðrandi tóni um umhverfissinna, kallað þá loftsagsflón (klimatosse). Þrátt fyrir þetta mikla tap í kosningunum virtist formaður flokksins, Kristian Thulesen Dahl traustur í sessi. Ýmsir stjórnmálaskýrendur sögðu þó að úrslit kosninganna hlytu að kalla á breytingar í flokksforystunni. Yngja þyrfti upp. Í tengslum við þessa umræðu var einkum talað um einn mann sem nýjan leiðtoga DF. Morten Messerschmidt.
Vinsæll en umdeildur
Morten Messerschmidt, fæddur 1980, er lögfræðingur að mennt. Hann gekk ungur til liðs við DF og var varaformaður ungliðahreyfingar flokksins um fimm ára skeið. Hann var kjörinn á þing árið 2005 og var á þingi talsmaður flokksins í Evrópumálum.
Árið 2007 birti dagblaðið BT frétt um að Morten Messerschmidt hefði verið í Tívolí í Kaupmannahöfn, vel við skál, sungið þýska þjóðsönginn og hyllt Adolf Hitler. Þingmaðurinn viðurkenndi að hafa verið við skál og sungið fyrsta versið í þýska þjóðsöngnum en harðneitaði að hafa hyllt Adolf Hitler. Þetta mál endaði fyrir dómstólum, Morten Messerschmidt var hreinsaður af öllum ásökunum en blaðamenn BT fengu sektir og dæmdir til að greiða Morten Messerschmidt bætur. Í þingkosningum þetta sama ár þrefaldaði hann fylgi sitt frá kosningunum tveimur árum fyrr.
Tíu ár á Evrópuþinginu
Við kosningar til Evrópuþingsins árið 2009 fékk Morten Messerschmidt 284 þúsund atkvæði, aðeins einu sinni hafði frambjóðandi fengið fleiri atkvæði. Í Evrópuþingskosningunum 2014 bætti hann um betur og fékk 466 þúsund atkvæði. Morten Messerschmidt hefur alla tíð verið mjög gagnrýninn á Evrópusambandið og margoft talað fyrir því að það verði leyst upp. Fyrir þingkosningarnar í Danmörku árið 2019 hafði Morten Messerschmidt ákveðið að söðla um, hætta á Evrópuþinginu og bjóða sig fram fyrir DF á Norður Sjálandi. Hann hlaut mjög góða kosningu og varð jafnframt varaformaður DF.
Meld og Feld
Árið 2015 varð Morten Messerschmidt formaður félagsins Meld. Meld (sem ekki starfar lengur) var félag þingmanna flokka sem fulltrúa áttu á Evrópuþinginu, flokka sem voru gagnrýnir á störf og tilveru Evrópusambandsins. Feld var sjóður tengdur Meld og sá um að úthluta styrkjum til verkefna. Meld og Feld nutu styrkja frá Evrópusambandinu en styrkina mátti einungis nota til verkefna sem tengdust ESB, en ekki til verkefna tengdum einstökum flokkum, til dæmis í heimalandi viðkomandi flokks. Ekki til kosningaundirbúnings eða samkoma á vegum einstakra flokka.
Rikke Karlsson og reikningarnir
Í október 2015 sagði Rikke Karlsson þingmaður á Evrópuþinginu sig úr DF. Hún hafði árangurslaust óskað eftir því við Morten Messerschmidt að fá afhenta yfirlit reikninga Meld sem hún átti sæti í. Hún sakaði Morten Messerschmidt um að hafa óhreint mjöl í pokahorninu úr því hann vildi ekki afhenda umrædda reikninga. Morten Messerschmidt gerði lítið úr þessu og hæddist að Rikke Karlsson
Í nóvember 2015 ákvað Evrópusambandið að Meld og Feld skyldu leyst upp og þau skyldu jafnframt endurgreiða peninga sem notaðir hefðu verið til að greiða árlegt sumarferðalag DF um Danmörku.
Í viðtali við danska fjölmiðla í maí 2016 neitaði Morten Messerschmidt að hafa misfarið með fé úr sjóðum ESB og sagðist vera fórnarlamb ofsókna andstæðinga sinna.
Þremur dögum eftir áðurnefnt viðtal ákvað forsætisnefnd Evrópuþingsins að Meld og Feld (sjóðir þeirra höfðu verið frystir) skyldu endurgreiða jafngildi 60 milljóna íslenskra króna sem hefði verið varið til verkefna sem ekki samræmdust reglum, t.d. kosningabaráttu.
18. ágúst 2016 greindi Ekstrabladet frá því að Rikke Karlsson, ásamt Jørn Dohrman hefðu verið kosin í stjórn í Meld og Feld, þótt þau væru ekki á staðnum og undirskriftir þeirra á pappírum frá fundinum væru falsaðar. Sama dag kærði Rikke Karlsson Morten Messerschmidt til lögreglu fyrir skjalafals.
Rannsóknarskýrslan
Í september árið 2019 skilaði eftirlitsstofnunin OLAF (starfar á vegum framkvæmdastjórnar ESB) skýrslu sinni um Meld og Feld. Í skýrslunni kemur fram að fé Meld og Feld hafi verið notað með ólöglegum hætti, upphæðin næmi að minnsta kosti jafngildi 86 milljónum íslenskra króna. Þessi skýrsla leiddi til þess að lögreglu og ákæruvaldi í heimalöndum þeirra félaga sem áttu aðild að Meld og Feld var falin áframhaldandi rannsókn. Í Danmörku leiddi sú rannsókn til ákæru á hendur Morten Messerschmidt. Danska þingið hafði þá samþykkt að svipta hann þinghelgi.
Dómsmálið og framtíð Morten Messerschmidt
Réttarhöldin í máli Morten Messerschmidt hófust síðastliðinn miðvikudag, 4. ágúst. Fjöldi vitna kemur fyrir réttinn en gert er ráð fyrir að réttarhöldin standi í sjö daga og dómur verði kveðinn upp 13. ágúst.
Saksóknari hefur krafist þess að Morten Messerschmidt verði dæmdur í fangelsi. Verjendur krefjast sýknu.
Pólitísk framtíð Morten Messerschmidt er í húfi. Hljóti hann dóm verður að teljast hæpið, eða útilokað, að hann hefji leiðtogakyndil Danska þjóðarflokksins á loft. Verði hann sýknaður, sem hann telur sjálfur fullvíst, stefnir hann á áframhaldandi þátttöku í dönskum stjórnmálum.