Danir ferðast mikið. Út um allar trissur. Þótt hin svonefndu sólarlönd, Spánn og Ítalía séu ofarlega á vinsældalistanum eru fjarlægari lönd t.d Tæland mjög vinsælir áfangastaðir í sumarfríinu, og reyndar líka á veturna. Ferðavanir Danir vita nákvæmlega hverju þarf að pakka í töskuna, eða töskurnar, áður en lagt er í hann. Þótt eitthvað, til dæmis tannburstinn, gleymist heima gerir það ekki svo mikið til, slík hjálpartæki fást nánast á hverju götuhorni hvar sem er í heiminum. En allra nauðsynlegasti „fylgihlutur“ hvers ferðamanns er illfáanlegur annars staðar en í heimalandi og því er jafngott að þessi hlutur gleymist ekki þegar lagt er af stað. Þetta er vitaskuld vegabréfið.
180 þúsund vegabréf á hverju ári
Gildistími danskra vegabréfa er tíu ár, sé viðkomandi 18 ára eða eldri, hjá börnum upp að tveggja ára aldri er gildistími vegabréfs tvö ár en hjá tveggja til 17 ára er gildistíminn fimm ár. Í Danmörku er það Borgaraþjónustan (Borgerservice) sem sér um útgáfu vegabréfa og í hverjum einasta mánuði ársins eru að jafnaði gefin út 15 þúsund ný vegabréf, sem sé 180 þúsund á hverju ári. Stærsti hlutinn er eðlileg endurnýjun en á síðustu árum hafa æ fleiri dönsk vegabréf horfið með einhverjum hætti. Dagblaðið Berlingske greindi fyrir skömmu frá því að árlega týnist, eða hverfi, um það bil 30 þúsund vegabréf. Sá sem sækir um vegabréf mætir á skrifstofu Borgaraþjónustunnar, framvísar gamla vegabréfinu (ef það er til staðar) fær tekna af sér mynd, borgar tiltekið gjald og fær svo vegabréfið sent í pósti.
Vilja breyta fyrirkomulaginu
Þingmenn Danska þjóðarflokksins hafa bent á að það sé ótækt að fjölmörg vegabréf rati aldrei til rétts viðtakanda, þau „gufi upp“ á leiðinni. Þingmennirnir vilja að fyrirkomulaginu verði breytt þannig að hver einstaklingur þurfi að mæta á skrifstofu Borgaraþjónustunnar til að sækja vegabréfið. Þetta var rætt í þinginu, Folketinget fyrir nokkru, en engar breytingar voru gerðar á lögunum. Þetta var reyndar ekki í fyrsta skipti sem þingmenn Danska þjóðarflokksins tóku þetta mál upp, það gerðu þeir líka árið 2018 en eins og nú var ekki vilji til breytinga. Í umræðum á þinginu kom fram að dönsk vegabréf væru eftirsótt „verslunarvara“ og að þeim séu nægir kaupendur. Engar reglur eru um það í Danmörku hve mörg vegabréf einstaklingur getur fengið útgefin. Sá sem kemur með vegabréf til endurnýjunar borgar 890 krónur (17.500 íslenskar) en upphæðin tvöfaldast mæti viðkomandi ekki með það gamla. Engin takmörk eru á því hve mörg vegabréf einstaklingur getur fengið útgefin. Til samanburðar má nefna að í Svíþjóð getur einstaklingur ekki fengið útgefin fleiri en þrjú vegabréf á hverju fimm ára tímabili.
Mikil eftirspurn og lengri bið
Vegna kórónuveirunnar hafa Danir lítt ferðast til annarra landa. Þeir hafa því ekki þurft að nota vegabréfin sem hafa legið ónotuð í kommóðuskúffunni. En þegar hillir undir að hægt verði að ferðast á ný eru vegabréfin dregin fram og þá uppgötva margir að þetta nauðsynlega ferðagagn er ekki lengur í gildi. Þá er ekki annað að gera en að drífa sig á skrifstofu Borgaraþjónustunnar og sækja um nýtt.
Undir venjulegum kringumstæðum ætti nýja vegabréfið að berast umsækjandanum eftir 10 - 15 daga. En nú eru kringumstæðurnar ekki venjulegar, umsóknirnar eru miklu fleiri en vant er. Það þýðir að biðtíminn eftir nýja vegabréfinu er miklu lengri en venjulega, sums staðar meira en mánuður. Víða hefur Borgaraþjónustan brugðið á það ráð að lengja daglegan afgreiðslutíma og hafa opið á laugardögum. En það er ekki nóg að afgreiða umsóknirnar, vegabréfin sjálf þurfa líka að vera til staðar. Fyrirtækið sem framleiðir vegabréfin hefur ekki undan og það lengir biðtímann.
Hvetur til biðlundar
Borgaraþjónustan hefur beint þeim tilmælum til þeirra sem ekki hyggjast ferðast til annarra landa á næstunni, en eru með útrunnin vegabréf, að sýna biðlund þangað til ástandið lagist. Hægt er að sækja um svokallað neyðarvegabréf, en mörg lönd, t.d. Bandaríkin, taka þau ekki gild. Borgaraþjónustan hefur líka bent á að séu minna en þrír mánuðir síðan gildistími vegabréfs rann út er hægt að fá framlengingu, um þrjá mánuði. Allmörg lönd taka hins vegar slíka framlengingu ekki gilda.
Fingrafararuglingurinn
Raunir dönsku vegabréfaútgáfunnar einskorðast ekki við umsóknaflóð í kjölfar kórónafaraldursins. Fyrir nokkru tóku gildi reglur um fingraför í dönskum vegabréfum. Með sérstakri tækni er hægt að lesa fingraför beggja vísifingra á vegabréfshafans og þegar fingraförin eru skoðuð kemur fram hvort þeirra tilheyrir vinstri vísifingri og hvort þeirra þeim hægri. Ekki tókst betur til en svo að á nokkrum stöðum sem gefa út vegabréf varð ruglingur, fingrafarið af hægri vísifingri er þar sem það vinstra á að vera, og öfugt. Þegar þetta uppgötvaðist var búið að senda út 208 þúsund vegabréf þar sem fingraförunum hafði verið ruglað. Þeim sem fengu þessi „rugluðu“ vegabréf hefur verið boðið að koma og fá ný, og „órugluð“ vegabréf. Ætlunin var að þessari útskiptingu yrði lokið um síðustu mánaðamót en enn sem komið er hafa aðeins um 80 þúsund fengið nýju vegabréfin, þar sem vinstri er vinstri og hægri er hægri. Þessi uppákoma hefur ekki orðið til að auðvelda Borgaraþjónustunni lífið. Í tilkynningu frá dönsku lögreglunni, Rigspolitiet, kemur fram að ólíklegt sé að fólk lendi í vandræðum vegna „vísifingraruglingsins“. Í tilkynningunni kemur líka fram að enn sem komið er séu fá lönd sem noti fingrafaraskanna við komu ferðamanna til landsins en þeim muni örugglega fjölga á næstu árum. Þess vegna mælist lögreglan til þess að þeir sem séu með „rugluðu“ vegabréfin láti endurnýja þau áður en langt um líður.