Vegabréfabiðlisti

Þegar útlit er fyrir að kórónuplágunni linni hugsa margir Danir sér til hreyfings. Þá er jafngott að það allra nauðsynlegasta sem hafa skal með í ferðalagið, vegabréfið, gleymist ekki heima og sé í gildi. Löng bið er hins vegar eftir nýju vegabréfi.

1589244913-huge_mynd_shutterstock
Auglýsing

Danir ferðast mikið. Út um allar trissur. Þótt hin svonefndu sólarlönd, Spánn og Ítalía séu ofarlega á vinsældalistanum eru fjarlægari lönd t.d Tæland mjög vinsælir áfangastaðir í sumarfríinu, og reyndar líka á veturna. Ferðavanir Danir vita nákvæmlega hverju þarf að pakka í töskuna, eða töskurnar, áður en lagt er í hann. Þótt eitthvað, til dæmis tannburstinn, gleymist heima gerir það ekki svo mikið til, slík hjálpartæki fást nánast á hverju götuhorni hvar sem er í heiminum. En allra nauðsynlegasti „fylgihlutur“ hvers ferðamanns er illfáanlegur annars staðar en í heimalandi og því er jafngott að þessi hlutur gleymist ekki þegar lagt er af stað. Þetta er vitaskuld vegabréfið.

180 þúsund vegabréf á hverju ári

Gildistími danskra vegabréfa er tíu ár, sé viðkomandi 18 ára eða eldri, hjá börnum upp að tveggja ára aldri er gildistími vegabréfs tvö ár en hjá tveggja til 17 ára er gildistíminn fimm ár. Í Danmörku er það Borgaraþjónustan (Borgerservice) sem sér um útgáfu vegabréfa og í hverjum einasta mánuði ársins eru að jafnaði gefin út 15 þúsund ný vegabréf, sem sé 180 þúsund á hverju ári. Stærsti hlutinn er eðlileg endurnýjun en á síðustu árum hafa æ fleiri dönsk vegabréf horfið með einhverjum hætti. Dagblaðið Berlingske greindi fyrir skömmu frá því að árlega týnist, eða hverfi, um það bil 30 þúsund vegabréf. Sá sem sækir um vegabréf mætir á skrifstofu Borgaraþjónustunnar, framvísar gamla vegabréfinu (ef það er til staðar) fær tekna af sér mynd, borgar tiltekið gjald og fær svo vegabréfið sent í pósti.

Vilja breyta fyrirkomulaginu

Þingmenn Danska þjóðarflokksins hafa bent á að það sé ótækt að fjölmörg vegabréf rati aldrei til rétts viðtakanda, þau „gufi upp“ á leiðinni. Þingmennirnir vilja að fyrirkomulaginu verði breytt þannig að hver einstaklingur þurfi að mæta á skrifstofu Borgaraþjónustunnar til að sækja vegabréfið. Þetta var rætt í þinginu, Folketinget fyrir nokkru, en engar breytingar voru gerðar á lögunum. Þetta var reyndar ekki í fyrsta skipti sem þingmenn Danska þjóðarflokksins tóku þetta mál upp, það gerðu þeir líka árið 2018 en eins og nú var ekki vilji til breytinga. Í umræðum á þinginu kom fram að dönsk vegabréf væru eftirsótt „verslunarvara“ og að þeim séu nægir kaupendur. Engar reglur eru um það í Danmörku hve mörg vegabréf einstaklingur getur fengið útgefin. Sá sem kemur með vegabréf til endurnýjunar borgar 890 krónur (17.500 íslenskar) en upphæðin tvöfaldast mæti viðkomandi ekki með það gamla. Engin takmörk eru á því hve mörg vegabréf einstaklingur getur fengið útgefin. Til samanburðar má nefna að í Svíþjóð getur einstaklingur ekki fengið útgefin fleiri en þrjú vegabréf á hverju fimm ára tímabili.

Auglýsing

Mikil eftirspurn og lengri bið

Vegna kórónuveirunnar hafa Danir lítt ferðast til annarra landa. Þeir hafa því ekki þurft að nota vegabréfin sem hafa legið ónotuð í kommóðuskúffunni. En þegar hillir undir að hægt verði að ferðast á ný eru vegabréfin dregin fram og þá uppgötva margir að þetta nauðsynlega ferðagagn er ekki lengur í gildi. Þá er ekki annað að gera en að drífa sig á skrifstofu Borgaraþjónustunnar og sækja um nýtt.

Nú þegar síga fer á seinni hluta faraldursins hafa margir Danir hugsað sér að fljúga til annarra landa í frí. Mynd: Pexels/Tim Gouw

Undir venjulegum kringumstæðum ætti nýja vegabréfið að berast umsækjandanum eftir 10 - 15 daga. En nú eru kringumstæðurnar ekki venjulegar, umsóknirnar eru miklu fleiri en vant er. Það þýðir að biðtíminn eftir nýja vegabréfinu er miklu lengri en venjulega, sums staðar meira en mánuður. Víða hefur Borgaraþjónustan brugðið á það ráð að lengja daglegan afgreiðslutíma og hafa opið á laugardögum. En það er ekki nóg að afgreiða umsóknirnar, vegabréfin sjálf þurfa líka að vera til staðar. Fyrirtækið sem framleiðir vegabréfin hefur ekki undan og það lengir biðtímann.

Hvetur til biðlundar

Borgaraþjónustan hefur beint þeim tilmælum til þeirra sem ekki hyggjast ferðast til annarra landa á næstunni, en eru með útrunnin vegabréf, að sýna biðlund þangað til ástandið lagist. Hægt er að sækja um svokallað neyðarvegabréf, en mörg lönd, t.d. Bandaríkin, taka þau ekki gild. Borgaraþjónustan hefur líka bent á að séu minna en þrír mánuðir síðan gildistími vegabréfs rann út er hægt að fá framlengingu, um þrjá mánuði. Allmörg lönd taka hins vegar slíka framlengingu ekki gilda.

Fingrafararuglingurinn

Raunir dönsku vegabréfaútgáfunnar einskorðast ekki við umsóknaflóð í kjölfar kórónafaraldursins. Fyrir nokkru tóku gildi reglur um fingraför í dönskum vegabréfum. Með sérstakri tækni er hægt að lesa fingraför beggja vísifingra á vegabréfshafans og þegar fingraförin eru skoðuð kemur fram hvort þeirra tilheyrir vinstri vísifingri og hvort þeirra þeim hægri. Ekki tókst betur til en svo að á nokkrum stöðum sem gefa út vegabréf varð ruglingur, fingrafarið af hægri vísifingri er þar sem það vinstra á að vera, og öfugt. Þegar þetta uppgötvaðist var búið að senda út 208 þúsund vegabréf þar sem fingraförunum hafði verið ruglað. Þeim sem fengu þessi „rugluðu“ vegabréf hefur verið boðið að koma og fá ný, og „órugluð“ vegabréf. Ætlunin var að þessari útskiptingu yrði lokið um síðustu mánaðamót en enn sem komið er hafa aðeins um 80 þúsund fengið nýju vegabréfin, þar sem vinstri er vinstri og hægri er hægri. Þessi uppákoma hefur ekki orðið til að auðvelda Borgaraþjónustunni lífið. Í tilkynningu frá dönsku lögreglunni, Rigspolitiet, kemur fram að ólíklegt sé að fólk lendi í vandræðum vegna „vísifingraruglingsins“. Í tilkynningunni kemur líka fram að enn sem komið er séu fá lönd sem noti fingrafaraskanna við komu ferðamanna til landsins en þeim muni örugglega fjölga á næstu árum. Þess vegna mælist lögreglan til þess að þeir sem séu með „rugluðu“ vegabréfin láti endurnýja þau áður en langt um líður.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Benedikt Jóhannesson, einn stofnenda Viðreisnar, mun starfa áfram með flokknum.
Sættir hafa náðst hjá Viðreisn og Benedikt starfar áfram innan flokksins
Benedikt Jóhannesson fyrrverandi formaður Viðreisnar greinir frá því í dag að samkomulag hafi náðst um að hann starfi áfram með flokknum.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meirihluti þjóðarinnar er bólusettur og meirihluti þeirra sem eru að greinast með veiruna er bólusettur.
116 óbólusettir greinst á einni viku
Um 64 prósent þeirra sem eru með COVID-19 á landinu eru á aldrinum 18-39 ára. Flestir sem greinst hafa síðustu daga eru bólusettir en 116 óbólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á einni viku.
Kjarninn 26. júlí 2021
Þórður Snær Júlíusson
Endalok tálmyndar um endurkomu hins eðlilega lífs
Kjarninn 26. júlí 2021
Himinn og haf skilja fátækari ríki heims og þau ríkari að þegar kemur að bólusetningum.
Þórólfur: Hægt að hafa margar skoðanir á siðferði bólusetninga
Að baki þeirri ákvörðun að gefa fólki bólusettu með Janssen örvunarskammt býr að sögn sóttvarnalæknis sú stefna að reyna að bólusetja sem flesta hér á landi með áhrifaríkum hætti. 1,32 prósent íbúa fátækustu ríkja heims hafa verið bólusett.
Kjarninn 26. júlí 2021
Sajid Javid heilbrigðisráðherra Bretlands tók við af Matt Hancock fyrr í sumar.
Biðst afsökunar á að hafa sagt fólki að hætta að „hnipra sig saman“ andspænis veirunni
Sajid Javid heilbrigðisráðherra Bretlands segist hafa notað óheppilegt orðfæri til að lýsa því hvernig landar hans þyrftu að fara að lifa með veirunni, í ljósi útbreiddra bólusetninga.
Kjarninn 25. júlí 2021
DÓTTIR er stuttmynd um ást, þráhyggju og brotna sjálfsmynd.
Stuttmyndin DÓTTIR er „ástarbréf til Íslands“
Sofia Novakova, leik- og kvikmyndagerðarkona frá Slóvakíu, er þessa dagana að taka upp stuttmyndina DÓTTIR hér á landi. Safnað er fyrir útgáfu myndarinnar á Karolina Fund.
Kjarninn 25. júlí 2021
Hólmfríður Árnadóttir menntunarfræðingur og Heiða Guðný Ásgeirsdóttir bóndi skipa 1. og 2. sæti á lista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi.
Þjórsáin okkar allra
Kjarninn 25. júlí 2021
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir ríkisstjórnina ræða málin í þaula og hafa verið í meginatriðum samstíga um aðgerðir í faraldrinum hingað til.
Stjórnmálin falli ekki í þá freistni að gera sóttvarnir að „pólitísku bitbeini“
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir samstöðu í ríkisstjórn um þær hertu aðgerðir sem tóku gildi í dag. Hún segist vilja forðast að sóttvarnir verði að pólitísku bitbeini fyrir kosningar og telur að það muni reyna á stjórnmálin á næstu vikum.
Kjarninn 25. júlí 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar