Verðbólga og vextir á Íslandi – Blikur á lofti eða ofmetið vandamál?
Verðbólga hefur oft plagað Íslendinga í gegnum tíðina og er hún nú komin upp fyrir 6 prósent í fyrsta skiptið í tæp tíu ár. Vaxtahækkanir Seðlabankans hafa einnig haft áhrif á fjárhag heimilanna og hafa margir áhyggjur af stöðu mála vegna þessa. Þingmenn ræddu í sérstakri umræðu á Alþingi í vikunni samspil verðbólgu og vaxta – og höfðu þeir ýmislegt að segja um ástæður ástandsins sem nú er uppi og hver næstu skref ættu að vera.
Hækkandi verðbólga og vaxtastig hefur vakið ugg hjá mörgum enda hafa þessir þættir mikil áhrif á stöðu efnahagsmála í landinu. Ber þá sérstaklega að nefna hærri afborganir á lánum vegna húsnæðiskaupa, bæði verðtryggðum og óverðtryggðum, sem og hækkandi húsnæðisverð, sem gerir meðal annars fyrstu kaupendum erfiðara fyrir að komast inn á markaðinn.
Til þess að ræða þessi mál ákvað Guðbrandur Einarsson þingmaður Viðreisnar að óska eftir sérstakri umræðu um samspil verðbólgu og vaxta á Alþingi og átti sú umræða sér stað í gær. Til andsvara var fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson, og tóku tíu þingmenn bæði úr stjórnarflokkunum og stjórnarandstöðunni þátt í umræðunum.
Sumir þingmannanna töluðu um að vandinn væri heimatilbúinn og fyrirsjáanlegur og að blikur væru á lofti. Aðrir sögðu að mikinn lærdóm hefði mátt draga af hruninu fyrir rúmum 10 árum og sagði ráðherrann að þrátt fyrir skuldaaukningu heimilanna væri fjárhagsstaða þeirra sterk. Enn aðrir töluðu um ástandið á húsnæðismarkaði sem hringavitleysu og sitt sýndist hverjum á hvern ætti að benda sem sökudólg hækkandi húsnæðisverðs.
Guðbrandur sagði í upphafsræðu sinni að hann hefði óskað eftir umræðunni vegna þess að Íslendingar upplifðu um þessar mundir mikinn óstöðugleika og aukna verðbólgu í íslensku samfélagi, óstöðugleika sem virtist hellast yfir landann með reglulegu millibili og sem íslenskur almenningur þyrfti að takast á við í formi verðhækkana, vaxtabreytinga, verðbólgu og kaupmáttarrýrnunar.
Óskar ekki börnum sínum þess að þurfa að ganga í gegnum það sama og hans kynslóð
„Íslenskur almenningur stjórnar ekki þessum öflum sem mestu ráða um breytingarnar en verður á endanum fyrir mestum skaða vegna þeirra áhrifa sem þetta hefur á lífskjör. Hver er að velta fyrir sér vaxtamunarviðskiptum, bindiskyldu bankanna og sveiflujöfnunarauka í daglegu lífi?“ spurði hann.
Hann fullyrti að flesta skorti þekkingu til að átta sig á slíkum hugtökum. „Hins vegar er það þannig að hvert þessara atriða geta ráðið miklu um afkomu almennings. Að kaupa sér húsnæði er stór og mikil ákvörðun fyrir flesta sem gerir það að verkum að fólk þarf að setja sér markmið og gera áætlanir til áratuga um endurgreiðslu lána. En því miður er það svo að í fæstum tilfellum standast þessar áætlanir vegna ytri þátta sem fólk ræður ekki við.
Að lokum verður staðan alltaf sú að búið er að greiða margfalt verð fyrir fasteignina. Ég hef til dæmis upplifað margar niðursveiflur á þeim tíma frá því að ég keypti mína fyrstu íbúð 20 ára gamall. Ég óska ekki börnunum mínum þess að þurfa að ganga í gegnum það sama og mín kynslóð hefur þurft. Ég sé hins vegar ekki að neinar breytingar séu í farvatninu. Ég fæ ég ekki annað séð en að íslensk örmynt, sem þarf bæði belti og axlabönd, sé ástæða þessa óstöðugleika sem við búum við,“ sagði hann.
Guðbrandur benti á að á sama tíma væri óumdeilt að hagstjórnaraðgerðir bæði ríkisstjórnar og Seðlabankans síðustu tvö árin hefðu skilað sér í sögulegri hækkun íbúðaverðs. Af þeirri ástæðu spurði fjármála- og efnahagsráðherra fjögurra spurninga sem voru svohljóðandi:
- Var framkvæmd greining á því hvaða áhrif lækkun stýrivaxta og bindiskyldu og breyting á sveiflujöfnunarauka kynni að hafa á eftirspurn eftir húsnæði? Ef ekki, hvers vegna var það ekki gert?
- Hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið rætt við Seðlabanka Íslands um hvaða aðgerðir hann geti gripið til annarra en stýrivaxtahækkana til að vinna gegn verðbólgu?
- Eftir hrun var stýrivaxtahækkunum beitt ótæpilega með skelfilegum afleiðingum fyrir skammtímaskuldbindingar þjóðarbúsins og skammtíma- og langtímaskuldbindingar heimila. Nú eru 400 milljarða viðbótarskuldbindingar heimilanna augljós hættumerki. Hvaða lærdóm ætlar ríkisstjórnin að draga af þessu og hvernig hyggst hún koma í veg fyrir að hún endurtaki mistökin frá því í hruninu?
- Hækkun stýrivaxta eykur vaxtamunarviðskipti. Hvernig mun fjármála- og efnahagsráðherra beita sér fyrir takmörkun þeirra og neikvæðum afleiðingum?
Hann sagði jafnframt að þau stýritæki sem verið væri að nota til að stilla af íslenskt efnahagslíf hefðu alltaf tvær hliðar. „Mun til dæmis verða aukning á vaxtamunarviðskiptum sem getur haft styrkingu gengis í för með sér sem aftur hefur neikvæð áhrif á útflutningsgreinarnar? Á Seðlabankinn sýknt og heilagt að grípa inn í þróun gengis þegar endalaust er verið að tala um kosti þess að vera með fljótandi krónu? Má íslenskur almenningur ekki njóta þess ef krónan styrkist? Eiga allar okkar aðgerðir að miðast við útflutningsgreinar?“ spurði hann enn fremur.
Guðbrandur sagðist hafa áhyggjur af því að komandi kjarasamningar yrðu erfiðir vegna þeirrar stöðu sem upp er komin. „Þegar Seðlabankinn hækkar frekar vexti en að leyfa krónunni að styrkjast kemur það sér vel fyrir útflutningsgreinar en bitnar á hag fólksins. Við virðumst vera komin í sömu hringavitleysuna aftur þar sem unga fólkið okkar hefur lagt allt undir í kaupum á húsnæði en þarf nú að kljást við það sem við af minni kynslóð þurftum að glíma við, þ.e. víxlverkun vaxta og verðbólgu sem enginn veit hvar endar,“ sagði Guðbrandur. Hann endaði mál sitt á því að segja að það væri eins og Íslendingar hefðu ekkert lært.
Hækkun húsnæðisverðs ekki séríslensk þróun
Bjarni svaraði og þakkaði fyrir umræðuna sem hann teldi tímabæra og mikilvæga. „Varðandi fyrstu spurninguna þá hafa viðbrögð seðlabanka og ríkissjóða á Vesturlöndum við útbreiðslu heimsfaraldursins víðast hvar verið áþekk. Í upphafi var útlit fyrir dýpsta efnahagsáfall í heila öld, áfall sem leit út fyrir að yrði bæði stærra og útbreiddara en fjármálakrísan. Til að bregðast við því lækkuðu seðlabankar vexti og drógu úr aðhaldi með öðrum hætti, svo sem með afléttingu sveiflujöfnunarauka. Samhliða því juku ríkissjóðir útgjöld og drógu úr skattheimtu. Þetta var gert til að styðja við fjárhag heimila og fyrirtækja í djúpri efnahagskreppu og við aðstæður verulegrar óvissu.
Staðreyndin er svo sú að við gripum til skilvirkra aðgerða, meðal annars til víðtækra bólusetninga og að lokum lærðum að lifa með veirunni. Stuðningsaðgerðir stjórnvalda og útsjónarsemi fólks og fyrirtækja leiddu til þess að efnahagsbatinn varð bæði skjótari og kraftmeiri en gert var ráð fyrir. Með skjótum efnahagsbata hefur innlend eftirspurn aukist mikið sem birtist ekki síst á húsnæðismarkaði. Verðhækkanir á húsnæðismarkaði eru þannig afleiðing þess að hagkerfið hefur tekið hraðar við sér en reiknað var með,“ sagði hann.
Ráðherrann benti á að þetta ætti ekki einungis við hér á landi enda væri hækkun húsnæðisverðs ekki séríslensk þróun. „Það voru framkvæmdar fjölmargar greiningar á þessu tímabili, bæði í ráðuneytinu, í Seðlabankanum og af öðrum greiningaraðilum. Engar þeirra gerðu ráð fyrir að innlend eftirspurn yrði eins kraftmikil og raun ber vitni. Í því samhengi má til dæmis nefna að í Peningamálum Seðlabankans frá því í maí 2020, eftir að gripið var til þeirra ráðstafana sem spurt er um, segir, með leyfi forseta, að líklegt sé að það hægi enn frekar á verðhækkunum íbúðarhúsnæðis.“
Helsta vopn Seðlabankans í baráttunni við verðbólgu er hækkun stýrivaxta
Varðandi aðra spurninguna þá sagði Bjarni að Seðlabanki Íslands hefði meðal annars það markmið að stuðla að stöðugri og lágri verðbólgu og að hann hefði sjálfstæði sitt að lögum af sérstakri ástæðu.
„Til að ná þessum markmiðum hefur bankinn bæði þá sérþekkingu og hann hefur þau tæki sem þarf og hann notar þau tæki til að ná þessu markmiði með eins skilvirkum hætti og hægt er. Það er rétt sem fram hefur komið að eitt helsta vopn bankans í baráttunni við verðbólgu er hækkun stýrivaxta. Seðlabanki Íslands er ekki einn um að hafa fyrst og fremst það tæki því að stýrivextir eru helsta tæki allra vestrænna ríkja til að hafa áhrif á verðbólguna. Það er ekki tilviljun heldur eru stýrivextir almennt taldir besta tækið til að ná stjórn á verðbólgu.
Bankinn hefur svo ýmis önnur tæki til að ná markmiðum sínum, ekki síst varðandi fjármálastöðugleika. Til að hemja verðhækkanir á húsnæði hefur bankinn til dæmis sett takmarkanir á veðsetningarhlutföll íbúðalána og lágmark greiðslubyrðarhlutfalls. Seðlabankinn er hins vegar, eins og áður er komið fram, sjálfstæð stofnun og fjármála- og efnahagsráðuneytið hlutast ekki til um það með hvaða hætti hann nær markmiðum sínum. En við leggjum hins vegar áherslu á að Seðlabankinn hafi þau tæki sem hann telur sig þurfa til að ná markmiðunum og við leggjum áherslu á að stefna í opinberum fjármálum styðji við verðbólgumarkmiðið og dragi þannig úr þörf á verulegri hækkun stýrivaxta.“
Gjörólíkar aðstæður – engin hætta á fjármagnsflótta
Þriðju spurningunni svaraði hann með þeim hætti að stýrivextir hefðu vissulega verið hækkaðir í október 2008 en að ekki væri hægt jafnað því við það sem væri að gerast núna.
„Í fyrsta lagi fóru stýrivextir hæst í 18 prósent í kjölfar fjármálakreppunnar. Á undanförnum mánuðum hafa meginvextir Seðlabankans hækkað úr 0,75 prósent í 2,75 prósent. Það munar töluvert miklu á 2,75 prósent vaxtastigi eða 18 prósent. Það munar reyndar nákvæmlega 15,25 prósentustigum.
Í öðru lagi ber að líta til þess að það eru gjörólíkar ástæður fyrir því að vextir hækka nú. Markmiðið í kjölfar fjármálakreppunnar var fyrst og fremst að verja gengi krónunnar, en það er engin hætta á fjármagnsflótta nú eins og menn höfðu áhyggjur af á þeim tíma. Það má bæta við að skuldir hagkerfisins eru lágar í sögulegu samhengi núna og fjárhagsstaða heimilanna er sterk. Þegar háttvirtur þingmaður talar um víxlverkun vaxta og verðbólgu þá vil ég kannski bæta við hinni sögufrægu víxlverkun verðbólgu og hækkana kauptaxta, sem er kannski það sem við þurfum að fara að hafa áhyggjur af,“ sagði hann.
Bjarni náði ekki að svara fjórðu spurningunni en bætti því við að vaxtamunarviðskipti væru auðvitað eitthvað sem stjórnvöld væru ekki að reyna að laða fram. „Einhver eðlileg fjárfesting í gengi krónunnar er ekki til þess að hafa miklar áhyggjur af en við þurfum að vera vakandi yfir því ef vaxtamunarviðskipti aukast um of.“
Verðbólgu- og vaxtaþróun kemur verst við þá hópa sem standa höllustum fæti
Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar tók fyrstur til máls eftir ræðu ráðherrans. „Það eru teikn á lofti um að heimilin þurfi að fara að hafa áhyggjur. Vextir fara hækkandi, verðbólga fer hækkandi og stríðið í Úkraínu bætir sannarlega ekki horfurnar. Við erum að fara út úr faraldrinum, en það er hlutverk stjórnvalda að gæta þess að endurræsing hagkerfisins bitni ekki á viðkvæmustu hópum samfélagsins. Og því miður er vísbending um það að ákveðnir hópar fari verr út úr þessum faraldri en aðrir. Sú verðbólgu- og vaxtaþróun sem við höfum horft upp á kemur nefnilega verst við þá hópa sem standa höllustum fæti. Það er auðvitað ljóst að alvarlegt efnahagsástand, ekki síst erfiður húsnæðismarkaður auk versnandi heilsu fólks eftir faraldurinn, mun hafa víðtæk áhrif.“
Vísaði hann í orð Bjarna að Íslendingar hefðu lært að lifa með veirunni en Logi sagði í framhaldinu að enginn myndi læra – ekki til langtíma að minnsta kosti – að lifa með auraleysi.
„Ríkisstjórnin ber á sinn hátt ábyrgð á þessari stöðu. Þegar vaxtalækkunarferlið hófst fyrir tveimur árum talaði hæstvirtur fjármálaráðherra nefnilega beinlínis um nýjan veruleika og gaf þannig ungu fólki mjög óraunhæfar væntingar. Margir skuldsettu sig miðað við orð hæstv. fjármálaráðherra og eru núna hugsanlega að lenda í erfiðri stöðu. Nú verður ríkisstjórnin að bregðast við. Hún hefur tækin til þess. Hún getur til dæmis stigið fastar inn á framboðshlið húsnæðismarkaðarins, eins og Samfylkingin hefur talað um, og hún getur stutt tillögur Samfylkingarinnar og annarra stjórnarandstöðuflokka um mótvægisaðgerðir við heimilin. Ég trúi ekki öðru en að þessar tillögur hafi stuðning hjá almennum stjórnarþingmönnum, að minnsta kosti hjá þeim og flokkum þeirra sem kenna sig við jöfnuð,“ sagði hann.
„Þurfum að fara að hugsa málið öðruvísi og hugsa reikningsdæmið öðruvísi“
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins tók næst til máls og benti á að undanfarnar vikur og mánuði hefðu Íslendingar séð stjarnfræðilegar hækkanir á húsnæðisverði sem hefðu veruleg áhrif á vísitölu neysluverðs.
„Í lok janúar hafði húsnæðisverð hækkað um 1,7 prósent bara á einum mánuði. Árshækkunartakturinn er kominn í rúm 20 prósent. Það liggur fyrir að þörfin á viðbrögðum er aðkallandi. Það eru blikur á lofti, það er komið stríð í Evrópu og það hefur gífurleg áhrif á verðbólgu hér á landi og erlendis. Verðbólgan sýnir okkur hversu mikið verð á neysluvöru og þjónustu sem heimili landsins neyta hafa hækkað í verði miðað við sama mánuð ári fyrr. Hagstofan mælir þetta út frá vísitölu neysluverðs, en þar fær hver vöruflokkur mismikið vægi eftir því hversu stór hluti hann er af útgjöldum heimilanna. Langmestu máli skiptir húsnæðisliðurinn, sem mælir kostnaðinn við að búa í eigin húsnæði, en hann er um þriðjungur vísitölunnar og því mesti áhrifavaldurinn á vexti hér á landi.“
Benti hún jafnframt á að í útreikningi húsnæðisliðarins væri húsnæðisverð, leiguverð, viðhald, rafmagn og fleira tekið inn í jöfnuna. „Húsnæðiskostnaðurinn er þar á meðal. Það sem við þurfum að huga að er að húsnæðisliðurinn er ekki eins mældur í samræmdu vísitölunni og þeirri íslensku. Munurinn liggur í því að notuð er greidd húsaleiga ásamt öðrum kostnaði sem lýtur að húsnæði í samræmdu vísitölunni en í þeirri íslensku er notuð greidd húsaleiga ásamt reiknaðri húsaleigu,“ sagði hún.
„Þegar verðbólguhorfur hafa versnað umtalsvert þá hafa þær ákvarðanir sem teknar eru hér í þessum sal gífurleg áhrif á efnahagslífið, eðli málsins samkvæmt, og það er mikilvægt að við setjum tóninn. En viðbrögðin eiga ekki að byrja eða enda hér heldur þurfum við að fá fleiri í lið með okkur til að tempra ástandið. Við þurfum að fara að hugsa málið öðruvísi og hugsa reikningsdæmið öðruvísi. Og nú þegar höfum við í Framsókn lagt fram tillögur að lausnum um hvernig við getum gefið sanngjarnari mynd af vísitölunni og þar með verðbólgunni. Og hvernig væri það að forstjóri Hagstofunnar myndi koma með okkur í þá vegferð sem fram undan er og fara að hugsa í lausnum?“ spurði hún í lok ræðu sinnar.
Vaxtalækkanir hafa ekki skilað sér til neytenda nema að litlu leyti
Næstur á mælendaskrá var Ásthildur Lóa Þórsdóttir þingmaður Flokks fólksins. Hún sagði að vaxtalækkanir Seðlabankans á síðasta ári hefðu ekki skilað sér til neytenda nema að litlu leyti.
„Vextir bankanna á óverðtryggðum íbúðalánum eru yfirleitt um þriðjungi hærri en stýrivextir Seðlabankans en þegar stýrivextir Seðlabankans fór niður í 0,75 prósent voru þeir meira en fjórum sinnum hærri. Þessi lækkun skilaði sér þess vegna alls ekki til neytenda nema að litlu leyti. Þessar lækkanir eiga neytendur enn inni hjá bönkunum sem nýta hækkun stýrivaxta til fulls í hvert sinn.
Núna er blússandi verðbólga í kjölfar heimsfaraldurs og svo er núna stríð í heiminum sem á áreiðanlega eftir að hafa sín áhrif. Verðbólgan stafar ekki af atburðum hér heima nema að litlu leyti. Það er verðbólga úti um allan heim og því verður að takast á við hana út frá þeim forsendum. Sú leið sem alltaf hefur verið farin til þess að slá á þenslu er að hækka meginvexti Seðlabankans og svo er einnig nú. En ef verðbólgan er fyrst og fremst vegna utanaðkomandi áhrifa hvernig eiga þá hærri álögur á heimili og fyrirtæki landsins að slá á hana?“ spurði hún.
Hún telur að það eina sem hærri vextir geri sé að auka á erfiðleika heimila og fyrirtækja sem oft séu nægir fyrir, meðal annars vegna heimsfaraldurs og afleiðinga hans. „Ástandið er erfitt víða um heim vegna COVID og rof hefur komið í framleiðslu- og flutningslínur heimsins, hina svokölluðu virðiskeðju, og flutningskostnaður til landsins hefur þannig hækkað gríðarlega sem og verð á ýmsum vörum. Hærri álögur á íslensk heimili munu ekki hafa nein áhrif á þessa þróun. Núna ætti þvert á móti að koma íslenskum heimilum í skjól fyrir afleiðingum þessara verðhækkana og sjá til þess að þau skaðist ekki meira af COVID-faraldrinum en þegar er orðið þar sem margir hafa orðið fyrir tekjumissi og standa illa undir auknum álögum vegna vaxtahækkana sem vafasamt er að beri tilætlaðan árangur.
Stærsti útgjaldaliður flestra heimila er í fyrsta lagi húsnæðiskostnaður og í öðru lagi matarkostnaður. Hverjum hjálpar það ef báðir þessir liðir hækka vegna utanaðkomandi verðbólgu? Hjá sumum fjölskyldum er mánaðarlegur húsnæðiskostnaður, hvort sem það eru afborganir lána eða leiga, allt að 60 prósent af ráðstöfunartekjum. Þetta eru oft staðan hjá tekjulágum fjölskyldum sem hafa lítið borð fyrir báru. Hvert einasta prósentustig til hækkunar á húsnæðiskostnaði getur skilið á milli feigs og ófeigs hjá þeim.“
Þurfum að nýta öll tæki til að sporna við aukinni verðbólgu og afleiðingum hennar
Þingmaður Vinstri grænna, Eva Dögg Davíðsdóttir, hóf sína ræðu á að minna á að málshefjandi umræðunnar hefði vísað til hrunsins og velt því fyrir sér hvaða lærdóm núverandi ríkisstjórn hygðist draga af þeim tíma í ljósi stýrivaxtabreytinga.
„Í þessu samhengi er mikilvægt að hafa í huga að lækkun stýrivaxta kom einmitt til sem hluti af efnahagsaðgerðum stjórnvalda í kjölfar COVID og stýrivextir nú eru þar sem þeir voru fyrir faraldurinn, líkt og hæstvirtur fjármála- og efnahagsráðherra kom inn á í framsögu sinni. Lágt vaxtaumhverfi hafði áhrif á húsnæðismarkaðinn en á seinni hluta ársins 2021 dró úr veðsetningu sem má tengja við þá ákvörðun fjármálastöðugleikanefndar að lækka veðsetningarhlutfall í lok júní ásamt því að hækkandi eignaverð og skortur á framboði er líklegt til að spila inn í.
Við þurfum að nýta öll tæki til að sporna við aukinni verðbólgu og afleiðingum hennar. Hækkun stýrivaxta er helsta tæki Seðlabankans til að ná verðbólgumarkmiðinu. Það er líklegt að vaxtahækkunarferlið haldi áfram á þessu ári. Við vitum að það eru hópar í samfélaginu sem eru viðkvæmir fyrir þessum hækkunum og hagsmunir heimilanna verða að vera í forvegi. Það er ljóst að vaxandi hlutfall íbúðalána á breytilegum vöxtum er varhugavert og eitthvað sem við þurfum að bregðast við.“
Þá sagði hún að næstu árin myndu þurfa að einkennast af markvissum aðgerðum og stefnumótun hins opinbera til að skapa stöðugt vaxtaumhverfi og fjölbreyttari húsnæðismarkað. „Það þarf að halda áfram að styrkja opinberan húsnæðismarkað með það að markmiði að tempra verðhækkanir og mæta eftirspurn. Hið opinbera stóð fyrir byggingu á 30 prósent af öllu nýju húsnæði á síðasta kjörtímabili og þessi þróun þarf að halda áfram svo við getum vaxið út úr faraldrinum líkt og stefna ríkisstjórnarinnar kveður á um.“
Fólk þarf að vera búið að eignast skuldlausa íbúð ef lífeyririnn á að duga
Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata beindi sjónum sínum að öðrum vinkli í sinni ræðu. „Ég held að það sé mjög gott og nauðsynlegt atriði í þessari umræðu að skoða málið annars vegar út frá stóru myndinni og hins vegar út frá hverjum og einum einstaklingi. Ég ætla að byrja aðeins á stóru myndinni í þessu. Stóra myndin á bak við þetta allt, að mínu mati, sem við þurfum að vekja athygli á og pota dálítið mikið í er lífeyriskerfið okkar. Af hverju segi ég það?“ spurði hann.
„Af því að lífeyriskerfið okkar er samkvæmt vefsíðunni lífeyrismál.is 6.000 milljarðar króna að stærð. Hvað þýðir það, sérstaklega með tilliti til þess að ávöxtunarkrafa á 6.000 milljörðum króna eru 3,5 prósent? Það þýðir 200 milljarða á ári sem þarf að afla í vexti til að standa undir lífeyrissjóðakerfinu. Þetta er athyglisverð tala af því að raunvirði eykst verg landsframleiðsla einungis um 100 milljarða á ári.
Hvað verður þá um hina 100 milljarðana sem vantar? Þeir koma fram í verðbólgu, verðrýrnun, það er ekkert flóknara en það. Þarna er kjarninn í því sem við upplifum dagsdaglega í afborgunum af lánum og svo framvegis, grunnurinn að verðbólgunni. Verðbólgan er þarna af því að við leggjum til hliðar hluta af launum okkar til þess að geta fengið þau seinna sem ráðstöfunartekjur á efri árum. En það þarf að viðhalda verðgildi þessarar innlagnar okkar til að við eigum fyrir henni þegar við komumst á efri ár, og þetta kostar hún okkur þegar allt kemur til alls. Hinn hlutinn af lífeyrissjóðakerfinu er síðan húsnæði sem allir þurfa að eignast skuldlaust áður en þeir fara á ellilífeyri.“
Í seinni ræðu sinni sagði Björn Leví að til þess að klára lífið þá þyrfti fólk að hafa þak yfir höfuðið og ráðstöfunartekjur. „Til þess höfum við sett upp lífeyrissjóðakerfi sem gerir ekki ráð fyrir því að lífeyririnn geti greitt húsnæðiskostnað. Málið er það einfalt. Fólk þarf að vera búið að eignast skuldlausa íbúð ef lífeyririnn á að duga að jafnaði fyrir bara mat og þess háttar. Sá lífeyrir er einfaldlega ekki ætlaður til að greiða fyrir húsnæði.
Í heildarsamhengi þess þurfa stjórnvöld að geta útskýrt hvernig fólk á lágmarkslaunum á að geta eignast húsnæði því eins og er eru framfærsluútreikningar stjórnvalda á þann hátt að þeir sem eru á lágmarkslaunum eru í mínus eftir hver mánaðamót. Þá er ekki séns að geta eignast íbúð, hvað þá þegar einfaldlega öll önnur sveitarfélög en Reykjavík byggja ekki hlutfallslega sinn hluta íbúða sem þarf miðað við þá mannfjöldaþróun sem er spáð á næstu árum og áratugum. Við erum að glíma við það akkúrat núna að það er nýbúið að uppfæra mannfjöldaspána. Hún er hærri en var búist við. Þá þarf enn fleiri íbúðir en búist var við. Í fyrri áætlunum var Reykjavík eina sveitarfélagið sem byggði nægilega mikið til að sinna þeirri þörf miðað við hlutfallslega stærð borgarinnar. Eina sveitarfélagið. Hin eru öll að svíkjast undan í þeirri eftirspurn.“
Skiptir engu máli að vextir séu sögulega lágir
Formaður Viðreisnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, tók einnig þátt í umræðunum. „Vandinn sem hér um ræðir er að mörgu leyti heimatilbúinn og fyrirséður. Þó að um alþjóðlegan vanda sé að ræða þá hefur fjöldi sérfræðinga líka bent á þau mistök sem gerð hafa verið í hagstjórninni. Nú eru fimm mánuðir síðan að ríkisstjórnarflokkarnir háðu sína kosningabaráttu með þeim skilaboðum að hér hafi skapast öruggt lágvaxtaumhverfi á meðan staðreyndin sú að greiðslubyrði almennings hefur snarhækkað á síðustu vikum og mánuðum og mun hækka á komandi tímum.
Síðan hefur verið sagt þessu til varnar að í sögulegu samhengi séu vextir lágir. Það skiptir bara engu. Það er engin huggun harmi gegn fyrir alla þá húsnæðiskaupendur þar sem lánin hafa hækkað um tugi þúsunda. Það skiptir heldur engu að miða við einhver verbúðarár því að þetta er allt til heimabrúks. Samkeppnishæfi Íslands og íslensks atvinnulífs fer eftir því hver staða okkar er og samkeppnisstaða við útlönd, ekki hér innan lands. Hver vaxtamunurinn við útlönd? Hann auðveldar ekki íslenskum fyrirtækjum umhverfið. Þannig að vaxtakostnaður af skuldum ríkissjóðs mun hækka og er nú þegar fimmti stærsti útgjaldaliðurinn. Á sama tíma sitjum við uppi með alls konar aukinn kostnað, m.a. vegna fjölda ráðuneyta, af því að það treystir sér enginn til að forgangsraða fjármunum ríkissjóðs,“ sagði hún.
Vill fá skýr svör frá stjórnvöldum
Þorgerður Katrín kallaði það þema sem hún sá í þessu samhengi „ábyrgðarleysi og aðhaldsleysi“.
„Ríkisstjórnin hefur aukið þensluna og aukið útgjöld til að láta ráðherrakapalinn ganga upp, en hefur síðan ekki manndóm í sér til að klára ýmis grundvallarprinsippmál eins og niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu. Samtök atvinnulífsins segja stjórnvöld varpa ábyrgð á algerlega ósjálfbærum ríkissjóði og skuldum hans á næstu ríkisstjórn og ríkisstjórnin svarar síðan ekki þeim skilaboðum frá seðlabankastjóra sem sagði skýrt á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun að það þurfi að eyða hallanum, að ríkið verði að eyða minni pening og draga sig til baka. Við blasi annaðhvort skattahækkanir eða að dregið verði úr ríkisútgjöldum.“
Kallaði hún eftir skýrum svörum frá stjórnvöldum um næstu skref og ætlaðist hún til þess að þau vöknuðu til lífsins, því að staðan væri grafalvarleg.
Kjaraviðræður munu hafa mest áhrif á þróun verðbólgunnar
Einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins, auk ráðherrans, tók til máls í umræðunni. Berglind Ósk Guðmundsdóttir sagðist ætla að leyfa sér að vera rödd bjartsýninnar. Hún sagði að nú væru uppi gerólíkar aðstæður en þær sem málshefjandi vísaði til eftir hrun.
„Í fyrsta lagi reyndust efnahagsleg áhrif heimsfaraldursins ekki vera jafn langvinn og margir óttuðust og í öðru lagi voru viðbrögð stjórnvalda við faraldrinum til þess að efnahagsbatinn varð meiri en spár gerðu ráð fyrir. Ein helsta breytan er sú að eftir hrun var atvinnuleysi mikið en nú er skortur á vinnuafli. Þá hefur regluumhverfið tekið verulegum breytingum frá hruni til marks um einmitt það að stjórnvöld hafa lært af mistökunum í hruninu.
Þessar breytingar eru bæði til hagsbóta fyrir neytendur sem og fjármálastofnanir og neytendur njóta nú betri verndar og hafa aukið frelsi til að taka sjálfstæðar ákvarðanir um eigin fjárhag og viðskipti við fjármálastofnanir. Meðan húsnæðismarkaðurinn drífur áfram verðbólguna að mestu vegna skorts á framboðshliðinni hefur Seðlabankinn fáa aðra kosti en að hækka stýrivexti og er fullt tilefni til þess að beita áfram öðrum þjóðhagsvarúðartækjum. Þær aðgerðir sem gripið er til hér á þinginu mega ekki ýta undir þrýsting á eftirspurnarhliðinni eins og sumar tillögur á þinginu munu gera.“
Í þessu samhengi ítrekaði hún að skuldir hagkerfisins væru lágar í sögulegu samhengi og þrátt fyrir skuldaaukningu heimilanna væri fjárhagsstaða þeirra sterk. „Það sem mun svo hafa mest áhrif á þróun verðbólgunnar eru komandi kjaraviðræður. Vinnumarkaðurinn mun spila stórt hlutverk. Laun hafa í heimsfaraldrinum hækkað verulega sem gerist ekki annars staðar í svona aðstæðum. Kjaraviðræðurnar verða að endurspegla aðstæðurnar í hagkerfinu.“ Að lokum sagði hún að margt þyrfti að vinna saman til að viðhalda fjármálastöðugleika og til þess þyrftu allir að róa í sömu átt.
Íslenska krónan – örmynt sem leikur almenning grátt með reglulegu millibili
Oddný G. Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar tók næst til máls og sagði að framkvæmd peningamála hefði breyst mjög til hins betra frá bankahruni og fyrir það væri fyrst og fremst hægt að þakka mikilvægum lagabreytingum í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.
„Þá varð loksins til sjálfstæður seðlabanki á Íslandi, peningastefnunefnd sett á laggirnar og pólitískum skipunum seðlabankastjóra hætt. Því miður var samningur um aðild að Evrópusambandinu ekki kláraður, því með aðildinni hefðum við fengið efnahagslegan stöðugleika til framtíðar og gjaldmiðil sem borin er uppi af 500 milljónum manna.
Í stað þess þurfum við að búa við íslensku krónuna, örmynt sem leikur íslenskan almenning grátt með reglulegu millibili. Síðustu stýrivaxtahækkanir Seðlabankans komu illa við þá tekjulægstu og þá sem verja nú þegar langstærstum hluta ráðstöfunartekna sinna í húsnæðiskostnað, heimili sem eru í þeirri stöðu að mega ekki við neinum óvæntum útgjöldum. Staða fólks á leigumarkaði er erfið og ótryggð, ekki síst nú um stundir þegar verðbólgan vex og leiga sem bundin er vísitölu hækkar sjálfkrafa. Verðbólgan sem mun vaxa enn vegna stríðsins sem nú geisar í Evrópu og vaxtahækkanir verða til þess að húsnæðiskostnaður fólks með lágar og meðaltekjur fer enn lengra yfir viðmiðunarmörk af ráðstöfunartekjum. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur beitti húsnæðisbótakerfinu og barnabótakerfinu með árangursríkum hætti á erfiðum tímum,“ sagði hún.
Oddný telur að nú ætti að nýta þá reynslu og beita kröftugum vaxtabótum, leigubótum og barnabótum til að létta fólki róðurinn. „Það þarf einungis að stilla af eigna- og launaviðmið og skerðingarmörk. Kerfin eru til og það er hægt að bregðast við strax. Það eina sem vantar er pólitískur vilji til að standa með fólki sem vegna ástandsins nær ekki endum saman.“
Ábyrgð sveitarfélaga á hækkun fasteignaverðs mikil og þá sérstaklega Reykjavíkurborgar
Ágúst Bjarni Garðarsson þingmaður Framsóknarflokksins henti sprengu inn í umræðuna í sinni ræðu sem endaði á því að forseti Alþingis bað þingmenn að gefa ræðumönnum hljóð til að ljúka máli sínu. Ágúst Bjarni hóf mál sitt á því að segja að aukin verðbólga snerti öll heimili landsins. „Það er ástæðan fyrir því að Seðlabankinn hefur hækkað vexti. Það er gert til þess að bregðast við núverandi aðstæðum, þá sérstaklega á fasteignamarkaði. Síðustu ár hafa verið óvenjuleg, meðal annars vegna alheimsfaraldurs kórónuveirunnar. Ég hef þó sagt það áður að líklega er ekki skynsamlegt fyrir Seðlabankann að auka taumhald peningastefnunnar of hratt.“
Hann sagði jafnframt að nú hillti undir lok faraldursins, atvinnulífið væri að komast í gang og Íslendingar hefðu raunhæfa möguleika á að verðbólgan gengi hratt niður með náttúrulegum hætti. „En þá þarf líka meira til. Ýmislegt hefur áhrif og það er meðal annars staðan á fasteignamarkaði. Hún er erfið, fasteignaverð hefur hækkað gríðarlega hratt og mikill skortur er á framboði á húsnæði. Framboðið hefur ekki haldið í við eftirspurn. Það er staðreynd sem ekki er hægt að líta fram hjá að það er húsnæðisverð sem knýr verðbólguna áfram á Íslandi ásamt hækkun á hrávöruverði. Ástæðan fyrir því er einfaldlega að það er skortur á íbúðum, meðal annars vegna þéttingarstefnu borgarinnar, sem hefur leitt til þess að verð á húsnæði er hátt. Það er verið að byggja dýrt á of dýrum svæðum. Það er ekki það sem við þurfum. Við þurfum að byggja hraðar og við þurfum að byggja hagkvæmt.
Okkur Íslendingum er að fjölga hratt, þá sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Ábyrgð sveitarfélaga á hækkun fasteignaverðs er mikil og þá sérstaklega Reykjavíkurborgar. Reykjavíkurborg er langstærsta sveitarfélagið á Íslandi og því skiptir gríðarlegu máli hvað er gert. Viðvarandi skortur á lóðum og nýbyggingum hjá Reykjavíkurborg hefur ýtt undir þessa miklu hækkun og knúið áfram verðbólgu.“
Hann sagði að allir þyrftu að gera þetta saman ef „við ætlum að halda sjó“.
„Við þurfum að vinna okkar vinnu. Við þurfum að tryggja lóðaframboð og kraftmikla uppbyggingu íbúðarhúsnæðis til framtíðar fyrir alla. Þar hefur Reykjavíkurborg, langstærsta sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu, skilað auðu undir forystu jafnaðarmanna í allt of langan tíma,“ sagði Ágúst Bjarni en aðrir þingmenn kölluðu fram í og spurðu meðal annars hvað Hafnarfjarðarbær hefði gert en hann var bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Hafnarfirði og formaður bæjarráðs áður en hann gerðist þingmaður. Forseti Alþingis hvatti í framhaldinu þingmenn til þess að gefa ræðumönnum hljóð til að ljúka máli sínu og benti á að það væri ekki heimilt að halda uppi umræðum úr sætum sínum í þingsalnum.
Óréttlátt að fjármagnseigandi borgi lægri skatta en launþegi
Tómas A. Tómasson þingmaður Flokks fólksins lét sig ekki vanta í umræðurnar og sagði að margt væri skrýtið í kýrhausnum. „Í minni minningu var það þannig einhvern tímann upp úr 1980 að ákveðið var að bæði laun og annað væri verðtryggt, sem kom síðan í ljós að var dregið til baka þannig að launin hættu að vera verðtryggð. Þannig að við sem erum launþegar þurfum að lifa við það að verðbólgan hækkar og við þurfum einhvern veginn að redda okkur úr því.
Nú er ég búinn að velta þessu fyrir mér. Íbúðareigandi sem á nokkurrar íbúðir og leigir þær út er með verðtryggðar tekjur. Og ofan á allt annað þá borgar hann miklu lægri skatta. Hann borgar 22 prósent í fjármagnstekjuskatt á meðan við hinir þurfum að borga 30 til 40 prósent í skatt. Það er óréttlátt.“
Sagði hann að verið væri að tala um að lítið framboð væri á fasteignum á Reykjavíkursvæðinu, aðallega. „Ég hef þá kenningu að ástæðan sé m.a. sú að fjármagnseigendur kaupa íbúðir í gríð og erg vegna þess það er ekki hægt að fá betri ávöxtun í dag. Þegar þú leggur pening inn í bankann færðu núll komma eitthvað prósent vexti þar á og hlutabréf eru upp og niður. En íbúðaverð hækkar stöðugt. Þannig að þeir sem eiga peninga kaupa íbúðir og græða því að þeir geta selt þær aftur um leið og þeir vilja.“
Nágranna okkar í Evrópu þurfa ekki að reka heimili sín „eins og vogunarsjóði“
Guðbrandur, málshefjandi umræðunnar, tók að lokum til máls í annað sinn. „Hér hafa farið fram ágætisumræður og mörg sjónarmið hafa komið fram sem ég er að mörgu leyti sammála en öðrum ekki. En staðan er hins vegar sú hjá okkur miðað við nágranna okkar í Evrópu, að þeir þurfa ekki að reka heimili sín eins og vogunarsjóði. Þeir neyðast ekki til að spá endalaust í það hvaða áhrif vaxtabreytingar muni hafa á heimilisbókhaldið. Þeir þurfa ekki að endurfjármagna lánin sín á nokkurra ára fresti og eiga ekki á hættu að tapa tugum þúsunda á mánuði vegna skyndilegra ákvarðana seðlabankanna. Venjulegt fólk þarf ekki að hafa ígildi háskólaprófs í hagfræði til að lágmarka skaðann af sveiflukenndum gjaldmiðli.“
Beindi hann máli sínu að fullyrðingum um að lóðaskortur í Reykjavík væri helsta orsök hækkana á fasteignaverði. Hann sagði að það stæðist ekki. „Fasteignaverð hefur hækkað um allt land og Reykjavík hefur staðið fyrir metuppbyggingu á tímabilinu, mun meira en nágrannasveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Aftur á móti hafa lægri vextir og aðgengi að lífeyrissparnaði aukið eftirspurnina á fasteignamarkaði margfalt umfram það sem verið hefur undanfarin ár. Ríkisstjórnin mætti því að líta sér nær áður en hún kennir öðrum um þessa miklu aukningu í skuldbindingum heimilanna. Það er mikið áhyggjuefni að hún hafi ráðist í þessar aðgerðir án þess að skoða möguleg áhrif þeirra.
Þegar ég talaði um víxlverkun verðbólgu og vaxta minnist hæstvirtur fjármálaráðherra á víxlverkun launa og verðlags í sögulegu samhengi. Illu heilli var þetta tekið úr sambandi og launafólk stóð bara óvarið. Þegar verið er að skella vaxtahækkunum á skuldsett fyrirtæki óttast ég að það muni bara fara beint út í verðlagið og valda því að það þurfi áfram að hækka vexti. En að minni hyggju á hagstjórn líka að snúast um hag heimilanna og kannski fyrst og fremst.“
Skautað „léttilega“ yfir hin raunverulegu efnahagslegu viðfangsefni
Fjármála- og efnahagsráðherra lauk umræðunni með því að segja að þrátt fyrir að hún hefði verið ágæt þá hefði verið skautað léttilega yfir hin raunverulegu efnahagslegu viðfangsefni og hvað væri til bóta miðað við stöðuna eins og hún blasir við núna.
„Við höfum verið að ræða verðbólguna hér í dag. Ég hef ekki heyrt margar hugmyndir til að slá á verðbólguna en ég hef heyrt margar hugmyndir um ný útgjöld hjá ríkissjóði. Það hafa verið uppi kröfur um að auka útgjöldin í hina og þessa málaflokkana en það eitt og sér er ekki líklegt til að hjálpa okkur að takast á við þann vanda sem við erum að ræða hér, sem er í raun og veru verðbólgan og áhrif hennar á kjör fólks í landinu vegna vaxtahækkana sem fylgt hafa í kjölfarið.
Töluvert hefur verið rætt um vaxtahækkunina og fólk segir að það hjálpi ekki þó að vextir séu lágir í sögulegu samhengi. Ég ætla nú samt að halda því fram að það skipti máli að skoða hvaða hlutfall af ráðstöfunartekjum heimilanna fer í afborganir af húsnæðislánum. Það er lágt hlutfall, það er ekki mikið hærra en annars staðar á Norðurlöndunum. Skuldir heimilanna á Íslandi eru þrátt fyrir allt lægri en á hinum Norðurlöndunum, ef við notum mælikvarðann sem hlutfall af landsframleiðslu. Staða heimilanna er því miklu sterkari en umræðan hér í dag ber með sér. Það er allt of lítið sem við fáum út úr þessari umræðu, því miður, sem innlegg inn í markvissar aðgerðir til að fást við hinn undirliggjandi vanda. Ég hef verið að segja: Við þurfum að beita ríkisfjármálunum af skynsemi við þessar aðstæður og við eigum ekki að horfa í hina áttina þegar Seðlabankinn segir að nú sé framleiðsluslakinn horfinn og við séum komin inn í nýtt tímabil,“ sagði hann.
Furðaði ráðherrann sig á því hvað formaður Samfylkingarinnar átti við þegar hann léti sem svo að það hefði verið slæm ákvörðun hjá fólki að endurfjármagna lánin sín eða fara í fasteignakaup. „Ég veit bara ekkert hvað menn eru að fara. Fólk hefur notið góðs af lágu vaxtastigi. Ég vil bara segja að sem betur fer hafa margir komist inn á markaðinn og við höfum aldrei séð álíka fjölda fyrstu íbúðarkaupenda, sem er mjög gott mál. En verkefnið heldur áfram og við eigum eftir að tæma þessa umræðu einhvern tímann síðar. Það verður ekki gert hér í dag,“ sagði hann að lokum.
Lesa meira
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði