Í fyrsta skipti frá því að 2,5 prósent verðbólgumark var tekið upp í núverandi mynd, 27. mars 2001, fór verðbólga niður fyrir neðri fráviksmörk, það er niður fyrir eitt prósent, í lok síðasta árs. Ekki er hægt að segja annað en að hagkerfið hafi farið í gegnum mikla rússíbanareið á þessum tæplega fjórtán árum, með miklu risi og falli gengis krónunnar, auk allsherjarhruns bankakerfisins og setningu strangra fjármagnshafta, sem þverpólitísk sátt var um eftir hrun bankakerfisins haustið 2008. Í rúmlega sex ár hefur gangur efnahagsmála einkennst af haftabúskap sem bundinn er í lög en Seðlabanki Íslands framkvæmir. Í skjóli hafta hefur hagkerfið náð vopnum sínum. Nú eru ákveðin tímamót í þessum efnum.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Már Guðmundsson seðlabankastjóri. Komandi kjarasamningar fela í sér mikla efnahagslega áhættu fyrir hagkerið.
Einstök staða uppi
Þessa dagana er unnið að rýmkun eða afnámi þeirra, eins og kunnugt er, en alls óvíst er hvenær þeirri vinnu lýkur eða hvaða skref verða stigin í þessum efnum.
Verðbólgumæling í síðustu viku staðfestir síðan að verðbólga undanfarna tólf mánuði mælist nú 0,8 prósent, sem er minnsta verðbólga sem mælst hefur frá því verðbólgumarkmiðið var tekið upp. Án húsnæðisliðarins er verðbólga nú neikvæð um 0,6 prósent, sem er svipað og mælist nú á evrusvæðinu. Húsnæðisliðurinn heldur verðbólgunni jákvæðri, ef svo má að orði komast.
En er þetta gott eða slæmt fyrir hagkerfið? Hagfræðingar geta vafalítið komið fram með sínar skýringar á hvoru tveggja, en nokkur óvissa er í kortunum í þessum efnum. Ástæðan sem er augljósust er sú, að þessar aðstæður hafa aldrei myndast áður frá því að verðbólgumarkmiðið var tekið upp. Því fylgir eðlilega óvissa um hvað getur gerst. Verðbólga hefur verið meginvandinn á Íslandi hingað til, að mati margra, en nú er spurningin hvert verðbólgudraugurinn fór og hvort hann láti á sér kræla á næstunni ef til tiltekinna ákvarðana kemur.
„Hættuleg“ staða í Evrópu
Verðhjöðnun getur líka verið alvarleg. Ávöxtun á verðtryggðan sparnað verður neikvæð í slíkum aðstæðum. Almenningur hér á landi á mikinn sparnað á verðtryggðum reikningum, og langvarandi verðhjöðnun hefur bein neikvæð áhrif á ávöxtun hans. Ekki er þó hægt að segja að saga íslenska hagkerfisins sýni að mikil hætta geti skapast á því að verðhjöðnun leiki hagkerfið grátt, fjarri lagi. Áhættan er miklu fremur á hinn veginn.
Sem sagt; til lengdar brennur sparnaðurinn upp í verðhjöðnun, þó of snemmt sé að tala um slíkt hér á landi í augnablikinu. Verðhjöðnunin hefur ekki verið staðfest hér líkt og á evrusvæðinu. Seðlabanki Evrópu hefur gripið til umfangsmikilla aðgerða til þess að vinna gegn neikvæðum áhrifum verðhjöðnunar í álfunni og slaka í hagkerfum evruríkja, meðal annars með 60 milljarða evra mánaðarlegum kaupum á skuldabréfum fjármálastofnanna og ríkissjóða, út árið 2016. Með þessu móti er þess freistað að hjólin snúist hraðar, sem ýti undir eftirspurn og hagvöxt. Mario Draghi, forseti bankastjórnar Seðlabanka Evrópu, hefur sagt aðgerðirnar nauðsynlegar og að það geti myndast „hættuleg“ staða ef hagvöxtur tekur ekki við sér og eftirspurn eykst – sem ýtir verðlagsþróun upp á við.
https://www.youtube.com/watch?v=3aGqvDfgP80
Miklar áhyggjur af kjarasamningum
Seðlabanki Íslands hefur miklar áhyggjur af komandi kjarasamningum og má lesa úr þær út úr bréfinu sem bankinn sendi stjórnvöldum 30. desember í fyrra. Þar kemur fram að verðbólga hafi stigið upp í 6,5 prósent árið 2012, eftir að samið var um launahækkanir sem ekki voru samrýmanleg verðbólgumarkmiðinu, það er meiri en hagkerfið réði við. „Hins vegar kom fram í yfirlýsingu nefndarinnar að forsendur gætu skapast fyrir frekari lækkun vaxta verði verðbólga áfram undir markmiði og launahækkanir í komandi kjarasamningum í samræmi við verðbólgumarkmiðið. Á hinn bóginn gætu óhóflegar launahækkanir og vöxtur eftirspurnar grafið undan nýfengnum verðstöðugleika og valdið því að hækka þurfi vexti á ný,“ segir í bréfinu. Búist er við því að stýrivextir lækki næstkomandi miðvikudag, en þeir eru nú fimm prósent eftir 0,5 prósentustiga lækkun við síðustu vaxtaákvörðun.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, er undir pressu félagsmanna sinna fyrir komandi kjarasamninga. Þeir vilja fá myndarlega launahækkun, í takt við það sem stjórnvöld hafa samið um að undanförnu. Meðal annars ríflega 20 prósent hækkun launa hjá læknum.
Sjálfbær þróun?
Áhyggjurnar af komandi kjarasamningum eru töluvert miklar, og nefndu viðmælendur Kjarnans úr verkalýðshreyfingunni og hjá atvinnurekendum, að ekki yrði auðvelt að ná saman um kaup og kjör. Það væri enn fremur til þess að bæta gráu ofan á svart, að stjórnvöld virtust líta svo á að mikið svigrúm væri til launahækkana, ef mið væri tekið af samningum við lækna. Laun þeirra voru hækkuð um meira en 20 prósent. Spurningin er; telja stjórnvöld að slíkar hækkanir geti gengið yfir allan vinnumarkaðinn? Atvinnurekendur segja nei við því, og hefur Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, gengið enn lengra og sagt að slíkar hækkanir myndu grafa undan hagkerfinu og skapa óðaverðbólgu. Verkalýðshreyfingin horfir öðrum augum á málið, eins og greina má í kröfugerð Starfsgreinasambandsins. Þar eru settar fram kröfur um að lægstu laun hækki úr 214 þúsund í 300 þúsund á mánuði, auk fleiri atriða. Samtök atvinnulífsins neita að setjast niður og hefja samningaviðræður meðan þessar kröfur eru uppi. Þar á bæ er frekar horft til þess að svigrúm til hækkana sé á bilinu 3 til 5 prósent.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur sagt að svigrúm sé fyrir hendi til þess að lækka laun þeirra sem lægstu launin hafa. En hversu mikið? Það er spurningin.
Samkvæmt heimildum Kjarnans hefur ríkisstjórnin áhyggjur af stöðu mála og hafa þær verið ræddar á vettvangi hennar að undanförnu. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur þó opinberlega sagt, að svigrúm sé til þess að hækka laun þeirra sem lægstu laun hafa. Stóra spurningin er; hvar verður lína dregin og hvað þarf til þess að binda verðbólgudrauginn betur niður? Undir hvaða kjörum getur framleiðni í hagkerfinu staðið? Fólkið sem sest við samningaborðið í komandi kjarasamningum glímir við það vandasama verkefni að svara þessum spurningum, og koma sér saman um sameiginlega niðurstöðu á vandamáli sem það hefur gjörólíka sýn á í augnablikinu.