Nú þegar fjöldinn allur af vestrænum fyrirtækjum hefur hætt starfsemi í Rússlandi vegna innrásar þess í Úkraínu er viðbúið að Rússar geri upptöku á öllum eignum fyrirtækjanna í Rússlandi. Aðrir sem eygja síminnkandi von eftir því að endurheimta eignir sínar frá Rússlandi eru flugleigufélög.
Samkvæmt viðskiptabanninu sem Evrópa hefur sett á Rússland hafa flugleigufélög fram til 28. mars til þess að binda enda á öll viðskipti sín í Rússlandi og koma flugvélum síðan þaðan burt. Sérfræðingar segja það nánast ómögulegt.
Í síðustu viku voru 523 flugvélar erlendra aðila í útleigu hjá flugfélögum í Rússlandi, og þar sem búið er að skrúfa fyrir næstum allt alþjóðaflug frá landinu eru hverfandi líkur á því að nokkrar þeirra yfirgefi Rússland og að eigendur þeirra geti þannig leyst þær aftur til sín. Samkvæmt umfjöllun New York Times hafa flugleigufélögin flest þegar sætt sig við að það muni aldrei verða. Um að ræða fjárhagslegt tap upp á um 12 milljarða bandaríkjadala, eða því sem nemur tæplega 1,6 billjónum íslenskra króna.
Skammgóður vermir fyrir Rússa
Sérfræðingur í endurheimtu flugvéla fyrir flugleigufélög segir um að ræða gífurlegt tap og að þegar hafi nokkur stór flugleigufélög leitað til hans um aðstoð. Þau hafi þó flest sætt sig við að staðan væri afar þröng, og jafnvel þó það takist að endurheimta einhverjar flugvélar séu þær eigendum nánast einskis virði án ítarlegu viðhaldsskýrslanna sem fylgja hverri vél fyrir sig, sem yfirleitt væru geymdar hjá flugfélögunum sjálfum.
Ljóst er að um verður að ræða gríðarlegt tap fyrir flugleigufélög, auk þeirra fjölda aðila sem kemur að fjármögnun slíkra félaga. En þrátt fyrir að Rússland muni græða á því að hafa flugvélarnar á sínum verður það einungis til skamms tíma þar sem viðbúið er að fljótlega þurfi varahluti til þess að halda vélunum við, en bæði Airbus og Boeing hafa hætt öllum viðskiptum við Rússland og verða flugvélarnar því næst sem ónothæfar áður en um of langt líður.