Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur farið þess á leit við fjárlaganefnd, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, að sú breyting verði gerð á frumvarpi til fjáraukalaga við aðra umræðu þess að fjárheimildir verði hækkaðar um allt að 14 milljarða króna. Þessir fjármunir eiga að renna í svokallaðan lífeyrisaukasjóð innan A-deildar Lifeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR). Fáist ekki framlag úr ríkissjóði verða réttindi sjóðsfélaga lækkuð.
Í bréfi sem ráðuneytið sendi fjárlaganefnd segir að verið sé að ljúka mati á endanlegri fjárþörf í þessu máli og mögulegt sé að það þurfi ekki að nýta alla heimildina.
Samkvæmt fyrirliggjandi fjáraukalagafrumvarpi þarf þegar að sækja næstum 75 milljarða króna viðbótarheimildir til að láta árið 2022 ganga upp í ríkisrekstri. Þar munar langmestu um 37 milljarða króna vegna endurmetinnar þarfar um vaxtagjöld ríkissjóðs, sem eru tilkomin vegna áhrifa verðbólgu á verðtryggðar skuldir ríkissjóðs.
Bara viðbótarheimildirnar vegna greiðslna í lífeyrisaukasjóð LSR hækka útgjöld ríkissjóðs á fjáraukalögum um tæp 19 prósent.
Samið um breytt fyrirkomulag 2016
Málið er flókið og á sér nokkurra ára aðdraganda. Þann 19. september 2016 náðist samkomulag milli opinberra launagreiðenda við BSRB, BHM og Kennarasamband Íslands, heildarsamtök opinberra starfsmanna, um breytt fyrirkomulag lifeyrismála. Einn liður í því samkomulagi var að fella niður bakábyrgð ríkissjóðs á A-deild LSR, sem er langstærsta deildin innan lífeyrissjóðsins. Á móti voru framreiknaðar skuldbindingar metnar og sjóðnum tryggt framlag til að jafna áfallna stöðu deildarinnar, sem var neikvæð. Alls var um að ræða tíu milljarða króna sem greiddir voru inn í deildina.
Samhliða var stofnaður svokallaður lífeyrisaukasjóður innan A-deildarinnar. Hann var fjármagnaður með 106,8 milljarðar króna framlagi úr ríkissjóði. Það framlag endurspeglaði tryggingafræðilegt mat á verðmætti réttinda sem þurfti að greiða úr sjóðnum á þeim tíma sem samkomulagið var gert. Auk þess voru 8,4 milljarðar króna settir í sérstakan varasjóð til að mæta mögulegum kostnaði vegna frávika frá þeim tryggingafræðilegu forsendum.
Ógjörningur að velta kostnaðinum á almenna sjóðsfélaga
Í frumvarpinu sem varð að lögum var hópi sem greiddi ekki iðgjald til LSR á tímabilinu júní 2016 til júní 2017 tryggður réttur á greiðslum úr lífeyrisaukasjóðnum ef þeir myndu hefja á ný greiðslur til sjóðsins eigi síðar en tólf mánuðum eftir gildistöku laganna, eða til loka maí 2018.
Í ljós hefur komið að alls um 1.100 manns nýttu sér þessa leið á ofangreindu tímabili, og hófu aftur að greiða til LSR til að fá þessar greiðslur. Enn liggur ekki fyrir hversu margir til viðbótar bættust við frá júníbyrjun 2017 og fram til loka maí 2018 en talið er að það séu svipað margir. Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins um málið, sem skilað var inn til fjárlaganefndar í síðustu viku, segir að tryggingastærðfræðingur LSR meti viðbótarkostnað lífeyrisaukasjóðsins á bilinu tíu til 14 milljarðar króna.
Lengri lífaldur gjörbreytir stöðunni
Ofan á þetta hafa forsendur varðandi lífslíkur breyst mikið. Jöfn ávinnsla lífeyrisréttinda var upphaflega stillt af miðað við lífslíkur á árunum fyrir 1996 þannig að 15,5 prósent iðgjald myndi standa undir jöfnum réttindum. Síðan hafa lífslíkur einfaldlega breyst umtalsvert til hins betra.
Það þýðir á mannamáli að sjóðsfélagar eru að lifa lengur og fá greitt úr lífeyrissjóði í fleiri ár en áður var reiknað með að þeir myndu fá slíkar greiðslur. Við það skapast gat.
Þessar breytingar hafa enda haft mikil áhrif á skuldbindingar A-deildar LSR síðustu þrjú ár og nemur hækkun heildarskuldbindinga sjóðsins vegna lengri lífaldurs alls 162,7 milljörðum króna.
Fyrir vikið er heildarstaða A-deildarinnar neikvæð, alls um 40 milljarða króna í lok árs 2021. Það þýðir að 40 milljarða króna vantar í sjóðinn til að hann geti staðið við allar gerðar skuldbindingar sínar eins og þær eru reiknaðar út. Vert er að taka fram að LSR er stærsti lífeyrissjóður landsins. LSR átti hreina eign upp á 1.347 milljarða króna í lok síðasta árs.